Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

38/2011 Kópavogsbakki

Ár 2011, miðvikudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 38/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 3. maí 2011 um að veita byggingarleyfi er varðar frágang lóðarinnar Kópavogsbakka 6. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. maí 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir G, lóðarhafi að Kópavogsbakka 2 í Kópavogi, ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 3. maí 2011 um að veita byggingarleyfi er varðar frágang lóðarinnar Kópavogsbakka 6.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 10. maí 2011. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa Kópavogs verði felld úr gildi og að Kópavogsbæ og/eða lóðarhafa Kópavogsbakka 6 verði gert að sjá til þess að frágangur lóðarinnar Kópavogsbakka 6 verði í samræmi við gildandi skipulagsskilmála.  Nánar tiltekið að hæðarmunur á lóðinni frá norðri til suðurs verði jafnaður innan lóðar, lóðin endi í hæðarkóta 7,20 til suðurs og að flái við lóðarmörk verði ekki brattari en 1:2.  Er þar jafnframt farið fram á að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Deiliskipulag fyrir Kópavogstún var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs á árinu 2005 og samkvæmt því er heimilt að reisa einnar hæðar einbýlishús með innbyggðri bílgeymslu á lóðunum nr. 2-10 við Kópavogsbakka, allt að 230 m² að grunnflatarmáli.  Breyting var gerð á deiliskipulaginu árið 2006 sem fólst aðallega í því að lóðir voru stækkaðar til suðurs og byggingarflötur stækkaður í 271 m² fyrir lóðir nr. 4-10 við Kópavogsbakka. 

Kærandi er eigandi að einbýlishúsinu Kópavogsbakki 2, sem er annað hús vestur af Kópavogsbakka 6, neðan götu.  Báðar lóðirnar liggja til suðurs að útivistarsvæði í eigu bæjarins og Kópavoginum sjálfum.  Alls eru fimm hús við Kópavogsbakka sem snúa að þessu útivistarsvæði, hús númer 2, 4, 6, 8 og 10.  Samkvæmt hæðarblöðum fyrir Kópavogsbakka, sem sett eru með stoð í samþykktu skipulagi, byrja hæðarkótar fyrir suðurenda lóðanna númer 2-10 í 6,80 vestast, hækka síðan í 7,20 fyrir framan hús númer 6 og enda síðan í 6,90 austast í götunni.  Búið er að ganga frá lóðarmörkum sunnan hússins númer 2 með steyptum vegg sem er 1,00 til 1,20 m hár, með efri mörk í hæðarkótanum 8,00.

Teikningar að Kópavogsbakka 6 voru samþykktar 18. apríl 2007.  Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að lóðin sé í svipaðri hæð og gólfplata hússins, en verði stölluð innan lóðar niður í hæðarkóta 7,20 sem er uppgefinn kóti fyrir suðurmörk lóðar.  Samkvæmt útlitsmynd að vesturhlið hússins fylgir hæð lóðar við lóðarmörk beinni línu milli uppgefinna hæðarkóta, annars vegar við götu og hins vegar við suðurmörk lóðar. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. maí 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að, meðal annars, lagfæra lóð og lóðarlínur og steypa vegg á suðurhlið lóðarinnar Kópavogsbakka 6. Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Byggingarfulltrúi samþykkir erindið 3. maí 2011. Samrýmist lögum nr. 160/2010.“ 

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun er gert ráð fyrir að suðurendi lóðarinnar Kópavogsbakka 6 endi í hæðarkóta 9,70 í stað 7,20 og að munurinn á hæð við lóðarmörk og hæðarkóta samkvæmt skipulagi verði jafnaður með aflíðandi brekku sem nær 5,50 m inn á opið svæði til suðurs.  Á suðurmörkum lóðarinnar hefur verið steyptur 0,50 m hár veggur með efri brún í hæðarkóta 10,20 og er þetta einnig í samræmi við hina kærðu ákvörðun.  Á aðaluppdráttum fyrir Kópavogsbakka 6 má sjá að hæðarkótar fyrir SV og SA horn lóðarinnar eru 7,20 samkvæmt skipulagi. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að verulegur hæðarmunur myndist milli lóðanna nr. 2 og 6 við Kópavogsbakka verði gengið frá lóð nr. 6 í samræmi við hina kærðu ákvörðun.  Þá telur kærandi að verið sé að stækka lóðina til suðurs um 5,50 m við Kópavogsbakka 6, en það skapi verulegt ósamræmi við Kópavogsbakka 2 þegar heildarmynd húsanna sé skoðuð að sunnanverðu, þar sem sé fjölfarið útivistarsvæði. 

Kærandi heldur því fram að á meðan hann sem lóðarhafi Kópavogsbakka 2 leggi kostnað í að steypa stoðvegg á lóðarmörkum til að uppfylla gildandi skipulag fái lóðarhafi Kópavogsbakka 6 að skila lóð sinni 2,50 m yfir gildandi hæðarkótum og jafna þann hæðarmun utan lóðar.  Þá sé umræddur frágangur lóðarinnar Kópavogsbakka 6 til þess fallinn að draga úr verðmæti Kópavogsbakka 2 þar sem ásýnd lóðar nr. 6 verði yfirþyrmandi séð frá lóð kæranda.  Gera verði þá kröfu til skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi að þau virði gildandi skipulag fyrir svæðið og hafni aðaluppdráttum sem ekki séu í samræmi við það. 

Loks vísar kærandi til þess að hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa sé í andstöðu við samþykkt byggingarnefndar Kópavogs frá 14. desember 2010, sem staðfest hafi verið í bæjarstjórn Kópavogs 21. sama mánaðar.  Hin kærða samþykkt sé auk þess í andstöðu við þau sjónarmið sem á sé byggt í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 63/2009.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar  málsins enda hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um kröfur sínar í málinu.  Hafi hann ekki sýnt fram á að hann hafi beina hagsmuni að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Um efniskröfur vísi bæjaryfirvöld til þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa sé form- og efnislega rétt.  Uppdrættir sem samþykktir hafi verið varðandi lóðarfrágang að Kópavogsbakka 6 hinn 3. maí 2011 séu í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á uppdráttum samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komi fram að hæðarkótar í SV og SA hornum lóðarinnar séu 7,20, sem sé í fullu samræmi við hæðarblöð fyrir lóðina, en engir hæðarkótar séu í deiliskipulagi fyrir Kópavogsbakka.  Frágangur milli Kópavogsbakka 6 og aðliggjandi lóða sé í samræmi við deiliskipulag og samkomulag lóðarhafa.  Þá sé frágangur á suðurlóðarmörkum Kópavogsbakka 6 í fullri sátt við bæjaryfirvöld og gildi þar sama regla og um önnur lóðamörk, þ.e.a.s. að lóðarhafar geti samið um frágang á lóðamörkum.  Í þessu tilviki megi jafna Kópavogsbæ við lóðarhafa sem hafi rétt til að semja um frágang á lóðarmörkum enda sé bærinn eigandi þess lands er liggi að Kópavogsbakka 6 að sunnanverðu.  Flái við lóðarmörkin sé ekki brattari en 1:2, eins og áskilið sé í skipulagsskilmálum, og skapi hann því ekki hættu eða óþægindi fyrir þá sem þurfi að fara um bæjarlandið og að auki sé fláinn vel fyrir utan gönguleið um svæðið.  Ekki sé verið að stækka lóðina Kópavogsbakka 6 til suðurs enda séu lóðarmörk þar skýrt afmörkuð með steyptum vegg.  Ekki sé heldur verið að mismuna lóðarhöfum hvað varði stoðveggi til suðurs enda sé slíkur veggur á lóðarmörkum Kópavogsbakka 6, þó að frágangur hans sé ekki með sama hætti og að Kópavogsbakka 2. 

Sýndur sé flái út fyrir lóðarmörk á þversniðsteikningum í deiliskipulagi og því sé lóðarhafi Kópavogsbakka 6 að fylgja þeirri heildarmynd sem ráðgerð hafi verið í deiliskipulagi. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Eiganda Kópavogsbakka 6 var gefinn kostur á að tjá sig um kæruefni málsins.  Hefur lögmaður hans komið því á framfæri að hann mótmæli kröfum kæranda og taki hann undir sjónarmið Kópavogsbæjar í málinu.   

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. júlí 2011. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist frávísunar af hálfu Kópavogsbæjar með þeim rökum að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um kröfur sínar í málinu.  Sá frágangur lóðarinnar Kópavogsbakka 6 sem um er deilt verður að teljast breyta ásýnd umrædds svæðis, auk þess að vera vel sýnilegur frá lóð kæranda.  Framkvæmdin snertir því hagsmuni kæranda og telst hann því hafa lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Um málskotsrétt kæranda vísast til 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Verður kröfu Kópavogsbæjar um frávísun málsins því hafnað.

Með hinni kærðu ákvörðun var heimilað að jafna um 2,5 m hæðarmun á suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 með því að hækka aðliggjandi land í eigu Kópavogsbæjar og mynda aflíðandi halla til suðurs frá mörkum lóðarinnar.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Kópavogstúns, samþykkt á árinu 2005.  Í 4. gr. almennra skilmála skipulagsins fyrir einbýlis- og parhús er fjallað um frágang lóða.  Í c-lið þeirrar greinar segir að öll stöllun á lóð skuli gerð innan hennar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við rétthafa aðliggjandi lóðar. 

Svæði það sem liggur að suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 er opið svæði til sameiginlegra nota, sbr. 7. gr. skilmála deiliskipulagsins.  Slíku svæði verður ekki jafnað til lóðar skv. 4. gr. skilmálanna og hefur það því enga þýðingu þótt frágangur á sunnanverðum lóðarmörkum Kópavogsbakka 6 sé í fullri sátt við bæjaryfirvöld, enda gildir heimild lóðarhafa samkvæmt c-lið 4. gr. skilmálanna, til að semja sín á milli um frágang á lóðamörkum, ekki um hið opna svæði er hér um ræðir.  Um er að ræða breytingu á hæðarsetningu svæðis sem ákvörðuð er á hæðarblöðum í samræmi við ákvæði deiliskipulags.  Er hið nýja fyrirkomulag í andstöðu við þessi gögn.  Svæðið er jafnframt bæjarverndað samkvæmt aðalskipulagi Kópavogsbæjar.  Hvort tveggja stóð þetta í vegi fyrir því að heimilt væri að veita umrætt byggingarleyfi og verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. 

Ekki er á færi úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um tiltekinn frágang á suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 og verður kröfu þar um því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 3. maí 2011 er varðar frágang lóðarinnar Kópavogsbakka 6. 

Kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin mæli fyrir um tiltekinn frágang á suðurmörkum lóðarinnar Kópavogsbakka 6 er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson