Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2025 Aðalgata

Árið 2025, þriðjudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2025, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 25. febrúar 2025 um niðurrif húss og hreinsun lóðar að Aðalgötu 6b á Siglufirði í Fjallabyggð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. febrúar 2025, kærir eigandi húss að Aðalgötu 6b á Siglufirði í Fjallabyggð, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. febrúar 2025 um niðurrif hússins og hreinsun lóðarinnar. Er þess óskað að úrskurðarnefndin hlutist til um að heilbrigðiseftirlitið dragi þá ákvörðun til baka eða hún verði felld úr gildi. Einnig eru lagðar fram óskir um upplýsingar og gögn frá heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra hinn 12. mars 2025.

Málavextir: Í aftakaveðri á Siglufirði í september 2023 varð skemma á lóð Aðalgötu 6b fyrir verulegu foktjóni, en kærandi er eigandi að stærstum hluta skemmunnar. Samkvæmt máls­gögnum hefur hann leitað aðstoðar Fjallabyggðar við að fjarlægja brak af lóðinni. Hann hefur einnig leitað eftir því að fá að skila lóðinni til sveitarfélagsins gegn því að tekið verði til á lóðinni og rifið það sem eftir stendur af mannvirkinu, en þeirri málaleitan mun hafa verið hafnað af sveitarfélaginu í nóvember 2024.

Hinn 14. febrúar 2025 sendi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra kæranda tölvupóst með yfirskriftinni „Krafa um niðurrif húsnæðis og hreinsun lóðar Aðalgata 6 b Siglufirði.“ Í efni tölvupóstsins sjálfs var síðan tilkynnt um meðferð máls skv. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 auk þess sem þar sagði að heilbrigðiseftirlitið færi fram á að kærandi myndi sjá um að leifar hússins að Aðalgötu 6b yrðu rifnar og lóðin hreinsuð. Var kæranda leiðbeint um að sækja um tímabundið starfsleyfi fyrir niðurrifi húsa en ef slíkt yrði ekki gert myndi heilbrigðisnefnd fyrirskipa Fjallabyggð að sjá um niðurrifið og hreinsun lóðar á kostnað kæranda. Kæranda var veittur tíu daga frestur til að koma á framfæri andmælum skv. 13. gr. laga 37/1993 og einnig voru veittar upplýsingar um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar skv. 65 gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Er erindi þetta sú ákvörðun sem kæra þessa máls varðar.

Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, dags. 13. mars 2025, sem hafði fyrirsögnina „Tilkynning um stjórnsýsluákvörðun skv. 20. gr. stjórnsýslulaga“, var hafnað beiðni kæranda um að ákvörðun eftirlitsins frá 14. febrúar 2025 yrði dregin til baka. Um leið var kæranda tilkynnt að tekin hefði verið ákvörðun um að leifar húsnæðisins á lóð Aðalgötu 6b „verði rifin og lóð hreinsuð, vegna mengunar, óhollustu og fokhættu og hættu á tjóni annarra eigna auk hættu fyrir almenning.“ Vísað var í reglugerð nr. 903/2024 um hollustuhætti, reglugerð nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs og lög nr. 7/1998 til stuðnings ákvörðuninni. Kæranda var veittur frestur til 31. mars 2025 til sækja um tímabundið starfsleyfi til niðurrifs og hreinsunar á lóðinni. Loks kom fram að eftirfarandi bókun í fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 25. febrúar 2025 væri staðfest:

Tekin er stjórnvaldsákvörðun í framhaldi af tilkynningu til eigenda með viðeigandi fresti um meðferð máls skv. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að rífa og fjarlægja leifar af húsnæði að Aðalgötu 6 b (F2130054), 580 Siglufjörður vegna mengunar, óhollustu og fokhættu og hættu á tjóni annarra eigna auk hættu fyrir almenning með tilliti til reglugerðar nr. 903/2024 um hollustuhætti, m.a. kafla IV um húsnæði, einkum 17. gr. um gæði húsnæðis og umhirðu og 18. gr. um lóðir og önnur opin svæði. Sveitarfélaginu Fjallabyggð verður fyrirskipað að sækja um tímabundið starfsleyfi til niðurrifs og hreinsunar á lóðinni Aðalgötu 6 b og framkvæma verkið á kostnað eigenda eftir 31. mars n.k.

Í bréfi sínu tók heilbrigðiseftirlitið einnig fram að Fjallabyggð fengi bréfið í hendur svo hægt yrði að auglýsa það. Að lokum var vísað til þess að um valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsins færi eftir 60. og 61. gr. laga nr. 7/1998 auk þess sem leiðbeint var um kæruheimild.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hafi beitt hann þvingunarúrræðum án þess að hann hafi fengið að koma sínum sjónarmiðum að, en með því hafi verið brotið á andmælarétti hans skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heilbrigðis­eftirlitið hafi auk þess ekki heimild til þess að krefjast niðurrifs byggingarinnar því slík heimild sé ekki í lögum nr. 71/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Auk þess eru gerðar þær athugasemdir við málsmeðferðina að ljóst sé að málið hafi verið til meðferðar löngu fyrir 14. febrúar 2025.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að í bréfi þess, dags. 14. febrúar 2025, hafi kæranda verið veittur tíu daga frestur til að andmæla kröfunni um niðurrif hússins að Aðalgötu 6b og hreinsun lóðarinnar. Einnig hafi starfsmaður eftirlitsins átt fund með kæranda 23. október 2024 til að fara yfir þá möguleika sem honum stæðu til boða vegna fasteignarinnar. Fullyrðingar um að heilbrigðiseftirlitið hafi farið út fyrir valdsvið sitt standist ekki skoðun með vísan til 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um með­höndlun úrgangs. Ekki komi til greina að draga ákvörðunina til baka eða fella hana úr gildi enda stafi hætta af fasteigninni í núverandi ástandi. Kærandi hafi ekki óskað gagna frá heilbrigðiseftirlitinu en velkomið sé að láta þau í té.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi gerir athugasemd við að hafa ekki fengið öll gögn málsins afhent frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, bendir á óskýrleika í málsmeðferð stjórnvaldsins, ítrekar að hann sé að vinna að lausn málsins en kvartar undan skorti yfirvalda á samvinnu við hann vegna málsins. Vegna tilvísunar heilbrigðiseftirlitsins til bókunar heil­brigðisnefndar Norðurlands vestra frá 25. febrúar 2025 tekur kærandi fram að hann líti svo á að hann hafi þegar kært þá ákvörðun, en bendir á að ef bókunin sé lesin þá megi skilja hana þannig að hún beinist einnig eða fyrst og fremst að Fjallabyggð.

Niðurstaða: Ágreiningur þessa máls lýtur að fyrirmælum um niðurrif húss og hreinsun lóðar að Aðalgötu 6b á Siglufirði í Fjallabyggð vegna mengunar, óhollustu og fokhættu og hættu á tjóni annarra eigna auk hættu fyrir almenning. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í kæru er tilgreint að kærð sé ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 14. febrúar 2025 um niðurrif húss við Aðalgötu 6b á Siglufirði í Fjallabyggð og hreinsun lóðarinnar. Með þessu er vísað til tölvupósts sem kæranda barst frá heilbrigðiseftirlitinu þann dag. Tölvu­pósturinn var í nokkru misvísandi. Af yfirskrift hans má ráða að tekin sé ákvörðun um að fyrirskipa kæranda um að rífa húsnæði á lóð Aðalgötu 6b og hreinsa lóðina, en í meginefni er tilkynning um að málið sé til meðferðar hjá stjórnvaldinu í samræmi við 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Síðar í tölvupóstinum er farið fram á að kærandi „sjái um að leifar fasteignarinnar verði rifin og lóð hreinsuð“ og er veittur frestur til að koma að andmælum innan tíu daga. Því næst er upplýst að ef ekki verði sótt um tímabundið starfsleyfi fyrir niðurrifi og hreinsun lóðar muni heilbrigðisnefnd fyrirskipa Fjallabyggð að sjá um niðurrif og hreinsun á kostnað eiganda. Að lokum er að finna leiðbeiningar um kæruheimild á „ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins“ til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Það er óskráð grundvallarregla í stjórnsýslurétti að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr, svo að aðili máls geti bæði skilið hana og metið réttarstöðu sína. Eðli málsins samkvæmt gildir hið sama í samskiptum stjórnvalda við borgara sem eru undanfari stjórnvaldsákvörðunar. Í umræddum tölvupósti frá 14. febrúar 2025 er bæði gefið til kynna að mál sé til meðferðar og að tekin hafi verið endanleg stjórnvaldsákvörðun þess efnis að kæranda væri skylt að rífa niður mannvirki á lóð Aðalgötu 6b og hreinsa lóðina. Með þeim með leið­beiningum um kæruheimild sem gefnar voru í bréfinu mátti álykta að ákvörðunin væri endanleg jafnvel þótt óskað væri eftir andmælum innan tíu daga.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra tók mál kæranda fyrir á fundi sínum 25. febrúar 2025 eftir að kæra hafði borist til úrskurðarnefndarinnar. Af málatilbúnaði kæranda er ljóst að hann lítur svo að kæra hans beinist einnig að ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar sem tekin var á þeim fundi. Með hliðsjón af því og þar sem heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra hefur ekki beitt heimild 2. mgr. 48. gr. laga nr. 7/1998 til að fela framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits eða tilteknum heilbrigðisfulltrúum að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða, verður í máli þessu tekin afstaða til lögmætis ákvörðunar heilbrigðisnefndarinnar frá 25. febrúar 2025.

Í fundargerð fundarins kemur fram að heilbrigðisnefndin hafi farið yfir „tilkynningu um með­ferð máls og viðbrögð eigenda Aðalgötu 6b“ en að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki fengið nein viðbrögð frá eigendum húsnæðisins. Þá er fært til bókar að tekin sé „stjórnvaldsákvörðun í framhaldi af tilkynningu til eigenda með viðeigandi fresti um meðferð máls skv. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að rífa og fjarlægja leifar af húsnæði Aðalgötu 6b.“ Því næst kemur fram að Fjallabyggð verði „fyrirskipað að sækja um tímabundið starfsleyfi til niðurrifs og hreinsunar á lóðinni“ og framkvæma verkið á kostnað eigenda eftir 31. mars 2025. Ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2025.

Fyrir liggur samkvæmt þessu að heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra tók ákvörðun um að fyrirskipa kæranda að fjarlægja leifar af mannvirki á lóð Aðalgötu 6b og hreinsa lóðina vegna mengunarhættu og hættu á tjóni og var um leið veittur hæfilegur frestur til úrbóta eða um fimm vikur. Í 14. gr. reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs, sem sett er með stoð í samnefndum lögum nr. 55/2003 og lögum nr. 7/1998, er kveðið á um heimild heilbrigðisnefndar til að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og, ef sérstök ástæða er fyrir hendi, til niðurrifs húsa og girðinga í niðurníðslu. Þá eru fyrirmæli um umgengi um húsnæði og lóðir í 17. og 18. gr. reglugerðar nr. 903/2024 um hollustuhætti.

Í 60. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, starfsleyfum eða samþykktum sveitarfélaga sé heilbrigðisnefnd heimilt að veita viðkomandi aðila áminningu. Jafnframt skuli veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef þess sé þörf. Í 61. gr er kveðið á um heimild heilbrigðisnefndar til að ákveða aðila dagsektir þegar fyrirmælum er ekki sinnt innan tiltekins frests. Jafnframt til að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt. Telja verður að hin kærða ákvörðun eigi sér næga stoð í þessum fyrirmælum.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar verður gerð athugasemd við að kæranda var eigi tilkynnt um ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar fyrr en með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 13. mars 2025, en þá voru rúmlegar tvær vikur þegar liðnar af gefnum fresti. Kærandi telur að hann hafi ekki fengið tækifæri til að andmæla ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Í ljósi þess að hann hafði þegar komið á framfæri sjónarmiðum sínum í kæru til úrskurðarnefndarinnar, sem kynnt voru fyrir heilbrigðiseftirlitinu, verður þó ekki talið að um verulegan annmarka sé að ræða. Með hliðsjón af öllu framangreindu, svo og þeim almannahagsmunum sem liggja að baki hinni kærðu ákvörðun, verður kröfu um ógildingu hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra frá 25. febrúar 2025 um niðurrif húss og hreinsun lóðar að Aðalgötu 6b á Siglufirði í Fjallabyggð.