Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi. Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem málið telst nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar, og hinum umdeildu framkvæmdum var að mestu lokið er kæra barst, verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.
Málavextir og rök: Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum hinn 6. maí s.á., var leyfið fellt úr gildi með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins. Á fundi bæjarráðs 25. apríl 2008 var samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí s.á. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júní 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6. Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. s.m.
Hafa kærendur kært ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið eins og að framan greinir.
Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra.
Um málsástæður og lagarök fyrir kærunni sé að öðru leyti vísað til rökstuðnings og lagaraka með kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar á samþykkt bæjarráðs um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Urðarmóa 6. Sé á því byggt að gildi byggingarleyfisins velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Verði hún felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi.
Fyrir liggi að húsið á lóð nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag. Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.
Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kæruaðild. Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins að Urðarmóa 6 verið breytt. Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag. Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra minni en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá. Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda. Byggingin sé hvorki hækkuð né henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda. Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum. Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Verði ekki á framangreint fallist sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins.
Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað.
———–
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009. Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6. Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi. Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar. Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarráðs frá 25. apríl s.á. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar. Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var því máli vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærendur ættu ekki lögvarða hagsmuni. Er rakið í þeim úrskurði að bygging hússins að Urðarmóa 6 hafi ekki haft nein grenndaráhrif er máli skipti gagnvart fasteignum kærenda að Urðarmóa 10 og 12 umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi svæðisins.
Ekki verður séð að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda frekar en með áður nefndri skipulagsbreytingu. Eiga kærendur því ekki lögvarða hagmuni af úrlausn máls þessa og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson