Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2025 Breiðholtsbraut

Árið 2025, þriðjudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2025 um að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. febrúar 2025, kærir Íþróttafélag Reykjavíkur þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar s.á. að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2025.

Málavextir: Árið 2016 gerði Reykjavíkurborg og kærandi samkomulag þar sem meðal annars kom fram að unnið yrði að því í sameiningu að finna auglýsingaskilti, sem staðsett var á mótum Breiðholtsbrautar og Skógarsels, nýjan stað. Með umsókn, dags. 31. mars 2021, óskaði kærandi eftir leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti í stað flettiskiltis ásamt því að skoðaður yrði möguleiki á að hækka skiltið eða koma því fyrir við mót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka. Var umsókninni synjað á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem meðal annars hefði legið fyrir neikvæð afstaða Vegagerðarinnar sem veghaldara. Var synjun byggingarfulltrúa kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu kæranda um ógildingu með úrskurði 29. október 2021. Þrátt fyrir framangreind málalok var skiltinu breytt úr flettiskilti í stafrænt skilti.

Með fyrirspurn til skipulagsfulltrúa, dags. 2. október 2023, óskaði kærandi eftir samtali um staðsetningu og sýnileika hins umdeilda skiltis þar sem sýnileiki væri orðinn takmarkaður vegna trjágróðurs og ylli félaginu tekjutapi þar sem leigutaki skiltisins væri ekki tilbúinn til að greiða fyrir leigu á því. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. janúar 2024, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við að kærandi léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila skilti innan lóðar, sambærilegu því sem væri til staðar við Breiðholtsbraut.

Deild afnota og eftirlits hjá Reykjavíkurborg bárust í desember 2024 ábendingar um óþægindi vegna ljósmengunar af hinu umdeilda skilti. Með tölvupósti 13. desember 2024 var óskað eftir að kærandi léti framkvæma faglega ljósmælingu til að stilla skiltið og vísað þar um til samþykktar Reykjavíkurborgar um skilti þar sem í kafla 3.3. væri kveðið á um hámarksbirtustig skilta og mestan leyfilegan ljóma með hliðsjón af staðsetningu. Þá kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefði kærandi fengið leyfi „á sínum tíma“ til að reisa þarna flettiskilti en nú væri þarna kominn LED skjár. Var óskað upplýsinga um hvort skiltið væri á forræði kæranda. Með svarpósti sama dag upplýsti kærandi að búið væri að lækka birtustig skiltisins.

Byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 22. janúar 2025, þar sem fram kom að tekin hefði verið til skoðunar uppsetning og notkun LED skilta á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels sem væru án útgefins byggingarleyfis. Við skoðun hefði komið í ljós að tveimur flettiskiltum hefði verið skipt út fyrir LED skilti. Um væri að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Væri öll notkun umræddra LED skilta stöðvuð með vísan til 55. gr. laga 160/2010 og gr. 2.9.1. byggingarreglugerðar og slökkva skyldi á skiltunum. Yrði fyrirmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010.

Málsrök kæranda: Bent er á að hin umdeildu skilti hafi staðið þarna árum saman. Fyrst hafi verið um flettiskilti að ræða en þau hafi verið uppfærð og gerð stafræn. Heimild fyrir slíkri uppfærslu sé í gr. 4.8. í samþykkt Reykjavíkurborgar um skilti frá maí 2020. Í framhaldi af samkomulagi Íþróttafélags Reykjavíkur og borgarinnar frá maí 2016 hafi borgin ætlað að finna skiltunum nýjan stað þar sem trjágróður á núverandi stað hafi verið farinn að skerða sýnileika þeirra. Auglýsingatekjur af skiltunum séu mikilvæg tekjulind fyrir barna- og unglingastarf félagsins. Síðla árs 2023 hafi samkomulaginu verið fylgt eftir af hálfu kæranda og óskað eftir að skoðaðar yrðu leiðir til að auka sýnileika skiltanna. Í bréfi, dags. 18. janúar 2024, frá skipulagsfulltrúa hafi komið fram að þegar væri heimild fyrir skiltunum í deiliskipulagi og hvergi nefnt að það vantaði leyfi fyrir því. Niðurstaðan hefði verið að ekki væru gerðar athugasemdir við að kærandi léti vinna að breytingu á deiliskipulagi til að heimila færslu á skiltunum innan lóðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að skiltin séu byggingarleyfisskyld samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laganna. Þá sé einnig fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 komi fram það markmið að móta skuli stefnu um auglýsinga- og upplýsingaskilti í borgarlandi. Samþykkt um skilti í Reykjavík hafi verið samþykkt á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. s.m. Markmið samþykktarinnar sé meðal annars að auðvelda afgreiðslu byggingarleyfisumsókna, sbr. 3. tl. 1.2. kafla samþykktarinnar. Sú heimild sem vísað sé til í kæru og finna megi í kafla 4.8. fyrir ný stafræn skilti í stað eldri flettiskilta hafi ekki áhrif á kröfu laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar um byggingarleyfi. Sækja þurfi um byggingarleyfi þegar setja eigi upp ný stafræn auglýsingaskilti í stað flettiskilta. Þetta hafi kærandi gert á sínum tíma og verið hafnað um leyfi vegna synjunar Vegagerðarinnar með vísan til 90. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Um sé að ræða ný stór stafræn skilti sem falli undir ákvæði laga nr. 160/2010 og séu háð leyfi frá byggingarfulltrúa samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna. Fyrir liggi að skiltin hafi verið sett upp án byggingarleyfis og að kæranda hafi verið synjað um leyfi fyrir þeim. Úrskurðarnefndin hafi staðfest synjun um byggingarleyfi með úrskurði 29. október 2021, í máli nr. 142/2021. Byggingarfulltrúa hafi því verið heimilt á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 að gera kröfu um að slökkt yrði á skiltunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 falla skilti eins og hér um ræðir undir gildissvið laganna. Þá er fjallað um kröfur til skilta í kafla 2.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segir að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem séu yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Þá skal stærð og staðsetning skilta vera í samræmi við gildandi skipulag.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 eru hin umræddu skilti staðsett á skilgreindu svæði fyrir íbúðabyggð, ÍB43. Þar er í gildi deiliskipulag Suður Mjóddar, þar sem gert er ráð fyrir flettiskilti á þeim stað er skiltin eru staðsett. Skiltin eru einnig staðsett í lítilli fjarlægð frá Breiðholtsbraut sem er stofnbraut. Í aðalskipulagi kemur fram það markmið að móta skuli stefnu um auglýsinga- og upplýsingaskilti í borgarlandinu. Samþykkt um skilti í Reykjavík var samþykkt á fundi borgarráðs 7. maí 2020 og birt á vef borgarinnar 11. maí s.á. Í gr. 4.2.7. samþykktarinnar er fjallað um stafræn skilti á íbúðarsvæðum og samfélagsþjónustu með landnotkun Íb og S. Þar kemur fram að stafræn skilti með eða án hreyfimynda séu óheimil, þ. á m. þjónustuskilti eða veggspjöld sem vísi út á götu með nafni fyrirtækis eða auglýsingum. Í gr. 4.8. er fjallað um skilti innan landnotkunar stofn- og tengibrauta og þar segir að leyfilegt sé að setja upp ný stafræn auglýsingaskilti við stofn- og tengibrautir, sem séu stærri en 10 m2 ef að fyrir sé sambærilegt flettiskilti eða ef deiliskipulag heimili slíkt skilti. Þá er í gr. 6.2. í samþykkt um skilti fjallað um leyfisveitingar fyrir skiltum og auglýsingum. Þar kemur fram að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir skiltum og auglýsingum ef umsókn uppfylli ákvæði samþykktarinnar og gildandi skipulags. Þá kemur einnig fram að sé skilti breytt, t.d. úr stafrænu skilti í aðra gerð, þá þurfi að sækja um nýtt byggingarleyfi. Verður samþykkt Reykjavíkur­borgar um skilti ekki skilin á annan veg en að þrátt fyrir að í tilteknum tilfellum sé heimilt að uppfæra eldri skilti í stafræn skilti, sbr. t.d. gr. 4.8. í samþykktinni, þá verði slík breyting ekki framkvæmd nema að fengnu nýju byggingarleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægður.

Í máli þessu er um að ræða stafrænt skilti sem fellur undir ákvæði laga nr. 160/2010 og er háð leyfi frá byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. laganna auk nánar útfærðum reglum sem finna má í samþykkt um skilti í Reykjavík. Fyrir liggur að tvö stafræn skilti voru sett upp í stað eldri flettiskilta eftir að kæranda hafði verið synjað um byggingarleyfi fyrir því. Var byggingarfulltrúa því heimilt á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 að gera kröfu um að slökkt yrði á skiltunum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kröfum kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. janúar 2025 um að slökkva skuli á LED skiltum á horni Breiðholtsbrautar og Skógarsels.