Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 45/2025, kæra á afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 um að synja um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. mars 2025, kærir eigandi Steypustöðvarinnar í Dýrafirði, þá afgreiðslu Ísafjarðarbæjar frá 18. ágúst 2023 að synja beiðni um aðgerðir til að færa ós Sandár í Dýrafirði. Er þess krafist að ábyrgð til að verja fasteign Steypustöðvarinnar fyrir ágangi Sandár og/eða vegna sjávargangs verði skilgreind og viðkomandi aðila gert að bregðast við. Einnig er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun Ísafjarðarbæjar.
Málsatvik og rök: Með tölvupósti 18. ágúst 2023 óskaði kærandi eftir viðbrögðum Ísafjarðarbæjar vegna landbrots af völdum ágangs sjávar og áróss Sandár í Dýrafirði. Í erindinu kom fram að ágangur sjávar lokaði árósum Sandár á tveggja ára fresti að meðaltali og beindi með því ánni til austurs í átt að mannvirkjum Steypustöðvarinnar. Áður hafi Þingeyjahreppur látið grafa út árósinn reglulega til að viðhalda landamerkjum og vernda mannvirki og eftir sameiningu sveitarfélaga hafi Ísafjarðarbær viðhaldið því að varna ágangi árinnar og sjávar til að vernda mannvirki. Nú væri áin komin nálægt girðingu umhverfis Steypustöðina og væri farin að stefna mannvirkjum hennar í hættu. Var óskað eftir að sveitarfélagið, í samráði við aðliggjandi landeiganda, myndi bregðast við og láta færa ósinn til fyrri vegar. Kæranda var svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom að beiðninni væri hafnað þar sem um væri að ræða lögbundið hlutverk Vegagerðarinnar sbr. lög nr. 28/1997 um sjóvarnir.
Kærandi vísar til þess að Ísafjarðarbær hafi hafnað skyldu sinni til að verja fasteignir á landi bæjarins í Dýrafirði fyrir ágangi Sandár og/eða sjávar á þeirri forsendu að málið heyri undir Vegagerðina eða Land og skóga. Bærinn hafi hins vegar grafið út ós árinnar alla tíð að eigin frumkvæði og síðast árið 2019. Kæranda hafi borist lögfræðiálit frá sveitarfélaginu í desember 2023 þess efnis að því beri ekki skylda til að verja fasteignir einstaklinga fyrir ágangi sjávar eða áa. Vegagerðin og Land og skógar hafi einnig hafnað ábyrgð sinni.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila. Hin kærða ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 18. ágúst 2023 en kæra barst úrskurðarnefndinni 20. mars 2025, eða rúmu einu og hálfu ári síðar. Þar sem meira en ár er liðið frá hinni kærðu ákvörðun verður máli þessu því óhjákvæmilega vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Þá bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 28/1997 um sjóvarnir fer ráðherra með yfirstjórn mála er varða sjóvarnir en Vegagerðin með framkvæmd þeirra. Er erindum um framkvæmdir vegna sjóvarna þannig réttilega beint til Vegagerðarinnar eða eftir atvikum til innviðaráðuneytisins.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.