Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 40/2019, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2019, um að krefjast lagfæringar á skólplögn.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2019, er barst nefndinni 5. s.m. kærir húsfélagið Suðurgötu 15 Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2019, að fara fram á að skólplögn yrði lagfærð eins fljótt og auðið væri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 28. júní 2019.
Málavextir: Hinn 18. september 2018 hafði íbúi Tjarnargötu 10c samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og kvartaði yfir því að leki eða smit væri komið að pottröri sem virtist liggja frá húsum við Suðurgötu. Í kjölfar skoðunar sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur húsfélagi Suðurgötu 13 bréf 25. s.m. þar sem tekið var fram að lögn sú sem um ræddi lægi frá Suðurgötu 13 í gegnum sameiginlegan bakgarð og svo í gegnum Tjarnargötu 10c. Húseigendur væru ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem lægju frá eignum þeirra. Farið var fram á að skólplögnin yrði lagfærð þá þegar og tekið fram að viðgerð skyldi lokið eigi síðar en 10. október s.á. Húsfélaginu var síðar veittur aukinn frestur. Í framhaldi af því var lögnin mynduð og samkvæmt skoðunarmanni, sem myndaði 20 m af 27 m af lögninni, var hún sigin. Staðfesti hann jafnframt að lögnin tilheyrði einnig Suðurgötu 15.
Í samhljóða bréfum heilbrigðiseftirlitsins, dags. 12. október 2018, til húsfélaganna Suðurgötu 13 annars vegar og Suðurgötu 15 hins vegar, var tekið fram að samkvæmt upplýsingum þess væri Suðurgata 15 einnig tengd við lögnina og væri farið fram á að skólplögnin yrði lagfærð þá þegar. Skila þyrfti inn úrbótaáætlun eigi síðar en 26. október s.á.. Húsfélögunum var síðar veittur viðbótarfrestur til þeirra skila. Með bréfum heilbrigðiseftirlitsins til húsfélaganna, dags. 8. maí 2019, var áréttað að húseigendur væru ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem lægju frá eignum þeirra. Heilbrigðiseftirlitið færi því fram á að umrædd skólplögn yrði lagfærð eins fljótt og auðið væri. Skila þyrfti inn úrbótaáætlun til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eigi síðar en 1. júní s.á. Einnig var tekið fram í bréfinu að teldu húsfélögin að Tjarnargata 10c tengdist þessari lögn væri sjálfsagt að fulltrúar eftirlitsins kæmu ásamt Veitum og lituðu í salerni með ferilefni til að skera úr um það.
Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að einungis hafi verið vísað til orða íbúa Suðurgötu 13 um að frárennslislögnin tengdist Suðurgötu 15 án þess að slíkt hafi verið kannað frekar. Þá hafi ekki verið farið í sjálfstæða rannsókn á því hvort Tjarnargata 10c tengdist umræddri lögn heldur hafi það verið lagt í hendur húsfélaga að Suðurgötu 13 og 15 að óska eftir því, en slík vinnubrögð séu verulega ámælisverð út frá meginreglum stjórnsýsluréttar. Telja verði að rannsóknarskylda hvíli á stjórnvaldi að rannsaka slík atriði áður en ákvörðun sé tekin. Að auki virðist umrædd ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafa byggst á myndbandi þrátt fyrir að það hafi komið skýrt fram að einungis 20 af 27 m hafi verið skoðaðir og því hafi ekki verið myndað alla leið í heimaæð. Slíkt fari einnig í bága við rannsóknarskyldu stjórnvalda sem beri að rannsaka mál til hlítar áður en ákvörðun sé tekin.
Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að gengið hafi verið eins langt og kostur hafi verið í að leiðbeina húseigendum vegna málsins. Kærandi hafi hvorki nýtt sér þann andmælarétt sem gefinn hafi verið í bréfi því sem sent hafi verið til hans né óskað eftir frekari útskýringum. Samkvæmt skoðunarmyndbandi sem húsfélögin hafi sent til heilbrigðiseftirlitsins 16. október 2018 hafi komið fram hjá skoðunarmanni að bæði húsin tengdust þessari lögn. Það sé samkvæmt lögum og reglugerðum á ábyrgð eiganda lagna að halda þeim við og þar með einnig að kanna hvort þær hafi orðið fyrir skemmdum. Einungis hafi verið farið fram á að þær skemmdir sem hefðu sést í skoðunarmyndbandinu yrðu lagfærðar auk þess sem áréttað hafi verið að eigendur þyrftu að rannsaka frekar þann hluta lagnarinnar sem ekki hefði verið myndaður. Þar sem ekki hafi verið ljóst hvort Tjarnargata 10c væri tengd lögninni hafi heilbrigðiseftirlitið boðist til að koma og lita með ferilefnum í fráveitu.
Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr., líkt og hún var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum t.a.m. veitt áminningu, sbr. 1. tl., eða veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, sbr. 2. tl. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar á hlutaðeigandi. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerðra settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna.
Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 8. maí 2019, þar sem farið er fram á að skólplögn frá Suðurgötu 13 og 15 verði lagfærð eins fljótt og auðið sé og að skila þurfi inn úrbótaáætlun til eftirlitsins eigi síðar en 1. júní 2019. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins áskorun um að kærandi vinni ákveðið verk án þess að vísað sé til þess að gripið verði til frekari úrræði samkvæmt nefndum XVII. kafla laga nr. 7/1998. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.