Ár 2011, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 33/2011, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Langanesbyggðar frá 28. júlí 2010 um deiliskipulag við Miðholt á Þórshöfn.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 2011, er barst nefndinni 18. sama mánaðar, kærir G, samþykkt sveitarstjórnar Langanesbyggðar frá 28. júlí 2010 um deiliskipulag við Miðholt á Þórshöfn.
Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. maí 2011, er bárust nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra S og R sömu samþykkt. Byggja þeir á sömu sjónarmiðum og gert er í þeirri kæru er fyrst barst. Ákvað úrskurðarnefndin að sameina síðari kærumálin sem eru númer 36 og 37/2011 máli þessu.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkti 28. júlí 2010 deiliskipulag íbúðarreits við Miðholt á Þórsöfn þar sem gert var ráð fyrir þremur raðhúsalóðum. Var samþykktin send Skipulagsstofnun til yfirferðar sem með bréfi til sveitarstjóra, dags. 7. apríl 2011, tilkynnti að stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu samþykktarinnar. Hinn 8. apríl birtist auglýsing um gildistöku hinnar kærðu samþykktar í B-deild Stjórnartíðinda.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði einn kærenda til Skipulagsstofnunar vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Í svari stofnunarinnar, dags. 29. apríl 2011, er meðferð málsins rakin og kemur þar m.a. fram að sveitarstjórn hafi birt auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011. Þá er í bréfinu gerð grein fyrir kæruheimild og kærufresti og tekið fram að þegar um sé að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu beri að telja kærufrestinn frá birtingu ákvörðunar.
Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að deiliskipulagið sé bæði í ósamræmi við gildandi Aðalskipulag Þórshafnar 2004-2024 og tillögu að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 sem ekki hafi hlotið staðfestingu ráðherra.
Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsákvörðun var samþykkt í sveitarstjórn Langanesbyggðar 28. júlí 2010 og tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011.
Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður og sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunarinnar. Kærur í máli þessu eru dagsettar 15. maí 2011, og bárust úrskurðarnefndinni stuttu síðar, en kærufestur var þá liðinn. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson