Árið 2023, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 29/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu ehf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Ljósalandi í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 28. nóvember 2022 að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita byggingarleyfi fyrir nefndu fjarskiptamastri.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 29. mars 2023.
Málavextir: Hinn 10. desember 2021 óskaði Míla hf. eftir byggingarleyfi til að reisa á lóðinni L176855, Laugarási, Bláskógabyggð, 18 m hátt stálmastur. Á lóðinni er fyrir tækjahús Mílu sem reist var árið 1997 og hýsir fjarskiptabúnað sem þjónar nærliggjandi byggð. Í mastrinu er ætlunin að koma fyrir fjarskiptabúnaði, sem þjónar stærra svæði en nærliggjandi byggð og verður mastrið sjálfberandi stálstaur á steyptum undirstöðum. Umsóknin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 6. janúar 2022 þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Á fundi sveitastjórnar 17. febrúar s.á var málið tekið fyrir að nýju og samþykkt að það fengi málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar.
Umhverfis- og tæknisvið uppsveita sendi 8. mars 2022 til hagsmunaaðilum nærliggjandi lóða bréf, þar sem umsókn um byggingarheimild fyrir fjarskiptamastur var kynnt eigendum í samræmi við 44. gr. laga nr. 123/2010. Var frestur veittur til 12. apríl s.á. til að skila inn athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 11. maí s.á. voru lagðar fram athugasemdir sem bárust við grenndarkynninguna, m.a. frá kæranda sem fór fram á að mastrinu yrði fundin önnur staðsetning þar sem hæð þess og sýnileiki yrði minni. Fallist var á að fresta málinu og að haft yrði samráð við umsækjanda um hugsanlega breytta staðsetningu mastursins í ljósi fram-kominna athugasemda.
Málið var tekið fyrir að nýju 23. nóvember 2022 hjá skipulagsnefnd sem tók undir andsvör umsækjanda vegna framlagðra athugasemda er bárust vegna málsins. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að ekki yrði gerð athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir uppsetningu fjarskiptamastursins. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. þar sem tekið var undir andsvörin og gerði sveitarstjórn ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis. Var byggingarfulltrúa falin afgreiðsla málsins og samþykkti hann umsókn um byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á umræddri lóð 7. desember 2022.
Málsrök kæranda: Kærandi telur fyrirhugaða staðsetningu fjarskiptamastursins vera of nærri heimili hans. Fjarlægð þess sé innan við 100 m frá heimili hans og kæmi það til með að gnæfa 20 m frá jörðu og rýra verulega fegurðarásýnd umhverfisins, verðmæti eigna hans og sölu-möguleika á fasteignum sem væru á lóð hans. Óljóst sé hver áhrif væntanlegrar geislunar frá mastrinu muni hafa á heilsu fólks. Sökum nálægðar fyrirhugaðs masturs við heimili kæranda yrði hann í umtalsvert meiri hættu á heilsuspillandi áhrifum geislunar heldur en þeir sem fjær búi. Að auki myndi það leiða til þess að ættingjar kæmu síður með börn sín í heimsókn ásamt því að möguleikum hans til að stofna fjölskyldu og eignast börn sé stefnt í hættu. Þá komi fjarskiptamastrið til með að hafa áhrif á atvinnuumsvif kæranda á lóð hans sem sé garðyrkjulóð þar sem ræktuð séu matvæli, blóm og tré. Stór hluti neytenda hefði sterkar skoðanir á því við hvaða aðstæður kaupvara þeirra sé ræktuð. Að hafa risavaxið fjarskiptamastur í svo mikilli nálægð við sölustaðinn kæmi til með að fæla stóran hluta viðskiptavina frá.
Að lokum yrði veruleg sjónmengun af ofangreindu mastri á þorpsmynd Laugaráss sem kæmi til með að skaða bæjarmynd þorpsins og rýra gildi þess sem æskilegs búsetustaðar fyrir fólk.
Athugasemdir sveitarstjórnar Bláskógabyggðar: Vísað er til þess skipulagsvalds sem sveitarfélögum sé gefið sbr. skipulagslög nr. 123/2010. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, skipulagslögum nr. 123/2010 og gildandi aðal- og deiliskipulag fyrir svæðið.
Umrætt fjarskiptamastur verði staðsett á athafnalóð innan Bláskógabyggðar, nánar tiltekið Athafnasvæði nr. 16 í Laugarási. Kveðið sé á um í gildandi aðalskipulagi fyrir Bláskógabyggð um Laugarás sérstaklega að á athafnasvæðum geti byggst upp léttur iðnaður sem hafi litla mengunaráhættu í för með sér. Fram komi í aðalskipulaginu að endurskoða þurfi að mati sveitarfélagsins stefnu varðandi m.a. fjarskipti og eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins sé að stuðla að betri fjarskiptum í sveitarfélaginu. Þá sé einnig fjallað þar um framkvæmdir sem séu heimilar án þess að afmarka þurfi sérstaka landnotkun. Eigi það meðal annars við um fjarskiptamöstur.
Í deiliskipulagi fyrir Laugarás í Bláskógarbyggð sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn 29. desember 2011 komi fram í skilmálum fyrir athafnalóðir að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Hafi því verið ákveðið á fundi sveitar-stjórnar að fara með umsókn um byggingarheimild til að reisa fjarskiptamastur á lóðinni í sam-ræmi við 44. gr. skipulagslaga.
Fullyrðingum um að fyrirhugað mastur muni hafa áhrif á verðmat eigna kæranda séu ekki studdar neinum gögnum. Um sé að ræða lóð sem skilgreind sé sem athafnasvæði og hafi kæranda því mátt vera ljóst að á lóðinni yrðu reistar byggingar sem kæmu til með að sjást frá lóð hans. Fjarskiptamöstur séu víða að finna í byggð og sé hlutverk fyrirhugaðs fjarskipta-masturs að styrkja fjarskiptasamband á svæðinu líkt og stefna og markmið aðalskipulags Bláskógabyggðar áskilji.
Því sé hafnað að framkvæmdin komi til með að hafa áhrif á ásýnd og ímynd Laugaráss, enda sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa óæskileg áhrif. Þá séu fullyrðingar þess efnis að geislun frá mastrinu geti verið skaðleg heilsu kæranda, skert möguleika hans til að stofna fjölskyldu og geti haft áhrif á atvinnurekstur hans ekki studdar neinum gögnum.
Málsrök leyfishafa: Vísað er til þess að um sé að ræða framkvæmdir á skilgreindu iðnaðar- og athafnasvæði. Sú lóð sem um ræði sé skilgreind sem athafnalóð þar sem gert sé ráð fyrir léttum og hreinlegum iðnaði. Tilefni umræddrar framkvæmdar sé vegna fjölda ábendinga og kvartana um lélegt fjarskiptasamband á umræddu svæði. Sambærileg fjarskiptamöstur sé að finna víða innan þéttbýlis og hefur verið hluti af innviðum landsins í áratugi. Stærð mastursins verði 18 m sem sé lágmarks hæð fyrir mastur á lóðum sem þessum til að geta sem best þjónað öllu nærliggjandi svæði. Bent sé á að mikillar upplýsingaóreiðu og misskilnings virðist gæta víða um geislun frá farsímum og fjarskiptamöstrum. Fullyrðingar kæranda hvað varði mögu-lega geislun og áhrif mastursins á atvinnuumsvif hans séu því ekki studdar neinum gögnum.
Leyfishafi fari í einu og öllu eftir ráðleggingum og reglum Geislavarna ríkisins sem komi frá sjálfstæðri stofnun sem beri nafnið ICNIRP. Nýjustu ráðleggingar þeirra frá árinu 2020 séu strangar varðandi útgeislun. Þær kröfur séu gerðar að útgeislun þar sem búið sé þurfi að vera 50 sinnum lægri en þau viðmiðunarmörk sem ICNIRP hafi metið sem örugga útgeislun. Þessum reglum sé ávallt fylgt eftir.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Vísað er til heimilda á internetinu þar sem rannsökuð hafa verið áhrif fjarskiptamastra á virði fasteigna. Þær réttlætingarástæður sem málsaðilar hafi borið fyrir sig um að lóðin sem stendur til að reisa mastrið á sé iðnaðarlóð breyti ekki þeirri staðreynd að staðsetningin sé alltof nærri heimili kæranda.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir 18 m háu fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, þar sem fyrir er tækjahús með fjarskiptabúnaði. Lóðin er á deiliskipulögðu svæði og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem slík málsmeðferð er heimiluð ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða.
Í k-lið, greinar 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir sem ekki er talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir. Er þar átt við framkvæmdir sem ekki eru taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Ein þeirra framkvæmda sem þar eru taldar upp eru stök fjarskiptamöstur. Í aðal-skipulagi þarf að koma fram stefna um hvar eða við hvaða aðstæður mannvirkjagerð sem taldar eru þar upp séu heimilar eða óheimilar og aðrar skipulagsforsendur fyrir gerð deiliskipulags eða veitingu leyfa til framkvæmda.
Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 er umrædd lóð á skilgreindu athafna-svæði, en þar er gert ráð fyrir léttum iðnaði sem hafi litla mengunarhættu í för með sér. Í greinargerð aðalskipulagsins er í kafla 2.4.8 fjallað um stakar framkvæmdir. Kemur þar fram að fjarskiptamöstur í byggð séu heimiluð án þess að afmarka sérstaka landnotkun allt að 20 m há ásamt aðstöðuhúsi allt að 20 m² ásamt lögnum og vegum. Gerð er þó krafa um að hvert tilfelli sé metið og þá hvar fjarskiptamöstur verði heimiluð. Við matið skuli meðal annars tekið tillit til hljóðvistar og fjarlægðar frá landamerkjum, öðrum mannvirkjum, sýnileika og áhrifa á náttúru og landslag.
Um athafnalóðir segir í deiliskipulagi Laugaráss í Bláskógabyggð að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Ekki er þar að finna umfjöllun um fjarskiptamöstur. Fjarskiptamastur er byggingarleyfisskylt mannvirki sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna er áskilið að byggingar-leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt og byggingarleyfi gefið út.
Í lokamálsgrein greinar 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar er tekið fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir umfangi og stærð mannvirkja svo sem virkjana-, fjarskipta- og veitumannvirkja, samgöngumannvirkja o.fl. Þá er einnig tekið fram í gr. 5.3.2.15 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir staðsetningu og umfangi fjarskiptamastra. Verða slík mannvirki því að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis svo unnt sé að veita byggingarleyfi fyrir þeim.
Svo sem áður greinir var umdeild framkvæmd grenndarkynnt og var síðan tekin afstaða til framkominna athugasemda, málið afgreitt í skipulagsnefnd og staðfest í sveitarstjórn. Hins vegar liggur ekki fyrir að tillaga að breytingu á gildandi deiliskipulagi í tilefni af fyrirhuguðu fjarskiptamastri á umræddri lóð hafi verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsing birst um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en skipulagsbreyting tekur fyrst gildi við birtingu þeirrar auglýsingar. Var því óheimilt að veita og gefa út hið kærða byggingarleyfi, sbr. áðurnefnda 11. og 13. gr. mannvirkjalaga.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, er felld úr gildi.