Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 34/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 3. apríl 2007 um að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. apríl 2007, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 3. apríl 2007 að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.
Er þess krafist að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt. Ennfremur er gerð krafa um að úrskurðað verði að leyfi til stækkunar bílskúrs skuli veitt á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Málavextir: Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús ásamt bílskúr. Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. janúar 2007 var tekið fyrir erindi kæranda um stækkun bílageymslu til suðurs þannig að fjarlægð frá lóðarmörkum yrði einn metri. Samþykkt var að grenndarkynna málið og var það kynnt lóðarhöfum að Löngubrekku 1, 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63 sem breytt deiliskipulag skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Athugasemdir bárust frá lóðarhöfum að Álfhólsvegi 61 en sú lóð liggur að lóð kæranda.
Hinn 6. mars 2007 var erindið lagt fram að nýju á fundi skipulagsnefndar, ásamt framkomnum athugasemdum, afgreiðslu frestað og bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn um innsendar athugasemdir.
Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. mars s.á. var erindið tekið fyrir á ný ásamt umsögn bæjarskipulags þar sem lagt var til að tillaga að stækkun bílageymslu yrði samþykkt. Var afgreiðslu málsins frestað. Hinn 3. apríl 2007 var erindið enn á ný lagt fyrir í skipulagsnefnd og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Skipulagsnefnd telur að núverandi bílgeymsla 80,4 m² sé hæfileg að stærð miðað við aðstæður og hafnar erindi um stækkun bílgeymslu um 15 m² á grundvelli athugasemda.“ Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 4. apríl s.á.
Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsnefndar, dags. 3. apríl 2007, til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umsókn hans um stækkun bílskúrs, dags. í febrúar 2006, hafi verið hafnað með vísan til 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sem nú hafi verið breytt. Í ljósi þess, og að höfðu samráði við skipulagsstjóra Kópavogs, hafi aftur verið sótt um stækkun bílskúrs. Bæjarskipulag Kópavogs hafi lagt til að tillagan yrði samþykkt óbreytt en engu að síður hafi skipulagsnefnd hafnað umsókn kæranda. Bent sé á að allir lóðarhafar á svæðinu hafi fengið að byggja bílskúr að lóðamörkum við Álfhólsveg og gæta beri jafnræðis.
Málsrök Kópavogsbæjar: Þess er aðallega krafist að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum verði hafnað.
Byggingarnefnd beri að afgreiða mál að lokinni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsnefndar skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 en byggingarnefnd hafi enn ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem hann hafi ekki lagt fram fullnægjandi hönnunargögn. Hin kærða ákvörðun feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og sú staðreynd, að fram komi í fundargerð bæjarráðs að ráðið samþykki umfjöllun og tillögu skipulagsnefndar, hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til afgreiðslu. Þar sem málið hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu byggingarnefndar beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Ranglega hafi verið vísað til ákvæða 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 við kynningu umsóknar en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið og hafi öll meðferð málsins borið þess merki.
Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið réttmæt og í samræmi við 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sem og ákvæði stjórnsýslulaga. Mótmælt sé að rétti kæranda hafi verið hallað með vísan til jafnræðisreglu. Vísað sé til þess að ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eigi ekki við líkt og í fyrri ákvörðun nefndarinnar.
Bílageymsla kæranda sé mjög stór og ekki hafi verið unnt að fallast á umsótta breytingu þar sem ekki yrði séð hvaða rök, sjónarmið, þörf eða nauðsyn lægju að baki stækkuninni sem réttlæta ættu og kæmu til móts við þau neikvæðu grenndaráhrif sem hún hefði.
Andmæli kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar: Kærandi tekur m.a. fram að í bréfi, dags. 12. apríl 2007, þar sem honum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar, hafi verið vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Svo hafi einnig verið í bréfi skipulagsstjóra Kópavogs til kæranda, dags. 3. maí s.á., vegna sama máls.
Síðan sé gerð krafa um frávísun málsins og velti kærandi fyrir sér hvort embættismenn Kópavogsbæjar séu að hæðast að honum og hafa hann að fífli. Bendi kærandi á að það hafi varla verið ætlan löggjafans að umsækjandi um byggingarleyfi verði að stofna til kostnaðar við hönnun byggingar, sem hafnað hafi verið af skipulagsnefnd, til þess eins að fá málið tekið fyrir af úrskurðarnefnd. Tæplega geti byggingarnefnd samþykkt teikningu sem hafnað hafi verið af skipulagsnefnd.
Umsókn hafi verið hafnað á grundvelli innsendra athugasemda en ekki tilgreint til hvaða athugasemda væri vísað. Þá bendi kærandi á að engin tilraun hafi verið gerð til að kalla eftir „rökum, sjónarmiðum, þörf eða nauðsyn“ fyrir stækkun bílageymslunnar. Bílageymslur á öðrum lóðum á svæðinu séu upp við lóðarmörk og hér sé um jafnræðissjónarmið að ræða. Jafnframt sé því andmælt að stækkun bílageymslunnar muni hafa neikvæð grenndaráhrif gagnvart lóðinni að Álfhólsvegi 61.
Niðurstaða: Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi. Ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu.
Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar. Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa til meðferðar svo sem hún þó gerði. Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókn kæranda. Gildir einu þótt það hafi verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn, enda bar nefndinni þá að kynningu lokinni að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin var.
Fundargerð skipulagsnefndar frá 3. apríl 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 4. apríl 2007 en engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindinu eða samþykkja það. Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs. Var þannig ekki bundinn endi á málið með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar.
Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um leyfi til stækkunar bílskúrs að Löngubrekku 5 ekki hlotið lögboðna meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Ásgeir Magnússon