Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 26/2025, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar s.á. um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.
Málavextir: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss 22. janúar var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi til að gera tæplega 1 ha landfyllingu við Suðurvararbryggju. Fól umsóknin í sér gerð landfyllingar milli Suðurvarargarðs og útsýnispalls á norðanverðu hafnarsvæði Þorlákshafnar. Stærð landfyllingar yrði um 9.000 m2 sem ætlað væri að ná frá núverandi sjóvörn að stórstraumsfjöruborði og tengjast núverandi athafnasvæði syðst á hafnarsvæðinu. Heildar magn landfyllingar var áætlað um 27.000 m3 og í grjótkápu um 10.000 m3 til viðbótar. Var umsóknin samþykkt á fundinum með fyrirvara um birtingu deiliskipulags hafnarsvæðis í B-deild Stjórnartíðinda og að framkvæmdin yrði ekki metin umhverfismatsskyld af Skipulagsstofnun. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 30. janúar 2025 var afgreiðsla skipulags- og umhverfisnefndar samþykkt. Hinn 3. febrúar 2025 tók greint deiliskipulag gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu fyrir 4. s.m. og var framkvæmdaleyfi gefið út sama dag. Í leyfinu kemur fram að framkvæmdatími er áætlaður þrír mánuðir.
Í matsskyldufyrirspurn Sveitarfélagsins Ölfuss, frá 10. desember 2024, kom fram að fyrirhuguð framkvæmd væri hluti af breytingum og endurbótum sem hafi átt sér stað á hafnarsvæði Þorlákshafnar. Höfnin sé undirstaða atvinnulífs og þróunar byggðar í bænum. Um sé að ræða einu flutnings- og fiskihöfn Suðurlands allt austur til Hornafjarðar, og þjónusti hún einnig höfuðborgarsvæðinu. Fram kom einnig að umsvif hafnarinnar séu fjölbreytt og hafi aukist með tíðari komu vöruflutningaskipa og leggi sveitarfélagið áherslu á að efla þjónustu við hafnsækna starfsemi. Með breytingunni séu sköpuð ákjósanleg skilyrði til að þjónusta starfsemi hafnarinnar vel og efla um leið atvinnulíf og byggð í Þorlákshöfn, m.a. með auknum vöruflutningum, þjónustu við fiskveiðiskip og viðkomu skemmtiferðaskipa. Sjórinn suður af hafnarsvæðinu hafi verið nýttur af áhugafólki til brimbrettaiðkunar en engin aðstaða sé til staðar fyrir þá starfsemi.
Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar. Ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis sé háð efnis- og formannmörkum sem valdi ógildingu ákvörðunarinnar. Ljóst sé að framkvæmdirnar, sem hafnar séu, muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Líkt og rakið hafi verið í umsögn kæranda sé öldugangur á hverjum stað þannig einstakur af náttúrunnar hendi og verði ekki endurskapaður. Með kæru fylgdi myndband sem ætlað var að sýna að framkvæmdir væru þegar hafnar.
Málsrök sveitarfélagsins Ölfuss: Sveitarfélagið hefur ekki veitt umsögn um kæru í máli þessu en starfsmaður sveitarfélagsins benti á að farið yrði yfir málið og umsögn veitt. Kom um leið fram að það mundi hafa stórkostlegt tjón í för með sér ef framkvæmdir yrðu stöðvaðar, jafnvel þó það væri bara tímabundið.
Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ljóst virðist af gögnum málsins að framkvæmdir séu þegar hafnar. Vísar kærandi til þess að um óafturkræf áhrif vegna framkvæmda verði að ræða ef ekki verði brugðist við kröfu hans um stöðvun framkvæmda.
Með vísan til athugasemda um 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 verður að telja að kæruheimild kunni að verða þýðingarlaus í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið hafi úrskurðarnefndin ekki framangreindar heimildir, en mikilvægt sé að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Af hálfu kæranda hefur verið hreyft margvíslegum sjónarmiðum og álítur hann m.a. að ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin þurfi ekki að lúta mati á umhverfisáhrifum sé háð verulegum annmörkum. Verði ákvörðun stofnunarinnar, sem einnig hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, felld úr gildi í samræmi við kröfu félagsins sé forsenda fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins brostin. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ýmis álitaefni uppi í málinu sem geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þarf úrskurðarnefndin því tóm til að kanna málsatvik frekar, leita eftir sjónarmiðum sveitarfélagsins og eftir atvikum afla frekari gagna.
Meðal álitaefna sem uppi eru í þessu kærumáli er hvort kærandi uppfylli skilyrði kæruaðildar að hinni kærðu ákvörðun skv. lögum nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er fjallað um almenn skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni, þ.e. að kærandi verði að eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Af hálfu kæranda er á hinn bóginn vísað til b. liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem varðar heimild tiltekinna samtaka, sem talin eru gæta almannahagsmuna, til þess, að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum, að bera vissar ákvarðanir undir úrskurðarnefndina. Þar á meðal eru leyfi „vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum“, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr.
Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 var rakið í skýringum við b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Hér undir falli m.a. framkvæmdir sem ákveðið hafi verið að skuli háðar mati á umhverfisáhrifum og var um það vísað til þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þau leyfi sem um sé að ræða séu öll leyfi stjórnvalda sem sæti kæru til nefndarinnar og nauðsynleg séu svo ráðast megi í framkvæmd sem sé háð mati á umhverfisáhrifum. Í ljósi þessa mun úrskurðarnefndin við meðferð þessa kærumáls óska eftir nánari rökstuðningi um kæruaðild kæranda.
Af gögnum þessa máls virðist ljóst að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi séu yfirvofandi og er framkvæmdatími áætlaður þrír mánuðir. Að því má leiða rök að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um kærumálið nema tryggt sé að framkvæmdir fari ekki fram á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Eru jafnframt ýmiss álitaefni uppi í málinu sem þarfnast nánari rannsóknar og eru því efnisleg rök að baki kæru. Álíta verður því að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda. Um leið þykir rétt, að virtum þeim athugasemdum sem komu fram af hálfu sveitarfélagsins, að benda á að leyfishafi getur krafist þess að mál fyrir úrskurðarnefndinni sæti flýtimeðferð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.
Úrskurðarorð:
Stöðvaðar eru framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaleyfi bæjarstjórnar Ölfuss frá 30. janúar 2025 fyrir gerð landfyllingar við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn.