Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2003. Úrskurður vegna erindis Jónasar Helga Ólafssonar vegna ágreinings um töku bifreiðar sem ekki er á númerum og stendur inni á einkalóð kæranda.

Grein

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, miðvikudaginn 19. maí, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík. Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2003 Jónas Helgi Ólafsson, Tjarnargötu 20, 190 Vogum gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja vegna ágreinings um heimild til töku bifreiðar.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Erindi Jónasar Helga Ólafssonar, hér eftir nefndur kærandi, barst nefndinni með bréfi dags. 10. apríl 2003. Litið var á erindið sem stjórnsýslukæru. Er gerð sú krafa að úrskurðarnefnd skeri úr ágreiningi um töku bifreiðar sem ekki er á númerum og stendur inni á einkalóð kæranda. Meðfylgjandi erindi kæranda var mynd af umræddri bifreið inni á lóð hans svo og afrit af bréfi heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja. Var Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, hér eftir nefnt kærði, sent afrit af gögnum kæranda og óskað svara. Í svarbréfi kom fram að engar aðgerðir hefðu átt sér stað og því ekki séð af gögnum máls hvaða ágreiningur eða stjórnvaldsákvörðun er tilefni kæru.

II.

Í erindi kæranda kemur fram að ágreiningur sé kominn upp milli hans og umhverfisfulltrúa Suðurnesja. Snúist ágreiningurinn um bifreið sem ekki sé á númerum, en standi inni á einkalóð kæranda. Að sögn kæranda er bifreiðin óskemmd en númer látin liggja inni vegna tryggingariðgjalda. Telur kærandi ámælisvert að starfsmaður geti leyft sér að fara inn á einkalóðir og í krafti embættis síns krafist þess að kærandi fjarlægi eitthvað af einkalóð sinni og geti jafnframt hótað því að fjarlægja hlutinn á kostnað kæranda sjálfs. Telur hann þetta brjóta í bág við mörg lög bæði um einkalóðir og ennfremur friðhelgi heimilisins. Kveður kærandi að fulltrúi taki engum rökum og þegar hann hafi óskað eftir hver lagaheimild væri, hafi hann fengið sent afrit af bréfi um verklagsreglur kærða. Kærandi sendi ennfremur með erindinu myndir af bifreiðum sem ekki hafa verið fjarlægðar í Vogum. Telur kærandi að um yfirgang starfsmanns sé að ræða og krefst þess að nefndin áminni hann.

III.

Fram er komið að engar aðgerðir hafa átt sér stað af hálfu kærða. Skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 er heimilt að vísa máli til úrskurðarnefndar rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda. Engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin og því ekki forsendur til staðar til þess að leggja málið fyrir úrskurðarnefndina. Málinu er því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Málinu er vísað frá.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                   Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 5/27/04