Ár 2009, miðvikudaginn, 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2008, kæra á samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 23. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2008, er barst nefndinni 26. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, samþykkt bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa. Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2008.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir og rök: Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt. Áður hafði verið grenndarkynnt tillaga að breyttum þakhalla fyrirhugaðs húss á lóðinni en ekki hafði verið gengið frá breytingu á deiliskipulagi til samræmis við þau áform þegar byggingarleyfið var veitt. Skutu nágrannar ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi leyfið úr gildi, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.
Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 23. apríl 2008 var eftirfarandi fært til bókar: „Við afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfisumsókn lóðareiganda að Urðarmóa 6, var samþykkt byggingarleyfi í kjölfar grenndarkynningar, án þess að deiliskipulagi hafi áður verið breytt svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þess vegna má færa rök fyrir því að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Er því nauðsynlegt að samþykkja meðfylgjandi greinargerð að breyttu deiliskipulagi, þar sem heimilað er að þakhalli á lóðinni að Urðarmóa 6, verði 42°.“ Á fundi bæjarráðs 25. sama mánaðar var framangreint samþykkt. Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí 2008.
Skutu kærendur þeirri samþykkt bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra.
Fyrir liggi að húsið á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa hafi verið byggt í ósamræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála. Af 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 leiði að óheimilt sé að breyta deiliskipulaginu til samræmis við ólögmætar framkvæmdir nema að framkvæmdir verði a.m.k. fyrst fjarlægðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Beytingar á nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseigenda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessu sambandi. Breytingin sé því ólögmæt. Þá samræmist hin kærða breyting ekki reglum stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna. Ef samþykkja eigi slík frávik frá gildandi deiliskipulagi, sem breyting á þakhalla feli í sér, beri að endurskoða skilmála alls svæðisins í heild. Loks felist í hinni kærðu breytingu leyfi til byggingar tveggja hæða húss á lóðinni þvert gegn fyrirmælum deiliskipulags.
Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls. Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins verið breytt úr 14-25 í 42°. Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag. Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra lægri en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá. Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda. Ekki sé byggingin hækkuð eða henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda. Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum. Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Af hálfu lóðarhafa Urðarmóa 6 er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað.
———–
Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009. Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6. Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar bæjarráðs Árborgar frá 25. apríl 2008 um breytt deiliskipulag Hagalands vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa. Hafa kærendur vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða og eigi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Að mati þeirra sé húsið að Urðarmóa 6 í raun tveggja hæða, en það fari í bága við deiliskipulag og snerti hagsmuni kærenda sérstaklega.
Sveitarfélagið Árborg krefst frávísunar málsins með þeim rökum að kærendur fullnægi ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um aðild máls.
Eins og að framan er rakið felldi úrskurðarnefndin úr gildi fyrra byggingarleyfi fyrir húsinu að Urðarmóa 6, með úrskurði uppkveðnum 6. maí 2008, með vísan til þess að leyfið væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins. Taldi nefndin þá að kærendur ættu lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu sem væru þó ekki stórfelldir. Sætti málið flýtimeðferð þar sem krafa var uppi um stöðvun framkvæmda. Fór ekki fram skoðun á aðstæðum á vettvangi, enda var bygging húsa á svæðinu þá skemmra á veg komin en nú er og því síður hægt að átta sig á aðstæðum við skoðun.
Eftir skoðun á vettvangi og frekari öflun gagna tók nefndin til endurskoðunar fyrra mat sitt á hagsmunum kærenda. Verður ekki fallist á að lóðir kærenda séu aðliggjandi að lóðinni að Urðarmóa 6 enda er botnlangagata milli Urðarmóa 10 og Urðarmóa 6. Þá er húsið nr. 6 ekki í götulínu heldur standast á norðvesturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 10 og suðausturhorn lóðarinnar að Urðarmóa 6. Vegna afstöðu húsanna og innra fyrirkomulags þakrýmis yfir bílskúr að Urðarmóa 6 er komið í veg fyrir að séð verði út um glugga á því rými yfir á lóðir kærenda, en samkvæmt samþykkum uppdrætti er nærri tveggja metra bil frá geymslupalli í þakrýminu að gafli þeim sem umræddur gluggi er á.
Ekki verður heldur fallist á að húsið að Urðarmóa 6 geti talist tveggja hæða. Er miðrými þess að mestu opið upp í þakið en yfir herbergjum eru þakgrindur í öllum rýmum sem koma í veg fyrir nýtingu þeirra til íveru og virðast fullyrðingar kærenda um tveggja hæða hús vera á misskilningi byggðar.
Þá er í ljós leitt að mænishæð hússins að Urðarmóa 6 er rúmum metra minni en heimilt væri samkvæmt skilmálum upphaflegs deiliskipulags svæðisins. Jafnframt er óumdeilt að húsið er innan byggingarreits og veldur það því hvorki skuggavarpi ná skerðingu á útsýni umfram það sem búast mátti við samkvæmt skipulaginu. Loks er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar eftir skoðun á vettvangi að útlit hússins að Urðarmóa 6 sé ekki svo frábrugðið útliti annarra húsa á svæðinu að máli skipti, sérstaklega þegar litið er til þess að á svæðinu eru hús ólíkrar gerðar sem sum eru verulega frábrugðin þeirri húsagerð sem algengust er þar. Nægir þar að nefna húsið að Urðarmóa 3, sem er í næsta nágrenni kærenda.
Að öllu þessu virtu, og með hliðsjón af því að hin umdeilda breyting tekur aðeins til þakhalla húss á einni lóð, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærendur hafi ekki sýnt fram á að hin kærða breyting á deiliskipulagi raski verulegum og einstaklegum hagsmunum þeirra sem er skilyrði kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Málsástæða þeirra um að óheimilt hafi verið að samþykkja hina umdeildu skipulagsbreytingu vegna ákvæðis 4. mgr. 56. gr. laganna lýtur að gæslu almannahagsmuna og veitir kærendum ein og sér ekki kæruaðild. Verður málinu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts kærenda.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson