Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 44/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. mars 2025 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Arnarland og breytingu á aðalskipulagi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. mars 2025, kærir eigandi fasteignar að Súlunesi 20 í Garðabæ, þær ákvarðanir skipulagsnefndar frá 24. febrúar 2025 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar vegna landnotkunar reitsins Arnarnesháls (3.37VÞ) og deiliskipulags fyrir Arnarland. Greindar ákvarðanir skipulagsnefndar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. s.m. og verður málskot kæranda skilið á þann hátt að kærðar séu ákvarðanir bæjarstjórnar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi, skipulagsferlið stöðvað og sveitarfélaginu gert að birta öll gögn sem snerti skuggavarp, umferðaraukningu og önnur áhrif skipulagsins á nærliggjandi byggð.
Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 6. mars 2025 var samþykkt afgreiðsla skipulagsnefndar frá 24. febrúar s.á. um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 vegna landnotkunarreitsins Arnarnesháls (3.37 VÞ). Með breytingunni var landnotkun breytt úr því að vera svæði fyrir verslun og þjónustu í miðsvæði. Innan reitsins verði blönduð byggð íbúða, verslun og þjónustu með áherslu á heilsutengda starfsemi. Hámarkshæð bygginga breyttist úr átta hæðum í tvær til sex hæðir en ein bygging, ætluð atvinnustarfsemi, geti orðið allt að sjö hæðir. Á sama fundi samþykkti bæjarstjórn einnig afgreiðslu skipulagsnefndar sem einnig var samþykkt 24. febrúar s.á. deiliskipulag Arnarlands sem varðar sama reit og greind aðalskipulagsbreyting. Gerir deiliskipulagið meðal annars ráð fyrir um 450 íbúðum og um 37.000 m2 af verslunar-, skrifstofu- og þjónusturýmum. Nýtingarhlutfall svæðisins verði um 0,95.
Kærandi vísar til þess að Garðabær hafi ekki svarað athugasemdum íbúa sem gerðar hafi verið á auglýsingartíma aðalskipulagsbreytingar og deiliskipulags. Þar með hafi sveitarfélagið brotið gegn 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggingarmagn sé ekki í samræmi við aðalskipulag Garðabæjar 2016–2030 sem og að byggingarmagn sé ekki rétt reiknað sbr. gr. 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Garðabæjar 2016–2030 en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka slíka ákvörðun til endurskoðunar þegar hún hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting er enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Hvað varðar vísun kæranda til skorts á gögnum um skuggavarp, umferðaraukningu og önnur áhrif bendir úrskurðarnefndin á að þau gögn má finna á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar sem og heimasíðu Garðabæjar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.