Árið 2024, mánudaginn 28. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Bjarni Kristófer Kristjánsson prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.
Fyrir var tekið mál nr. 36/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri við Snæfjallaströnd, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 16. apríl 2024.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 14. maí 2024.
Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en með úrskurði uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020 var kröfu um ógildingu hennar hafnað.
Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til athugunar hjá Skipulagsstofnun um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi í samræmi við þágildandi lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í skýrslunni kom fram að fyrirhuguð eldissvæði fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi væru við Sandeyri við Snæfjallaströnd, út af Arnarnesi við Skutulsfjörð og við Kirkjusund norðan við Vigur. Fyrirhugað væri að slátra á öllu svæðinu 8.000 tonnum af laxi á ári, að meðaltali, yfir þriggja ára tímabil. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 28. janúar 2021 að fengnum umsögnum Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar. Var það niðurstaða álits Skipulagsstofnunar að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt. Í áliti stofnunarinnar kom fram að helstu neikvæðu áhrif eldisins fælust í auknum áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxastofna vegna erfðablöndunar. Auk þess taldi stofnunin að eldið kæmi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi í Ísafjarðardjúpi á framangreinda þætti. Tiltók stofnunin nánar tilgreind skilyrði sem setja þyrfti í starfsleyfi sem og í rekstrarleyfi.
Arctic Sea Farm sótti um starfsleyfi og rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun 20. maí 2019 fyrir 8.000 tonnum af regnbogasilungi og laxi, en í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. b. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi framsendi stofnunin starfsleyfisumsóknina til Umhverfisstofnunar. Hinn 5. júní 2023 auglýsti Umhverfisstofnun tillögu að breytingu á starfsleyfi Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi þannig að starfsleyfið tæki til eldis á laxfiskum á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi, þ.e. við Arnarnes, Kirkjusund og Sandeyri, og mætti hámarkslífmassi á hverjum tíma ekki fara yfir 8.000 tonn, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi. Var frestur til að skila inn athugasemdum gefinn til 3. júlí s.á. og bárust athugasemdir á kynningartíma. Í samræmi við auglýsta tillögu var hið breytta starfsleyfi gefið út 21. febrúar 2024. Þá gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi 29. s.m. til handa leyfishafa vegna þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Hefur sú leyfisveiting einnig verið kærð og er það kærumál nr. 33/2024.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að hann hafi þá lögvörðu hagsmuni af úrlausn málsins sem krafist sé skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Jörðin Sandeyri sé staðsett beint fyrir framan og alveg upp við eldissvæðið sem nefnt sé Sandeyri í hinu útgefnu starfsleyfi, en í raun sé það eldissvæði í netlögum jarðar kæranda. Þá séu eldissvæðin við Arnarnes og Kirkjusund staðsett skammt frá jörðinni og muni valda skerðingu á útsýni, sem og sjón-, hljóð-, lyktar- og efnamengun. Nálægð jarðar kæranda við eldissvæðin geri það að verkum að hann verði fyrir áhrifum umfram aðra sem rýri verðmæti eignar hans. Aðeins sé aðgengi að Sandeyri með báti, en fái leyfið að standa verði ómögulegt fyrir kæranda að komast að jörð sinni.
Hið kærða starfsleyfi ógni siglingaöryggi þar sem öll eldissvæðin liggi alfarið innan hvíts ljósgeira frá Óshólavita í Óshlíð gegnt Bolungarvík. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál sé óheimilt að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum, en í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 1. desember 2022, í máli nr. 90/2022, hafi fiskeldiskvíar verið talin mannvirki. Samkvæmt alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu, svonefndri SOLAS-samþykkt, merki hvítur geiri örugga leið og endurspeglist það í Strandssvæðisskipulagi Vestfjarða 2022. Þar segi að það eigi „alltaf að vera hægt að sigla án nokkurra hindrana í hvítum ljósgeira hvar sem er í veröldinni.“ Óshólaviti hafi hvítan ljósgeisla samkvæmt vitaskrá Landhelgisgæslu Íslands og hafi Vegagerðin, sem beri ábyrgð á vitamálum, staðfest það í tölvupósti til kæranda 14. mars 2024. Meintar mótvægisaðgerðir sem minnst sé á í starfsleyfinu séu að mestu óframkvæmanlegar þar sem ekki sé hægt að hliðra til svæðum svo þau fari út fyrir hvíta ljósgeirann. Þar sem fyrirliggjandi áhættumöt tilgreini ekki að Óshólaviti hafi hvítan ljósgeira byggi hið kærða leyfi því á röngum forsendum. Þá sé leyfisveitingin í andstöðu við fyrirmæli í greinargerð strandsvæðisskipulags Vestfjarða um að breyta þurfi merkingum vegna staðsetningu sjókvía. Að lokum sé ljóst að skilyrði hins kærða starfsleyfis um að botnfestingar megi vera innan þess svæðis sem hvítur vitageiri afmarki stangist á við áðurgreinda 4. gr. laga um vitamál.
Í umsögn Landhelgisgæslunnar við gerð annars strandsvæðisskipulags hafi hún lagt til að siglingaleiðir verði aldrei nær sjókvíaeldissvæðum en 200 m og sé það því sérstaklega alvarlegt að öryggissvæði siglingaleiða sé svo miklu mun minna í hinu kærða leyfi heldur en Landhelgisgæslan kveði öruggt. Þá sé ljóst af skýru orðalagi 6. mgr. 10 gr. laga um vitamál að leita hefði þurft álits hins sérfróða stjórnvalds Samgöngustofu. Það hafi hins vegar ekki verið gert og verði því að fella leyfið úr gildi, sbr. fyrrnefndan úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2022.
Það svæði sem nefnt sé Sandeyri sé í hinu kærða leyfi innan netlaga jarðar kæranda, einna helst sökum dýptarreglu 2. kapítula rekabálks Jónsbókar, en samkvæmt reglunni afmarkist netlög við 20 möskva selnet. Í skýringarriti um Jónsbók eftir Pál Vídalín segi að ytri mörk netlaga séu við 6,8 m dýpi frá fjöru. Með hliðsjón af því og mælingum Landhelgisgæslunnar fari umrædd starfsemi fram á dýpi sem sé í netlögum jarðar kæranda.
Við málsmeðferð leyfisveitingarinnar hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin, en Skipulagsstofnun hafi í bréfi til kæranda, dags. 21. mars 2024, viðurkennt að netlög hafi ekki verið kortlögð, heldur hafi kortlögð strandlína af IS 50 grunni Landmælinga Íslands verið hliðrað út um 115 m við gerð strandsvæðisskipulagsins. Hafi Skipulagsstofnun talið það falla í hlut kæranda að leita til Landmælinga Íslands til að kanna hvort leyfisframkvæmd væri í netlögum jarðar hans.
Hin kærða leyfisveiting sé í ósamræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki, en það sé forsenda fyrir setningu kvía að byggingarleyfis sé aflað, sbr. 6. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Hafi þörf á því legið fyrir 1. desember 2022, þ.e. frá uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 90/2022. Enn fremur hafi Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun staðfest það með tilkynningu 13. febrúar 2024 að byggingarleyfi þyrfti vegna sjókvía. Ágallinn sé enn alvarlegri þar sem fyrirséð sé að við undirbúning þess byggingarleyfis þurfi sérstakt mat að fara fram skv. 13. gr. laga nr. 160/2010. Ákvæðið eigi við um vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar, en jörðin Sandeyri njóti slíkrar verndar þar sem leirur séu á svæðinu, sbr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sé það mat Náttúrufræðistofnunar Íslands að fara þurfi í vettvangskönnun ef taka eigi allan vafa af hvaða vistgerðir séu á svæðinu, en ekki sé til skráning um það. Fella verði leyfið úr gildi sér í lagi þar sem í skilmálum leyfisins sé ekki einu sinni kveðið á um endurskoðun þess m.t.t. niðurstöðu viðeigandi mats á vistkerfum.
Umþrætt starfsleyfi sé í andstöðu við lög nr. 80/2012 um menningarminjar þar sem hús kæranda, sem sé friðað og njóti verndar nefndra laga, hafi ekki verið skráð í matsskýrslu framkvæmdarinnar og áhrif á hús hans því ekki metin. Eins og gerð hafi verið grein fyrir muni kærandi ekki komast að eign sinni ef sjókvíaeldi verði á svæðinu við Sandeyri og því muni viðhald hússins verða ómögulegt og það eyðileggjast, en slíkt brjóti í bága við lög nr. 80/2012.
Áhættumat erfðablöndunar samkvæmt lögum nr. 71/2008 sé grundvallarþáttur í að tryggja matvælaöryggi og dýravernd, sem og forða umhverfistjónum, en matið fjalli um hve mikið af frjóum laxi megi ala í sjó þannig að strok hafi ekki neikvæð áhrif á villta laxastofna. Síðasta áhættumat erfðablöndunar hafi komið út árið 2020, en nýtt áhættumat hefði átt að liggja fyrir árið 2023, sbr. ákvæði 3. mgr. 6. gr. a. í lögum nr. 71/2008. Með hliðsjón af endurteknum slysasleppingum í sjókvíaeldi hljóti grundvallarforsenda fyrir veitingu frekari leyfa með tilheyrandi áhættu að vera sú að uppfært og viðeigandi áhættumat liggi fyrir. Sökum þessara breyttu forsendna sé umhverfismat áætlana á áhættumatinu að sama skapi ófullnægjandi.
Leyfishafi beri ábyrgð á stærstu slysasleppingu frjórra eldislaxa fyrr og síðar á Íslandi haustið 2023. Atvikið hafi að mati margra verið eitt versta umhverfisslys í sögu landsins. Slíkt frávik hefði átt að leiða til þess að Umhverfisstofnun hefði gætt enn frekar varúðar við leyfisveitinguna með hliðsjón af varúðarreglu umhverfisréttarins. Hlutverk stofnunarinnar sé að hafa eftirlit á sviði umhverfismála skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun og vernda þau gildi sem felist í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í greinargerð með hinu kærða starfsleyfi sé ekkert fjallað um hvernig tekið hafi verið mið af þeim nýju forsendum sem felist í umræddum slysasleppingum.
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafi Skipulagsstofnun borið að endurskoða matsskýrslu um umhverfisáhrif vegna verulegra breyttra forsendna frá fyrri ákvörðun. Því hafi Umhverfistofnun verið óheimilt að gefa út hið kærða leyfi skv. 13. gr. sömu laga, sbr. einnig 1. mgr. 25. gr. núgildandi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Áhættumat erfðablöndunar hafi grundvallaráhrif í mati á því hvort verulega breyttar forsendur séu fyrir hendi, enda geti alvarlegar slysasleppingar leitt til þess að villtir laxastofnar verði fyrir varanlegum og óafturkræfum afleiðingum.
Ljóst sé að byrjað hafi verið á öfugum enda við leyfisveitingar fyrir sjókvíaeldi og með því hafi öllum meginreglum umhverfisréttar verið fórnað. Við gerð strandsvæðisskipulags Vestfjarða hafi verið tekið mið af þeim leyfum sem hafi verið í gildi eða umsóknum sem væru langt komnar í leyfisveitingaferli. Með þessu hafi verið gengið á meginreglur umhverfisréttar sem lögfestar séu í II. kafla laga nr. 60/2013. Að auki séu leyfin haldin ágalla í ljósi laga nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð, en samkvæmt lögunum skuli sá sem valdi mengun taka til eftir sig og greiða kostnaðinn við þær aðgerðir. Leyfin kveði í engu mæli á um hvernig þeirri framkvæmd skuli háttað og hvaða áhrif slíkar aðstæður skuli hafa á leyfin.
Fyrir liggi að fjölmörg atriði sýni fram á ólögmæti starfseminnar en um sé að ræða svo alvarleg atriði að í reynd sé ómögulegt að bregðast við þeim með þeim hætti að lögmætt ástand skapist fyrir starfseminni á þeim svæðum sem hið kærða leyfi taki til. Þar af leiðandi sé leyfisveitingin contra legem og telji kærandi ótækt að snúa upp á lög og reglur þannig að leyfið sé veitt með fyrirvara um tiltekin atriði sem aldrei geti orðið að veruleika.
Málsrök Umhverfisstofnunar: Stofnunin tekur fram í umsögn sinni að forsaga málsins sé mun lengri en gefið sé til kynna í kæru og sé af þeim sökum gerð grein fyrir málavöxtum eins og þau horfi við stofnuninni. Bent sé m.a. á að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 18. nóvember 2022 í máli nr. 173/2021 hafi stofnunin tekið til skoðunar atriði er varði ákvæði laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála viðvíkjandi umsókn leyfishafa í þessu máli. Hafi stofnunin m.a. óskað eftir að hann myndi uppfæra vöktunaráætlun sína til samræmis við gæðaþætti sem Hafrannsóknastofnun hafi gefið út fyrir vatnshlot. Þá hafi stofnunin í kjölfar úrskurðar nefndarinnar frá 15. júní 2023 í máli nr. 3/2023 talið þörf á frekari upplýsingum frá leyfishafa og því beðið hann um mat á áhrifum losunar á ástand og umhverfismarkmið þeirra vatnshlota sem tengdust starfsemi hans. Áhrifamatið hafi þurft að svara þeirri spurningu hvort starfsemin gæti haft áhrif á umhverfismarkmið vatnshlotsins, þ.e. hvort losunin sé slík að hún hafi nægjanleg áhrif á einhvern gæðaþátt til að valda því að vatnshlotið falli um flokk.
Ekki sé dregið í efa að kærandi hafi lögvarða hagsmuni varðandi eldissvæðið að Sandeyri, þótt eldissvæðið sé utan netlaga jarðar hans. Hins vegar skorti hann lögvarða hagsmuni varðandi svæðin við Kirkjusund og Arnarnes þar sem töluverð fjarlægð sé frá jörðinni að þeim svæðum eða u.þ.b. 7–8,5 km.
Umhverfisstofnun telji hina kærðu ákvörðun fullnægja kröfum sem gerðar séu í lögum og reglugerðum. Um hafi verið að ræða breytingu á starfsleyfi leyfishafa, ekki útgáfu á nýju starfsleyfi, en í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 5. nóvember 2021 í máli nr. 43/2021 hafi verið gerður greinarmunur á því hvort um útgáfu nýs starfsleyfis væri að ræða eða endurskoðun og breytingu í skilningi laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Ákvæði 10. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál hafi verið uppfyllt þar sem Umhverfisstofnun hafi aflað umsagnar Samgöngustofu við meðferð málsins. Umhverfisstofnun hafi ekki getað hafnað útgáfu leyfisins á þeim grundvelli að eldissvæði væru í hvítum ljósgeira, enda mæli 4. gr. sömu laga fyrir um bann við því að byggja mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki í sjó, en hið kærða starfsleyfi feli ekki í sér heimild til að byggja mannvirki. Með vísan til laga nr. 160/2010 sé það á forræði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að skoða hvort sjókvíar skyggi á leiðarmerki frá sjónum og/eða villi fyrir sjófarendum og þá mögulega hafna útgáfu byggingarleyfis á grundvelli siglingaöryggis. Búið sé að gefa út áhættumat siglingaöryggis vegna þeirra eldissvæða sem starfsleyfið taki til, en Umhverfisstofnun hafi ekki auglýst leyfið fyrr en það mat hafi legið fyrir auk þess sem í leyfinu sé gerð sú krafa að eldisbúnaður skuli vera í samræmi við útgefið áhættumat. Þá hafi stofnunin fengið það staðfest frá siglingayfirvöldum að mögulegt sé að fara í mótvægisaðgerðir, t.d. þrengja geisla eða færa vita. Vegna tölvupóstsamskipta kæranda við Vegagerðina, sem vísað sé til í kæru, hafi Umhverfisstofnun óskað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um hvort niðurstaða áhættumats væri rétt. Hafi sú stofnun staðfest að svo væri og bent á að eldissvæðið við Sandeyri liggi utan áss siglingarleiðar og hefði því ekki áhrif á öryggi siglinga.
Augljóst sé af greinargerð Strandsvæðisskipulags Vestfjarða 2022 að tekið hafi verið mið af siglingum, skipaumferð og siglingaöryggi. Sýni það sig enn fremur með því að starfræktur hafi verið starfshópur um öryggi siglinga þar sem fulltrúar frá Skipulagsstofnun, Vegagerðinni og Samgöngustofu hafi setið. Ekkert í skipulaginu bendi til þess að gengið hafi verið út frá því að lög nr. 160/2010 ættu ekki við um sjókvíar. Umhverfisstofnun hafi upplýst Skipulagsstofnun um þá ákvörðun sína að breyta starfsleyfi leyfishafa, í samræmi við 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Við málsmeðferð leyfisveitingarinnar hafi Umhverfisstofnun gengið úr skugga um að eldissvæðið við Sandeyri væri innan skipulagsreitsins SN36 og sé leyfið í samræmi við umrætt skipulag. Stofnunin hafi einnig lagt sjálfstætt mat á það hvort eldissvæðið væri í netlögum jarðar kæranda og með hliðsjón af strandsvæðisskipulaginu og opinberum vefsjám hafi niðurstaðan verið sú að svo væri ekki. Starfsleyfið tilgreini að dýpi á eldissvæðinu við Sandeyri séu 40–120 m sem sé utan netlaga samkvæmt dýptarreglu Jónsbókar. Jafnframt hafi Umhverfisstofnun leitað umsagna Skipulagsstofnunar um hvort tillaga að breytingu á starfsleyfi leyfishafa væri í samræmi við skipulagið og hafi stofnunin talið að svo væri. Með vísan til þessa sé því hafnað að strandsvæðisskipulag Vestfjarða sé ófullnægjandi grundvöllur leyfisins.
Ekki sé gerð krafa um að byggingarleyfi liggi fyrir áður en til útgáfu starfsleyfis komi samkvæmt lögum nr. 7/1998 eða reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit. Enn fremur sé þá kröfu ekki að finna í lögum nr. 160/2010 og hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun staðfest þá túlkun. Á Norðurlöndunum sé starfsleyfi yfirleitt veitt á undan byggingarleyfi eins og komi fram í úttekt á vegum Norðurlandaráðsins. Kærandi bendi á að það gæti þurft að framkvæma mat vegna óvissu á áhrif framkvæmdarinnar á tiltekin vistkerfi og jarðminjar skv. 13. gr. laga nr. 160/2010, en það meti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við útgáfu byggingarleyfis. Ekki liggi fyrir gögn um að leirur og sjávarfitjar séu á svæðinu og hafi ekki verið talin ástæða til að fjalla um þetta atriði í umhverfismati framkvæmdarinnar. Samkvæmt gr. 5.1 í starfsleyfinu skuli vöktun fara fram samkvæmt vöktunaráætlun. Komi fram vísbendingar um að umfang fiskeldisins kunni að hafa áhrif á vistkerfi og lífríki í firðinum muni Umhverfisstofnun sjá til þess að gripið verði til mótvægisaðgerða.
Því sé hafnað að ákvörðunin hafi verið í andstöðu við lög nr. 80/2012 um menningarminjar, en við umhverfismat framkvæmdarinnar hafi verið leitað umsagnar Minjastofnunar Íslands sem hafi engar athugasemdir gert við framkvæmdina. Þá sé jafnframt vísað á bug þeirri fullyrðingu að kæranda verði ókleift að sigla að jörðinni, enda geri strandsvæðisskipulagið ráð fyrir siglingum á svæðinu þar sem það falli undir nýtingarflokkinn almenn nýting, þ.e. reitur A15, utanvert Ísafjarðardjúp.
Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. a. laga nr. 71/2008 um fiskeldi skulu starfsleyfi samrýmast staðfestu áhættumati erfðablöndunar, en skv. 3. mgr. sama ákvæðis gildi eldra áhættumat þar til nýtt hafi verið staðfest. Þar sem fyrir hafi legið staðfest áhættumat hafi Umhverfisstofnun talið rétt að byggja á því við útgáfu starfsleyfisins. Í því samhengi sé nefnt að það falli ekki í hlut stofnunarinnar að hafa eftirlit með stroki eldisfiska heldur sé það hlutverk Matvælastofnunar og Fiskistofu samkvæmt lögum nr. 71/2008. Það hefði verið brot á lögmætisreglu og málshraðareglu stjórnsýsluréttarins að bíða með afgreiðslu hins kærða leyfis þar til endurskoðað áhættumat myndi liggja fyrir. Þá sé því hafnað að þörf hafi verið á að leita umsagnar Skipulagsstofnunar um hvort þörf væri á endurskoðun matsskýrslu, sbr. 12. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, enda eigi 12. gr. við um framkvæmdir sem hefjist ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir.
Umhverfisstofnun hafi gætt að meginreglum umhverfisréttarins við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Varðandi tilvísun kæranda til laga nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð sé bent á að í gr. 1.9 í starfsleyfinu sé fjallað um umhverfisábyrgð og hvaða ráðstafanir leyfishafi eigi að grípa til verði umhverfistjón eða yfirvofandi hætta á slíku tjóni.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að langstærstur hluti kæru varði almannahagsmuni sem kæruaðild verði ekki byggð á, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í sameinuðum málum nr. 48, 23, 64 og 65/2019. Kærandi hafi ekki fasta búsetu í fasteigninni að Sandeyri sem ætluð sé til notkunar yfir sumartímann. Þá geti ekki staðist að sjókvíaeldissvæðið, sem staðsett sé um 500 m frá landi, geti með einhverju móti komið í veg fyrir að kærandi komist að fasteign sinni. Ekkert rökrétt samhengi sé milli fyrirhugaðrar starfsemi leyfishafa og ætlaðs tjóns á fasteigninni. Ótækt sé að hagsmunir kæranda séu teknir fram yfir hagsmuni leyfishafa, en bent sé á að leyfishafi verði fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni verði honum ekki heimilað að setja seiði í sjó við Sandeyri. Í því tilliti hafi jafnframt þýðingu sjónarmið um að komast hjá eyðileggingu verðmæta. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft leyfi fyrir sjókvíaeldi á svæðinu frá árinu 2012, eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign. Með vísan til alls þessa sé einsýnt að skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála teljist ekki fullnægt.
Leyfishafi telji réttmætar væntingar sínar af hinu kærða leyfi hafa þýðingu við úrlausn þess hvort krafa kæranda um ógildingu verði tekin til greina. Umhverfismat framkvæmdarinnar hafi byrjað í janúar 2017 og því hafi það tekið leyfishafa rúmlega sjö ár að fá hið kærða leyfi. Mikill kostnaður hafi fylgt því ferli sem leiði til þess að réttmætar væntingar hans fái meira vægi. Að öllu leyti hafi leyfishafi hagað málsmeðferðinni eftir gildandi lögum og reglum. Auk þess sé hann byrjaður að nýta leyfið, en í stjórnsýslurétti hafi verið lagt til grundvallar að í slíkum tilvikum þurfi meira að koma til svo að ákvörðun verði ógilt, jafnvel þó annmarki hafi verið á málsmeðferð. Hagsmunir og réttindi leyfishafa njóti verndar bæði eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða stjórnarskrárinnar. Kærandi sé ósammála hagsmunamati löggjafans í tengslum við sjókvíaeldi og þeirra fjölmörgu stofnana sem hafi haft aðkomu að leyfisveitingunni. Geti slík sjónarmið ekki leitt til ógildingar hins kærða leyfis. Framlögð gögn sýni fram á umtalsverða fjarlægð frá húsi kæranda í kvíar leyfishafa, eða um 1,97 km.
Fyrir liggi viðauki Vegagerðarinnar frá 10. apríl 2024 um áhættumat siglinga fyrir Sandeyri í Ísafjarðardjúpi þar sem áréttað sé að niðurstaða áhættumatsins sé óbreytt. Þar sé bent á að auglýst virkni Óshólavita sem geiravita í Vitaskrá Íslands sé ekki rétt og gerð verði breyting á auglýstri virkni þannig að hún verði í samræmi við notkun. Í áhættumatinu og greindum viðauka felist sú afdráttarlausa afstaða þriggja stofnana, sem hafi sérfræðiþekkingu á siglingaöryggi, um að því sé ekki ógnað með hinu kærða leyfi. Eigi málatilbúnaður kæranda að þessu leyti sér enga stoð.
Í Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða 2022 hafi verið kveðið á um mikilvægi þess að við útgáfu leyfa fyrir sjókvíaeldi verði ávallt unnið áhættumat siglinga og þyrftu niðurstöður áhættumats að skila sér í skilmála leyfis. Vakin sé athygli á því að hvorki sé mælt fyrir um slík skilyrði í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þrátt fyrir það hafi leyfishafi gengist undir þetta skilyrði og með því gengið lengra en lögbundin skilyrði fyrir útgáfu leyfis í fiskeldi geri áskilnað um. Hafnað sé þeim málatilbúnaði kæranda að leita hefði þurft umsagnar Samgöngustofu á grundvelli 6. mgr. 10. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál, enda liggi afstaða þeirrar stofnunar fyrir í nefndum áhættumötum, en auk þess hafi sú stofnun skilað umsögn um frummatsskýrslu leyfishafa. Með hliðsjón af því að afstaða Samgöngustofu liggi fyrir séu atvik þessa máls augljóslega frábrugðin atvikum í kærumáli nr. 90/2022.
Mat á ætluðum form- eða efnisgöllum strandsvæðisskipulagsáætlana heyri undir innviðaráðherra og verði ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 65/2023. Hafnað sé þeirri málsástæðu kæranda að strandsvæðisskipulag Vestfjarða tryggi ekki siglingaöryggi með fullnægjandi hætti, en á sama tíma sé dregin í efa þýðing þess atriðis við úrlausn málsins.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi 11. apríl 2024 veitt leyfishafa byggingarleyfi fyrir sjókvíum við Sandeyri, en með því sé fullnægt því skilyrði leyfisins að gildistaka þess sé háð því að leyfi til mannvirkjagerðar sé til staðar. Þá hafi kæranda bersýnilega ekki verið unnt að skila inn byggingarleyfi í samræmi við 6. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 540/2020 með umsókn sinni, enda hafi hin breytta stjórnsýsluframkvæmd Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíum tekið gildi tæpum fimm árum eftir að kærandi sótti um starfsleyfi.
Kærandi fullyrði að leirur séu á svæðinu er njóti verndar 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og telji því að framkvæma hefði þurft sérstakt mat á grundvelli 7. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þessu hafni leyfishafi og bendi á að um sé að ræða atriði sem komi til skoðunar við útgáfu byggingarleyfis. Jafnframt liggi ekkert fyrir sem staðreyni að leirur séu á svæðinu. Náttúrufræðistofnun Íslands hafi ekki getað staðfest tilvist þeirra auk þess sem sérfræðiálit Rorum ehf., sem leyfishafi hafi aflað í tilefni af byggingarleyfisumsókn sinni, hafi verið afdráttarlaust um að framangreindar fullyrðingar kæranda séu haldlausar.
Fyrir liggi að athugasemdir Minjastofnunar Íslands sem stofnunin hafi gert vegna gerðar strandsvæðisskipulags Vestfjarða hafi lotið að svæði utan netlaga og því bersýnilega ekki verið að vísa til ætlaðra minja á landi. Sé því hafnað þeim málatilbúnaði kæranda að við útgáfu hins kærða starfsleyfis hafi ekki verið fylgt tilmælum stofnunarinnar í greindum athugasemdum. Þá láti kærandi hjá því líða að vísa til þess að Skipulagsstofnun hafi leitað til Minjastofnunar við umhverfismat framkvæmdarinnar, en Minjastofnun hafi í umsögn sinni ekki gert athugasemdir við framkvæmdina. Sé það því rangt að umhverfismatið hafi verið haldið annmörkum varðandi menningarminjar.
Því sé hafnað sem röngu að möguleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar feli í sér annmarka sem leiða eigi til ógildingar, enda hafi framkvæmdin eðli máls samkvæmt farið í gegnum ítarlegt umhverfismat og fullnægt öðrum skilyrðum í því tilliti. Til hliðsjónar megi vísa til umfjöllunar í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 30/2019, þar sem nefndin hafi talið ljóst að löggjafinn hafi „beinlínis gert ráð fyrir því að fiskeldi geti haft áhrif á umhverfi sitt, en allt að einu heimilað að það sé leyft að teknu tilliti til þeirra takmarkana og skilyrða sem lög og reglugerðir áskilja.“
Það sé augljóst af 6. gr. a. laga nr. 71/2008 að gildandi áhættumat erfðablöndunar sé í fullu gildi þar til ráðherra hafi staðfest bindandi tillögu Hafrannsóknastofnunar að nýju áhættumati, sbr. 3. málsl. 4. mgr. greinarinnar. Löggjafinn hafi tekið afdráttarlausa afstöðu til þess hvaða þýðingu uppfært áhættumat hafi á efni þeirra rekstrarleyfa sem gefin hafi verið út, sbr. 4. málsl. 4. mgr. 6. gr. a. fyrrgreindra laga. Úrskurðarnefndin hafi margsinnis lagt niðurstöður áhættumats erfðablöndunar til grundvallar niðurstöðum sínum, sbr. úrskurð í máli nefndarinnar nr. 30/2019. Bent sé á að í hinu kærða leyfi komi fram að Umhverfisstofnunn sé einnig skylt, eða eftir atvikum heimilt, að endurskoða forsendur leyfisins ef breytingar verði á burðarþolsmati eða áhættumati Hafrannsóknastofnunar.
Þá sé því hafnað að Skipulagsstofnun hafi borið að endurskoða matsskýrslu leyfishafa vegna verulegra breyttra forsendna með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum gildi vegna umræddrar leyfisveitingar, sbr. bráðabirgðaákvæði 1 í lögum nr. 111/2021. Forsendur umhverfismatsins hafi ekki breyst verulega enda framkvæmdin nákvæmlega hin sama og farið hafi í gegnum umhverfismatið. Jafnframt liggi fyrir, svo sem rakið sé í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 111/2021, að 12. gr. laga nr. 106/2000 heimili ekki endurskoðun umhverfismats áður en tíu ár séu liðin, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017. Ítarlegt samráð varðandi framkvæmdina hafi átt sér stað á fjölmörgum stigum og sé því rangt að kærandi hafi hvorki haft tækifæri til að kynna sér umrædda framkvæmd með viðeigandi hætti né nýta sér lögbundinn andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru sjónarmið um lögvarða hagsmuni hans ítrekuð. Þar sem þar til bærar stofnanir hafi ekki framkvæmt rannsóknir á raunverulegum mörkum netlaga jarðarinnar Sandeyrar hafi kærandi sjálfur gert það. Samkvæmt þeim mælingum sé eldissvæðið við Sandeyri inni á jörðinni Sandeyri, þ.e. innan 115 m frá stórstraumsfjöru og örugglega innan netlaga jarðarinnar. Þá sé ljóst af kortasjá Landmælinga Íslands að það svæði við Sandeyri sem sjókvíaeldi sé heimilað samkvæmt strandsvæðisskipulagi sé ekki sama svæði og tilgreint sé í hinu kærða starfsleyfi. Öllum tölum í athugasemdum leyfishafa um fjarlægðir frá landi kæranda sé mótmælt sem röngum, enda byggi þær á röngum kortum, eins og kærandi hafi fært sönnur fyrir.
Ekki skipti máli hvort kærandi eigi fasta búsetu í húsinu að Sandeyri eða ekki. Vísað sé til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um það að sumarhús falli undir hugtakið heimili. Fyrirhugað sjókvíaeldi muni rýra verðmæti jarðarinnar. Fyrir liggi að atvinnufrelsi kæranda sé ógnað. Hann áformi að hefja ferðaþjónustu og hafi fengið tilboð frá útivistarfélögum um að heimila tjaldbúðir göngufólks á jörðinni. Því sé ekki andmælt að leyfishafi sem stórfyrirtæki geti notið verndar eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar. Slík réttindi séu með engu móti takmarkalaus, sér í lagi þegar gagnstæðir hagsmunir séu til staðar. Vegna sjónarmiða leyfishafa um réttmætar væntingar og fjárhagslega hagsmuni sé bent á að slíkt eigi ekki að hafa áhrif á lögfræðilegt mat úrskurðarnefndarinnar, en vakin sé athygli á að verði leyfið fellt úr gildi geti hann átt rétt á bótum frá íslenska ríkinu.
Því sé hafnað að lengd afgreiðslutíma starfsleyfisins auki réttmætar væntingar leyfishafa. Langur málsmeðferðartími leiði ekki til þess að stjórnsýsla sé vönduð, þvert á móti aukist líkur á því að ákvörðun byggi á úreltum gögnum eða breyttum forsendum, sbr. slysasleppingar leyfishafa.
Sérfræðiálit Rorum ehf. sem leyfishafi vísi til varðandi vistkerfi í formi sjávarfitja eða leira á svæðinu við Sandeyri sé meingallað, enda sé í því tilgreint hvar skráðar leirur og sjávarfitjar séu samkvæmt opinberu vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem samkvæmt stofnuninni sjálfri sé ónákvæmt, enda hafi engar vettvangsathuganir á Sandeyri farið fram við gerð kortsins. Sérfræðiálitsins hafi verið aflað einhliða af leyfishafa, sem dragi verulega úr gildi þess.
—–
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Með hinu kærða leyfi er leyfishafa veitt heimild til að stunda sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi í Ísafjarðardjúpi með 8.000 tonna hámarkslífmassa, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi, á eldissvæðum sem kennd eru við Kirkjusund, Sandeyri og Arnarnes. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir slíka hagsmuni að fá úr ágreiningi leyst.
Kærandi hefur haldið því fram að eldissvæðið sem kennt er við Sandeyri sé í netlögum landareignar hans. Í lögum er jafnan miðað við að netlög nái til hafsvæðis 60 faðma eða 115 metra frá stórstraumsfjörumáli landareignar, sbr. t.d. 2. tl. 3. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Af gögnum þessa máls er ljóst að lengra er í eldissvæðið. Hann hefur jafnframt vísað um afmörkun netlaga til svonefndrar dýptarreglu Jónsbókar, þ.e. fyrirmæla í 2. kap. rekabálks um einkarétt til veiði miðað við dýpt selneta. Verður einnig að telja ljóst að meira dýpi verður á leyfissvæðinu en miðað verður við samkvæmt þeirri reglu.
Til þeirra sjónarmiða annarra er þá að líta sem kærandi hefur vísað til. Hefur leyfishafi í andmælum bent á að frá húsinu á Sandeyri að eldiskvíum hans séu um 1,97 km. Með því er litið hjá því að heimilt getur verið að færa til fiskeldismannvirki innan eldissvæðis, sem getur aukið grenndaráhrif. Stysta fjarlægð frá jaðri eldissvæðisins í fjöru er u.þ.b. 450 m, en að húsi á jörðinni um 550 m. Með hliðsjón af því verður að telja að ekki sé hægt að útiloka að hin kærða starfsemi leyfishafa hafi áhrif á hagsmuni kæranda umfram aðra, s.s. vegna hávaða og sjónrænna áhrifa, og verður honum því játuð kæruaðild.
Lagagrundvöllur og málatilbúnaður
Í máli þessu er deilt um gildi þeirrar ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi þannig að starfsleyfið tæki til eldis á laxfiskum á þremur svæðum í Ísafjarðardjúpi, þ.e. svæðum við Arnarnes, Kirkjusund og Sandeyri, og mætti hámarkslífmassi á hverjum tíma ekki fara yfir 8.000 tonn, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi. Framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og er álit Skipulagsstofnunar vegna þess frá 28. janúar 2021. Að teknu tilliti til 1. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana verður í máli þessu að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 að því er varðar leyfisveitingu vegna framkvæmdar.
Samkvæmt 4. gr. b. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar til starfrækslu fiskeldisstöðva. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 7/1998 skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV, hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Fellur eldi sjávar- og ferskvatnslífvera undir viðauka II, sbr. 2. tl. hans, en skv. 7. gr. laganna gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir slíkan atvinnurekstur. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, sbr. 2. mgr. 6. gr. sömu laga, sem og ef rekstraraðili hyggur á breytingar á starfsemi, sbr. 14. gr. Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarna er ráðherra heimilt skv. 5. gr. að setja í reglugerð almenn ákvæðis, m.a. um starfsleyfi, og hefur ráðherra sett slíka reglugerð sem er nr. 55/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Við undirbúning og útgáfu starfsleyfis ber Umhverfisstofnun að gæta að þeim málsmeðferðar- og efnisreglum sem tilgreindar eru í lögunum og reglugerðinni sem og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, líkt og endranær. Í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er tiltekið að starfsleyfi skuli veitt uppfylli starfsemi þær kröfur sem til hennar séu gerðar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim að teknu tilliti til annarrar löggjafar. Önnur löggjöf sem getur m.a. komið til skoðunar eru lög nr. 71/2008, þar sem finna má fyrirmæli vegna rekstrarleyfa fyrir fiskeldis, lög nr. 80/2018 um skipulag haf- og strandsvæða og áðurnefnd lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tillaga að breyttu starfsleyfi auglýst, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Athugasemdir komu fram við drögin og var þeim svarað í greinargerð sem fylgdi leyfinu. Í sömu greinargerð var jafnframt fjallað um álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og um leyfisveitingu Matvælastofnunar. Að formi til var málsmeðferð Umhverfisstofnunar því í samræmi við lög nr. 7/1998, lög nr. 71/2008 og lög nr. 106/2000. Kærandi hefur þó gert athugasemdir við efni starfsleyfisins sem hann telur að sé í andstöðu við reglur er varða siglingaöryggi, auk þess sem leyfið geti ekki byggst á Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða 2022 þar sem það sé ófullnægjandi. Þá hafi skort byggingarleyfi á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrir útgáfu hins kærða starfsleyfis og ekki hafi verið gætt að lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Að lokum hafa verið færð fram sjónarmið þess efnis að breyttar forsendur séu fyrir hendi vegna áhættumats erfðablöndunar og fyrirliggjandi umhverfismats framkvæmdarinnar sem leiða eigi til þess að ekki verði á þeim byggt. Í þeirri umfjöllun sem á eftir fer verða þessi álitaefni auk annarra tekin til nánari skoðunar.
Skyldur leyfisveitanda við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem sætt hefur umhverfismati
Um útgáfu leyfa vegna matsskyldra framkvæmda fer skv. 13. gr. laga nr. 106/2000 og er það skilyrði fyrir útgáfu slíks leyfis að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þess. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal leyfisveitandi taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu er vikið frá niðurstöðu álitsins. Lögum samkvæmt þarf álit Skipulagsstofnunar að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald og er það forsenda þess að leyfisveitandi geti tekið ákvörðun um umsókn um leyfisveitingu. Skyldur leyfisveitanda ná því einnig til þess að kanna hvort einhverjir þeir annmarkar séu á áliti Skipulagsstofnunar að á því verði ekki byggt. Lýtur lögmætiseftirlit úrskurðarnefndarinnar að hinu sama, sem og því hvort leyfisveitandi hafi sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti.
Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar leyfishafa er að finna þá afstöðu stofnunarinnar að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt. Helstu neikvæðu áhrif eldisins telur stofnunin að felist í auknum áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og á villta laxastofna vegna erfðablöndunar. Auk þess lítur stofnunin svo á að eldið komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi í Ísafjarðardjúpi á þessa þætti. Í álitinu er með skipulegum hætti greint frá áhrifum framkvæmdarinnar á helstu umhverfisþætti. Lagði stofnunin til að við leyfisveitingar yrðu sett skilyrði hvað varðaði ástand sjávar, erfðablöndun við villta laxastofna, fisksjúkdóma og laxalús.
Fyrir liggur að í hinu kærða starfsleyfi voru sett ákvæði í samræmi við þau skilyrði sem Skipulagsstofnun tiltók í áliti sínu. Í greinargerð leyfisins er umfjöllun um valkosti í matsskýrslu framkvæmdaraðila og áliti Skipulagsstofnunar. Að virtri greinargerðinni í heild sinni þykir sýnt að Umhverfisstofnun hafi í samræmi við 13. gr. laga nr. 106/2000 kynnt sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar til grundvallar.
Áhættumat erfðablöndunar
Í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismat hinnar kærðu framkvæmdar er greint frá því að samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna sé talið að hægt sé að leyfa allt að 12.000 til 14.000 tonna eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi án þess að laxastofnar skaðist í þeim ám sem matið taki tillit til. Er og tekið fram að eldi leyfishafa samræmist áhættumatinu og með vísan til þess telji Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdar á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nái til verði óveruleg. Hins vegar telur stofnunin að áhrifin á villta laxastofna í öðrum ám sem geymi litla laxastofna geti verið nokkuð eða talsvert neikvæð.
Á því er byggt af hálfu kæranda að endurskoða þurfi umhverfismat hinnar heimiluðu framkvæmdar vegna verulegra breyttra forsendna með því að þúsundir eldislaxa sluppu haustið 2023 úr sjókvíum leyfishafa á eldissvæðinu Kvígindisdal í Patreksfirði. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 er endurskoðun umhverfismats háð því að framkvæmdir hefjist ekki innan 10 ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lá fyrir og verður því að hafna þessu. Um nánari skýringu á lagagreininni er vísað til úrskurðar nefndarinnar frá 13. nóvember 2017 í máli nr. 77/2017. Með vísan til sama atviks er því einnig haldið fram að ekki sé unnt að byggja á gildandi áhættumati erfðablöndunar þar sem forsendur þess séu rangar auk þess sem lögum samkvæmt hefði átt að uppfæra matið í síðasta lagi á árinu 2023.
Um áhættumat erfðablöndunar er fjallað í 6. gr. a. laga nr. 71/2008. Skal það byggt á bindandi tillögu Hafrannsóknastofnunar til ráðherra um það magn frjórra laxa, mælt í lífmassa, sem heimilt skal að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði. Endurskoða skal áhættumatið svo oft sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Það áhættumat sem nú er í gildi var staðfest af ráðherra 3. mars 2022, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 268/2022. Í lögum er ekki mælt fyrir um heimild til að fresta útgáfu rekstrarleyfis með vísan til þess að vænta megi staðfestingar nýs áhættumats erfðablöndunar. Það er þó ekki útilokað að stjórnvald geti frestað stjórnarathöfn ef beðið er nýrra eða tengdra ákvarðana annarra stjórnvalda en reipdráttur getur verið milli slíkrar málsmeðferðar og skyldu stjórnvalds til að taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það er nægilegt af þessu tilefni að benda á að í 6. gr. a. laga nr. 71/2008 er kveðið á um að eldra áhættumat sé í gildi þar til nýtt hafi verið staðfest. Komi til þess að nýtt áhættumat feli í sér lægri hámarksheimild er það bindandi fyrir hlutaðeigandi, að gefnum hæfilegum tíma til aðlögunar, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar.
Skipulagsskylda og siglingaöryggi
Í máli þessu hefur kærandi fært fram þau sjónarmið að ákvæði hins kærða leyfis séu í andstöðu við Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022 hvað varði fyrirmæli sem þar séu sett og varða öryggi siglinga. Er með þessu bæði vísað til greinargerðar þeirrar sem fylgdi skipulaginu og sérstakra ákvæða fyrir einstaka landnotkunarreiti. Jafnframt er vísað til ákvæða laga nr. 132/1999 um vitamál, m.a. um skyldu til að leita umsagnar Samgöngustofu um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, þ.m.t. fiskeldiskvía.
Til þess er fyrst að taka að í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun, dags. 15. júní 2017, kom fram að framkvæmdaraðili skyldi í matsskýrslu gera grein fyrir siglingaleiðum í Ísafjarðardjúpi og meta áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á siglingar og aðra sjótengda starfsemi. Í matsskýrslunni var slík umfjöllun takmörkuð og var sú skýring sett fram að engin haldbær gögn hafi fengist hjá opinberum aðilum um siglingaleiðir í Ísafjarðardjúpi. Álíta verður lýsingu á áhrifum ráðgerðrar framkvæmdar á siglingar og með því á siglingaöryggi hafi verið áfátt í matsskýrslunni í ljósi þess sem síðar kom fram. Var álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hinnar kærðu framkvæmdar sama marki brennt. Þar var þó rakið að áform leyfishafa muni þrengja að siglingaleiðum innan Ísafjarðardjúps. Í þeim kafla álitsins sem varðar siglingaleiðir kom fram að eldissvæðið við Arnarnes muni koma til með að trufla siglingar á þekktri siglingaleið inn að Ísafirði, en eldissvæðin Kirkjusund og Sandeyri væru ekki líkleg til að trufla siglingar. Var samantekið álitið á grundvelli þessa að starfsemi leyfishafa mundi hafa nokkuð neikvæð og afturkræf áhrif á siglingaleiðir.
Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022 var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2023 og var því skylt að gæta að skilmálum þess við undirbúning hins kærða leyfis, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2018, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008. Á skipulagsuppdrætti skipulagsins eru siglingaleiðir í Ísafjarðardjúpi markaðar með nýtingarreitnum SI6. Á slíkum reitum gilda þau almennu ákvæði að þar er ekki gert ráð fyrir mannvirkjum eða staðbundinni starfsemi/nýtingu sem hindra för skipa eða hefur áhrif á siglingaöryggi. Af greinargerð skipulagsins má ráða að við afmörkun nýtingarreitsins hafi auk upplýsinga um siglingaljós og -merki verið haft samráð við opinberar stofnanir og sérfræðinga jafnframt því að litið hafi verið til uppsafnaðra gagna um skipaferla frá vinnuhópi Norðurskautsráðsins um verndum hafsvæða (PAME) og leiðbeininga Kystverket, norskrar stofnunar á sviði siglingamála, um afmörkun svæða til siglinga (Farledsnormalen). Heimiluð starfsemi í Ísafjarðardjúpi samkvæmt hinu kærða leyfi er utan nýtingarreits SI6 en innan reita fyrir staðbundna nýtingu SN25, SN29 og SN36.
Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2018 er m.a. kveðið á um að við gerð strandsvæðisskipulags beri að taka mið af stjórnvaldsfyrirmælum, öðrum lögum og lögbundnum ákvörðunum um nýtingu og vernd haf- og strandsvæða þar sem tiltekin starfsemi er t.d. takmörkuð eða bönnuð. Svæðisráð strandsvæðisskipulags hagaði þannig störfum sínum að aflað var upplýsinga um eldissvæði samkvæmt öllum útgefnum rekstrarleyfum fiskeldis sem og þeim umsóknum um slík leyfi sem voru til meðferðar hjá Matvælastofnun. Voru þessi svæði færð inn á uppdrátt skipulagsins. Það gerðist að því virðist fyrst við auglýsingu tillögu að strandsvæðisskipulaginu sumarið 2022 að fram komu umsagnir frá Samgöngustofu og Vegagerðinni þar sem lýst var áhyggjum af siglingaöryggi vegna áforma um fiskeldi á tilteknum svæðum á Vestfjörðum. Varð þetta til þess að ráðherra samgöngumála skipaði starfshóp um öryggi siglinga sem var til ráðgjafar við vinnslu og frágang skipulagsins, en þegar var gert ráð fyrir því í 6. gr. laga nr. 88/2018 að þessar stofnanir væru svæðisráðum og Skipulagsstofnun til ráðgjafar við gerð strandsvæðisskipulags.
Í kafla 6.2. í greinargerð strandsvæðisskipulagsins kemur fram að í einhverjum tilvikum hafi ekki verið lagt fullnægjandi mat á áhrif sjókvíaeldis á siglingar og sé því mikilvægt að koma slíku áhrifamati í fastar skorður. Það sé mikilvægt „að í því ferli sem leiðir til útgáfu leyfa fyrir sjókvíaeldi sé ávallt unnið áhættumat siglinga“ og að niðurstaða slíks mats „[þurfi] að skila sér í leyfisskilmála“. Slíkir skilmálar geti varðað endanlega staðsetningu sjókvía, fyrirkomulag festinga, merkingar sjókvía og skermingu vinnulýsingar „svo eitthvað sé nefnt“. Nánar er rakið að „í einhverjum tilvikum kann fyrirhuguð staðsetning sjókvía að hafa þau áhrif að breyta þurfi merkingum. Í þeim tilvikum er mikilvægt að þær breytingar fari eftir viðurkenndu alþjóðlegu ferli og að engin starfsemi sé heimiluð á þeim hluta hafflatar sem merktur er sem örugg siglingaleið fyrr en búið er að breyta þeim merkingum.“
Um nýtingarreitinn SN29, Kirkjusund, kemur fram í greinargerðinni að hann sé að hluta innan hvíts ljósgeira Arnarnesvita sem hafi áhrif á fyrirkomulag búnaðar innan reitsins þar sem ekki megi sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðva en 50 m samkvæmt reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi. Settir eru skilmálar sem gilda fyrir nýtingarreitinn þess efnis að þar sem leyfissvæði fiskeldis liggi inni á hvítum ljósgeira vitaljósa skuli sjókvíaeldisstöð ekki vera innan hans eða nær mörkum ljósgeirans en 50 m. Botnfestingar fiskeldiskvía (tóg og akkeri) skuli vera á meira en 15 metra dýpi (miðað við sjókortanúll) þar sem þær séu innan þess svæðis sem hvítur vitageiri afmarki. Þessir skilmálar voru teknir upp í hið kærða leyfi.
Við undirbúning að útgáfu hins kærða leyfis lágu fyrir áhættumöt siglinga fyrir eldissvæði samkvæmt hinu kærða leyfi sem unnin voru af Samgöngustofu sem og Vegagerðinni og Landhelgisgæslu Íslands. Átti gerð áhættumatanna sér stoð í skilmálum strandsvæðisskipulagsins samkvæmt framanröktu auk þess að þátttaka Samgöngustofu var í góðu samræmi við þá skyldu sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 10. gr. laga um vitamál, þar sem segir að leita skuli umsagnar Samgöngustofu um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, svo sem fiskeldiskvía, mælitækja á sjó og veðurdufla.
Það var niðurstaða áhættumats fyrir Sandeyri frá mars 2023 að fiskeldissvæðið væri ekki í áhrifasvæði geiravita og að fiskeldissvæðið muni ekki hafa teljandi neikvæð áhrif á siglingaöryggi inn Djúpið núna og í náinni framtíð, en mjög takmörkuð umferð væri um svæðið og þá aðallega umferð lítilla báta sem sigli þar fram hjá. Var það mat stofnananna að 50 m varúðarsvæði, eins og það væri skilgreint í reglugerð um fiskeldi, væri nægjanlegt. Þá liggur fyrir minnisblað frá Vegagerðinni, dags. 10. apríl 2024, sem er viðauki áhættumats siglinga fyrir eldissvæðið við Sandeyri. Í því kemur fram að auglýst virkni Óshólavita sem geiravita í Vitaskrá Íslands sé ekki rétt og að stofnunin muni gera breytingar þar að lútandi til samræmis við þá notkun vitans sem fram komi í áhættumati siglinga fyrir Sandeyri, en þar er notkun hans tilgreind sem innsiglingarviti fyrir Út-Djúpið.
Í niðurstöðum áhættumats fyrir Arnarnes frá apríl 2023 kom fram að ekki væri ásættanlegt m.t.t. siglingaöryggis að leyfa fiskeldi á svæðinu eins og það væri skilgreint, enda væri stærstur hluti þess innan hvíts ljósgeira frá Æðeyjarvita. Nýting þess hluta svæðisins sem félli utan hvíta ljósgeirans ógni ekki siglingaöryggi og að áliti stofnananna var 100 m varúðarsvæði talið hæfilegt. Til samræmis við þetta var í hinu kærða leyfi tekið fram að jaðar sjókvíaeldisstöðvar á Arnarnesi skyldi ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en sem þessu næmi.
Í niðurstöðum fyrir Kirkjusund frá maí 2023 kom fram að ekki væri ásættanlegt m.t.t. siglingaöryggis að leyfa fiskeldi á svæðinu eins og það væri skilgreint, þar sem hluti þess væri innan hvíts ljósgeira frá Arnarnesvita. Nýting þess hluta svæðisins sem félli utan hvíta ljósgeirans ógni ekki siglingaöryggi og væri 50 m varúðarsvæði álitið hæfilegt. Var þessi afstaða í samræmi við þann fyrirvara sem gerður var í skilmálum strandsvæðisskipulagsins, sem tillit var tekið til við útgáfu hins kærða leyfis. Til samræmis við þetta var í hinu kærða leyfi tekið fram að jaðar sjókvíaeldisstöðvar á Kirkjusundi skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en sem þessu næmi.
Í áhættumötum fyrir Arnarnes og Kirkjusund var tiltekið að mikilvægt væri að kvíasvæði væru merkt eins og reglugerð nr. 540/2020 kvæði á um og að merkingar og ljós virkuðu sem skyldi a.m.k. 99% tímans, mælt yfir þriggja ára tímabil. Ef þeim reglum yrði fylgt teldist siglingaöryggi þeirra báta sem almennt sigldu um þetta svæði ekki ógnað. Þá kom að lokum fram að ekki hafi verið tekin afstaða til mótvægisaðgerða í þessari vinnu, en með því var vísað til mögulegs breytts fyrirkomulags merkinga, s.s. breytinga á hvítum ljósgeira og viðbótarlýsingu og merkingum við svæði, ákvæðis um lágmarksdýpi festinga o.s.frv., svo sem nánar var lýst í skýrslu áðurnefnds starfshóps um öryggi siglinga, dags. 23. nóvember 2022.
Að teknu tilliti til umfjöllunar um siglingaöryggi í greinargerð leyfisveitanda, sem byggði á strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði og áhættumati siglinga, sem síðar var til komið, verður undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar ekki talinn haldinn annmarka hvað snertir forsvaranlegt mat á siglingum og siglingaöryggi vegna hinnar heimiluðu starfsemi. Var þess ennfremur gætt af leyfisveitanda, svo sem nú var rakið, að niðurstaða áhættumats siglinga skilaði sér með í hið kærða leyfi.
Stjórn vatnamála
Umhverfisstofnun bar við útgáfu hins kærða starfsleyfis að fara að lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og tryggja að leyfið væri í samræmi við þá stefnumörkum um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna. Í Vatnaáætlun 2022–2027 er ekki fjallað um vatnshlotið Ísafjarðardjúp, vatnshlotsnúmer 101-1390-C, en áætlunin hefur aftur á móti að geyma þá almennu og bindandi stefnumörkun að öll vatnshlot á Íslandi eigi að vera í a.m.k. góðu ástandi nema að veitt hafi verið undanþága frá umhverfismarkmiðum og að ástand vatnshlots megi ekki versna, en sú stefnumörkun er jafnframt í samræmi við meginreglur laganna, sbr. einkum 12. gr. þeirra.
Í 6. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 eru sett sérstök ákvæði um burðarþol fjarða vegna fiskeldis í opnum sjókvíum, en þar segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þoli samkvæmt burðarþolsmati, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. b. í lögunum. Með slíku mati á burðarþoli er vísað til þols hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, sbr. 3. tl. 3. gr. laganna. Fyrir liggur slíkt burðarþolsmat fyrir Ísafjarðardjúp sem vísað er til af leyfisveitanda í greinargerð með hinu kærða leyfi.
Þessu til viðbótar er tekið fram í gr. 3.6. í hinu kærða starfsleyfi að leyfishafa beri að sjá til þess að vatnsgæðum í viðtaka hraki ekki vegna fiskeldis. Ekki megi valda breytingu á lífríki og ástandi eldissvæðanna í firðinum hvað varði líffræðilega og eðlisefnafræðilega gæðaþætti samkvæmt reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Þá áskilur Umhverfisstofnun sér rétt til að endurskoða leyfið, sbr. gr. 1.6., fari ástandi vatns hrakandi vegna rekstrarins og hætta sé að það falli niður um flokk eða hafi fallið niður um flokk skv. 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Í greinargerð þeirri sem fylgdi leyfinu er tekið fram að stofnunin hafi farið yfir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en til viðbótar óskað eftir mati leyfishafa á áhrifum starfseminnar á vatnshlotið Ísafjarðardjúp samkvæmt lögum um stjórn vatnamála og hafi slíkt mat borist stofnuninni. Umhverfisstofnun hafi farið yfir það mat og geri ekki athugasemdir við það, en tekið er auk þess fram að rekstraraðila sé skylt að vakta þá gæðaþætti sem geta orðið fyrir áhrifum og Hafrannsóknastofnun hafi gefið út leiðbeiningar um. Fjallað sé um þessa vöktun í vöktunaráætlun rekstraraðila og telji stofnunin hana fullnægja þeim kröfum.
Að teknu tilliti til framangreindra ákvæða í hinu kærða starfsleyfi, umfjöllun í greinargerð þess og fyrirliggjandi gagna verður að líta svo á að Umhverfisstofnun hafi með fullnægjandi hætti gætt að ákvæðum laga nr. 36/2011, þeirri stefnumörkun sem fram kemur í gildandi vatnaáætlun og fyrirmælum laga nr. 71/2008 um burðarþol eldissvæða.
Byggingarleyfi o.fl.
Kærandi máls þessa heldur því fram með vísan til 6. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 540/2020 að hið kærða leyfi sé háð annmarka með því að byggingarleyfi hafi ekki legið fyrir áður en það var gefið út. Samkvæmt lagastað þessum, sem varðar efni umsóknar um rekstrarleyfi, skal leyfi til mannvirkjagerðar, ef við á, fylgja umsókninni. Með vísan til þessa orðalags verður að hafna svo fortakslausum skilningi. Til þess er einnig að líta að nokkur tími getur liðið frá því að rekstrarleyfi og starfsleyfi fiskeldis eru gefin út þar til starfsemi hefst, en byggingarleyfi falla úr gildi hefjist framkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá útgáfu, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 160/2010.
Jafnframt vísar kærandi til 4. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Geti Vegagerðin látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu. Úrskurðarnefndin bendir á að fyrirmæli þessi varða byggingu mannvirkja og sýnist því eðlilegt að tekin verði afstaða til þeirra við undirbúning byggingarleyfis. Fyrir liggur að Húsnæðis og mannvirkjastofnun gefur út byggingarleyfi fyrir sjókvíum og tengdum mannvirkjum utan lögsagnarmarka sveitarfélaga, svo sem fram kemur í tilkynningu á vef þeirrar stofnunnar 13. febrúar 2024, sem vísað er til í máli þessu.
Að lokum verður ekki fallist á þau málsrök að hið kærða leyfi brjóti gegn lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Var enda í umhverfismati framkvæmdarinnar aflað umsagnar Minjastofnunar Íslands um fyrirhugaða framkvæmd og færði stofnunin rök fyrir því hvers vegna ekki væri gerð athugasemd við framkvæmdina en benti á skyldu framkvæmdaraðila skv. 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar til að stöðva framkvæmdir og upplýsa stofnunina um það ef fornminjar skyldu finnast. Þá verður heldur ekki fallist á að hið kærða leyfi girði fyrir möguleika kæranda á að sinna viðhaldi á friðlýstu húsi á jörð sinni, en sem fyrr greinir var það niðurstaða áhættumats siglinga fyrir eldissvæðið að Sandeyri að það hefði ekki teljandi neikvæð áhrif á siglingaöryggi.
—–
Að öllu framangreindu virtu verður hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 33/2024 þar sem kærð var ákvörðun Matvælastofnunar frá 29. febrúar 2024 um að veita leyfishafa rekstrarleyfi vegna starfsemi þeirrar sem um ræðir í þessu máli. Var það niðurstaða nefndarinnar að fella úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar að því er varðar heimild til að stunda sjókvíaeldi á eldissvæðunum sem kennd eru við Kirkjusund og Arnarnes. Af þessu tilefni vekur úrskurðarnefndin athygli á því að til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf bæði starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar, sbr. 1. mgr. 4. gr. b. laga nr. 71/2008.
Úrskurðarorð:
Hafnað er ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 21. febrúar 2024 um að breyta starfsleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi.