Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2021 Ægisgata, Stykkishólmi

Árið 2021, þriðjudaginn 18. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 39/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda um meintar óleyfisframkvæmdir.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2021, er barst nefndinni 30. s.m., kæra lóðarhafi Ægisgötu 3, og agustson ehf., lóðarhafi Austurgötu 12, Stykkishólmi, drátt á afgreiðslu erinda kærenda, sem ítrekuð voru með bréfi, dags. 26. febrúar 2021, um að framkvæmdir á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 verði stöðvaðar, stoðveggir fjarlægðir og lóð færð í náttúrulegt horf. Þá er þess krafist að bæjarstarfsmönnum verði veitt áminning vegna háttsemi sinna. Skilja verður málskot kæranda svo að einnig sé krafist að lagt verði fyrir byggingarfulltrúann í Stykkishólmsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 13. apríl 2021.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 6. maí 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Ægisgötu 1. Í lok nóvember 2019 mun kærandi, eigandi Ægisgötu 3, hafa haft samband bréflega við bæjaryfirvöld í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3. Í bréfinu kom fram að kærandi teldi steypta veggi á lóðamörkum vera of háa og of nálægt lóðamörkum. Þá vakti kærandi athygli á að til stæði að breyta hæð lóðarinnar. Með tölvupósti til bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar 8. janúar 2020 var þess krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Byggingarfulltrúi tók málið til skoðunar og í bréfi hans til kæranda, dags. 20. janúar 2020, kom fram að girðingar á lóðamörkum við Ægisgötu 1 væru ekki í samræmi við reglur og að framkvæmdir við þær hefðu verið stöðvaðar. Um fjórum mánuðum síðar kærði lóðarhafi Ægisgötu 3 drátt á afgreiðslu erinda um stöðvun framkvæmda og að girðing verði fjarlægð. Með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2020 í kærumáli nr. 39/2020 var málinu vísað frá þar sem erindinu hafði verði svarað og upplýsingar frá sveitarfélaginu gáfu til kynna að málinu yrði fylgt eftir.

Í kjölfar þessa voru framkvæmdar frekari mælingar á Ægisgötu 1 og lóðarhafa veittur frestur til þess að gera grein fyrir því hvernig gengið yrði frá lóð og lóðarmörkum í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. desember 2020 var samþykkt umsókn um færslu og breytingu á staðsetningu lóðarveggja á lóðinni Ægisgötu 1, auk uppsetningu glerhandriða. Einnig var samþykkt niðurrif og færsla á lóðarveggjum sem þegar höfðu verið steyptir. Umsóknin hafði verið grenndarkynnt frá 18. september til og 16. október 2020. Kærendur kröfðust upplýsinga frá skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar með bréfum, dags. 18. janúar og 1. febrúar 2021. Þeim bréfum var svarað af byggingarfulltrúa með bréfi dags. 5. febrúar s.á. Kærendur sendu byggingarfulltrúa annað bréf, dags. 17. s.m., og kröfðust þess að byggingaryfirvöld fjarlægðu stoðveggi að því marki sem þeir væru á röngum stað og of háir, svo og fjarlægðu jarðvegsfyllingu og færðu lóðina í náttúrulegt horf. Ítrekuðu kærendur bréf sitt með erindi 26. s.m. og var afrit sent á bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins. Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar svaraði erindi kæranda með bréfi, dags. 10. mars 2021.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda kemur fram að eftir uppkvaðningu úrskurðar 29. maí 2020 sé málið enn í nákvæmlega sömu stöðu, þ.e. byggingarfulltrúi hafi ekkert aðhafst. Kærendur hafi ítrekað sent byggingarfulltrúa bréf og krafist þess að stoðveggir yrðu fjarlægðir og lóðin færð í náttúrulegt horf. Byggingarfulltrúi vísi ítrekað til samkomulags milli lóðarhafa Ægisgötu 1 og Austurgötu 12 þess efnis að lóðarhafi Austurgötu 12 hafi samþykkt stoðvegg. Staðreyndin sé sú að lóðhafi Austurgötu 12 hafi einungis samþykkt tengingu við þróarvegg en ekki hæð veggja eða að þeir yrðu það háir að þeir yrðu leyfisskyldir.

Kæran sé byggð á 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 9. gr. laganna felist áskilnaður um að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Þá sé í 4. mgr. 9. gr. heimild til að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Kæran lúti að athafnaleysi og óásættanlegri háttsemi bæjarstarfsmanna. Sé þess krafist að þeim verði veitt áminning vegna háttsemi þeirra ef þeir aðhafist ekki án tafar og sinni þar með skyldum sínum.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu Stykkishólmsbæjar er tekið fram að búið sé að svara öllum erindum kærenda nema bréfum, dags. 17. og 26. febrúar 2021. Bæjarstjóri hafi raunar svarað bréfinu frá 26. febrúar 2021 með bréfi 10. mars s.á. að því leyti sem það snúi að honum. Byggingarfulltrúi telji sig hafa svarað flestum ef ekki öllum þeim atriðum sem beint sé til hans í þessum bréfum. Byggingarfulltrúi muni hins vegar svara þessum bréfum formlega svo fljótt sem verða megi.

Hvað varði kröfu um að starfsmönnum verði veitt áminning þá séu í fyrsta lagi engar efnislegar forsendur fyrir slíkri áminningu. Unnið hafi verið að málinu af heilindum og í samræmi við ákvæði laga. Bærinn hafi þar að auki reynt að leita samkomulags með aðilum en ekki haft erindi sem erfiði. Í öðru lagi yrði að beina slíkri kröfu að einstökum starfsmönnum og veita þeim tækifæri á að tjá sig um þær persónulega væri slík krafa tæk. Í þriðja lagi og síðasta lagi, og það sem geri útslagið, hafi nefndin ekki valdheimildir að lögum til að veita slíkar áminningar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá hefur úrskurðarnefndin ekki heimild að lögum til þess að veita stjórnvöldum eða starfsfólki þeirra áminningar. Með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hins vegar hægt að kæra drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til og verður því tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa í Stykkishólmsbæ að taka erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hafa kærendur um margra mánaða skeið beint athugasemdum til stjórnvalda í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á mörkum lóðar nr. 1 við Ægisgötu og nágrannalóðanna nr. 3 við sömu götu og Austurgötu 12. Framkvæmdir við stoðveggi á lóðinni nr. 3 við Ægisgötu voru stöðvaðar 20. janúar 2020. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. desember var samþykkt umsókn um tilfærslu stoðveggjar og niðurrif stoðveggjar sem þegar var reistur.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Af samþykkt byggingarfulltrúa á umsókn um tilfærslu og niðurfærslu stoðveggja verður ráðið að hann hafi ekki setið aðgerðarlaus í málinu. Það er þó álit úrskurðarnefndarinnar að frekari afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, enda eru liðnir um þrír mánuðir frá því að kærendur sendu erindi sín til byggingarfulltrúans í Stykkishólmsbæ. Ekki hafa verið færð fram rök fyrir þeim töfum sem hafa orðið á svörum við erindum kærenda og er rétt að benda á að þeir sem beina skriflegu erindi til stjórnvalda eiga jafnan rétt á því að vera svarað með sama hætti. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að svara erindi kærenda frá 17. febrúar 2021 sem ítrekað var með bréfi 26. s.m.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Stykkishólmsbæ að svara, án ástæðulauss dráttar, erindi kærenda frá 17. febrúar 2021 sem ítrekað var með bréfi, dags. 26. s.m.