Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2018 Rannsóknarleyfi Hvalárvirkjun

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 um að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir einn eigenda jarðarinnar Seljaness á Ströndum, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 31. janúar 2015 sótti VesturVerk ehf. um leyfi til Orkustofnunar til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði. Í umsókninni kom fram að markmiðið væri að rannsaka hagkvæmni þess að nýta rennsli Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni og allt að því niður að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi. Leyfi var veitt 30. mars s.á. í samræmi við III. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, með vísan til 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Kom fram að gildistími leyfisins væri frá 31. mars 2015 til 31. mars 2017.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, óskaði leyfishafi eftir framlengingu greinds rannsóknarleyfis til tveggja ára. Í bréfinu kom fram að öllum fyrirhuguðum rannsóknum væri lokið nema kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Þær rannsóknir hafi leyfishafi ekki talið forsvaranlegar vegna kostnaðar fyrr en afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar lægi fyrir, sem og ákvörðun Landsnets og Orkustofnunar um afhendingarstað raforku í Ísafjarðardjúpi. Einnig var tekið fram að til þess að koma jarðbor til rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði þyrfti m.a. að lagfæra vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Með bréfi, dags. 31. janúar 2017, féllst Orkustofnun á að framlengja rannsóknarleyfið frá 31. mars 2017 til 31. mars 2019.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að vegur sem notaður verði til að flytja vinnuvélar og búnað á rannsóknarsvæði liggi með strandlengjunni í Ingólfsfirði, fyrir Seljanes innan við 100 m frá sumarhúsi á jörð kæranda og rúmum 200 m frá íbúðarhúsum. Frá Seljanesi sé útsýni til Hvaláróss og yfir á Ófeigsfjarðarheiði. Eigi kærandi því mikilla hagsmuna að gæta af leyfi því sem honum hafi nýlega orðið ljóst að Orkustofnun hafi veitt til mikils rasks upp frá Hvalárósum og um Ófeigsfjarðaheiði alla. Vegna hinna heimiluðu rannsókna þurfi að flytja tæki og búnað og líklega vinnubúðir á staðinn og til baka. Við það bætist og efnisflutningar tengdir þessum rannsóknarframkvæmdum. Verði farið um land kæranda í því skyni. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um að rannsóknarleyfi hafi verið veitt fyrr en hann hafi fengið vitneskju um að á heimasíðu leyfishafa í mars 2018 hefði birst sú frétt að kæru Landverndar vegna sama leyfis hefði verið vísað frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsíðu stofnunarinnar í desember 2015 og í lok janúar 2017, auk þess sem umrætt leyfi hafi verið í opinberri umræðu í fleiri misseri. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir margt löngu. Kæra málshefjanda sé dagsett 12. mars 2018 og móttekin hjá úrskurðarnefndinni þann sama dag. Kærufrestur sé því liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að skv. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, þ.e. kæruaðild sé byggð á svokallaðri „hagsmunareglu“. Tíðum kunni þó að vera vandasamt að ákvarða hvorum megin hryggjar álitaefni um aðild falli. Þegar um sé að ræða grenndarrétt hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Því fjær sem kærandinn búi frá þeim stað þar sem einhver mannvirkjagerð sé fyrirhuguð, því minni líkur séu á að viðkomandi verði talinn eiga einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni sem veiti honum kæruaðild á grundvelli grenndarréttar.

Þær rannsóknir sem leyfi hafi verið veitt fyrir kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun og hafi því í deiliskipulagstillögum verið gert ráð fyrir reit fyrir vinnubúðir. Vinnubúðirnar muni verða í ca. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi. Þar í milli sé að finna aðra byggð þannig að hvorki sé um ósnortið land né víðerni að ræða. Þótt kærandi geti hugsanlega séð til granna sinna í vinnubúðunum í norðri frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika Seljanesjarðarinnar og varði í engu hina kærðu ákvörðun, sem snúist eingöngu um tímabundna framlengingu rannsóknarheimildar.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kæranda og snerti hvorki vatnasvið jarðarinnar Seljaness né Dranga og skerði í engu hagnýtingarmöguleika eigenda þessara jarða. Þá sé og rétt að geta þess til skýringar að beinn og óbeinn eignarhluti kæranda í nefndum jörðum virðist samkvæmt skráðum heimildum vera innan við 10% í hvorri jörð fyrir sig og að sameigendur hans, sem fari þá með meira en 90% hagsmuni í hvorri jörð fyrir sig, hafi ekki mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Til að komast frá Ingólfsfirði í Ófeigsfjörð sé farið m.a. yfir land Seljaness. Þar sé hins vegar farið eftir þjóðvegi F649, Ófeigsfjarðarvegi, sem liggi þannig samkvæmt þjóðvegaskrá Vegagerðarinnar: „Af Strandavegi hjá Melum í Árneshreppi, um Eyri í Ingólfsfirði, fyrir Ingólfsfjörð, um Seljanes, að Hvalá í Ófeigsfirði“. Vegagerðin sé veghaldari á þessum vegi í skilningi vegalaga nr. 80/2007 og hafi þannig forræði yfir vegi og vegsvæði og annist vegagerð, þjónustu og viðhald vega. Samkvæmt 46. gr. vegalaga sé öllum frjáls för um slíka vegi, nema sérstakar takmarkanir séu settar á umferð, oftast þá vegna veðurs eða náttúruatburða. Eigendur þeirra jarða sem vegir liggi um geti hins vegar ekki ráðið hverjir fari um þá.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var við hina kærðu framlengingu rannsóknarleyfis einungis ólokið rannsóknum sem lutu að kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Til þess að koma jarðbor til þessara rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði lá fyrir að lagfæra þyrfti vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Rannsóknir þær sem um ræðir eru ekki fyrirhugaðar í landi kæranda, en um land það sem hann á að hluta liggur vegur að rannsóknarsvæðinu. Heldur kærandi því fram að hann verði fyrir ónæði við flutning vinnuvéla og búnaðar um veginn. Við mat á því hvort kærandi eigi hagsmuna að gæta vegna þessa verður að líta til þess að nefndur vegur, F649, er landsvegur samkvæmt Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025. Telst hann því til þjóðvega, sbr. d-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna eru þjóðvegir þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega skv. 13. gr. vegalaga og er landeiganda skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, sbr. 37. gr. laganna. Rannsóknarleyfið var gefið út snemma árs 2015 og það framlengt með hinni kærðu ákvörðun í janúar 2017. Samkvæmt útgefnum umferðartölum Vegagerðarinnar var árdagsumferð um veginn, þ.e. sá fjöldi bifreiða sem að jafnaði fara þar um á hverjum degi, á bilinu sex til átta frá árinu 2010 til 2017. Vetrardagsumferð hefur haldist óbreytt á þessu tímabili en sumardagsumferð aukist nokkuð, en hún var 12-14 bílar árin 2010-2015 og 17 árin 2016-2017. Á sama tímabili hefur orðið mikil aukning ferðamanna á landinu. Þrátt fyrir að um fáfarinn veg sé að ræða og um hann verði flutt tæki og búnaður til þeirra rannsókna sem enn er ólokið er það álit úrskurðarnefndarinnar að öllu virtu að það tímabundna ónæði sem af því hljótist snerti ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda í þeim mæli að hann geti átt aðild að kæru vegna hins umdeilda rannsóknarleyfis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kæruaðild kæranda hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.