Ár 2007, fimmtudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson, formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 40/2006, kæra eigenda að landi lögbýlisins Hafnar í Svalbarðsstrandarhreppi á ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2006, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Arnar Sigfússon hdl., f.h. eigenda að landi lögbýlisins Hafnar í Svalbarðsstrandarhreppi, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjajarðar frá 25. apríl 2006 að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi. Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 9. maí 2006.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt gerðu kærendur kröfu til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fram kom í kæru að framkvæmdir við bygginguna væru komnar nokkuð á veg og þegar nefndinni höfðu borist frumgögn í málinu og nánari upplýsingar var staða verksins þannig að ekki þótti hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir. Var afstaða því ekki tekin sérstaklega til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu sem ítarlega er rakin í kærunni. Kemur þar m.a. fram að ágreiningur hafi verið með kærendum og byggingarleyfishafa um lóðarréttindi Hafnar II og rétt til bygginga í landi Hafnar, en Höfn II er íbúðarhús í landi Hafnar með umdeildum lóðarréttindum.
Með bréfi, dags. 3. október 2005, tilkynnti sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps landeigendum Hafnar að fram væri komin umsókn frá erfðafestuhafa lögbýlisins um leyfi til að byggja vélageymslu í landi lögbýlisins og var þar meðal annars vísað til heimilda í erfðafestusamningi. Í tilefni af þessu bréfi ritaði lögmaður landeigenda bréf til hreppsins hinn 11. október 2005 þar sem umsókninni var mótmælt og rök færð fram fyrir mótmælunum.
Umrædd umsókn virðist ekki hafa komið til afgreiðslu en á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðar hinn 25. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn eigenda Hafnar II um leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II. Bókaði nefndin að þar sem fyrir lægi samþykki sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, Skipulagsstofnununar, umhverfisráðuneytisins og Vegagerðarinnar vegna skipulagstengdra ákvæða er vörðuðu þetta tiltekna hús teldi hún sér ekki fært að synja erindinu, enda þótt húsið væri að dómi nefndarinnar ekki heppilegt á fyrirhuguðum stað. Vísaði bókun byggingarnefndar til þess að sveitarstjórn hafði óskað meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með veitingu umrædds leyfis og hafði stofnunin fallist á erindið eftir að aflað hafði verið undanþágu umhverfisráðuneytisins frá 7. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjarlægð frá vegi, en Vegagerðin hafði áður lýst þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerð athugasemd við staðsetningu byggingarinnar.
Framangreindri ákvörðun byggingarnefndar, sem staðfest var í sveitarstjórn hinn 9. maí 2006, skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. maí 2006, eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að sveitarstjórn hafi borið að gefa þeim kost á að gæta hagsmuna sinna vegna umsóknar eigenda Hafnar II um byggingarleyfið. Þess hafi ekki verði gætt og hafi með því verið brotinn á þeim réttur, ekki aðeins sem landeigendum, heldur einnig sem nágrönnum, en þau eigi sumarbústaðalönd og bústaði í næsta nágrenni. Muni bygging vélaskemmunnar hafa veruleg áhrif á hagsmuni kærenda og hafa í för með sér óþægindi, sjónmengun og jafnvel verðrýrnun eigna.
Þá telji kærendur að grenndarkynning hefði átt að fara fram samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 áður en umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi hefði getað komið til afgreiðslu. Bendi kærendur sérstaklega á að hér sé um að ræða tiltölulega mjög stóra og áberandi byggingu á viðkvæmum stað á landi sem hafi verið landbúnaðarland og sumarbústaðasvæði. Ljóst sé einnig að byggingin muni hýsa starfsemi sem hafi í för með sér mikla umferð stórra vinnuvéla með tilheyrandi truflun og óþægindum.
Málsrök sveitarstjórnar: Af hálfu sveitarstjórnar hefur verið vísað til þess að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemd við að leyfi yrði veitt eftir að aflað hafði verið undanþágu umhverfisráðuneytisins frá ákvæði skipulagreglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkis frá þjóðvegi. Málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og beri því að hafna kröfum kærenda.
Málsrök byggingarleyfishafa: Gunnar Sólnes hrl. hefur f.h. byggingarleyfishafa mótmælt kröfu kærenda um að umdeilt byggingarleyfi verði fellt úr gildi. Telji byggingarleyfishafar sig hafa fullnægt öllum skilyrðum fyrir byggingunni og fengið öll tilskilin leyfi með lögmætum hætti og að ekki hafi verið brotið í bága við skipulags- og byggingarlög og reglugerðir við veitingu leyfisins.
Landeigendur hafi áður reynt að stöðva byggingarframkvæmdir á því landi sem þeir teljist eigendur að en því hafi verið hafnað af dómstólum.
Úrskurðarnefndin hefur gefið sveitarstjórn og byggingarleyfishafa kost á að tjá sig um álitaefni er lúta að því hvort hið umdeilda byggingarleyfi kunni að fara í bága við gildandi aðalskipulag á umræddu svæði en engar athugasemdir hafa borist af því tilefni.
Niðurstaða: Eins og að framan er rakið greinir kærendur og byggingarleyfishafa á um lóðarréttindi á Höfn II og rétt til bygginga í landi Hafnar. Verður ekki úr þessum ágreiningi skorið í stjórnsýslumáli þessu, en fyrir liggur að hvað sem líður réttarstöðu kærenda sem landeigenda eru þeir jafnframt eigendur frístundalóða og sumarhúsa í nágrenni Hafnar II og eiga því lögvarða hagsmuna tengda hinni kærðu ákvörðun svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.
Í málinu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Segir í tilvitnuðu ákvæði að sveitarstjórn geti án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kunni að verða sótt og sé unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum.
Í hinu kærða tilviki skorti á að fyrir hendi væri samþykkt deiliskipulag, en skylt er að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br. Verður að ætla að það hafi vakað fyrir sveitarstjórn að fá meðmæli Skipulagsstofnunar fyrir veitingu leyfisins þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir og virðist það því hafi verið mat sveitarstjórnar að ekki væru skilyrði til þess að veita leyfið með stoð í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 1994-2014 að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þykja ekki efni til að endurskoða þá afstöðu sveitarstjórnar við úrlausn máls þessa.
Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að samkvæmt gildandi aðalskipulagi umrædds svæðis er landnotkun á Höfn I landbúnaður, lögbýli og á Höfn II er gert ráð fyrir íbúðarbyggð, opnu óbyggðu svæði og svæði fyrir útivist og beitarlönd. Er hið umdeilda byggingararleyfi þannig í andstöðu við ákvæði gildandi aðalskipulags um landnotkun og fullnægir því ekki skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sem kveður á um að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Verður ákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga ekki skilið á þann veg að Skipulagsstofnun geti með stoð í því heimilað framkvæmdir sem fara í bága við gildandi skipulag heldur felur ákvæðið aðeins í sér úrræði sem gerir sveitarfélögum kleift að heimila einstakar framkvæmdir þar sem á skortir að fyrir hendi sé fullnægjandi skipulag. Verður jafnframt að skýra ákvæðið svo að því séu takmörk sett hversu umfangsmiklar framkvæmdir unnt sé að fallast á án þess að ráðist sé í gerð viðeigandi skipulags.
Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur komið fram að við afgreiðslu stofnunarinnar á erindi sveitarfélagsins um byggingarleyfið hafi verið litið til þess að um hafi verið að ræða stækkun á þegar byggðu og starfræktu verkstæði. Við þessa staðhæfingu verður að gera þá athugasemd að umdeild nýbygging, sem mun vera um 500 m² að flatarmáli, er byggð við 124 m² hús er samþykkt var sem vélaskemma hinn 30. júlí 1992 og liggja ekki fyrir nein gögn um að húsið hafi þá eða síðar verið samþykkt sem verkstæði. Verður og til þess að líta að umrædd eldri bygging var samþykkt fyrir gildistöku aðalskipulags á svæðinu og fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga. Er því alfarið hafnað að tilvist þessa eldra húss hafi getað réttlætt samþykkt hinnar umdeildu byggingar í andstöðu við gildandi skipulag og verður hún ekki talin hafa neina þýðingu við úrlausn málsins.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi, sem staðfest var af sveitarstjórn hinn 9. maí 2006, er felld úr gildi.
_____________________________
Hjalti Steinþórsson
__________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson