Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2006 Ólafsvík

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. maí 2006, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. S og S, eigenda hússins að Grundarbraut 1, Ólafsvík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.  Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar hinn 16. maí 2006 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í kærumálinu.  

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2006 var tekin til afgreiðslu beiðni um heimild til að byggja fyrstu hæð viðbyggingar hótelsins að Ólafsbraut 20.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Undir jökli ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir 1. hæðinni að viðbyggingu að Ólafsbraut 20 … Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.“  Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 16. maí 2006.

Framangreindri samþykkt skipulags- og byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem þeir telji að deiliskipulag það sem byggingarleyfið grundvallast á sé ólögmætt.  Kærendur hafi kært deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 1. desember 2005, þar sem þess hafi verið krafist að skipulagið yrði fellt úr gildi. 

Með vísan til rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar er þess krafist að úrskurðarnefndin athugi af sjálfsdáðum lögmæti byggingarleyfisins, m.a. hvað varði fjarlægð byggingarinnar frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis mótmælt og vísað til þess að það byggi á lögformlegu deiliskipulagi er hlotið hafi málsmeðferð í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Byggingarleyfishafa var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2007, veitt færi á að tjá sig um ógildingarkröfu kærenda og var frestur til þess veittur til 25. s.á.  Hefur byggingarleyfishafi ekki komið á framfæri til nefndarinnar sjónarmiðum sínum í þessum efnum.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið eigi stoð í deiliskipulagi sem þau telji ólögmætt og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu umrædds deiliskipulags og verður byggingarleyfið því ekki fellt úr gildi af þeim sökum. 

Af hálfu kærenda er því og haldið fram að hið kærða byggingarleyfi sé ólögmætt þar sem fjarlægð milli húsa, þ.e. Ólafsbrautar 20-22 og Grundarbrautar 1, sé ekki í samræmi við þágildandi ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa.  Samkvæmt ákvæðinu var heimilt að ákveða í skipulagi að víkja frá lágmarkskröfum um fjarlægð húss frá lóðarmörkum ásamt því að undanþágu var að finna um minnsta bil á milli húsa sem þó gat ekki verið minna en sex metrar þegar um nýjar byggingar var að ræða. 

Samkvæmt þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina er minnsta fjarlægð frá húsi kærenda að fyrirhugaðri viðbyggingu, frá horni til horns, um fjórir metrar, en byggingarnar standast ekki á.  Var þannig að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fullnægt skilyrðum reglugerðarinnar um bil milli húsa við útgáfu hins umdeilda leyfis þegar litið er til nálægðar fyrirhugaðrar byggingar við hús kærenda og verður byggingarleyfið af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðarinnar til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um að veita byggingarleyfi til byggingar fyrstu hæðar viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20-22 í Ólafsvík, Snæfellsbæ er felld úr gildi.  

 

                                     ____________________________________
                                                                    Hjalti Steinþórsson

 

  _______________________________                     _____________________________
             Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson