Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

31/2025 Spítalastígur

Árið 2025, miðvikudaginn 26. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 31/2025, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. mars 2023 um breytingar á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 19. febrúar 2025, kærir eigandi íbúðar í risi húss á lóð nr. 2 við Spítalastíg, ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 30. mars 2023 um breytingar á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir og rök: Á afgreiðslufundi 30. mars 2023 samþykkti skipulagsfulltrúi Reykjavíkur, í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, með vísan til heimilda um embættisafgreiðslur skipulagsfulltrúa í viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkur­borgar, breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Í breytingunni fólst meðal annars að í skilmálatöflu var byggingarmagn endurskoðað og greint á milli eldra húss (4) og nýbyggingar (4A) í athugasemdum. Miðað var við að í nýbyggingu yrðu fimm íbúðir, tvær á 1. og 2. hæð og ein íbúð í risi. Stærðir íbúða yrðu á bilinu 35 m2–80 m2. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2023.

Kærandi vísar til þess að hin umdeilda skipulagsbreyting muni hafa þau áhrif að lokast muni fyrir glugga á baðherbergi í íbúð hans, sem sé í risi húss á lóð nr. 2 við Spítalastíg. Glugginn sé neyðarútgangur og eina loftræsingin fyrir baðherbergið. Þá sýni deiliskipulagsbreytingin að heimilt sé að byggja yfir þak húsnæði sem sé í eigu kæranda.

Niðurstaða: Mál þetta varðar breytingu á deiliskipulagi reits 1.184.0, Bergstaðastrætisreits vegna lóðanna nr. 4, 4B, 6 og 6B við Spítalastíg. Þess ber að geta að þær heimildir greinds deiliskipulags er kærandi vísar til, þ.e. heimild til stækka rishæð til austurs á húsi á lóð nr. 2 við Spítalastíg, var þegar til staðar í deiliskipulagi reitsins fyrir breytingu þá er tók gildi 26. júní 2023.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2023 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 19. febrúar 2025 og var kærufrestur þá liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kæru­máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið eins og atvikum er háttað að skilyrði séu til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti, en lögmælt opinber birting ákvörðunar hefur þá þýðingu að almenningi telst við hana vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.