Árið 2024, föstudaginn 30. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.
Fyrir var tekið mál nr. 45/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024 um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti og það fjarlægt að viðlögðum dagsektum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. apríl 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Lónseyri ehf. og LED Birtingar ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024 um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti á lóð nr. 101 við Miklubraut og það fjarlægt að viðlögðum dagsektum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. maí 2024.
Málavextir: Með bréfi, dags. 4. október 2022, tilkynnti eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, fyrir hönd byggingarfulltrúa, Bensínorkunni ehf. að borist hefði ábending um framkvæmdir við LED-auglýsingaskilti á vegg vetnisstöðvar á lóð nr. 101 við Miklubraut. Var í bréfinu þeim tilmælum beint til þinglýsts eiganda að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni og að slökkt yrði á skiltinu þar til slíkt leyfi hefði verið samþykkt og útgefið. Var bréfinu svarað af hálfu Orkunnar ehf. með tölvupósti 13. s.m., þar sem fram kom að ekki væri um nýtt skilti að ræða heldur uppfærslu á eldra skilti sem hefði verið á þessum stað í fleiri ár. Var Orkunni ehf. svarað 25. s.m. með tölvupósti og bent á að eldra skilti hefði ekki haft byggingarleyfi og um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var ítrekað að sækja yrði um byggingarleyfi og gerð sú krafa að slökkt yrði á skiltinu þar til leyfi hefði verið veitt. Með tölvupósti 23. desember s.á. upplýsti Orkan ehf. um að kærandi, LED Birtingar ehf., myndi taka skjáinn niður dagana 5.-6. janúar 2023.
Með tölvupósti 23. janúar 2024 var upplýst að í ljós hefði komið við vettvangsskoðun að búið væri að kveikja á umræddu skilti. Málið yrði tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og uppi væru áform um álagningu dagsekta. Upplýsti Orkan ehf. með tölvupósti samdægurs að ítrekað yrði við LED Birtingar ehf. að taka skiltið niður. Með tölvupósti 30. janúar 2024 voru kröfur byggingarfulltrúa ítrekaðar og tilkynnt að áformað væri að leggja á dagsektir og ítrekuð krafa um að slökkt yrði á skiltinu og það fjarlægt.
Reykjavíkurborg barst fyrirspurn frá Vegagerðinni með tölvupósti 9. febrúar 2024 þar sem óskað var upplýsinga um hvort umrætt skilti hefði verið sett upp með leyfi Reykjavíkurborgar. Skiltið væri staðsett við ein slysahæstu gatnamót landsins og var lýst yfir áhyggjum af áhrifum þess á umferðaröryggi.
Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. febrúar s.á., til Orkunnar ehf. var vísað til fyrri samskipta vegna umrædds LED-skiltis. Var gefinn 30 daga frestur til að fjarlægja skiltið ella yrðu lagðar á dagsektir að fjárhæð kr. 150.000 fyrir hvern dag sem drægist að ljúka verkinu, sbr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Var einnig gerð krafa um að slökkt yrði á skiltinu án tafar.
LED Birtingar ehf. svaraði bréfi byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 26. febrúar s.á., þar sem bent var á að í lok árs 2021 hefði Kaldalón ehf. keypt lóð nr. 101 við Miklubraut af Skeljungi ehf. en Orkan ehf. væri í fullri eigu Skeljungs. Við kaupin hefði verið gerður langtímaleigusamningur milli kaupanda lóðarinnar og Orkunnar ehf. um afnot af lóðinni. Í kjölfar kaupanna hefði LED Birtingar ehf. leigt vegg á lóðinni og sett þar upp umrætt LED-skilti. Skráður eigandi lóðarinnar væri Lónseyri ehf., dótturfélag Kaldalóns ehf. Það væri á ábyrgð lóðareiganda að sækja um byggingarleyfi fyrir mannvirkjum ella þyrfti skriflegt umboð lóðareiganda fyrir slíkri umsókn. Orkan ehf. væri hvorki lóðareigandi né eigandi skiltisins og því væri málið Orkunni ehf. óviðkomandi. Hefði bréf byggingarfulltrúa með réttu átt að beinast að LED Birtingum ehf. sem eiganda og rekstraraðila skiltisins og/eða lóðareiganda. Var gerð krafa um að byggingarfulltrúi tæki áform um álagningu dagsekta gagnvart Orkunni til nýrrar meðferðar, meðal annars með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þeirrar staðreyndar að önnur svipuð auglýsingaskilti fengju að standa athugasemdalaust víða um borgina án byggingarleyfis.
Byggingarfulltrúi sendi Lónseyri ehf. bréf, dags. 8. mars 2024, þar sem upplýst var að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefði haft til skoðunar stafrænt auglýsingaskilti á lóð nr. 101 við Miklubraut sem ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir. Veittur var 30 daga frestur frá móttöku bréfsins til að fjarlægja umrætt skilti en jafnframt gerð sú krafa að slökkt yrði á skiltinu án tafar. Yrði ekki orðið við kröfum innan setts tímafrests áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir kr. 150.000 fyrir hvern þann dag sem það kynni að dragast að ljúka verkinu. Byggingarfulltrúi byggði þessar kröfur á heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar og áform um dagsektir á 2. og 4. mgr. 56. gr. laganna og gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar. Með tölvupósti 26. mars 2024 óskaði Lónseyri ehf. eftir fresti til að leggja fram andmæli og var veittur frestur til 8. apríl s.á. Lónseyri ehf. og LED Birtingar ehf. mótmæltu áformum byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 8. apríl 2024, og lögðu sameiginlega fram kæru í máli þessu.
Málsrök kærenda: Bent er á að byggingarfulltrúi sé ekki að beina kröfum sínum að réttum aðila, þ.e. Lónseyri ehf. sem eiganda lóðarinnar sem umrætt auglýsingaskilti standi á. Hvorki í lögum nr. 160/2010 um mannvirki né í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé kveðið á um hver það sé sem eigi að sækja um byggingarleyfi fyrir skiltum. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar sé einungis kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem séu yfir 1,5 m2. Í 3. mgr. komi fram að umsækjandi skuli senda skriflega umsókn ásamt tilheyrandi gögnum til leyfisveitanda. Í gr. 2.5.2. reglugerðarinnar komi fram að eigandi skiltisins beri ábyrgð á öryggiskröfum sem kveðið sé á um í sama ákvæði. Af þessu leiði að lóðareigandi beri ekki skyldu til að sækja um byggingarleyfi og því beri Reykjavíkurborg að beina kröfum sínum að LED Birtingu ehf. sem sé eigandi skiltisins. Það geti ekki staðist að Reykjavíkurborg geti krafist þess að lóðareigandi fjarlægi eða slökkvi á skilti sem standi á lóð hans en hann hafi engin umráð yfir og því beri að fella ákvörðun byggingarfulltrúa úr gildi. Þegar LED Birtingar ehf. hafi leigt umræddan vegg hafi verið þar fyrir auglýsingaskilti sem hafi athugasemdalaust staðið á veggnum í áratug. LED Birtingar ehf. hafi einungis tekið niður fyrra auglýsingaskilti og sett nýtt, sömu stærðar, á sama stað. Skiltið sem nú sé á veggnum sé með lægra birtustig ásamt því að vera umhverfisvænna en fyrra skilti.
Af hálfu kæranda er vísað til samþykktar um skilti í Reykjavík sem samþykkt var á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. maí s.á. Í gr. 3.6. í samþykktinni komi meðal annars fram að leyfilegt sé að setja upp nýtt stafrænt auglýsingaskilti sem sé stærra en 10 m2 ef fyrir sé sambærilegt skilti. Kærendur hafi staðið í þeirri trú að tilskilin leyfi hafi verið fyrir fyrra skilti þegar veggurinn var tekinn á leigu og sett upp nýtt skilti, enda hafi fyrra skilti staðið á veggnum árum saman án athugasemda. Horfa beri til jafnræðissjónarmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar kröfur séu lagðar á borgarana. Önnur sambærileg auglýsingaskilti fái að standa athugasemdalaust víðsvegar um borgina án byggingarleyfis, þrátt fyrir að þau séu óumdeilanlega á byggingum eða frístandandi. Það sé brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þegar byggingarfulltrúi aðhafist ekki gagnvart öðrum en krefjist þess að kærendur slökkvi á og fjarlægi sitt skilti.
Auglýsingaskilti á strætóskýlum séu undanþegin byggingarleyfisskyldu og fjöldi slíkra skilta séu í nágrenni við hið umdeilda skilti. Þau séu sambærileg umræddu skilti sem skilti sem standi nærri vegum og rekstraraðilar þeirra séu því í beinni samkeppni við kærendur. Það skjóti skökku við að auglýsingaskilti á strætóskýlum fái að standa athugasemdalaust og án allrar aðkomu byggingarfulltrúa og veghaldara líkt og Vegagerðarinnar, sbr. 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Þetta sé sérstaklega einkennilegt þar sem Strætó bs. sé í eigu sveitarfélaganna, þar á meðal Reykjavíkurborgar, sem hafi nú farið fram á að kærendur fjarlægi og slökkvi á sínu skilti að viðlögðum dagsektum.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að kröfu um að skilti á lóð nr. 101 við Miklubraut skyldi fjarlægt hafi verið beint að Lónseyri ehf. sem þinglýstum eiganda allra mannvirkja sem á lóðinni standi en sem slíkur beri aðilinn ábyrgð á ásigkomulagi, frágangi, umhverfi og viðhaldi mannvirkja og lóðar. Þar sem skiltið sé á lóð og mannvirki sem Lónseyri ehf. beri ábyrgð á verði kröfum beint til eiganda í samræmi við 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fullyrðingar kæranda um að áður hafi verið sambærilegt skilti á sama stað í áratug standist ekki skoðun þar sem veggurinn sem skiltið standi á tilheyri vetnisstöð sem hafi verið reist árið 2019. Borgaryfirvöld hafi ekki vitneskju um hvenær eldra skilti hafi farið upp en ábendingar vegna nýja skiltisins hafi borist árið 2022.
Í kafla 4.8 samþykktar um skilti í Reykjavík komi fram að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti við stofn- og tengibrautir sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt flettiskilti eða ef deiliskipulag heimili slík skilti. Eldra skilti sem hafi verið á lóðinni milli áranna 2019–2022 hafi hvorki verið flettiskilti né hafi verið gefið út leyfi fyrir því. Deiliskipulag heimili ekki slíkt skilti á lóðinni og því eigi ákvæðið ekki við. Í næstu málsgrein í sama kafla samþykktarinnar sé kveðið á um að heimilt sé að veita ákveðnum stofnunum leyfi til að setja upp stafrænt auglýsingaskilti á standi eða vegg. Skiltin megi ekki vera hærri en 8 m og ekki stærri en 25 m2 nema annað sé heimilað í skipulagi. Stafræn auglýsingaskilti megi ekki vera nær vegbrún gatnamóta, götu eða vegvísum og öðrum umferðarbúnaði en 20 m. Umrætt skilti sé nær vegbrún götu en 20 m og gæti því haft truflandi áhrif á umferð. Þessi krafa þjóni sama markmiði og ákvæði 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Veghaldari Miklubrautar sé Vegagerðin sem hafi ekki gefið leyfi fyrir skiltinu og þá hafi Vegagerðin sett út á staðsetningu þess í febrúar 2024.
Bygging sé skilgreind í byggingarreglugerð sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum og önnur sambærileg mannvirki. Veggir vetnisstöðvarinnar séu óumdeilanlega mannvirki sbr. 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010. Vetnisstöðin sé byggingarleyfisskyld og hafi hlotið leyfi í nóvember 2018. Veggjum þeim sem kærandi kalli skjólveggi sé lýst í aðaluppdráttum sem samþykktir hafi verið 14. maí 2019. „Veggir og öryggishlið utan um stöðina hindra óviðkomandi aðgangi og tryggja kröfur um öryggisfjarlægðir […]“. Veggir vetnisstöðvarinnar hafi verið reistir innan byggingarreits og á grundvelli byggingarleyfis fyrir vetnisstöðina. Teljist veggirnir ekki hluti af byggingu komi til skoðunar hvort skiltið teljist frístandandi. Hugtakið sé ekki skilgreint í byggingarreglugerð en í samþykkt um skilti í Reykjavík sé það skilgreint svo: „Frístandandi skilti er þannig ekki laust eða hreyfanlegt skilti sem skilgreind eru á eftirfarandi hátt: Skilti eða auglýsing sem ekki er með varanlegum festingu við jörð eða mannvirki.“ Hið umdeilda skilti sé vissulega fest á mannvirki sem sé með varanlega tengingu við jörð. Því sé ljóst að skiltið teljist annað hvort fest á byggingu eða frístandandi og því sé um að ræða byggingarleyfisskyldu skv. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar.
Hvað jafnræði varði eigi sú ábending vissulega við rök að styðjast að víða í borginni sé að finna LED-skilti sem reist hafi verið án heimildar borgaryfirvalda og það sé verkefni sem verið sé að vinna í. Því sé þó hafnað að komið sé fram við borgarana með mismunandi hætti vegna slíkra skilta og að sambærileg tilvik fái ekki sambærilega meðferð. Þá sé það ekki réttmæt eða löggild afsökunarástæða að benda á aðra sem mögulega hafi einnig framkvæmt eitthvað sem ekki standist lög og reglur.
Ákvörðun byggingarfulltrúa að boða dagsektir byggi á 56. gr. laga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi hafi heimild til að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skuli hlutast til um. Það sé byggingarfulltrúa að meta það hverju sinni hvað sé eðlileg upphæð dagsekta með tilliti til aðstæðna í hverju máli. Upphæð dagsekta verði hverju sinni að vera slík að álagning þeirra skili tilætluðum árangri. Í þessu tilfelli hafi byggingarfulltrúi álitið að skiltið sem um sé deilt skapaði almannahættu vegna nálægðar við umferðarmannvirki og því væri mikilvægt að slökkt yrði á því sem fyrst og það tekið niður. Í ljósi þess að sektarþoli væri stöndugt fyrirtæki þá hafi hærri dagsektum verið beitt en ella. Hins vegar væri upphæðin fjarri hámarki og því metin hófleg.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Skírskotað sé til 3. kafla samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti, nánar tiltekið gr. 3.6. en ekki gr. 4.8. líkt og byggt sé á í umsögn Reykjavíkurborgar. Í 3. kafla séu almenn ákvæði sem nái til allra skilta óhæð stærð, staðsetningu og tæknibúnaði. Í gr. 3.6. segi meðal annars að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt skilti, svo sem flettiskilti, eða ef deiliskipulag heimili slíkt. Í þessari reglu sé kveðið skýrt á um að leyfilegt sé að setja upp nýtt skilti ef að fyrir hafi verið sambærilegt skilti og sé flettiskilti tekið fram í dæmaskyni. Túlkun Reykjavíkurborgar um að reglan geti aðeins átt við þegar flettiskilti sé skipt út fyrir stafrænt skilti sé hafnað. Reglan sé sú að ef fyrir hafi verið sambærilegt skilti þá sé heimilt að uppfæra skiltið til hins betra, t.d. hvað varði umhverfissjónarmið. Þrátt fyrir að fyrra skilti sem verið hafi á veggnum hafi ekki verið flettiskilti þá hafi það óumdeilanlega verið sambærilegt hinu nýja skilti. LED Birtingar ehf., hafi sett skiltið upp í góðri trú um að fyrra sambærilega skiltið hafi verið með tilskilin leyfi.
Í niðurlagi bæði gr. 3.6. og gr. 4.8. nefndrar samþykktar sé undantekning fá meginreglunni um að heimilt sé að setja upp stafrænt skilti ef fyrir hafi verið sambærilegt skilti og virðist Reykjavíkurborg byggja á þeirri undantekningu í umsögn sinni. Slíka undantekningu beri að túlka þröngt en um sé að ræða reglu sem kveði á um ákveðna vegalengd að vegbrún gatnamóta, götu eða vegvísum. Hvorki séu lagðar fram mælingar af hálfu Reykjavíkurborgar hvað undantekningarregluna varði né önnur gögn en tölvupóst frá starfsmanni Vegagerðarinnar. Það eitt sé ekki fullnægjandi og ákvörðunin sé byggð á ófullnægjandi og órannsökuðum forsendum. Í tölvupósti starfsmanns Vegagerðarinnar hafi komið fram að skiltið væri 270 m frá „einum slysamestu gatnamótum landsins“. Í ljósi þess að skiltið sé í um það bil 270 m fjarlægð frá aðliggjandi gatnamótum byggi kærendur á því að skiltið þurfi ekki einnig að vera í 20 m fjarlægð frá vegbrún aðliggjandi gatna enda sé reglan í samþykkt Reykjavíkurborgar sett fram til þess að vernda umferðaröryggi í kringum gatnamót. Sú vernd sjáist hvað best þegar litið sé til auglýsingaskilta sem fái að standa athugasemdalaust mun nær vegbrún en í 20 m fjarlægð, en þess virðist gætt að auglýsingaskilti strætóskýla séu í að minnsta kosti 20 m fjarlægð frá gatnamótum. Skiltið að Miklubraut 101 snúi hvorki að aðliggjandi gatnamótum né sé það staðsett svo nálægt þeim að þau hafi truflandi áhrif á umferð, enda hafi aldrei orðið slys né árekstur í námunda við skiltið svo vitað sé.
Veghaldari Miklubrautar sé Vegagerðin og það sé hennar að framfylgja vegalögum en ekki Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hafi meðal annars vísað til 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og fullyrt að reglur samþykktarinnar um fjarlægð frá gatnamótum og götum þjóni sama markmiði, en þar segi orðrétt: „Veghaldari getur synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður […]“. Það sé því ekki á forræði Reykjavíkurborgar að krefjast þess að skiltið sé fjarlægt heldur Vegagerðarinnar telji hún þess þörf, en slíkt hafi ekki verið gert.
Auglýsingaskilti séu ekki byggingarleyfisskyld ef þau séu hvorki á byggingum né frístandandi sbr. 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar og gr. 1.4. samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti, líkt og eigi við í þessu tilviki. Ekkert hafi komið fram í umsögn Reykjavíkurborgar sem gefi til kynna að skiltið sé byggingarleyfisskylt. Veggurinn sem skiltið sé á sé ekki hluti af vetnisstöðinni og séu sambærilegir veggir almennt ekki byggingarleyfisskyldir og falli almennt undir gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar sem minniháttar mannvirkjagerð, undanþegna byggingarheimild og leyfi. Þá sé veggurinn ekki „sambærilegt mannvirki“ í skilningi 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar enda sé um að ræða vegg en ekki hús sem alla jafna sé ætlað til daglegar dvalar og/eða svefns. Veggnum sé einungis lýst í aðaluppdráttum undir kaflanum ,,Brunavarnir“. Það sé með engu móti verið að vísa til þeirra í aðaluppdráttum sem hluta af byggingarleyfi vetnisstöðvarinnar.
Fullyrðingum um neikvæðar og alvarlegar afleiðingar sé vísað á bug, sérstaklega í ljósi reksturs auglýsingaskilta í flestum ef ekki öllum strætóskýlum borgarinnar sem og á strætisvögnum. Því sé verið að brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá geti það ekki verið á ábyrgð kærenda ef skilgreiningar í byggingarreglugerð eða samþykktum Reykjavíkurborgar um skilti séu óljósar eða valdi vafa. Athafnafrelsi borgaranna verði ekki settar skorður nema með skýrum lögum og reglum.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024, að gera kröfu á hendur lóðarhafa Miklubrautar 101 um að slökkt verði á LED-auglýsingaskilti á lóðinni og það fjarlægt að viðlögðum dagsektum.
Lónseyri ehf. er skráður eigandi lóðar nr. 101 við Miklubraut og þeirra mannvirkja sem á lóðinni standa. Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, er kveðið á um að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda eða umráðamanni lóðar aðvart sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu. Samkvæmt framangreindu er byggingarfulltrúa heimilt að beina kröfum sínum að eiganda jafnt sem umráðamanni lóðar. Ber lóðarhafi samkvæmt ákvæðinu ábyrgð á að uppfyllt séu skilyrði laga og reglugerðar um ásigkomulag og frágang lóðarinnar. Var byggingarfulltrúa því heimilt að beina kröfum sínum að eiganda lóðarinnar þar sem umdeilt skilti stendur.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 falla skilti undir gildissvið laganna. Í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna segir að kveða skuli á um staðsetningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingarleyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. í byggingarreglugerð er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2. Undanþegin byggingarleyfisskyldu eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Samkvæmt 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar teljast til bygginga „hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum og önnur sambærileg mannvirki“. Telja verður umrædda vetnisstöð til byggingar en hún er umlukt steyptum þriggja metra háum veggjum og með öryggishliði, án þaks sökum sérhæfðrar starfsemi, reist samkvæmt byggingarleyfi útgefnu 6. nóvember 2018. Þá er óumdeilt í málinu að hið umdeilda auglýsingaskilti er yfir 1,5 m2 viðmiði því er 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar tekur mið af. Er auglýsingaskiltið því byggingarleyfisskylt, sbr. áðurgreind ákvæði laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar.
Í 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 kemur fram að spjöld, auglýsingar, ljósaskilti eða sambærilegan búnað megi eigi setja á eða við veg þannig að honum sé beint að umferð nema með heimild veghaldara. Veghaldari geti synjað um leyfi eða gert kröfu um að slíkur búnaður verði fjarlægður ef hann telji hann draga úr umferðaröryggi, þar á meðal ef misskilja megi hann sem umferðarmerki, umferðarskilti eða vegmerkingu, búnaður tálmi vegsýn eða sé til þess fallinn að draga athygli vegfarandans frá vegi eða umferð.
Í 32. gr. vegalaga er fjallað um fjarlægð mannvirkja frá vegi. Þar kemur fram í 1. mgr. að ekki megi staðsetja byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega nema leyfi veghaldara komi til. Þá segir í 2. mgr. að óheimilt sé að reisa mannvirki nema með leyfi veghaldara við vegamót skv. 1. mgr. á svæði sem takmarkist af beinum línum milli punkta á miðlínu vega 40 m frá skurðpunkti þeirra. Veghaldari geti ef sérstaklega standi á fært út mörk þessi allt að 150 m.
Miklabraut, sem hið umdeilda skilti er staðsett við, telst stofnvegur og er í flokki þjóðvega skv. 8. gr. vegalaga. Samkvæmt 13. gr. laganna er Vegagerðin veghaldari þjóðvega og þar með talið Miklubrautar. Er samkvæmt framangreindum ákvæðum laga óheimilt að staðsetja auglýsingaskilti við Miklubraut nema með leyfi Vegagerðarinnar. Slíkt leyfi liggur ekki fyrir í máli þessu.
Það að kærandi hafi talið að auglýsingaskilti það sem fyrir var á veggnum hafi verið þar með lögmætum hætti leiðir ekki til þess að honum sé óskylt að sækja um byggingarleyfi fyrir hinu nýja skilti, enda hefur óleyfisframkvæmd ekki fordæmisgildi. Skýrt er kveðið á um í lögum nr. 160/2010 og byggingarreglugerð að auglýsingaskilti, líkt og um ræðir í máli þessu, séu byggingarleyfisskyld.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir þó rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars 2024 um að slökkva á og fjarlægja LED-auglýsingaskilti að viðlögðum dagsektum.
Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.