Ár 2009, mánudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 38/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. apríl 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á garðhýsi, stækkun sólpalls með skjólgirðingu og uppsetningu heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. maí 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. apríl 2007 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á garðhýsi, stækkun sólpalls með skjólgirðingu og uppsetningu heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en þar sem framkvæmdum var að mestu lokið er málinu var skotið til nefndarinnar var ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda.
Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness í desember 2006 var lögð fram umsókn frá lóðarhafa Bakkavarar 8 um leyfi til að breyta garðhýsi og stækka sólpall með skjólgirðingu ásamt því að koma fyrir innan lóðarinnar heitum potti. Var samþykkt að grenndarkynna erindið. Á fundi nefndarinnar hinn 21. mars 2007 var niðurstaða grenndarkynningarinnar rædd en ein athugasemd hafði borist, frá kæranda máls þessa. Var málinu frestað og samþykkt m.a. að leita eftir umsögn forvarnardeildar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Á fundi nefndarinnar hinn 12. apríl 2007 var erindið á dagskrá að nýju og var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir erindið enda verði þakklæðning á sorpgeymslu og garðhýsi óbrennanleg, án þakpappa ennfremur skulu sorpgeymsla og garðhýsi klædd að innan með klæðningu í fl. 1. Ennfremur eru framkvæmdirnar skilyrtar því að þær hafi engin áhrif á eðlilega uppbyggingu og nýtingu lóðarinnar að Bakkavör 6. Skilyrðunum skal þinglýst.“ Var samþykkt nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. apríl 2007.
Hefur kærandi kært þessa samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndarinnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að gögn þau er lögð hafi verið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun hafi í öllu verið ófullnægjandi og ekki í samræmi við samþykktar teikningar af húsinu nr. 8 við Bakkavör. Kærandi bendir á að framkvæmdir hafi hafist löngu áður en leyfi þar til bærra yfirvalda hafi fengist.
Málsrök Seltjarnarness: Af hálfu Seltjarnarness er vísað til þess að grenndarkynnt hafi verið umsókn um leyfi til breytingar garðhýsis, stækkunar sólpalls með skjólgirðingu og uppsetningar heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör. Hafi kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum og hafi skipulags- og mannvirkjanefnd talið að með því að verða við flestum athugasemdum kæranda er lotið hafi að grenndaráhrifum hafi náðst sátt í málinu.
Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi felur í sér heimild til að koma fyrir innan lóðarinnar nr. 8 við Bakkavör heitum potti og stækkun sólpalls með skjólgirðingu. Þá felur leyfið í sér heimild til breytingar á garðhýsi á norðurhluta lóðarinnar sem er um 140-160 cm á hæð.
Í gr. 1.6 í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir húsin að Bakkavör 2-44 á Seltjarnarnesi sem samþykktir voru í bæjarstjórn 21. janúar 1987 segir að ef óskað sé eftir því að setja upp skjólvegg og gróðurskála á lóðum sé hugsanlegt að heimila slíkt utan byggingarreits. Skuli skjólveggir aldrei vera hærri en 1,8 m. Þá segir ennfremur að skjólveggi og gróðurskála skuli sýna á byggingarnefndarteikningum og sé gerð þeirra háð samþykki byggingarnefndar.
Telja verður að mannvirki þau er hér um ræðir rúmist innan fyrrgreindra skipulags- og byggingarskilmála og var byggingarleyfi fyrir þeim því ekki háð samþykki annarra lóðarhafa á svæðinu. Stærð garðskýlisins, sem helst kæmi til álita að hefði áhrif á grenndarhagsmuni nágrannalóða, er í hóf stillt og stendur það í skjóli trjáa á mörkum lóðar kæranda og Bakkavarar 8. Verður ekki séð að framkvæmdir þær sem heimilaðar voru með hinu kærða leyfi raski svo nokkru nemi grenndarhagsmunum kæranda.
Ekki þykir eiga að leiða til ógildingar hins kærða leyfis þótt mannvirki þau er um ræðir kunni að einhverju leyti að hafa verið reist áður en leyfið var veitt enda voru þau ekki í ósamræmi við skipulag, sbr. 1. og 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ekki verður heldur fallist á að teikningum hafi verið svo áfátt að synja hefði átt umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi af þeim sökum.
Með vísan til framanritaðs verður kröfu kæranda um ógildinu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 12. apríl 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 25. apríl s.á., um að veita byggingarleyfi fyrir garðhýsi, sólpalli og uppsetningu heits potts á lóðinni nr. 8 við Bakkavör.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson