Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

32/2007 Suðurströnd

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar  Seltjarnarnesbæjar frá 8. febrúar 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Íþóttamiðstöðina við Suðurströnd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. H , Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar að veita byggingarleyfi fyrir byggingu heilsuræktarstöðvar við Suðurströnd á Seltjarnarnesi.  Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að kæran taki til ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. febrúar 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 14. sama mánaðar, um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina við Suðurströnd, Seltjarnarnesi, enda sætir afgreiðsla byggingarfulltrúa á byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. á grundvelli staðfestrar samþykktar skipulags- og mannvirkjanefndar ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. 

Málsatvik og rök:  Hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamel og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerði ráð fyrir gervigrasvelli við Suðurströnd og íbúðarbyggð við Hrólfsskálamel, meirihluta atkvæða bæjarbúa.  Fyrirfram hafði verið gert ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Var síðan unnið að gerð deiliskipulagstillagna fyrir Hrólfsskálamel og Suðurströnd sem öðluðust gildi hinn 16. október 2006 og 4. janúar 2007.  Kærandi máls þessa kærði einnig þær ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurðum uppkveðnum fyrr í dag vísaði málunum frá nefndinni.    

Hinn 8. febrúar 2007 samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina við Suðurströnd, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn staðfesti greinda ákvörðun hinn 14. febrúar 2007. 

Byggir kærandi kröfu sína á því að hin kærða framkvæmd byggi á deiliskipulagi sem sé ólögmætt.  Skipulagið stangist á við niðurstöður bindandi kosninga í sveitarfélaginu og sé auk þess haldið ýmsum öðrum annmörkum sem tíundaðir séu í kærum kæranda vegna umræddra deiliskipulagsákvarðana.  Ljóst sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu enda búi hann í næsta nágrenni við umrætt svæði.

Því sé haldið fram að kæranda hafi ekki verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi fyrr en þann dag er kæra barst úrskurðarnefndinni en þá hafi hann tekið eftir því að mótauppsláttur væri hafinn í grunni byggingarinnar.  

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er krafist frávísunar málsins en ella að kröfu kæranda verði hafnað.  Vísa beri málinu frá þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hina kærðu ákvörðun.  Í engu þeirra kærumála er kærandi hafi sett fram vegna málsins hafi hann gert grein fyrir því hvaða efnislegu sjónarmið eða hagsmunir búi að baki kærunum eða hverjir raunverulegir hagsmunir hans séu.    Þá sé og krafa um frávísun málsins byggð á því að kærandi hafi ekki gert athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi svæðis þess er hin umdeilda viðbygging rísi á og teljist því hafa samþykkt hana, sbr. áskilnað í auglýsingum þar að lútandi.  Réttur kæranda til að gera athugasemdir við byggingar sem byggðar séu í samræmi við samþykkt deiliskipulag hafi því fallið niður fyrir tómlæti hans við að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna.

Verði máli þessu ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sé því haldið fram að hið kærða byggingarleyfi samræmist gildandi deiliskipulagi og sé því fullkomlega lögmætt.  Bent sé að kærandi byggi ekki á því að hið kærða byggingarleyfi brjóti með neinum hætti í bága við deiliskipulagið.      

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar hinn 8. febrúar 2007 og staðfest í bæjarstjórn 14. sama mánaðar.  Gaf byggingarfulltrúi út leyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga og áritaði teikningar hinn 15. febrúar 2007 í samræmi við samþykktina.  Kæra í málinu er dagsett 20. apríl 2007 og kveðst kærandi fyrst hafa fengið vitneskju um byggingarleyfið þann dag.

Fyrir úrskurðarnefndinni liggur bréf, dags. 8. mars 2007, er lögmaður kæranda ritaði nefndinni vegna bráðabirgðaúrskurðar er gengið hafði í fyrra máli kæranda um takamarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum til undirbúnings byggingar viðbyggingar þeirra sem um ræðir í máli þessu.  Í bréfinu vísaði lögmaðurinn til þess að hinn 8. febrúar 2007 hafi skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkt umsókn um leyfi til byggingar heilsuræktarstöðvar við Íþróttamiðstöðina á Suðurströnd en leyfi fyrir þeirri bygginu er kæruefni máls þessa.  Bréf lögmanns kæranda ber með sér að kæranda hafi verið kunnugt um efni þess enda var honum sent afrit af því.  Mátti kæranda og vera kunnugt um að bæjarstjórn myndi hafa staðfesta samþykkt skipulags- og mannvirkjanefndar fljótlega eftir að hún var gerð.  Verður við það að miða að kæranda hafi verið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um hina kærðu ákvörðun er lögmaður hans ritaði bréfið til úrskurðarnefndarinnar hinn 8. mars 2007 eða á allra næstu dögum þar á eftir.  Var kærufestur því liðinn er kærandi skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar hinn 20. apríl 2007 og ber því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki þykir koma til álita að beita undanþáguákvæði 1. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga þegar litið er til þess að kærandi hefur áður skotið fjórum málum til úrskurðarnefndarinnar og nýtur lögmannsaðstoðar við málareksturinn.  Þá þykir undanþáguákvæði 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í málinu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

                                              ___________________________         
                                                         Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                               Geirharður Þorsteinsson