Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi kæranda varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2012, sem barst nefndinni sama dag, kærir Í ehf. afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi þess varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 27. október 2011, óskaði kærandi, sem rekur þjónustu við meðhöndlun og úrvinnslu úrgangs, eftir áliti skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri. Mun tilefni erindisins hafa verið umsókn kæranda til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um starfsleyfi fyrir rekstri hans í fyrrgreindu húsnæði. Í húsnæðinu mun hafa verið fyrirhugað að umhlaða sorpi og endurvinnsluhráefnum í gáma til flutnings. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 9. nóvember 2011 og afgreiddi það með svofelldri bókun: „Vísað er til 41. gr. 5. tl. A stafliðar með vísun í 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í greininni kemur fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi eru háðar samþykki allra eigenda hússins, ef þær hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum. Skipulagsnefnd telur að breytingar sem þessar á hagnýtingu séreignarinnar séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Skipulagsnefnd hafnar því erindinu þar sem einungis 8 eigendur séreignarhluta af 19 hafa samþykkt breytingu.“
Kærandi krafðist rökstuðnings fyrir bókun skipulagsnefndar í bréfi, dags. 24. nóvember 2011, og var því erindi svarað með bréfi bæjarlögmanns, dags. 14. desember s.á. Skaut kærandi málinu síðan til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Kærandi vísar til þess að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt, en um matskennda og íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða. Umrætt húsnæði hafi verið nýtt fyrir verktakastarfsemi og bifvélaverkstæði og veki því furðu að krafist sé samþykkis allra meðeigenda fyrir nýtingu séreignarhlutans undir sambærilega verktakastarfsemi. Fyrir liggi að lyktarmengun verði í lágmarki og eigi staðhæfingar bæjarlögmanns í aðra átt ekki við rök að styðjast.
Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað. Er á það bent að umdeild afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér álit en ekki ákvörðun og hafi snúist um túlkun laga um fjöleignarhús, en úrskurðarnefndin skeri ekki úr um ágreining er varði þau lög. Hvað efnishlið málsins varði hafi skipulagsnefnd byggt álit sitt á túlkun fjöleignarhúsalaga og að fyrirhuguð hagnýting kæranda á húsnæðinu að Draupnisgötu 7n gæti haft í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur séreignarhluta í húsinu en áður og þyrfti því að liggja fyrir samþykki allra eigenda fjöleignarhússins fyrir hinni breyttu notkun svo bæjaryfirvöldum væri heimilt að samþykkja hana.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á erindi kæranda sem fól í sér beiðni um álit nefndarinnar á fyrirhugaðri breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.
Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem hér á við sættu kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Breytt notkun fasteignar er háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi tekur ákvörðun um, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.
Af framangreindum ástæðum felur hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á mál og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Hildigunnur Haraldsdóttir