Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2000 Framkvæmdaleyfi

Ár 2002, mánudaginn 26. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2000, krafa sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um úrlausn ágreinings um hvort framkvæmdir við borun eftir heitu vatni í landi Sigtúna í Eyjafjarðarsveit séu háðar framkvæmdaleyfi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. júlí 2000, er barst nefndinni 31. júlí sama ár, krefst sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar  þess að úrskurðað verði að framkvæmdir við borun Hita- og vatnsveitu Akureyrar eftir heitu vatni í landi Sigtúna, Eyjafjarðarsveit séu háðar framkvæmdaleyfi.

Málavextir:   Hinn 5. maí 2000 ritaði veitustjóri Hita- og vatnsveitu Akureyrar eiganda jarðarinnar Sigtúna í Eyjafjarðarsveit bréf þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða borun djúprar tilraunaholu í samræmi við samning Akureyrarbæjar og landeiganda frá 27. mars 1980 um einkarétt hins fyrrnefnda á borun og nýtingu á heitu vatni í landi jarðarinnar.  Þar kom fram að framkvæmdir hæfust væntanlega fyrir maílok árið 2000 og yrði holan staðsett nálægt heimreið við Eyjafjarðarbraut eystri.  Áætlað var að tún myndu skerðast um ca. 2-3000 fermetra vegna borplans með burðarlagi úr möl.

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar hinn 30. maí 2000 komu greindar framkvæmdir til umræðu en þá mun hafa verið lokið framkvæmdum við borplan.  Ályktaði sveitarstjórn á þessum fundi um að borframkvæmdirnar væru það umfangsmiklar að sækja þyrfti um framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins fyrir þeim.  Var Hita- og vatnsveitu Akureyrar sent bréf, dags. 7. júní 2000, þar sem mati sveitarstjórnar á framkvæmdunum var komið á framfæri og þess farið á leit að þá þegar yrði sótt um framkvæmdaleyfi vegna borframkvæmdanna og til þess gefinn frestur til 15. júní 2000. 

Hita- og vatnsveita Akureyrar leitaði álits bæjarlögmanns Akureyrar um hvort umdeildar framkvæmdir væru háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Álit lögmannsins var sett fram í bréfi, dags. 19. júní 2000,  og var niðurstaða hans að umrædd framkvæmd félli ekki undir ákvæði 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Var sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar tilkynnt með bréfi, dags. 21. júní 2000, um þá afstöðu Hita- og vatnsveitu Akureyrar að framkvæmdin væru ekki háð framkvæmdaleyfi og fylgdi bréfinu fyrrgreint álit bæjarlögmanns.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar féllst ekki á rök framkvæmdaraðila fyrir því að umdeild framkæmd væri undanþegin framkvæmdaleyfi og skaut ágreiningnum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur ótvírætt að hinar kærðu framkvæmdir í landi Sigtúna séu háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 9. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Í bréfi Hita- og vatnsveitu Akureyrar til ábúanda Sigtúna, dags. 5. maí 2000, komi fram að tún jarðarinnar muni skerðast um 2-3000 fermetra sem væntanlega sé stærð athafnasvæðisins við framkvæmdirnar.  Þar komi og fram að á svæðinu verði gert borplan með burðarlagi úr möl eftir að sléttað hafi verið undir.  Borholan sé í krika milli heimreiðar að Sigtúnum og Eyjafjarðarbrautar eystri.

Kærandi bendir á að umrætt borplan sé um 15 til 20 metra frá Eyjafjarðarbraut eystri sem sé fjölfarinn þjóðvegur og jafnframt í svipaðri fjarlægð frá heimreið að Sigtúnum sem tengist þvert á þjóðveginn.  Vegur að borplaninu tengist nefndum vegum í krikanum og berist gróf möl og steinar auðveldlega úr veginum inn á þjóðveginn og heimreiðina.  Borplanið sjálft, sem í hafi verið ekið að minnsta kosti 1800-2000 rúmmetrum af möl, rísi allhátt í landinu framan í aflíðandi brekku.  Gera megi ráð fyrir því að hæð þess sé um 2 metrar og allt upp í á þriðja meter þar sem planið vísi að þjóðveginum en í brekkuhæð þar sem það snúi frá þjóðvegi.  Planið sé því áberandi í landinu og hætta sé á að staðsetning þess svo nálægt akvegum geti valdið aukinni snjósöfnun við sérstakar veðurfarslegar aðstæður. 

Þá bendir kærandi á að ekkert liggi fyrir um hvernig gengið verði frá framkvæmdasvæðinu beri borun ekki árangur.

Ljóst sé að hér sé um að ræða framkvæmd sem hafi áhrif á umhverfi og breyti ásýnd þess og að mati kærenda sé framkvæmdin meiri háttar og falli því undir 27. gr. laga nr. 73/1997.

Málsrök framkvæmdaraðila:  Norðurorka (áður Hita- og vatnsveita Akureyrar) bendir á að umræddar framkvæmdir hafi verið tímabundnar og minni háttar.  Alltaf hafi verið ljóst að skerðing lands um 2-3000 fermetra yrði aðeins tímabundin.  Ummerki að borun lokinni yrðu mun minni.  Strax að framkvæmdum loknum hafi verið gengið frá landinu í samræmi við óskir landeiganda og nú sjáist lítil ummerki um framkvæmdirnar önnur en uppgróinn slóði að borholunni en þar fari fram mælingar.

Í áliti bæjarlögmanns Akureyrar, er framkvæmdaraðili hafi stuðst við, komi fram að 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi upphaflega tekið til allra framkvæmda en með lögum 135/1997 hafi ákvæðinu verið breytt og það aðeins látið taka til meiri háttar framkvæmda og gildissvið ákvæðisins þar með þrengt til mikilla muna.  Í 3. mgr. gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/ 1998 sé hugtakið „meiri háttar framkvæmd” skilgreint sem framkvæmd sem hafi veruleg áhrif á umhverfið.  Bent er á þá lögskýringarreglu að takmarkanir á eignarréttindum og íþyngjandi ákvæði, eins og hér um ræði, beri að skýra þröngt og í samræmi við orðalag þeirra.  Íþyngjandi ákvarðanir sem takmarki á einhvern hátt eignarréttindi verði að hafa skýra stoð í lögum.  Framkvæmd sem ætlað sé að standa í skamman tíma geti eðli máls samkvæmt ekki talist meiri háttar eða talin hafa veruleg áhrif á umhverfið.  Umfang umdeildra framkvæmda verði ekki ótvírætt talið meiri háttar í skilningi skipulags- og byggingarlaga en vafa í því efni verði að skýra framkvæmdaraðila í hag.

Niðurstaða:  Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort borun tilraunaholu í landi Sigtúna í Eyjafjarðarsveit og gerð borplans af því tilefni séu framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Í greindu lagaákvæði eru þær framkvæmdir leyfisskyldar sem teljast meiri háttar og hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku.  Nánar er fjallað um framkvæmdaleyfi í gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Í 2. mgr. ákvæðisins er upptalning framkvæmda á ýmsum sviðum sem háðar skulu framkvæmdaleyfi, teljist framkvæmdir meiri háttar.  Í þeirri upptalningu er framkvæmda við boranir ekki sérstaklega getið.  Í 3. mgr. gr. 9.1 er tekið fram að með meiri háttar framkvæmdum í 2. mgr. sé átt við framkvæmdir sem hafi vegna eðlis eða umfangs veruleg áhrif á umhverfið.  Falla þar m.a. undir framkvæmdir sem farið hafa í mat á umhverfisáhrifum og jafnframt er skírskotað til framkvæmda sem tilgreindar eru í viðauka II með reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.

Af 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 verður því ráðið að einungis þær framkvæmdir sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfið séu framkvæmdaleyfisskyldar.  Hvort svo sé verður að meta í hverju tilfelli fyrir sig m.a. með hliðsjón af staðháttum.

Áhrif umdeildra borframkvæmda á umhverfið voru þau að gert var lárétt borplan úr möl í slakka nálægt Eyjafjarðarbraut eystri.  Hæð plansins rís ekki upp fyrir brekkubrún.  Þá var gerður vegarslóði til þess að koma nauðsynlegum útbúnaði á framkvæmdastað.  Framkvæmdasvæðið mun hafa verið 2-3000 fermetra að stærð.  Framkvæmdaraðili hefur upplýst að gengið hafi verið frá svæðinu að lokinni borun í júlí árið 2000 og sjáist nú lítil ummerki framkvæmdanna önnur en uppgróinn slóði sem liggi að borholunni þar sem mælingar fari fram.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og af því sem ráða má af myndum af framkvæmdastað, sem teknar voru í júlí 2000 og fylgdu kæru, telur úrskurðarnefndin að umdeild framkvæmd geti ekki talist meiri háttar.  Umfang framkvæmdanna er ekki mikið og þær hafa ekki umtalsverð áhrif á umhverfið, hvorki sjónrænt né á annan hátt.  Verður ekki fallist á að hin kærða framkvæmd hafi verið leyfisskyld samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hinar kærðu framkvæmdir Hita- og vatnsveitu Akureyrar vegna borunar eftir heitu vatni í landi Sigtúna, Eyjafjarðarsveit voru ekki háðar framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Ingibjörg Ingvadóttir