Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2005 Álfaskeið

Ár 2008, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2005, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 1. mars 2005 um að synja umsókn um skiptingu eignar að Álfaskeiði 127, matshluta 0201, í tvo eignarhluta. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. apríl 2005, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kærir S, Álfaskeiði 127, Hafnarfirði þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 1. mars 2005 að synja um leyfi til að skipta eign að Álfaskeiði 127, matshluta 0201, í tvær séreignir. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og rök:  Á lóðinni að Álfaskeiði 127 stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Skiptist fasteignin í tvo matshluta, 0101 og 0201 og er kærandi eigandi síðargreinds hluta. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 3. febrúar 2004 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að fá að loka stigaopi í fyrrnefndu húsi og skipta á þann veg matshluta 0201 í tvær séreignir, þannig að í húsinu yrðu þrjár íbúðir.  Eftir nokkra umfjöllun bæjaryfirvalda var erindinu hafnað.  Í kjölfar þess lagði kærandi fram nýja og breytta umsókn og fór fram á endurupptöku málsins.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 1. mars 2005 var erindið afgreitt með svohljóðandi bókun:  „Skipulags- og byggingarráð synjar erindinu, þar sem hér er um að ræða einbýlishúsahverfi, og lóðaleigusamningur gerir ráð fyrir einni íbúð með leyfi fyrir aukaíbúð, sem þegar hefur verið veitt leyfi fyrir.  Þótt ekki liggi fyrir deiliskipulag af hverfinu, má gera ráð fyrir að íbúar aðliggjandi einbýlishúsa hafi gert ráð fyrir að í henni yrði eingöngu um einbýlishús að ræða, en þriggja íbúða hús má að mati ráðsins túlka sem fjölbýlishús.  Enn fremur rúmast bílastæði illa innan lóðarinnar, nær öll lóðin framan við húsið yrði bílastæði og stækka þyrfti innkeyrsluna til muna.  Það er mat ráðsins að þetta rýri gæði götunnar og því beri að synja erindinu.“   Var greind fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 8. mars s.á.

Hefur kærandi skotið framangreindri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.

Af hálfu kæranda er m.a. tekið fram að með beiðni um samþykkt íbúðar á neðri hæð sé aðeins verið að óska staðfestingar á því sem verið hafi um langt skeið og engar athugasemdir hafi verið gerðar við.  Þegar kærandi hafi keypt íbúð sína hafi henni verið skipt þannig að á efri hæð hafi verið íbúð og á neðri hæð fjögur einstaklingsherbergi með sérinngangi ásamt baðherbergi, geymslu, þvottahúsi og eldhúsi.  Ekki hafi verið innangengt milli íbúðar á efri hæð og sérherbergja á neðri hæð, sem hafi verið í útleigu um nokkurt skeið.

Hæglega rúmist þrjár íbúðir í húsinu en birt flatarmál þess sé 396,2 m².  Bílastæði hússins séu öll fyrir framan það og ekki sé vitað til þess að gerðar hafi verið athugasemdir af hálfu bæjaryfirvalda um fyrirkomulag vegna þessa.  Ætla megi að fyrri nýting hússins hafi kallað á mun fleiri bílastæði við húsið en áætlanir kæranda geri nú ráð fyrir.  Við Álfaskeið séu mörg fjölbýlishús og hverfið mjög þéttbýlt.  Fjarstæðukennt sé að halda fram að gæði hverfisins rýrni vegna framkominnar beiðni.  Þá hafi nágrannar ekki gert athugasemdir við að í húsinu séu þrjár íbúðir.

Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar benda á að um sé að ræða einbýlishúsalóð í íbúðarhverfi á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag.  Samkvæmt gildandi lóðaleigusamningi skuli reisa eitt íbúðarhús með bílageymslu fyrir einn bíl á lóðinni.  Ein aukaíbúð hafi verið leyfð í kjallara hússins og óleyfilegt sé að bæta við fleiri íbúðum.

Niðurstaða:  Í máli því sem hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 1. mars 2005 að synja um byggingarleyfi til að skipta séreign að Álfaskeiði 127, matshluta 0201, í tvær séreignir. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr.73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga.  Sveitarstjórnum er þó heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. laganna að víkja frá ákvæðum þeirra um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra. 

Fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 1. mars 2005, þar sem bókað var um hina kærðu ákvörðun, var lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 8. mars s.á. en ekki verður séð að hin umdeilda afgreiðsla hafi verið staðfest í bæjarstjórn. 

Þar sem ekki liggur fyrir að á umræddum tíma hafi verið í gildi samþykkt, staðfest af ráðherra, um að fela skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaákvörðunarvald um afgreiðslu byggingarleyfa hefur hin kærða ákvörðun ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum þar sem á skortir að bæjarstjórn hafi staðfest hina umdeildu ákvörðun.  Ber því, með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um erindi kæranda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna þess dráttar sem varð af hálfu Hafnarfjarðarbæjar á afhendingu umbeðinna gagna en þau bárust nefndinni 28. mars 2008.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________            _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                              Þorsteinn Þorsteinsson