Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2003 Klapparstígur

Ár 2006, fimmtudaginn 27. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2003, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 um deiliskipulag staðgreinireits 1.182.0 sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, þar sem gert er ráð fyrir byggingarreit á lóðinni að Klapparstíg 40 að lóðarmörkum fasteignar kærenda. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. júní 2003, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra E og Ö, íbúar að Klapparstíg 42 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.182.0, sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, þar sem gert er ráð fyrir byggingarreit á lóðinni að Klapparstíg 40 að lóðarmörkum fasteignar kærenda.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 15. janúar 2003 var lögð fram tillaga ásamt greinargerð og skilmálum, að deiliskipulagi fyrir staðgreinireit 1.182.0. Var tillagan dags. 15. nóvember 2001, með breytingum frá 24. júní og 15. desember 2002.  Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna til kynningar og vísaði málinu til borgarráðs.

Að lokinni auglýsingu var tillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. maí 2003.  Lögð voru fram athugasemdabréf er borist höfðu, m.a. frá kærendum og  umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. apríl 2003.  Var erindið afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsfulltrúa.  Vísað til borgarráðs.“  Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu á funi hinn 20. maí 2003 og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. júlí 2003 að undangenginni tilkynningu Skipulagsstofnunar um að stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingarinnar.

Málsrök kærenda:  Til stuðnings kröfu sinni vísa kærendur til þess að undirbúningi og meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og heimiluð bygging á lóðinni að Klapparstíg 40, sem nái að lóðarmörkum fasteignar þeirra, raski hagsmunum kærenda.

Ekki hafi verið haft lögboðið samráð við kærendur við undirbúning umræddrar deiliskipulagstillögu, sem þó feli eingöngu í sér byggingaráform að lóðarmörkum þeirra.

Eina tillitið sem tekið hafi verið til framkominna athugasemda þeirra sé það að ekki skuli vera svalir á lóðarmörkum en í skipulaginu sé í engu getið um landnotkun og því liggi ekkert fyrir um hvaða starfsemi verði heimiluð í nýbyggingunni.  Hús kærenda, sem sé timburhús, standi 1,28 metra frá lóðamörkum þeim þar sem nú sé heimilað að byggja nærri 10 metra hátt hús.  Með þessu sé farið gegn reglum um fjarlægð frá lóðarmörkum og lágmarksfjarlægð milli húsa og með því gengið á öryggissjónarmið um brunavarnir.

Heimiluð bygging að lóðamörkum Klapparstígs 40 og fasteignar kærenda að Klapparstíg 42 sé verulega íþyngjandi gagnvart kærendum og byggingarmagn á fyrrnefndri lóð sé tvöfaldað með hinni kærðu ákvörðun og götumynd svæðisins raskað.

Á árinu 2000 hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála ógilt byggingarleyfi á lóðinni að Klapparstíg 40 og að mati kærenda sé hin kærða ákvörðun friðþægingargjörningur í kjölfar þess úrskurðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun sem staðfest var í borgarráði hinn 20. maí 2003 standi óröskuð.

Bent sé á að Borgarskipulag hafi sent öllum eigendum fasteigna á umræddum reit bréf, dags. 6. mars 2000, þar sem kynnt hafi verið að í bígerð væri að hefja vinnu við deiliskipulag á reitnum og aðilum gefinn kostur á að koma að ábendingum og athugasemdum.  Þá hafi í bréfi Borgarskipulags frá því í júlí 2000 verið upplýst að unnin hefðu verið drög að deiliskipulagi á reitnum sem lægju frammi í sýningarsal embættisins til kynningar.  Hafi vinna við gerð skipulagstillögunnar því verið í samræmi við lögbundna málsmeðferð að þessu leyti.

Byggingarmagn á lóðamörkum umræddra lóða sé minnkað verulega þar sem gert sé ráð fyrir að skúrar, sem þar séu fyrir, verði fjarlægðir.  Byggingarmagn lóðarinnar fari samkvæmt deiliskipulaginu úr 232 fermetrum í 480 fermetra og fyrirliggjandi tillaga að nýbyggingu á lóðinni sé í samræmi við byggðamynstur svæðisins.  Fyrirhuguð nýbygging sé til norðurs frá húsinu að Klapparstíg 42 og myndi skuggavarp á lóðina því ekki aukast gagnvart kærendum.

Ekki sé sérstaklega kveðið á um það í deiliskipulagstillögunni að í fyrirhugaðri nýbyggingu skuli vera verslun.  Þess beri hins vegar að geta að samkvæmt landnotkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 á þessu svæði í miðborg Reykjavíkur, þ.e. verslunarsvæði V-II.I, sé heimilt að reka verslun.  Sé því vart hægt að gera athugasemdir við að sótt verði um byggingu annars konar húsnæðis en íbúðarhúss á greindum stað.

Heimild í deiliskipulagi til breytinga á byggingamagni lóða hafi ekki verið gefin til „friðþægingar“ svo sem kærendur haldi fram.  Heimild til niðurrifs skúra og nýbyggingar á lóðinni að Klapparstíg 40 sé algerlega óháð öllum öðrum málum sem kunni að hafa verið til umfjöllunar varðandi umrædda lóð.  Það séu allt aðrar forsendur sem liggi að baki umdeildri ákvörðun, s.s. byggðamynstur, nýtingarhlutfall lóðar, landnotkun o.fl.

Í 75. gr., mgr. 75.4 í byggingarreglugerð sé kveðið á um að ákveða megi í deiliskipulagi að fjarlægð húss frá lóðamörkum geti verið minni en tilskilið sé í mgr. 75.1.   Jafnframt segi í mgr. 75.5 að ef bil milli húsa sé minna en skv. mgr. 75.3,  skuli veggir húsa uppfylla skilyrði um sérstaka brunahönnun.  Fyrirliggjandi deiliskipulag brjóti því ekki í bága við byggingarreglugerð.  Brunahönnun hins nýja húss verði að uppfylla öll skilyrði brunavarna við útgáfu byggingarleyfis.

Rétt sé hjá kærendum að það segir hvergi í deiliskipulaginu að í heimilaðri byggingu megi ekki vera kaffihús eða vínveitingastaður.  Heimild til að reka vínveitingahús á lóðinni verði þó ekki veitt nema að undangenginni grenndarkynningu og að uppfylltum skilyrðum.

Niðurstaða:  Í bókun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 2003 um hina kærða ákvörðun kemur fram að fyrir fundinum hafi legið umsögn skipulagsfulltrúa, dags 14. apríl 2003 og að auglýst skipulagstillaga sé samþykkt með þeim breytingum sem lagðar séu til í þeirri umsögn. 

Í lok umsagnarinnar, er úrskurðarnefndinni var afhent af borgaryfirvöldum, segir svo: „Enn fremur er lagt til að byggingareitur til nýbyggingar á lóðinni Klapparstígur 40 nái ekki að lóðamörkum og að einnar hæðar hluti hússins, sem nær að lóðamörkum að Klapparstíg 42, verði felldur niður.“   Hins vegar er byggingarreitur markaður að lóðarmörkum Klappastígs 42 fyrir byggingarhluta upp á eina hæð og kjallara á árituðum deiliskipulagsuppdrætti.

Vegna þessa misræmis var leitað skýringa hjá borgaryfirvöldum sem hafa upplýst að fyrir mistök hafi röng umsögn verið vistuð í skjalaskrá málsins og send úrskurðarnefndinni.  Í réttri umsögn skipulagsfulltrúa, dags 14. apríl 2003, sem vísað sé til í bókun skipulags- og byggingarnefndar sé lagt til að auglýst skipulagstillaga verði samþykkt óbreytt með því fororði að ekki sé heimilt að gera svalir á þaki einnar hæðar hluta hússins er snúi að lóðarmörkum Klapparstígs 42.  Fyrir liggur að Skipulagsstofnun móttók síðargreindu umsögnina hinn 24. júní 2003. 

Í málinu liggja því fyrir tvær undirritaðar umsagnir skipulagsfulltrúa, báðar dagsettar 14. apríl 2003, þar sem annars vegar er lagt til að heimila einnar hæðar byggingarhlutann en hins vegar að sá byggingarhluti verði felldur brott.  Úrskurðarnefndin telur að ekki verði fullyrt með óyggjandi hætti hvor umsögnin lá fyrir fundi skipulags- og byggingarnefndar þar sem umdeild skipulagstillaga var samþykkt með þeirri breytingu sem lögð var til í umsögn skipulagsfulltrúa.  Ekki verður heldur ráðið af bókun nefndarinnar hvert efni umsagnarinnar hafi verið og leikur því vafi á um það hvað falist hafi í hinni kærðu ákvörðun.  Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að ógilda hana vegna þess vafa sem uppi er um efni hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna verulegra tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2003 að samþykkja deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.182.0, sem afmarkast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg, er felld úr gildi.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 
_____________________________            ________________________________         
          Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir