Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

4/2006 Hverfisgata-Hávegur

Ár 2006, þriðjudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Siglufjarðar frá 23. september 2004 um deiliskipulag Hverfisgötu – Hávegar á Siglufirði.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Grímur Sigurðsson hdl., f.h. J, Melabraut 23, Hafnarfirði, eiganda húseignarinnar að Hverfisgötu 15, Siglufirði, ákvörðun bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar frá 23. september 2004 um deiliskipulag Hverfisgötu – Hávegar á Siglufirði.  

Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin fallist á að brotið hafi verið á rétti hans ásamt því að Siglufjarðarkaupstað beri að greiða honum bætur.  

Málavextir og málsrök:  Hinn 23. september 2004 var á fundi bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarstjórn Siglufjarðar samþykkir fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Hverfisgötu – Háveg.  Samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum.“  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. febrúar 2005. 

Hinn 14. júlí 2005 ritaði kærandi bréf til Skipulagsstofnunar og óskaði eftir því að stofnunin kannaði hvort málsmeðferð bæjaryfirvalda hafi verið lögum samkvæmt.  Svarbréf Skipulagsstofnunar til kæranda er dagsett 21. júlí sama ár. 

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, setti kærandi fram kröfu um bætur úr bæjarsjóði vegna tjóns á fasteign hans að Hverfisgötu 15 sem rekja mætti til framkvæmda á grundvelli deiliskipulagsins.  Þeirri kröfu var hafnað með bréfi, dags. 22. september 2005. 

Hinn 22. desember 2005 leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis og með bréfi, dags. 30. desember 2005, tilkynnti umboðsmaður honum að hann myndi ekki fjalla um kvörtunina þar sem æðra stjórnvald hefði ekki kveðið upp úrskurð í málinu. 

Kröfur sínar styður kærandi þeim rökum að málsmeðferð við gerð og undirbúning hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 ásamt því að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar. 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2006, var óskað eftir því við bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar að bæjaryfirvöld lýstu viðhorfum sínum til kærunnar ásamt því að láta nefndinni í té nauðsynleg gögn er málið vörðuðu.  Hvorugt hefur borist úrskurðarnefndinni.  Eigi að síður telur nefndin, eins og málið liggur nú fyrir, að það sé tækt til úrskurðar.
 
Niðurstaða:  Fyrir liggur að auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. febrúar 2005.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta þær ákvarðanir sveitarfélaga, sem þar er getið, kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar, sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu svo sem er í hinu kærða tilviki.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. febrúar 2005 og var því liðið nokkuð á tíunda mánuð frá lokum kærufrests er kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Verður ekki séð að neinar þær ástæður séu fyrir hendi er réttlæti að úrskurðarnefndin taki kærumál þetta til efnisúrlausnar svo löngu eftir lok kærufrests og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin getur ekki tekið afstöðu til þess hvort réttur hafi verið brotinn á kæranda nema í tengslum við efnisúrlausn máls.  Þar sem málið sætir frávísun kemur krafa kæranda þar að lútandi ekki til álita.  Þá er það ekki á valdsviði nefndarinnar að kveða á um bætur vegna tjóns er kærandi kann að hafa orðið fyrir, en mælt er fyrir um heimtu slíkra bóta í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður kærumálinu því vísað frá í heild sinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________          _______________________
  Ásgeir Magnússon                    Þorsteinn Þorsteinsson