Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2021 Dalsbraut

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 42/2021, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 um að samþykkja umsóknir um byggingarleyfi fyrir þrjú fjölbýlishús með 15 íbúðum á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 6. apríl 2021 kæra eigendur Lerkidals 52-60 þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 að samþykkja umsóknir um byggingarleyfi fyrir þrjú fjölbýlishús með 15 íbúðum á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 15. apríl 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 18. desember 2019 var tekin fyrir umsókn leyfishafa um að heimiluð yrði stækkun mannvirkja á lóðunum Dalsbraut 32-36 sem næmi 106 m2 og að íbúðum í hverju húsi yrði fjölgað úr 11 í 15. Samþykkti ráðið að grenndarkynna umsóknina. Hinn 14. janúar 2020 var umsóknin grenndarkynnt sem breyting á deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfangi og athugasemdafrestur veittur til 15. febrúar s.á. Var m.a. grenndarkynnt fyrir þinglýstum eiganda Lerkidals 52-60 sem hafði á þeim tímapunkti selt fasteignirnar til kærenda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. s.m. var erindið tekið fyrir aftur og samþykkt, auk þess sem bókað var að engar athugasemdir hefðu borist. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 3. mars s.á. Með framlagningu uppdrátta sótti leyfishafi í kjölfarið um byggingarleyfi til að byggja þrjú fjölbýlishús, hvert með 15 íbúðum, á lóðum nr. 32, 34 og 36. Hinn 30. s.m. samþykkti byggingarfulltrúi á afgreiðslufundi sínum umsókn leyfishafa með áritun sinni á uppdrættina. Í desember 2020 var grenndarkynnt fyrir kærendum tillaga að breytingu á deiliskipulagi Dalsbrautar 32-36 vegna bílastæða. Munu kærendur þá hafa orðið varir við að breyting hefði orðið á deiliskipulagi svæðisins vegna nefndra lóða. Í kjölfarið áttu nokkrir kærenda í samskiptum við bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna framkvæmdanna. Hinn 15. mars 2021 upplýsti byggingarfulltrúi kærendur um að starfsmenn embættisins hefðu skoðað bygginguna á staðnum og byggt sé í samræmi við aðaluppdrætti. Jafnframt var kærendum bent á að hægt væri að fylgja málinu eftir með kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Kærendur benda á að áður en þeir hafi fest kaup á fasteignum sínum hafi þeir kynnt sér skipulag svæðisins. Þeim hafi ekki verið kynnt tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Dalsbrautar 32-36 sem sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt í mars 2020 og því ekki haft tækifæri til að mótmæla umræddum breytingum. Þeir verði fyrir tjóni vegna breytinganna sem felist í skertu útsýni og innsýn í garða frá íbúðum með svölum sem snúi að Lerkidal. Leiði það til lækkunar á verðgildi húsanna.

Af hálfu Reykjanesbæjar er vísað til þess að stöðvun framkvæmda sé íþyngjandi aðgerð gegn byggingarleyfishafa sem hafi gilt byggingarleyfi í höndunum. Með hliðsjón af því meðalhófi sem þurfi að gæta að í skipulags- og byggingarmálum sé ljóst að stöðvun framkvæmda gangi lengra en þörf þyki. Kæran muni hljóta efnislega meðferð hjá úrskurðarnefndinni og verði niðurstaðan sú að fallist sé á kröfur kærenda sé ljóst að þeir kunni að eiga lögvarða bótakröfu vegna þessa tjóns sem þeir kunni að hafa orðið fyrir vegna meðferðar málsins.

Leyfishafi bendir á ekki sé ljóst hvaða framkvæmda sé krafist stöðvunar á. Framkvæmdum við hús og uppsteypu veggja sé þegar lokið og engin ástæða sé því til að stöðva framkvæmdir. Aðrar framkvæmdir, s.s. vinna við hús að innan og lokafrágangur lóðar og veggja, séu minniháttar og afturkræfar og hafi auk þess engin áhrif á hagsmuni kærenda. Stöðvun framkvæmda sé undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Þá yrði tjón af völdum stöðvunar framkvæmda gríðarlegt fyrir leyfishafa. Sala íbúða sé í fullum gangi og myndi stöðvun hafa áhrif á afhendingu íbúða.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Hin kærðu byggingarleyfi heimila byggingu fjölbýlishúsa á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut. Af fyrirliggjandi gögnum má sjá að framkvæmdirnar eru langt á veg komnar og voru það í raun þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Ber framkvæmdaaðili enda af þeim alla áhættu verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi til bráðabirgða.