Ár 2011, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 4/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar frá 6. janúar 2009 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta gróðurhúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði í hesthús fyrir allt að 24 hesta.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni 20. sama mánaðar, kæra D og I, Friðarstöðum, Hveragerði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar frá 6. janúar 2009 að hafna umsókn um leyfi til að breyta gróðurhúsi í landi Friðarstaða í hesthús fyrir allt að 24 hesta. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar staðfesti þá ákvörðun hinn 15. sama mánaðar. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Lögbýlið Friðarstaðir er um 17,2 ha að stærð og liggur í jaðri þéttbýlis í Hveragerði. Býlið er á landbúnaðarsvæði samkvæmt uppdrætti gildandi aðalskipulags Hveragerðisbæjar.
Á árinu 2008 var gerð fyrirspurn til bæjaryfirvalda um hvort heimilað yrði að breyta gróðurhúsi í landi Friðarstaða í hesthús. Í svari skipulags- og byggingarfulltrúa var vísað til þess að umrætt land væri á landbúnaðarsvæði og ætti því ekkert að mæla gegn því að þar yrði reist hesthús. Hins vegar gætu verið skiptar skoðanir á því hvar heppilegast væri að reisa slíkt hús.
Hinn 3. nóvember 2008 sótti annar kærenda um byggingarleyfi til að breyta gróðurhúsi í landi umrædds býlis í hesthús fyrir allt að 24 hesta. Skipulags- og byggingarnefnd bæjarins samþykkti hinn 2. desember sama ár að grenndarkynna umsóknina og bárust athugasemdir frá nágrönnum kærenda. Lutu athugasemdirnar að því að hesthúsið yrði of nálægt íbúðarbyggð innan bæjarmarka Hveragerðis, en vænta mætti að íbúum myndi í framtíðinni fjölga í nágrenni Friðarstaða. Áætluðum fjölda hesta muni fylgja hávaði og lyktarmengun gagnvart næstu nágrönnum. Mælst var til þess að fyrirhugað hesthús yrði fært norðar og fjær íbúðarbyggðinni og þá helst á svipaðar slóðir og önnur útihús á landareigninni.
Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. janúar 2009. Urðu lyktir málsins þær að nefndin hafnaði staðsetningu umrædds hesthúss samkvæmt fyrirliggjandi afstöðumynd með vísan til framkominna athugasemda við grenndarkynningu erindisins. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 15. sama mánaðar. Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan getur.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að á Friðarstöðum sé rekin blandaður búskapur með kýr, kindur og hesta, auk ylræktar. Ástæða umrædds erindis kærenda til bæjaryfirvalda hafi verið áform um að breyta einu gróðurhúsi býlisins í hesthús þannig að unnt yrði að nota burðarvirki og grunn gróðurhússins við framkvæmdina. Síðan hafi dunið yfir jarðskjálfti sem valdið hafi skemmdum á húsakosti jarðarinnar og sé brýnt að ráðast í endurbætur á húsum. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar, sem gangi á eignarréttindi kærenda, séu einungis haldlaus andmæli tveggja nágranna sem búi í 70 til 80 m fjarlægð frá fyrirhuguðu hesthúsi og eigi annar þeirra sæti í byggingarnefnd bæjarins. Ekki verði séð að nefndir aðilar eigi lögvarða hagsmuni af því hvernig búrekstri kærenda verði háttað. Fyrirhuguðu hesthúsi fylgi hvorki meiri hávaði né lyktarmengun en búast megi við frá bújörð. Þá sé þekkt nálægð hesthúsa við íbúðarhús, m.a. á höfuðborgarsvæðinu.
Andmæli Hveragerðisbæjar: Bæjaryfirvöld í Hveragerði vísa til þess að sá andmælandi við grenndarkynningu erindis kærenda sem setið hafi í skipulags- og byggingarnefnd hafi vikið sæti við afgreiðslu málsins. Komið hafi í ljós, eftir að kæra í máli þessu hafi borist, að bæjarstjórn hafði samþykkt deiliskipulag fyrir Friðarstaði á árinu 2002. Þar hafi verið markaður byggingarreitur fyrir íbúðarhús sem þegar sé risið og veittur réttur til endurnýjunar á gróðurhúsum og húsum tengdum landbúnaði. Vegna mistaka hafi láðst að auglýsa gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda á sínum tíma en bætt hafi verið úr því.
Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn um byggingu hesthúss á stað þar sem fyrir var gróðurhús í um 60 til 70 m fjarlægð frá suðurmörkum lands Friðarstaða. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hveragerðisbæjar er býlið á landbúnaðarsvæði og er þar rekinn blandaður búskapur. Af gögnum málsins verður ráðið að fyrirhuguð staðsetning hesthússins hafi ráðið úrslitum um málalyktir. Þá hefur verið upplýst að bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti deiliskipulag fyrir Friðarstaði á árinu 2002 og sýnir uppdráttur þess reit fyrir gróðurhús á þeim stað sem umsótt hesthús skyldi rísa. Við töku hinnar umdeildu ákvörðunar hafði skipulagið ekki tekið gildi en auglýsing um gildistöku þess birtist fyrst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009. Verður því ekki litið til þess deiliskipulags við úrlausn málsins.
Umsókn kæranda um byggingu hesthúss á landbúnaðarsvæði var í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins og fyrirhuguð staðsetning þess fór ekki í bága við skipulag er hin kærða ákvörðun var tekin. Þá verður ekki séð að lög eða stjórnvaldsfyrirmæli standi því í vegi að umrætt búfjárhald sé óheimilt í þeirri fjarlægð frá landamörkum sem hér um ræðir. Verða eigendur aðliggjandi landa eða lóða að bújörðum að sæta því að þar sé stundaður lögmætur búskapur í samræmi við gildandi skipulag en ábúandi ber ábyrgð á að búfé hans gangi ekki inn á land annarra, svo sem með því að girða af land sitt með fullnægjandi hætti.
Að öllu framangreindu virtu var hin kærða ákvörðun ekki studd haldbærum rökum og verður af þeim sökum fallist á kröfu kærenda um ógildingu hennar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar frá 6. janúar 2009, er bæjarstjórn staðfesti hinn 15. sama mánaðar, um að hafna umsókn um leyfi til að breyta gróðurhúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði í hesthús fyrir allt að 24 hesta.
______________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson