Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2022 Isavia

Árið 2022, fimmtudaginn 24. febrúar fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2022, kæra vegna afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. desember 2021 á erindi kæranda varðandi leiðréttingu eftirlitsgjalds fyrir árið 2021. 

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. janúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf. afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 17. desember 2021 á erindi kæranda varðandi leiðréttingu eftirlitsgjalds fyrir árið 2021. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 25. janúar 2022.

Málsatvik og rök: Með reikningi, dags. 3. nóvember 2021, krafði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja Isavia ohf. um árlegt eftirlitsgjald vegna rekstrar alþjóðaflugvallar með yfir þrjár milljónir farþega í samræmi við gjaldskrá nr. 1188/2021 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Nam fjárhæð gjaldsins alls kr. 10.312.739. Með erindi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 9. desember 2021, óskaði Isavia eftir endurgreiðslu á ofgreiddum gjöldum vegna ársins 2020 og leiðréttingu reiknings vegna ársins 2021 með þeim rökum að farþegafjöldi áranna hafi gert það að verkum að ekki hafi verið heimild til gjaldtökunnar. Heilbrigðiseftirlitið svaraði erindinu 17. desember 2021 þar sem meðal annars kom fram að það muni á næstunni fara vandlega yfir hvern eftirlitsþátt í gildandi starfsleyfi og kanna hvort tilefni sé til lækkunar eftirlitsgjalds ársins 2021. Á meðan á því standi muni krafa vegna eftirlitsgjalds þess árs verða tekin úr innheimtuferli.

Kærandi tekur fram að greind bréfaskipti milli Isavia og heilbrigðiseftirlitsins beri ekki með sér, nú fremur en endranær, að vilji sé af hálfu eftirlitsins til að leysa þau álitamál sem uppi séu í langvinnum deilum, sem séu bæði tímafrekar og kostnaðarsamar, með neinskonar sátt. Engin heimild sé fyrir umdeildri gjaldtöku. Farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll árið 2020 hafi aðeins verið 1.338.046 og farþegafjöldi árið 2021 um 1,7 milljónir. Engin heimild hafi því verið í fylgiskjali með Gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit nr. 1188/2021 til gjaldtökunnar, en í reikningnum segi orðrétt um gjaldtökuheimildina: „Lýsing: Heilbrigðiseftirlitsgjöld: FLE – Alþjóðaflugvöllur > 3 milljónir farþega.“

 Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er gerð krafa um frávísun málsins. Byggist sú krafa í fyrsta lagi á því að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Í öðru lagi komi ekki fram í kæru hvaða lögvörðu hagsmuni kærandi hafi af úrlausn málsins og í þriðja lagi sé byggt á því að kæran sé svo vanreifuð að eftirlitinu sé í raun ómögulegt að taka til varna. Heilbrigðiseftirlitsgjöldin hafi verið lögð á með reikningi, dags. 3. nóvember 2021. Hin kærða ákvörðun sé synjun heilbrigðiseftirlitsins á niðurfellingu á gjaldi en ekki gjaldtakan sjálf. Sjálf álagningin sé ekki kærð enda kærufrestur liðinn samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hin kærða ákvörðun sé efni bréfs frá 17. desember 2021 þar sem fram komi að farið verði vandlega yfir hvern eftirlitsþátt í gildandi starfsleyfi og kannað hvort tilefni sé til lækkunar eftirlitsgjalds. Á meðan á því ferli standi muni krafa vegna eftirlitsgjalds ársins 2021 tekin úr innheimtuferli. Hin kærða ákvörðun feli því ekki í sér ákvörðun um rétt eða skyldu kæranda.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Í bréfi kæranda til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, dags. 9. desember 2021, er meðal annars farið fram á leiðréttingu eftirlitsgjalds fyrir árið 2021. Í svari eftirlitsins með bréfi, dags. 17. s.m., kemur fram að eftirlitið hyggist fara yfir hvern eftirlitsþátt í gildandi starfsleyfi og kanna hvort tilefni sé til lækkunar eftirlitsgjalds. Á meðan á því standi muni krafa vegna eftirlitsgjalds ársins 2021 verða tekin úr innheimtu.

Að framangreindu virtu verður ekki séð að í málinu liggi fyrir ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að ef óhæfilegur dráttur verður á afgreiðslu máls verður slíkur dráttur eftir atvikum borinn undir úrskurðarnefndina samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.