Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/1999 Foldaskóli

Ár 1999, miðvikudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/1999; kæra H innanhússarkitekts á synjun Skipulagsstofnunar frá 24. mars 1999 á erindi kæranda um að stofnunin dragi til baka umsögn um handrið í Foldaskóla og á afgreiðslu stofnunarinnar frá 29. apríl 1999 á beiðni um rökstuðning fyrir synjun fyrra erindis.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 1999, sem barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, framsendi umhverfisráðuneytið erindi kæranda, dags. 15. júní 1999, þar sem hann kærir ákvarðanir Skipulagsstofnunar um að synja beiðni hans um að stofnunin dragi til baka umsögn um handrið í Foldaskóla og um að synja síðara erindi hans um rökstuðning þeirrar ákvörðunar.  Með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 26. júlí 1999, kom umboðsmaður kæranda á framfæri mótmælum við meðferð ráðuneytisins á erindinu, sem hann taldi ekki falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og gerði kröfu til þess að ráðuneytið úrskurðaði um kæruna.  Var úrskurðarnefndinni sent afrit af bréfi þessu.  Ráðuneytið svaraði þessu síðara erindi kæranda með bréfi, dags. 10. ágúst 1999, þar sem því er hafnað að ráðuneytið kalli kæruna til baka frá úrskurðarnefndinni og úrskurði sjálft í málinu.  Barst úrskurðarnefndinni afrit af þessu svari ráðuneytisins hinn 25. ágúst 1999.  Í bréfi ráðuneytisins eru færð rök fyrir þeirri skoðun að öll ágreiningsmál, sem upp kunni að koma um framkvæmd laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997 með síðari breytingum, eigi undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála samkvæmt 8. grein laganna og skipti þá ekki máli hvort um sé að ræða valdbærni Skipulagsstofnunar eða synjun hennar á kröfu um rökstuðning.  Ekki sé í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 að finna nein ákvæði um úrskurðarvald umhverfisráðherra og séu engin ágreiningsmál samkvæmt lögunum undanskilin úrlausnarvaldi úrskurðarnefndar samkvæmt 8. gr. laganna.

Niðurstaða:  Í máli þessu krefst kærandi úrskurðar um lögmæti afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tilteknum erindum kæranda til stofnunarinnar.  Fyrra erindið laut að því að stofnunin drægi til baka bréf sín frá 16. febrúar og 4. mars 1999 til skólastjóra Foldaskóla.  Í bréfum þessum kemur fram álit stofnunarinnar á öryggi handriðs í skólanum, sem kærandi er arkitekt að.  Hafði álit þetta verið látið í té að beiðni skólastjórans, en kærandi mun sjálfur hafa átt frumkvæði að því að beðið var um úttekt þessa vegna slysa sem orðið hefðu í skólanum á undanförnum árum.  Hafnaði stofnunin umræddu erindi kæranda.

Síðara erindið laut að því að Skipulagsstofnun léti í té rökstuðning fyrir synjun fyrra erindis.  Var þeirri málaleitan einnig hafnað.

Þegar sérstakri kærunefnd hefur verið komið á fót í tilteknum málflokki, eins og hér um ræðir, verður að líta svo á að ráðherra og kærunefndin séu hliðsett stjórnvöld á æðra stjórnsýslustigi með lögbundinni verkaskiptingu.  Leiki vafi á um valdmörk milli ráðherra og kærunefndar verður að telja valdið í höndum ráðherra, enda er það meginregla að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin forræði hans.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fer ráðherra með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála samkvæmt lögunum og er Skipulagsstofnun honum til aðstoðar.  Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna ber skipulagsstjóri ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsemi stofnunarinnar gagnvart ráðherra.  Er hvergi að því vikið í nefndum lögum að úrskurðarnefndin skuli fjalla um ágreining sem rísa kann um meðferð mála hjá Skipulagsstofnun, með þeirri undantekningu einni sem getið er í 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í lögunum. Hefði það ákvæði verið með öllu óþarft ef nefndin hefði átt að hafa vald til þess að úrskurða almennt um ágreiningsefni um afgreiðslu Skipulagsstofnunar á einstökum erindum.  Telur úrskurðarnefndin að tilvist ákvæðisins bendi til að nefndinni hafi ekki verið ætlað slíkt úrskurðarvald.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ákvarðanir þær, sem kærðar eru í máli þessu, verði ekki taldar til stjórnvaldsákvarðana sem bornar verði undir nefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru H á afgreiðslu Skipulagsstofnunar á erindum kæranda, er varða umsögn um handrið í Foldaskóla í Reykjavík, er vísað frá úrskurðarnefndinni.