Ár 2002, fimmtudaginn 8. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn, Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 47/2000, kæra eigenda fasteignanna nr. 2, 3, 4, 6, og 7 við Leirvogstungu, Mosfellsbæ á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita leyfi til byggingar hesthúss við Leirvogstungu 5 í Mosfellsbæ.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. ágúst 2000, sem barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir Guðjón Ólafur Jónsson hdl., f.h. eigenda fasteignanna nr. 2, 3, 4, 6, og 7 við Leirvogstungu G í Mosfellsbæ, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000, að veita leyfi fyrir byggingu hesthúss við Leirvogstungu 5, Mosfellsbæ. Bæjarráð Mosfellsbæjar staðfesti ákvörðunina í umboði bæjarstjórnar hinn 20. júlí 2000. Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Kærendur gerðu jafnframt kröfu í málinu um stöðvun framkvæmda en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar nr. 19/2000, uppkveðnum hinn 6. september 2000.
Málsatvik: Jörðinni Leirvogstungu hefur verið skipt upp í spildur og lóðir sem nú eru í eigu nokkurra aðila. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar er land Leirvogstungu skilgreint sem landbúnaðarsvæði.
Með afsali, dagsettu 12. júlí 1993, gáfu kærendur G og S syni sínum og tengdadóttur 3.025 fermetra lóð úr landi sínu að Leirvogstungu í Mosfellsbæ og var lóðin merkt sem Leirvogstunga 5. Lóðin var seld og reist á henni íbúðarhús og fasteignin síðar seld núverandi eiganda, A.
Í byrjun árs 1999 leitaði eigandi fasteignarinnar að Leirvogstungu 5 eftir samþykki kærenda fyrir byggingu hesthúss á lóð sinni. Gáfu kærendur samþykki sitt fyrir framkvæmdinni samkvæmt uppdrætti sem þeim var sýndur. Að fengnu samþykki kærenda var sótt um byggingarleyfi fyrir hesthúsinu og fylgdi umsókninni uppdráttur áritaður um samþykki kærenda. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 27. janúar 1999 var umsóknin tekin fyrir og fól nefndin tæknideild bæjarins að vinna frekar að málinu. Á fundi skipulagsnefndar þann 4. maí 1999 var ákveðið að skipulagsnefnd myndi láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við lög og reglugerðir þegar byggingarleyfisumsókn hefði borist með fullnægjandi gögnum.
Með bréfi bæjarverkfræðings, dags. 30. september 1999, voru kærendum sendar teikningar af fyrirhuguðu hesthúsi að Leirvogstungu 5 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Lögmaður kærenda kom athugasemdum þeirra á framfæri með bréfi, dagsettu 18. október 1999. Lögðust kærendur gegn því að leyfi yrði veitt fyrir byggingu hesthússins. Til vara kröfðust þeir þess að leyfisveitingu yrði frestað þar til breytt aðalskipulag Mosfellsbæjar lægi fyrir og deiliskipulag á grundvelli þess. Til þrautavara að leyfið yrði ekki veitt fyrr en fyrir lægi deiliskipulag jarðarinnar á grundvelli gildandi aðalskipulags og til þrautaþrautavara að húsið yrði minnkað, það yrði á einni hæð með steinsteyptri þró fyrir tað, í því yrði engin atvinnustarfsemi og að það yrði ekki tekið í notkun fyrr en frágangi yrði að fullu lokið. Töldu kærendur að hesthús það, sem til grenndarkynningar var, hafi reynst stærra en á uppdrætti þeim sem kærendum hafi verið sýndur á sínum tíma og þar hafi hvergi komið fram að húsið yrði tvær hæðir.
Með bréfi til bæjarverkfræðings, dags. 24. nóvember 1999, gerði lóðareigandi athugasemdir við áðurgreint bréf lögmanns kærenda en lýsti sig reiðubúinn að sleppa kvistum og lækka ris hesthússins til þess að koma til móts við athugasemdir kærenda. Umhverfisdeild Mosfellsbæjar boðaði íbúa Leirvogstungu til fundar um málið með bréfi, dags. 6. desember 1999, sem skyldi haldinn þann 9. sama mánaðar en með bréfi lögmanns kærenda, dags. 10. desember 1999, var vísað til framkominna athugasemda þeirra og það tilkynnt að þeir sæju ekki þörf á að funda sérstaklega um málið.
Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 25. janúar 2000 var umsókn um byggingarleyfið hafnað með svofelldri bókun: „Skipulagsnefnd getur í ljósi framkominna athugasemda ekki fallist á óbreytta umsókn umsækjanda og felur formanni að ræða við umsækjanda og íbúa í Leirvogstungu um breytingar á því.” Málið var enn tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 22. febrúar 2000 þar sem fram kom að hesthúsið hefði verið minnkað og að skipulagsnefnd væri nú jákvæð fyrir erindinu en færi fram á að húsið yrði minnkað frekar þannig að gert væri ráð fyrir sex hesta húsi. Lögmaður kærenda kom því á framfæri í bréfi til bæjarverkfræðings, dags. 25. febrúar 2000, að kærendum hafi ekki verið kynnt ný tillaga eða nýjar teikningar að Leirvogstungu 5. Skipulagsnefnd ákvað að grenndarkynna hesthúsbygginguna að nýju með þeim breytingum sem orðið höfðu á byggingunni frá fyrri grenndarkynningu og var kærendum tilkynnt þetta með bréfi, dags. 3. apríl 2000, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir voru gerðar við bygginguna í bréfi lögmanns kærenda, dags. 2. maí 2000, og voru þær mjög á sömu lund og við fyrri grenndarkynningu.
Að lokinni þessari grenndarkynningu var málið til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum og var m.a. óformlega leitað álits Skipulagsstofnunar um málsmeðferð og fengin greinargerð bæjarlögmanns. Hinn 18. júlí 2000 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd á fundi sínum að veita leyfi til byggingar hesthússins með svofelldri bókun: „Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir fyrir sitt leyti framkvæmdir við hesthús við Leirvogstungu 5, í samræmi við seinni grenndarkynningu enda hefur verið tekið tillit til hluta athugasemda íbúa að Leirvogstungu og húsið minnkað frá fyrri grenndarkynningu. Fyrir liggur umsögn Skipulagsstofnunar um málsmeðferð og greinargerð Þórunnar Guðmundsdóttur lögmanns, þar sem lagt er til að leyfi verði veitt. Samþykkt nefndarinnar byggir á landnotkun svæðisins samkvæmt núgildandi aðalskipulagi og því að á lóðum næst reiðstígnum með Köldukvísl sé mögulegt að heimila byggingu hesthúsa.” Bæjarráð Mosfellsbæjar staðfesti afgreiðsluna á fundi 21. júlí 2000 í umboði bæjarstjórnar.
Kærendur sættu sig ekki við veitingu byggingarleyfisins og kærðu ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Hinn 15. júlí 2002 barst úrskurðarnefndinni með umsögn lögmanns skipulags- og byggingarnefndar samkomulag tveggja kærenda, Guðmundar og Selmu, og byggingarleyfishafa, dags. 15. ágúst 2001, þar sem m.a. er sátt um það að byggingarleyfishafi megi fara með hesta sína um land Leirvogstungu inn á reiðstíg meðfram Köldukvísl. Samkvæmt samkomulaginu gildir umferðarrétturinn til 31. desember 2002 og framlengist eftir það um tvö ár í senn en greindir kærendur geta sagt umferðarheimildinni upp með þriggja mánaða fyrirvara að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá er í samkomulaginu yfirlýsing greindra kærenda um að þeir telji byggingarleyfishafa ekki hafa falsað skjöl til framlagningar í málinu en telja samt sem áður að þeim hafi ekki verið að fullu ljóst við hvaða uppdrátt þeir rituðu nafn sitt.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að meðmæli Skipulagsstofnunar hafi skort við veitingu umdeilds byggingarleyfis. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé landið allt skipulagsskylt og skuli bygging húsa og annarra mannvirkja vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í 43. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að óheimilt sé að reisa hús nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. Skuli þær framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 43. gr. Frá þessu sé gerð undantekning í 3. tl. ákvæðis laganna til bráðabirgða þar sem segi að sveitarstjórn geti án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt. Þá sé jafnframt mælt fyrir um grenndarkynningu í 7. mgr. 43. gr. laganna þegar samþykkt deiliskipulag liggi ekki fyrir í þegar byggðu hverfi. Sú kynning komi hins vegar ekki í stað meðmæla Skipulagsstofnunar eða leysi sveitarstjórn undan skyldu til að afla þeirra. Ekki sé um það deilt að í gildi sé staðfest aðalskipulag fyrir Mosfellsbæ. Þá sé óumdeilt að ekki hafi verið samþykkt deiliskipulag fyrir jörðina Leirvogstungu. Hafi Mosfellsbæ því borið samkvæmt skýrum og ótvíræðum fyrirmælum 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að afla meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir byggingu hesthúss að Leirvogstungu 5 en svo hafi ekki verið gert. Rafræn samskipti starfsmanna Skipulagsstofnunar og Mosfellsbæjar um málsmeðferð geti ekki nægt í þessu sambandi. Beri því þegar af þessari ástæðu að verða við kröfu kærenda og fella fyrrgreint byggingarleyfi úr gildi.
Kærendur halda því fram að á þeim hafi verið brotinn andmælaréttur, sem varinn sé af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim hafi ekki verið kynnt mikilvæg gögn í málinu sem ráðið hafi úrslitum um hina kærðu ákvörðun. Eigi þetta við um bréf byggingarleyfishafa til Mosfellsbæjar, dags. 24. nóvember 1999, sem lagt hafi verið fyrir þáverandi skipulagsnefnd, en í því bréfi séu settar fram ýmsar fullyrðingar um hæð og stærð húsa kærenda, samþykki þeirra fyrir framkvæmdum og meint aðgengi byggingarleyfishafa að reiðstíg skammt frá lóð hans. Kærendur benda á að byggingarleyfishafi geti ekki farið með hross sín af lóð sinni yfir á reiðstíg meðfram Köldukvísl án þess að fara yfir land kærenda Guðmundar og Selmu. Til þess hafi hann enga heimild. Fullyrðingu byggingarleyfishafa um aðgengi sitt að stígnum, sem var ásamt öðru ákvörðunarástæða fyrir leyfisveitingu, hefði því hæglega mátt leiðrétta hefði kærendum verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við bréf byggingarleyfishafa auk annars sem kærendur telja ranghermt í nefndu bréfi. Þá hafi kærendum ekki verið kynnt umsögn Skipulagsstofnunar um málsmeðferð sem vísað sé til í ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar. Loks hafi kærendum ekki verið kynnt efni bréfs Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., dags. 30. júní 2000, þar sem mælt hafi verið með því að umdeilt byggingarleyfi yrði veitt og stuðst hafi verið við þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin.
Kærendur byggja ennfremur á því að við meðferð málsins hafi skipulags- og byggingarnefnd brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að málið hefði verið mun betur upplýst hefði skipulags- og byggingarnefnd gætt lögbundins andmælaréttar kærenda og gefið þeim kost á að koma að athugasemdum við mikilvæg gögn í málinu. Þá benda kærendur á að nefndin virðist ekki hafa kynnt sér staðhætti eða aðstæður til hlítar, hvorki með vettvangsgöngu né á annan hátt, sem þó hefði orðið til að upplýsa málið frekar. Ennfremur telja kærendur að ekki hafi verið upplýst hvort fjarlægð hesthússins frá lóðamörkum uppfylli ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Kærendur styðja mál sitt jafnframt þeim rökum að efnisleg sjónarmið hafi í litlu ráðið ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar. Er vísað til þess að afstaða nefndarinnar til hins umdeilda byggingarleyfis hafi fyrst og fremst ráðist af hugsanlegri skaðabótaskyldu Mosfellsbæjar vegna þeirrar ákvörðunar sem tekin yrði. Komi þetta m.a. fram í rafpósti byggingarfulltrúa til Skipulagsstofnunar og jafnframt í því að bæjarritari fékk lögmann til að vinna greinargerð um hugsanlega skaðabótaskyldu bæjarfélagsins eftir því hver niðurstaða málsins yrði.
Kærendur skírskota til þess að væntanlega verði Leirvogstunga í Mosfellsbæ í framtíðinni eftirsótt sem íbúðasvæði og eigendur jarðarinnar, kærendur G og S, hafi hug á að hún verði skipulögð sem slík við þá endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar sem nú standi yfir. Bygging hesthúss við Leirvogstungu 5 falli alls ekki að þeirri íbúðabyggð sem eflaust muni rísa í landi Leirvogstungu í framtíðinni. Þótt sá hluti jarðarinnar, sem Leirvogstunga 5 er á, sé samkvæmt gildandi aðalskipulagi landbúnaðarsvæði, veiti það byggingarleyfishafa ekki sjálfkrafa rétt til að reisa þar hesthús.
Þá telja kærendur að veiting byggingarleyfisins hafi verið byggð á röngum forsendum. Fyrir nefndina hafi verið lögð tilbúin gögn um ætlað samþykki þeirra. Teikning sú af hesthúsi sem þeir hafi samþykkt hafi verið önnur en lögð var fyrir byggingarnefnd. Kærendur hafi aldrei samþykkt aðgengi frá umdeildu hesthúsi yfir land sitt inn á reiðstíg en kærendur telja að meint aðgengi hafi átt þátt í því að byggingarleyfið hafi verið veitt. Þá komi fram í gögnum frá byggingarleyfishafa og í greinargerð Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., sem ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar byggist á, að önnur hesthús hafi verið byggð á jörðinni. Þetta sé rangt. Á jörðinni séu áratuga gömul útihús, fjós ásamt hlöðu og fjárhús, sem að hluta séu nýtt sem hesthús. Útihús þessi séu komin vel til ára sinna og muni ekki standa um aldur og ævi.
Loks benda kærendur á að hesthús það sem leyfi hafi verið veitt fyrir sé alltof stórt. Vakin er athygli á að samkvæmt samþykktum teikningum af húsinu sé gólfflötur 97,9 fermetrar en hafi verið samkvæmt fyrri teikningum 115,9 fermetrar. Þá sé gert ráð fyrir að húsið verði 4,30 metrar á hæð í stað 4,60 metrar. Húsið sé því verulega stærra en eðlilegt geti talist eða nauðsynlegt sé til að hýsa sex hesta eins og tilgreint sé á teikningum. Þannig sé t.d. gert ráð fyrir tæplega 30 fermetrum í hlöðu, sem geyma á hey og spæni og miklu rými undir föt, reiðtygi, þvott og járningar. Telja kærendur að byggingarleyfishafi kunni að hýsa fleiri hesta í húsinu en upp er gefið á teikningum. Að mati kærenda séu þær breytingar sem gerðar hafi verið á stærð hússins minni háttar og því lítið tillit tekið til athugasemda þeirra. Byggingarleyfishafi hafi ekkert annað land í Leirvogstungu en lóð sína sem sé aðeins 3.025 fermetrar að stærð. Dregið er í efa að unnt sé að halda hesta á lóðinni með því tilstandi og umferð sem slíku fylgi og augljóslega valdi óþægindum fyrir aðra íbúa jarðarinnar.
Málsrök skipulags- og byggingarnefndar: Skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar vísar til þess að undirbúningur og útgáfa umdeilds byggingarleyfis hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Umsókn byggingarleyfishafa hafi fylgt áritun byggingarstjóra og iðnmeistara ásamt séruppdrætti í samræmi við 46. og 47. gr. laganna. Umsóknin hafi verið send í grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. nefndra laga og nágrönnum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Ákvörðunin hafi verið í fullu samræmi við aðalskipulag og hlutaðeigendum tilkynnt um ákvörðun byggingaryfirvalda.
Þá er skírskotað til forsendna fyrir synjun á stöðvun framkvæmda samkvæmt umdeildu byggingarleyfi í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 19/2000 þar sem fram hafi komið að ekki yrði annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og ekki væri augljóst að ákvörðunin væri haldin ágöllum er ógildingu varði. Í úrskurðinum hafi einnig komið fram að ekki yrði séð að kærendur hefðu ríka hagsmuni af því að framkvæmdir yrðu stöðvaðar við byggingu tiltölulega lítils mannvirkis í umtalsverðri fjarlægð frá húseignum þeirra. Byggingarleyfishafi eigi miklu ríkari hagsmuni af því að umdeilt hesthús, sem þegar hafi verið reist, fái að standa.
Loks er á það bent að ekki sé hægt að skilja 4. gr. samkomulags byggingarleyfishafa og kærendanna Guðmundar Magnússonar og Selmu Bjarnadóttur, dags. 15. ágúst 2001, öðruvísi en svo að þessir kærendur séu efnislega búnir að samþykkja byggingu hesthússins.
Beri með framangreindum rökum að staðfesta hina kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um útgáfu byggingarleyfisins fyrir hesthúsi á lóðinni nr. 5 við Leirvogstungu.
Andmæli byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi tekur fram að allir kærendur hafi samþykkt byggingu hesthúss með áritun sinni á uppdrátt er fylgdi fyrstu umsókn hans um byggingarleyfi. Á uppdrættinum sé sýnd aðkoma frá reiðstíg að lóðinni að Leirvogstungu 5.
Mótmælt er staðhæfingum í kæru um að í bréfi byggingarleyfishafa, dags. 24. nóvember 1999, sem ritað var í tilefni af framkomnum athugasemdum við grenndarkynningu, sé farið með rangar fullyrðingar um stærð húsa, nýtingu og legu reiðstígs á svæðinu. Myndir af húsum á svæðinu, loftmynd er sýni reiðstíginn og afstöðumynd af hesthúsinu tali sínu máli. Á það er bent að útihús að Leirvogstungu 2 og 3 hafi um áratuga skeið verið nýtt sem hesthús.
Byggingarleyfishafi telur að verulega hafi verið komið til móts við athugasemdir kærenda að loknum þeim tveimur grenndarkynningum sem fram hafi farið vegna umsóknar um umdeilt hesthús. Hæð hússins hafi verið lækkuð frá upprunalegri teikningu úr 5 metrum niður í 4,3 metra. Tveimur kvistum hafi verið fórnað, vegghæð breytt úr 3,3 metrum í 2,9 metra, leyfilegum fjölda hesta í hesthúsi fækkað úr þrettán í sex og ummáli hússins breytt úr 12,2 x 9,8 metrum í 11 x 8,9 metra. Ekki sé fyrirhugað að taka inn hey í húsið að austanverðu og á því staðhæfing í kæru um ófullnægjandi fjarlægð húss frá lóðamörkum austanverðum ekki við rök að styðjast. Útfærsla hesthússins, sem byggingarleyfi var veitt fyrir, eigi að nokkru leyti rót sína að rekja til samtals eða fundar sem formaður skipulagsnefndar bæjarins, Eyjólfur Árni Rafnsson, hafi átt með nágrönnum byggingarleyfishafa.
Niðurstaða: Land Leirvogstungu er skilgreint sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar og standa skipulagsskilmálar því ekki í vegi að heimiluð sé bygging hesthúss á lóðinni Leirvogstungu 5. Rök kærenda gegn hinni kærðu ákvörðun lúta fyrst og fremst að meintum annmörkum á undirbúningi ákvörðunarinnar.
Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er m.a. kveðið á um hvernig staðið skuli að málum þegar sótt er um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi sem hefur ekki verið deiliskipulagt. Skal skipulagsnefnd þá fjalla um málið og láta fara fram grenndarkynningu áður en málið hlýtur afgreiðslu byggingarnefndar. Þeim sem komu að athugasemdum við grenndarkynninguna skal tilkynnt um niðurstöðu skipulagsnefndar og byggingarnefndar. Þriðji töluliður bráðabirgðaákvæðis laganna á einungis við í þeim tilfellum þegar engin skipulagsáætlun hefur verið gerð fyrir það svæði þar sem fyrirhugað mannvirki á að rísa. Eins og fram er komið er í gildi aðalskipulag er tekur til Leirvogstungu og var málsmeðferð bæjaryfirvalda því réttilega í samræmi við 7. mgr. 43. gr. laganna og var ekki þörf á atbeina Skipulagsstofnunar við útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis.
Fyrirhuguð hesthúsbygging var í tvígang grenndarkynnt og var kærendum með því gefinn kostur á að kynna sér gögn málsins og koma á framfæri athugasemdum við framkvæmdina sem og þeir gerðu í bæði skiptin. Þá boðaði umhverfisdeild íbúa Leirvogstungu til fundar um málið að lokinni fyrri grenndarkynningu sem kærendur sáu ekki ástæðu til að mæta á. Ekki verður talið að skipulags- og byggingarnefnd hafi borið skylda til að kynna kærendum sérstaklega óformleg bréfaskipti nefndarinnar og Skipulagsstofnunar eða umsögn lögmanns þess er nefndin leitaði til enda er þar um að ræða ráðgefandi álit um málsmeðferð og lögfræðileg álitaefni er snúa að réttarstöðu bæjarins í málinu. Þá áttu kærendur þess kost að kynna sér bréf byggingarleyfishafa dags. 24. nóvember 1999 þar sem andmælum var komið á framfæri við framkomnar athugasemdir kærenda við fyrri grenndarkynninguna. Að þessu virtu og miðað við þá ítarlegu kynningu og umfjöllun sem umdeild hesthúsbygging fékk áður en byggingarleyfi var gefið út verður ekki fallist á að andmælaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn eða að rannsókn skipulags- og byggingaryfirvalda á málsatvikum hafi verið áfátt.
Þá er ekki fallist á þau rök kærenda að málefnaleg sjónarmið hafi í litlu ráðið umdeildri ákvörðun bæjaryfirvalda. Í bókun skipulags- og byggingarnefndar um umþrætta ákvarðanatöku kemur fram að samþykkt nefndarinnar byggi á þeirri landnotkun sem aðalskipulag svæðisins geri ráð fyrir og að unnt sé að heimila byggingu hesthúsa á þeim lóðum sem liggi að reiðstígnum meðfram Köldukvísl. Jafnframt er í bókuninni skírskotað til þess að komið hafi verið til móts við framkomnar athugasemdir kærenda með því að minnka hesthúsið frá fyrri grenndarkynningu.
Við útgáfu byggingarleyfa verða bæjaryfirvöld að byggja á gildandi skipulagsáætlunum sem þau hafa sett fyrir viðkomandi svæði, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Óheimilt er að synja umsókn með þeim einu rökum að fyrirhugað mannvirki kunni að fara í bága við skipulagsáætlanir í framtíðinni. Því verður hinni kærðu ákvörðun ekki hnekkt með vísan til óvissra skipulagsáforma.
Kærendur styðja kröfu sína einnig þeim rökum að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafi verið reist á röngum forsendum þar sem teikning sú sem byggingarleyfisumsókninni fylgdi hafi verið önnur en sú sem þeir hafi samþykkt og aldrei hafi verið samþykkt umferð yfir land Leirvogstungu 2 að reiðstígnum meðfram Köldukvísl. Byggingarleyfishafi hefur vísað þessum staðhæfingum á bug og í samkomulagi hans og tveggja kærenda, dags. 15. ágúst 2001, er yfirlýsing um að þeir kærendur telji byggingarleyfishafa ekki hafa falsað skjöl til framlagningar í málinu.
Samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er það ekki skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að samþykki nágranna liggi fyrir um fyrirhugaða framkvæmd. Í gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir reiðstíg meðfram Köldukvísl er liggur við lóðarmörk byggingarleyfishafa en á aðalskipulagsuppdrætti er stígurinn ekki málsettur. Í samþykki skipulags- og byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis felst samþykkt aðaluppdráttar, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, og samkvæmt gr. 18.14 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skal afstöðumynd, sem er hluti aðaluppdráttar, m.a. sýna aðkomu að lóð. Á afstöðumynd á aðaluppdrætti, sem samþykktur var í tilefni af hinni umdeildu byggingarleyfisumsókn, er sýnd aðkoma fyrir hesta og gangandi umferð að og frá reiðvegi. Útgáfa byggingarleyfisins fól því í sér skipulagsákvörðun um aðgang frá lóð byggingarleyfishafa inn á títtnefndan reiðstíg sem var í valdi bæjaryfirvalda að taka, sbr. 1. og 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Hin kærða ákvörðun verður ekki talin haldin annmörkum að þessu leyti.
Loks styðja kærendur kröfu sína um ógildingu byggingarleyfisins þeim rökum að umdeilt hesthús sé alltof stórt miðað við fyrirhugaða nýtingu og benda á að lítið tillit hafi verið tekið til athugasemda þeirra við umdeilda framkvæmd sem muni valda nágrönnum óþægindum. Þá sé ekki í ljós leitt að húsið standi í nægilegri fjarlægð frá lóðamörkum samkvæmt 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Fyrir liggur í málinu að hestahald hefur verið á nágrannalóðum byggingarleyfishafa og verður ekki talið að hesthús á landbúnaðarsvæði sem hýsa á 6 hesta valdi kærendum þeim óþægindum að réttmætt sé að ógilda byggingarleyfið af þeim sökum. Þá er ljóst af samanburði á upphaflegri umsókn byggingarleyfishafa um byggingu hesthússins og því byggingarleyfi sem gefið var út að lokinni seinni grenndarkynningu að hliðsjón var höfð af athugasemdum kærenda við samþykkt bæjaryfirvalda fyrir byggingu hesthússins. Fjarlægð hesthúss frá lóðamörkum er samkvæmt aðaluppdrætti minnst 3 metrar. Útveggir eru úr steinsteypu og er vegghæð 2,9 metrar. Verður því að telja að húsið fullnægi skilyrðum 75. gr. byggingarreglugerðar um fjarlægð húss frá lóðarmörkum.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 18. júlí 2000 um að veita byggingarleyfi fyrir hesthúsi á lóðinni Leirvogstungu 5 í Mosfellsbæ.
____________________________________
Ásgeir Magnússon
___________________________ _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir