Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 4/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 22 við Heiðargerði, sem fela í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði breytt í fjöleignarhús með sex íbúðum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. janúar 2025, kærir eigandi, Heiðargerði 19, Akranesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 22 við sömu götu, sem fela í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði breytt í fjöleignarhús með sex íbúðum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðir á meðan málið væri til meðferðar. Var þeirri beiðni hafnað með bráðabirgðaúrskurði 27. febrúar 2025.
Málavextir: Á lóð nr. 22 að Heiðargerði á Akranesi er 531 m2 hús sem byggt var árið 1969. Í húsinu var lengi starfrækt prentsmiðjan Prentverk Akraness og síðar Prentmet Vesturlands.
Breyting á deiliskipulagi Akratorgsreits vegna lóðarinnar tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2024. Fól breytingin í sér að húsi á lóðinni sem áður hýsti atvinnustarfsemi yrði fjölbýli með sex íbúðum. Hinn 13. desember s.á. samþykkti byggingarfulltrúi Akraneskaupstaðar byggingaráform vegna þessa og gaf samtímis út byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fela áformin í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði íbúðarhúsnæði, 542 m2 að stærð með sex íbúðum sem hver um sig er með sérinngang og sérafnotaflöt.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að samþykktir aðaluppdrættir séu ekki í fullu samræmi við grenndarkynnta deiliskipulagsbreytingu. Þá standist uppdrættirnir ekki ýmis ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ. á m. ákvæði er varði brunavarnir og flóttaleiðir. Þá nái bílastæði út fyrir lóðarmörk, þveri gangbrautalínu aðliggjandi lóða og nái að akbraut. Ekki sé unnt að sjá hvort deiliskipulag heimili stækkun hússins. Þá séu mörk lóðarinnar við lóð nr. 18 að Merkigerði ekki í samræmi við deiliskipulag eða lagfært lóðablað frá 21. júlí 2023.
Á aðaluppdrátt skorti undirritun burðarvirkishönnuðar til staðfestingar á að burðarþol sé fullnægjandi. Byggingarlýsing sé óskýr um nánar tiltekin atriði. Hámarksfjarlægð að sorpgerði fari yfir 25 m. Hvorki sé gert ráð fyrir útikrana né farið fram á áætlanir um loftræsingu í tæknirými. Ákvæði í byggingarreglugerð um algilda hönnun séu ekki uppfyllt, t.d. opnist allar dyr inn á baðherbergi og ekki sé nægt rými í eldhúsum. Ekki séu uppfylltar almennar kröfur um að íbúð í fjölbýlishúsi skuli fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól. Ekki sé upplýst um hvort til staðar sé samkomulag við lóðarhafa Merkigerðis 18, Kirkjubrautar 21 og 23, Akurgerðis 19 og Heiðargerðis 20 vegna girðingar/skjólveggja á mörkum lóðanna. Þakjárn hafi þegar verið fjarlægt af húsinu en ekki liggi fyrir séruppdrættir af nýrri þakklæðningu þar sem þakhalli sé innan við 5° og útloftun fyrir ofan þakeinangrun. „Ákvæði um brunatæknilega hönnun af brunahönnuði fylgi ekki aðaluppdráttum.“ Án séruppdrátta sé erfitt að sjá hvernig þeir léttu veggir sem sýndir séu á aðaluppdráttum geti uppfyllt kröfur um brunahólfun þar sem teiknuð séu innfelld/vegghengd salerni og/eða eldhúsinnréttingar andspænis hvort öðru í og við veggi. Bil að nálægum byggingum fari niður í allt að u.þ.b. 4 m að húsinu á lóð nr. 19 við Kirkjubraut. Á grunnmynd aðaluppdrátta séu hvorki sýndar rýmingarleiðir frá íbúðum né björgunarop. Endaveggur hússins sé á mörkum lóðar nr. 22 við Heiðargerði og lóðar nr. 21 við Kirkjubraut og geti íbúar í íbúðum nr. 104 og 105 ekki forðað sér verði bruni í húsinu. Þá sé erfitt að sjá hvernig hægt verði að rýma sérafnotafleti íbúða nr. 103, 104, 105 og 106 nema kvaðir verði settar um rýmingu yfir afnotafleti aðliggjandi íbúða eða jafnvel aðrar lóðir.
Málsrök Akraneskaupstaðar: Vísað er til þess að ekki sé um nýbyggingu að ræða heldur lagfæringu og breytingu á húsnæði sem fyrir sé. Á deiliskipulagi Akratorgsreits frá árinu 1990 sé gert ráð fyrir göngustíg hinum megin við götuna. Til þess að hafa betra aðgengi fyrir gangandi hafi bílastæði verið færð um u.þ.b. einn metra út á götu til að göngustígur væri aðgengilegri og rýmri fyrir gangandi umferð. Sé það eðlilegt frávik frá skipulagi. Þá sé tæknirými innan heimilaðs byggingarmagns.
Kærandi eigi ekki hagsmuna að gæta af þeim atriðum sem varði eftirlit og yfirferð byggingarfulltrúa og geti þau því ekki leitt til ógildingar hinna umdeildu byggingaráforma. Byggingarfulltrúi hafi kynnt athugasemdir kæranda fyrir aðalhönnuði sem muni bregðast við þeim. Undirritun burðarþolshönnuðar komi fram á séruppdráttum burðarvirkis og hafi verið samþykkt af hönnunarstjóra. Hjólageymsla hafi verið tekin út í hönnunarferlinu en gleymst hafi að taka út texta og verði það lagfært með uppfærðum uppdráttum. Ekki sé möguleiki á að koma fyrir sorpgerði nær inngöngum, en það verði sameiginlegt og við bílastæði. Krana verði komið fyrir í tæknirými og rýmið loftræst, verði það lagfært á uppdráttum. Aðalhönnuður muni skoða og breyta uppdráttum eftir því sem við eigi vegna athugasemdar um að ákvæði um algilda hönnun sé ekki uppfyllt. Geymslur séu í séreign. Í gögnum sem fylgt hafi grenndarkynningu hafi verið gert ráð fyrir girðingum og ekki gerðar athugasemdir við þá tilhögun. Byggingarfulltrúa hafi borist séruppdrættir af þakfrágangi ásamt öðrum séruppdráttum.
Það sé á ábyrgð framkvæmdaraðila að tryggja að frágangur sé fullnægjandi. Samræmist útfærsla á uppdráttum ekki í kröfum um brunahólfun verði að laga það og leggja inn nýja aðaluppdrætti. Uppfyllt séu skilyrði í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um aðkomu slökkviliðs. Á grunnmynd aðaluppdráttar séu sýndar útidyrahurðir og björgunarop. Ekki sé um að ræða útgönguleiðir að Kirkjubraut 21 og sé búið að breyta því frá fyrri tillögu.
Aðaluppdrættir vegna þeirra byggingaráforma sem um er deilt í málinu eru stimplaðir með móttökustimpli sem áritað hefur verið í. Af hálfu byggingarfulltrúa hefur því verið lýst að það séu þeir uppdrættir sem hann hafi staðfest. Verða þeir því lagðir til grundvallar í máli þessu.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 að samþykkja byggingaráform vegna breytinga á yfir 50 ára gömlu húsi á lóð nr. 22 við Heiðargerði.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.
Af hálfu kæranda hefur verið vísað til þess að hann eigi hagsmuna að gæta af því að markmiðsákvæði gr. 1.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé virt. Þeir hagsmunir teljast til almannahagsmuna fremur en lögvarinna einstaklingsbundinna hagsmuna og veita því einir og sér ekki kæruaðild að máli fyrir úrskurðarnefndinni.
Með samþykki hinna umdeildu byggingaráforma var heimilað að breyta húsi sem fyrir er á lóð nr. 22 við Heiðargerði í fjöleignarhús með sex íbúðum en áður var húsið notað undir atvinnustarfsemi. Í kjölfar breytinga á skipulagi frá 2024 er lóðin á íbúðarsvæði og er á svæðinu í kring einnig íbúðarsvæði samkvæmt gildandi skipulagi og á það einnig við um lóð kæranda. Almennt verður að telja að breyting á notkun til samræmis við landnotkun sem fyrir er á viðkomandi svæði sé ívilnandi aðgerð fremur en hið gagnstæða. Fasteign kæranda er hinum megin götunnar sem um ræðir, skáhallt á móti Heiðargerði 22. Á þeim hliðum húss kæranda sem vísa í átt að götunni eru litlir gluggar og er þar innkeyrsla á lóðina. Verður ekki séð að breyting verði á innsýn milli umræddra húsa. Þá verður ekki ráðið að umdeild notkunarbreyting auki ónæði í garði á baklóð húss kæranda frá því sem verið hefur, svo sem vegna umferðar. Um er að ræða hús sem fyrir er á lóðinni og er byggingarreit lóðarinnar ekki breytt. Þá er ytra byrði þess ekki breytt með þeim hætti að grenndaráhrif aukist og hafa hinar heimiluðu breytingar ekki áhrif á skuggavarp eða útsýni gagnvart fasteign kæranda eða önnur grenndaráhrif. Áformaður fjöldi íbúða í húsinu að Heiðargerði 22 verður þar að auki ekki talinn óhefðbundinn með tilliti til fermetrafjölda hússins og ekki er um fækkun bílastæða við götuna eða innan lóðarinnar að ræða.
Með hliðsjón af framangreindu verður kærandi ekki talinn eiga þá lögvörðu hagsmuni sem veiti honum kæruaðild í máli þessu og verður það af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.