Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2025 Heiðargerði

Árið 2025, fimmtudaginn 27. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 4/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 22 við Heiðargerði sem fela í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði breytt í fjöleignarhús með sex íbúðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. janúar 2025, kærir Sigurgeir Fannar Guðmundsson, Heiðargerði 19, Akranesi, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Akraneskaupstaðar frá 13. desember 2024 að samþykkja byggingaráform á lóð nr. 22 við sömu götu sem fela í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði fjöleignarhús með sex íbúðum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Málsatvik og rök: Hinn 13. desember 2024 samþykkti byggingar­fulltrúi Akraneskaupstaðar byggingaráform vegna Heiðargerðis 22 og gaf samtímis út byggingarleyfi, sbr. 1. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Fela áformin í sér að hús sem fyrir er á lóðinni verði íbúðarhúsnæði, 542 m2 að stærð, með sex íbúðum sem hver um sig er með sérinngang og sérafnotaflöt.

 Af hálfu kæranda er vísað til þess að samþykktir aðaluppdrættir séu ekki í fullu samræmi við grenndarkynnta deiliskipulagsbreytingu. Þá standist uppdrættirnir ekki ýmis ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012, m.a. er varði brunavarnir og flóttaleiðir. Bílastæði nái út fyrir lóðarmörk, þveri gangbrautalínu aðliggjandi lóða og nái að akbraut. Ekki sé unnt að sjá hvort deiliskipulag heimili stækkun hússins. Þá séu mörk lóðarinnar við lóð nr. 18 að Merkigerði ekki í samræmi við deiliskipulag eða lagfært lóðablað frá 21. júlí 2023.

Fyrir hönd Akraneskaupstaðar er vísað til þess að ekki sé um nýbyggingu að ræða heldur lagfæringu og breytingu á húsnæði sem fyrir sé. Kærandi eigi ekki hagsmuna að gæta af þeim atriðum sem varði eftirlit og yfirferð byggingarfulltrúa og geti þau því ekki leitt til ógildingar hinna umdeildu byggingaráforma. Þá sé krafa kæranda um stöðvun framkvæmda órökstudd og séu þegar af þeirri ástæðu engar forsendur til þess að fallast á slíka kröfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa. Geta þar verið af þýðingu réttmætir hagsmunir allra aðila máls auk þess sem horfa þarf til þess hversu líklegt er að ákvörðuninni verði breytt. Almennt mælir það á móti því að fallast á kröfu um stöðvun ef fleiri en einn aðili eru að máli og þeir eiga gagnstæðra hagsmuna að gæta. Einnig geta komið til álita þau tilvik þar sem kæruheimild verður í raun þýðingarlaus ef framkvæmdir eru ekki stöðvaðar.

Í máli þessu er gerð krafa um stöðvun framkvæmda samkvæmt byggingarleyfi, en leyfið felur í sér heimild til að húsi sem fyrir er á lóðinni verði breytt í íbúðarhús. Verður ekki horft framhjá því að til viðbótar við breytta notkun hússins felur leyfið í sér heimild til framkvæmda sem fela að miklu leyti í sér endurbætur á húsinu. Að þessu virtu og með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér verður ekki talið að knýjandi þörf sé á að fallast á framkomna beiðni kæranda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður þeirri kröfu af þeim sökum hafnað.

Rétt er að taka fram að framkvæmdaraðili ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda framkvæmdum áfram áður en niðurstaða máls þessa liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar.