Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2000 Heiðargerði

Ár 2000, föstudaginn 18. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2000; kæra húseigenda að Heiðargerði 74, 78, 88, 90, 92 og 94, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til byggingar þakhæðar að Heiðargerði 76, Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2000, sem barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kæra eigendur fasteignanna nr. 74, 78, 88, 90, 92 og 94 við Heiðargerði í Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2000 um að veita leyfi til byggingar 30 m² þakhæðar að Heiðargerði 76.  Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Hin kærða ákvörðun var tekin af byggingarfulltrúa í umboði byggingarnefndar Reykjavíkur og staðfest í borgarráði hinn 11. júlí 2000.

Þar sem krafist var stöðvunar framkvæmda var byggingarleyfishafa sent bréf hinn 27. júlí 2000 þar sem honum var gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og koma að sjónarmiðum í málinu.  Sama dag var jafnframt óskað umsagna byggingarnefndar Reykjavíkur og Skipulagsstofnunar um kæruefnið.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2000, andmælir byggingarleyfishafi kröfum og sjónarmiðum kærenda.  Fylgja bréfi þessu gögn er varða málsmeðferð hjá borgaryfirvöldum.  Með bréfi til nefndarinnar, dags. 11. ágúst 2000, sendir byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsögn skrifstofustjóra byggingardeildar um málið ásamt fylgiskjölum.  Meðal gagna, sem lögð eru fyrir nefndina af hálfu byggingarfulltrúa, er bréf hans til byggingarleyfishafa, dags. 8. ágúst 2000, þar sem tilkynnt er að framkvæmdir við stækkun hússins á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði séu stöðvaðar með vísun til þess að iðnmeistarar hafi enn ekki skráð sig á verkið auk þess sem séruppdráttum hafi ekki verið skilað til embættis byggingarfulltrúa.

Úrskurðarnefndin telur málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka til úrskurðar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Þykir umsögn Skipulagsstofnunar ekki þurfa að liggja fyrir við úrlausn þessa þáttar málsins, en umsögn stofnunarinnar mun verða meðal þeirra gagna sem stuðst verður við þegar afstaða verður tekin til kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsatvik:  Málsatvik verða hér einungis rakin stuttlega og einvörðungu að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn þess hvort fallast beri á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Eigandi hússins að Heiðargerði 76 hefur ítrekað sótt um leyfi til að hækka og stækka hús sitt.  Fyrri umsóknum um ofanábyggingu hefur verið hafnað með rökstuðningi frá Borgarskipulagi og byggingarnefnd og byggja þær synjanir í aðalatriðum á því að lóðarnýting sé nú þegar langt umfram það sem almennt gerist í nágrenninu.  Íbúar í næsta nágrenni hafa jafnframt mótmælt fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum, m.a. á grundvelli skuggavarps á þeirra eignir.

Hinn 25. júní 1999 sótti eigandi hússins enn um leyfi til að hækka þak hússins og byggja við þakhæð eins og nánar greinir í umsókninni.  Var málið fyrst tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 8. júlí 1999 og þá vísað til umsagnar skipulags- og umferðarnefndar.  Var málið til meðferðar hjá nefndum og stofnunum byggingarmála borgarinnar og fór grenndarkynning fram í febrúar og mars 2000 og bárust allmargar athugasemdir frá nágrönnum.  Eftir að umsögn Borgarskipulags um framkomnar athugasemdir lá fyrir var málið tekið fyrir á ný á fundi skipulags- og umferðarnefndar og varð það niðurstaða nefndarinnar að hún gerði ekki athugasemd við að veitt yrði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga.  Á grundvelli þessarar umsagnar samþykkti byggingarnefnd síðan að veita leyfi það sem kært er í málinu.

Málsrök byggingarnefndar:  Í umsögn skrifstofustjóra byggingardeildar um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, dags. 11. ágúst 2000 segir m.a.

„Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 6. júní 2000 var tekið fyrir og samþykkt erindi Guðmundar Eggertssonar, þar sem sótt er um leyfi til þess að hækka þak yfir syðri hluta hússins og byggja þrjá nýja kvisti á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði.

Erindinu fylgdi m.a. útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar frá 8. maí 2000, að lokinni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. skipulags- og byggingarlaga, ásamt fylgiskjölum og umsögnum Borgarskipulags dags. 5. ágúst og 20. desember 1999 auk bréfs Guðmundar Eggertssonar dags. 17. desember 1999.
Borgarráð í umboði borgarstjórnar samþykkti framangreint á fundi þann 11. júlí 2000.

Við grenndarkynningu erindisins bárust skipulags- og umferðarnefnd sömu athugasemdir nágranna við fyrirhugaðri hækkun þaks á hluta hússins ásamt byggingu þriggja kvista.  Að fenginni umsögn Borgarskipulags við framkomnum athugasemdum bókaði nefndin eftirfarandi:  „Skipulags- og umferðarnefnd gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi á grundvelli kynntra teikninga“. 

Samkvæmt umsögn Skipulags- og umferðarnefndar var erindið í samræmi við staðfest aðalskipulag samkvæmt gr. 11.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sbr. einnig 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og var grenndarkynnt eins og kveðið er á um í gr.12.5 í byggingarreglugerð sbr. einnig 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Að uppfylltum öðrum ákvæðum byggingarreglugerðar og skipulags- og byggingarlaga samþykkti afgreiðslufundur byggingarfulltrúa erindið.

Við kynningu skipulags- og umferðarnefndar á fyrirhugaðri viðbyggingu við húsið á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði gafst nágrönnum þ.á.m. kærendum kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri við nefndina.  Athugasemdir bárust frá mörgum nágranna, sem nefndin fjallaði um áður en tillagan var afgreidd.

Ekki verður séð að neitt nýtt komi fram í kærubréfi, sem breytt geti ákvörðun afgreiðslufundar byggingarfulltrúa um að veita leyfi fyrir ofangreindum framkvæmdum.  Á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður að telja ástæðulaust að stöðva framkvæmdir við verkið, sem unnar eru samkvæmt byggingarleyfi sem veitt er í samræmi við staðfest aðalskipulag.“

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júlí 2000, tekur byggingarleyfishafi fram að teikning sú, sem send hafi verið með sem fylgigagn að breytingum að Heiðargerði 76, sé ekki sú teikning sem samþykkt hafi verið í byggingarnefnd Reykjavíkur og staðfest í borgarráði.  Þá er mótmælt fullyrðingum kærenda um að framkvæmdirnar eyðileggi útsýni, valdi skuggamyndun og auki á umferð.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar um að veita leyfi til stækkunar húss í grónu hverfi.  Fyrir liggur að fyrri umsóknum um hliðstæðar framkvæmdir hefur ítrekað verið synjað, m.a. með vísun til þess hversu hátt nýtingarhlutfall mannvirkja á lóðinni nr. 76 við Heiðargerði er miðað við nýtingarhlutfall á nærliggjandi lóðum.  Ekki hefur verið sýnt fram á að aðstæður hafi breyst svo að fyrri röksemdir fyrir synjun erindisins eigi ekki lengur við.  Þá liggur fyrir að eigandi Heiðargerðis 76 hóf framkvæmdir án þess að hafa fullnægt skilyrðum um skil sérteikninga og áritanir iðnmeistara og að byggingarfulltrúi hefur af því tilefni stöðvað framkvæmdir við verkið.  Eins og atvikum er háttað og með hliðsjón af því að vafi þykir leika á um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að fallast á þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Ber borgarstjórn, með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, að hlutast til um að ákvörðun nefndarinnar um stöðvun framkvæmdanna verði framfylgt.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru við byggingu þakhæðar að Heiðargerði 76 í Reykjavík, skulu stöðvaðar meðan kærumál um lögmæti ákvörðunar um leyfi fyrir byggingunni er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.