Ár 2007, miðvikudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 29/2006, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. mars 2006 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 200 í landi Miðengis við Álftavatn.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. apríl 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir Hulda Rós Rúriksdóttir hdl., f.h. H, eiganda lóðar nr. 60 í landi Miðengis, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. mars 2006 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóðar nr. 200 við 5. braut í landi Miðengis við Álftavatn. Liggur lóð kæranda samhliða lóð þeirri sem deiliskipulagið tekur til. Auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags lóðarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. maí 2006 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Árið 2002 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi lóðar nr. 200 í landi Miðengis sem er í frístundabyggð í Grímsnes- og Grafningshreppi. Samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi var gert ráð fyrir að reisa mætti frístundahús á lóðinni að hámarksstærð 380 fermetrar en einnig var heimilað að byggja allt að 50 fermetra gróðurhús, allt að 30 fermetra garðskála og allt að 10 fermetra opinn skála. Var gert ráð fyrir byggingum á þremur byggingarreitum innan lóðarinnar en lóðin er 24.418 fermetrar að stærð.
Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 17. nóvember 2005 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi ofangreindrar lóðar. Í tillögunni var meðal annars gert ráð fyrir því að hámarksstærð frístundahúss yrði 496 fermetrar, þar með talið glerskáli, inntaksrými og niðurgrafinn geymslukjallari. Einnig var gert ráð fyrir bílskúr sem ekki skyldi vera stærri en 64 fermetrar og gestahúsi, ekki stærra en 86 fermetra, bæði einnar hæðar. Samkvæmt uppdrætti deiliskipulagsins var frístundahúsinu markaður staður á byggingarreit 1 sem og bílskúr og gestahúsi. Húsunum skyldi koma fyrir á milli og utan í hæðum og á milli gróðurbelta til að þau yrðu minna áberandi. Mænishæð frístundahússins yfir aðalgólfi átti ekki að vera meiri en 6,8 metrar, líkt og í samþykktu skipulagi, og mest 4,6 metrar yfir aðalgólfi bílskúrs og gestahúss. Þá var heimiluð bygging gróðurhúss, garðskála og opins skála sem fyrr.
Var samþykkt á fyrrgreindum fundi skipulagsnefndar að heimilt væri að auglýsa tillöguna. Hinn 7. desember s.á. var á fundi sveitarstjórnar lögð fram fundargerð skipulagsnefndar og hún staðfest.
Tillagan var auglýst til kynningar frá 11. janúar til 8. febrúar 2006 og var frestur til að skila inn athugasemdum veittur til 22. febrúar s.á. Sendi lögmaður kæranda inn athugasemdir með bréfi dags. 20. febrúar 2006 f.h. kæranda og fjölmargra annarra eigenda sumarhúsa á svæðinu. Auk þess bárust athugasemdir frá tveimur öðrum aðilum.
Á fundi sveitarstjórnar hinn 8. mars 2006 var tillagan tekin fyrir að nýju og eftirfarandi bókun gerð: „Tillagan gerir ráð fyrir því að hámarksstærð frístundahúss verði 496 m² í stað 380 m². Einnig er gert ráð fyrir 64 m² bílskúr og 86 m² sumarhúsi sem munu standa á sérlóð innan marka skipulagsins“. Jafnframt var eftirfarandi bókað á fundinum: „Hins vegar má taka undir það sjónarmið að hugsanlega þarf að marka stefnu varðandi byggingarmagn, sér í lagi í þegar byggðum hverfum.“
Voru lagðar fram athugasemdir sem borist höfðu frá tveimur aðilum og þeim svarað en ekki athugasemdum kæranda o.fl. Taldi sveitarstjórn ekki ástæðu til annars en að samþykkja fyrirliggjandi tillögu með vísan til þeirra raka sem sett hefðu verið fram í svari til þeirra er athugasemdirnar gerðu.
Í kjölfarið gerði kærandi kröfu um að málið yrði endurupptekið á næsta fundi sveitarstjórnar og að fram færi umfjöllun um athugasemdir hans áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu. Á fundi sveitarstjórnar hinn 22. mars 2006 voru athugasemdir kæranda teknar til skoðunar og meðal annars bókað svo: „…..þó svo að húsið sé stærra heldur en gengur og gerist í sumarhúsahverfinu við 5. braut, fellur það vel að umhverfi og byrgir ekki útsýni manna enda er trjágróður á svæðinu gamall og gróinn og stendur í mörgum tilfellum mun hærra heldur en viðkomandi bygging. Einnig má benda á að lóð nr. 200 er um 24.400 m² þannig að fyrirhugaðar byggingar rúmast mjög vel innan lóðar.“ Var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt.
Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnar, dags. 27. apríl 2006, var tekið fram að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarfélagið auglýsti ofangreinda samþykkt en teldi þó að samþykktin gæfi fordæmi fyrir aðrar frístundahúsalóðir, a.m.k. í Miðengislandinu. Var það álit stofnunarinnar að samþykktin gæfi sveitarstjórn tilefni til að vinna deiliskipulag fyrir umrætt hverfi og marka stefnu um stærð frístundahúsa í sveitarfélaginu. Jafnframt var bent á að sveitarstjórn hefði virst vera á þeirri skoðun í svari sínu vegna framkominna athugasemda við tillöguna.
Ofangreindri ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að þeir sem hafi gert athugasemdir við framlagða tillögu að deiliskipulagi eigi allir sumarhús á svæðinu sem séu í samræmi hvert við annað og það sem tíðkist almennt í slíkum sumarhúsalöndum. Um fjölmarga aðila sé að ræða en ekkert tillit hafi verið tekið til framlagðra athugasemda þeirra.
Kærandi telji að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um réttaröryggi, samanber ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna og gr. 1.1 í tilgreindri reglugerð. Þá segi í gr. 6.2.3 og gr. 6.3.3 í fyrrgreindri reglugerð að auglýsa skuli tillögu að deiliskipulagi og að liðnum fresti til athugasemda skuli sveitarstjórn fjalla um skipulagstillöguna að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þar sem taka skuli afstöðu til athugasemda sem borist hafi. Málsmeðferð við umfjöllun og ákvarðanatöku sveitarstjórnar í máli þessu hafi ekki verið í samræmi við fyrrgreind ákvæði skipulagsreglugerðar en umfjöllun um athugasemdir kæranda hafi ekki farið fram fyrr en á fundi sveitarstjórnar hinn 22. mars 2006 eftir að kærandi hafði óskað þess að málið yrði tekið fyrir að nýju.
Samkvæmt 9. gr. laga nr. 73/1997 skulu svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi. Ekki liggi fyrir skriflegir skilmálar um leyfilegar framkvæmdir á svæðinu í landi Miðengis en óumdeilanlega hafi sumarhúsasvæðið verið nær óbreytt í tugi ára. Sumarhús sé á hverri lóð og því nægi að skoða svæðið til að sjá hvernig landnotkun hafi verið. Í öllum tilvikum sé um að ræða hefðbundin sumarhús, sem séu öll að svipaðri stærð eða í kringum 60-70 fermetrar, og í nokkrum tilvikum hafi verið byggðar geymslur á lóðum. Um sé að ræða eldri hús sem hafi verið löguð til. Það leiði af eðli máls og meginreglum skipulags- og byggingarlaga og skipulags- og byggingarreglugerða að þegar um sé að ræða fullbyggt svæði þrengi það heimildir sveitarstjórnar til að samþykkja breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar. Umhverfi viðkomandi lóðar og einnig næstu lóðar hafi skapað það svigrúm sem sé til slíkra breytinga. Í því tilviki sem hér um ræði liggi skipulag svæðisins í landi Miðengis ljóst fyrir. Allir sumarbústaðir á svæðinu séu að hámarki 80-100 fermetrar og í mesta lagi um geymsluskúra að ræða á lóðum auk sumarhúss.
Kærandi bendi jafnframt á málavexti í máli nr. 5/1999 hjá úrskurðarnefndinni þar sem byggingarleyfi vegna sumarhúss hafi verið fellt úr gildi þar sem húsið hafi stungið svo í stúf við önnur sumarhús á svæðinu að ekki samræmdist áskilnaði um lágmarkssamræmi við gildandi skipulagsskilmála á því svæði.
Röksemdir sveitarstjórnar fyrir samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar séu haldlausar og ekki í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á sviði byggingar- og skipulagsmála. Ekkert í bréfi sveitarstjórnar rökstyðji þau frávik sem hún heimili með samþykki sínu frá því skipulagi sem þegar sé á svæðinu. Röksemdirnar séu auk þess óviðeigandi þegar litið sé til þess að það sé lögbundið hlutverk sveitarstjórnar að gæta þess að byggt sé í samræmi við gildandi deiliskipulag, sbr. ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Gerð er sú krafa að hafnað verði kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Öll afgreiðsla og meðferð málsins hafi verið í samræmi við lög nr. 73/1997. Þá verði að hafa í huga að árið 2002 hafi deiliskipulagi fyrir viðkomandi lóð verið breytt og verði því að meta breytingar á skipulagi lóðarinnar út frá þeim viðmiðum. Ekki hafi borist athugasemdir við þá tillögu né verið hafðar uppi kröfur á grundvelli 33. gr. laga nr. 73/1997 vegna þeirrar breytingar.
Tilvísun í mál nr. 5/1999 eigi ekki við í tilviki því sem hér sé til skoðunar en í því máli hafi byggingarleyfi ekki verið í samræmi við skipulagsskilmála auk annarra galla á málsmeðferð en hér sé um að ræða breytingu á deiliskipulagi sem farið hafi verið með sem nýtt deiliskipulag í samræmi við fyrirmæli laga nr. 73/1997.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi vegna frístundalóðar nr. 200 í landi Miðengis við Álftavatn. Á svæðinu er í gildi Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-2014 sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 28. apríl 2003. Samkvæmt greinargerð þess er Miðengi skilgreint sem sumarhúsasvæði á byggingarstigi C, það er uppbygging hafin, en aðeins hefur verið samþykkt deiliskipulag vegna lóðar nr. 200 við 5. braut í landi Miðengis sem hin kærða breyting varðar.
Á árinu 2002 tók gildi deiliskipulag vegna lóðar nr. 200 þar sem heimiluð var bygging allt að 380 fermetra frístundahúss á lóðinni, auk gróðurhúss, garðskála og opins skála og var stærð aðalhússins langt umfram það sem tíðkaðist á nærliggjandi lóðum. Hefur þessu deiliskipulagi ekki verið hnekkt og er það því bindandi fyrir stjórnvöld og borgara skv. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.
Í skipulagsákvörðun þeirri sem nú sætir kæru til úrskurðarnefndarinnar er gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni þannig að hámarksstærð frístundahúss verði 496 fermetrar í stað 380 fermetra. Jafnframt er heimiluð bygging bílskúrs, ekki stærri en 64 fermetra, og gestahúss að hámarksstærð 86 fermetra, auk áður leyfðra bygginga á lóðinni. Skal, samkvæmt framlögðum teikningum, m.a. stækka svefnherbergjahluta hússins til suðurs sem nemur einum kvisti, um 3,8m, alls 38m² og gera garðstofu framan við stofu.
Af málsgögnum má ráða að heimiluð stækkun frístundahússins og breytingar á því muni ekki breyta ásýnd þess verulega. Ekki verður heldur talið að þær nýju byggingar sem heimilað er að reisa á lóðinni samkvæmt hinni kærðu ákvörðun muni stinga verulega í stúf við umhverfi sitt umfram það sem upphaflegar byggingar gerðu. Verður og að líta til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar telst ekki hátt með tilliti til stærðar hennar sem er um tveir og hálfur hektari. Þá eru ekki ákvæði um hámarksstærð frístundahúsa í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-1014 og er hin kærða breyting á deiliskipulagi því ekki í andstöðu við aðalskipulagið hvað það varðar.
Vegna þeirrar málsástæðu kæranda að ekkert tillit hafi verið tekið til framkominna athugasemda á kynningartíma tillögunnar þykir rétt að benda á að áskilið er í lögum að tekin sé afstaða til athugasemda en ekki er gerð krafa um að orðið skuli við þeim. Fyrir liggur að sveitarstjórn svaraði framkomnum athugasemdum áður en meðferð málsins lauk og verður ekki talið að dráttur á því að svara athugasemdunum eigi að leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar.
Að öllu framangreindu virtu verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun feli ekki í sér svo neikvæð grenndaráhrif eða raski hagsmunum annarra lóðarhafa á svæðinu með þeim hætti að fella beri hina kærðu breytingu á deiliskipulagi úr gildi. Þá verður ekki séð að aðrir þeir annmarkar séu fyrir hendi sem leitt geti til slíkrar niðurstöðu. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 22. mars 2006 um breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 200 við 5. braut í landi Miðengis við Álftavatn, Grímsnes- og Grafningshreppi.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _________________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson