Ár 2005, fimmtudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2005, kæra eiganda bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005 á umsókn kæranda um viðbyggingu og breytingu á notkun greinds bakhúss úr iðnaðarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. apríl 2005, er barst nefndinni hinn 26. apríl sama ár, kærir J, eigandi um 60 fermetra bakhúss að Tjarnarbraut 29, Hafnarfirði, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 29. mars 2005 að synja umsókn kæranda um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við umrætt bakhús og að breyta notkun þess úr iðnaðarhúsnæði í íbúð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Húsið að Tjarnarbraut 29 er þriggja íbúða hús og á lóðinni er tæplega 60 fermetra bakhús sem mun hafa verið byggt á árinu 1958 sem geymsluskúr. Lóðin er 401 fermetri að flatarmáli. Bakhúsið er sérstakur eignarhluti samkvæmt fasteignamatsskrá og hefur verið nýtt undir prentsmiðju um áratuga skeið.
Kærandi, sem á íbúð í húsinu að Tjarnarbraut 29, mun hafa keypt umrætt bakhús árið 2000 er starfsemi, sem þar var fyrir, var hætt. Hinn 13. maí 2003 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fyrirspurn kæranda um hvort heimilað yrði að breyta notkun bakhússins úr iðnaðarhúsi í íbúð. Erindinu fylgdi uppdráttur og samþykki meðeiganda að lóð. Var erindinu vísað til bæjarskipulags þar sem um var að ræða fyrirspurn um breytta notkun húsnæðisins.
Erindi kæranda var tekið fyrir á fundum skipulags- og byggingarráðs hinn 20. maí og 3. júní 2003 og sú ákvörðun tekin að fela bæjarskipulagi að grenndarkynna erindið þegar byggingarleyfisumsókn lægi fyrir, með því fororði að húsnæðið uppfyllti skilyrði byggingarreglugerðar um íbúðir.
Erindi kæranda var síðan grenndarkynnt með bréfi, dags. 24. september 2003, í kjölfar framlagningar aðaluppdráttar vegna breyttrar notkunar og gerð anddyris við umrætt bakhús, dags. 6. september s.á., og bárust athugasemdir frá tveimur nágrönnum kæranda þar sem kynntri breytingu notkunar var mótmælt.
Erindið var loks tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 4. nóvember 2003 og það afgreitt með svofelldri bókun: „Tekin fyrir að nýju fyrirspurn Jóhanns Tryggva Jónssonar dags. 13.05.03 um að breyta iðnaðarhúsnæði mhl. 02 í íbúð. Erindið var í grenndarkynningu og athugasemdir bárust. Á grundvelli athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá 1957 um að leyfi hafi verið veitt fyrir geymsluskúr telur skipulags- og byggingarráð ekki rétt að heimila breytingu yfir í íbúðarhús og eðlilegra sé að nýta húsið sem geymslu eða bílskúr og synjar erindinu eins og það liggur fyrir.”
Kærandi í máli þessu kærði þessa afstöðu skipulags- og byggingarráðs til úrskurðarnefndarinnar sem vísað kærunni frá með úrskurði uppkveðnum hinn 23. nóvember 2004, þar sem umdeild bókun skipulags- og byggingarráðs í því máli fól í sér afstöðu til fyrirspurnar en ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í kjölfar úrskurðarins samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi og skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna byggingarleyfisumsókn kæranda, um að reisa um fjögurra fermetra anddyri við suðurhlið bakhússins að Tjarnarbraut 29 og um breytta notkun hússins í íbúð. Lauk grenndarkynningunni hinn 11. mars 2005 og bárust athugasemdir við fyrirhugaða breytingu frá nágrönnum sem gert höfðu athugasemdir við fyrri grenndarkynningu á árinu 2003.
Athugasemdirnar lutu að því að húsið að Tjarnarbraut 29 hafi á sínum tíma verið tveggja íbúða hús, en grafið hafi verið frá geymslukjallara hússins og honum breytt í íbúð. Hafi umrætt bakhús verið reist sem geymsluskúr sem síðar hafi verið samþykktur sem iðnaðarhúsnæði. Austurhluti umræddrar lóðar nái upp undir glugga bakhússins og suðurgluggar njóti lítillar sólar en húsið hafi ekki leyfi til iðnaðarstarfsemi í dag. Fjöldi bílastæða fyrir umrætt hús sé ónógur og bil milli húsa sé ekki í samræmi við 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og standist bakhúsið engan veginn reglur um einbýlishús.
Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar tók málið til afgreiðslu hinn 29. mars 2005 og hafnaði umræddu byggingarleyfi með vísan til framkominna athugasemda og fyrirliggjandi gagna frá árinu 1957 um að umrætt bakhús hafi verið samþykkt sem geymsluskúr. Hefur kærandi nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að bakhúsið að Tjarnarbraut 29 sé þinglýst sem iðnaðarhúsnæði og skráð sem sérstök fasteign.
Kærandi bendir á að framkomnar athugasemdir um ónóg bílastæði, lóðarskort bakhússins og áhrif á götumynd, sem fram hafi komið við fyrri grenndarkynningu, eigi ekki við rök að styðjast.
Við endurbætur á Tjarnarbraut á árinu 2001 hafi gleymst að gera ráð fyrir stæðum fyrir íbúðarhúsið að Tjarnarbraut 29, sem sé þriggja íbúða hús. Vegna athugasemda íbúa hússins hafi skipulagi götunnar verið breytt og komið fyrir þremur bílastæðum framan við húsið. Fyrir sé aðkeyrsla að bakhúsi lóðarinnar sem yrði bílastæði fyrir bakhúsið ef breytt yrði í íbúð. Bendir kærandi á að eignaskiptasamningur vegna fasteignarinnar að Tjarnarbraut 29 frá árinu 1985 beri með sér að bakhúsið eigi 14,65% hlut í heildarlóð að Tjarnarbraut 29. Umrædd bygging sé bakhús og hefði umsótt breyting ekki áhrif á götumynd Tjarnarbrautar.
Loks lýsir kærandi sig ósáttan við þá forsendu fyrir afgreiðslu erindis hans að leyfi fyrir umræddu húsi frá árinu 1957 hafi miðað við nýtingu þess sem geymsluskúrs. Ljóst sé að um sé að ræða skráð iðnaðarhúsnæði sem hafi verið notað sem slíkt í áratugi. Telja verði að bakhúsið henti betur til íbúðarnota en til iðnaðarstarfsemi, enda standi húsið inni á íbúðarlóð.
Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Í fyrirliggjandi bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar í fyrra máli um sama efni, er sent var kæranda í tilefni af bréfi hans, dags. 27. nóvember 2003, kemur fram það álit að umdeilt húsnæði, sem leyfi hafi verið veitt fyrir sem geymsluskúr á árinu 1957, henti ekki til íbúðar og aðeins verði fyrir hendi þrjú bílastæði fyrir þær fjórar íbúðir sem á lóðinni yrðu. Nýting lóðarinnar fyrir fjórar íbúðir samræmist ekki heildarskipulagi götunnar en bent hafi verið á hentugri nýtingu húsnæðisins svo sem undir bílskúr.
Í minnispunktum starfsmanns umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar frá 17. mars 2005, þar sem fjallað er um framkomnar athugasemdir við grenndarkynningu umdeildrar byggingarleyfisumsóknar, er tekið undir framkomnar athugasemdir hvað varðar nálægð milli húsa og brunavarnir og talið að ekki væri fullnægt kröfum um bílastæði. Fyrirhuguð íbúð nyti lítillar birtu þar sem hluti bakhússins væri niðurgrafinn og vegna skuggavarps frá íbúðarhúsi því sem fyrir væri á lóðinni. Þá skírskota bæjaryfirvöld til þess að húsin að Tjarnarbraut 21-27 séu einbýlis- eða tvíbýlishús og að umrætt bakhús hafi aðeins tvær gluggahliðar og sé hátt barð fyrir framan aðra þeirra. Ef fyrirhuguð viðbygging yrði reist við skúrinn yrði fjarlægð milli húsa á lóðinni um 2,2 metrar.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin og starfsmenn hennar kynntu sér óformlega staðhætti á vettvangi hinn 23. júní 2005.
Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði skipulags- og byggingaráð Hafnarfjarðar umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu um fjögurra fermetra anddyris við 60 fermetra bakhús að Tjarnarbraut 29 og breytingu á notkun hússins í íbúð. Fundargerð ráðsins, þar sem nefnd ákvörðun var færð til bókar, var á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 5. apríl 2005 en ekki er að finna í bókun þess fundar að afstaða hafi verið tekin til byggingarleyfisumsóknar kæranda, hvorki með sérstakri bókun um erindið né með bókun afstöðu til efnis umræddrar fundargerðar skipulags- og byggingarráðs.
Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna. Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra.
Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar hefur ekki verið leitt í ljós að fyrir liggi samþykkt, staðfest af ráðherra, sem heimilar skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaafgreiðslu byggingarleyfisumsókna og verður því enn að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. sjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem á skortir að sveitarstjórn hafi tekið afstöðu til umsóknar kæranda.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
_______________________________
Ásgeir Magnússon
__________________________ _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ingibjörg Ingvadóttir