Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2007 Sóltún

Ár 2009, föstudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Sigurður Erlingsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2007, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 22. s.m., kæra G og J, Sóltúni 5 í Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007, sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m., um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. apríl 2007 var m.a.  samþykkt umsókn um leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 18. s.m. og samþykkt í borgarráði 26. apríl 2007.  Skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir.

Ekki mun hafa komið til þess að formleg byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 væri gefið út en þrátt fyrir það mun hafa verið ráðist í framkvæmdir við umrædda glerlokun og henni lokið að mestu.

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að samþykkja fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra eigenda íbúða í fjölbýlishúsinu að Sóltúni 5.  Fyrir liggi álit kærunefndar fjöleignarhúsamála, dags. 13. febrúar 2006, þar sem skýrt komi fram að óheimilt sé að ráðast í framkvæmdir við lokun svala hússins án samþykkis allra eigenda þess.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi heimilað framkvæmdina.     

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja umrædda umsókn þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki eigenda allra íbúða í húsinu, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 44/1998.  Hin kærða ákvörðun byggi einnig á því að um sé að ræða póstalausar svalalokanir sem hafi hverfandi áhrif á útlit hússins og því um óverulega breytingu að ræða sem falli undir ákvæði 3. liðar B-hluta 41. gr. fjöleignarhúsalaga og raski ekki í neinu hagsmunum kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007 sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum en þess háttar leyfi hefur byggingarfulltrúi ekki gefið út í deilumáli þessu.  Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar fellur staðfesting sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.    

Eins og að framan greinir var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki gefið út innan tilskilins frests og er hin kærða samþykkt því úr gildi fallin.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt umdeild ákvörðun um svalalokun hafi að mestu komið til framkvæmda enda fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að fjalla um framkvæmdir sem ráðist er í án tilskilinna leyfa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________           __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Sigurður Erlingsson