Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2014 Númerslaus bifreið

Árið 2014, miðvikudaginn 23. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 26/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. apríl 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir O, , Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 27. mars 2014 að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer,–   að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar verði henni fargað eða hún tekin í vörslu.

Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til úrskurðar um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. 

Málsatvik og rök: Hinn 27. mars 2014 var límd tilkynning á númerslausa bifreið kæranda af gerðinni — með fastanúmerið –. Í tilkynningunni var kveðið á um skyldu til að fjarlægja bifreiðina með vísan til ákvæða 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti,  4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum. Kom fram í tilkynningunni að eiganda bifreiðarinnar væri veittur frestur til 7. apríl til að fjarlægja hana og tekið fram að honum loknum yrði henni fargað eða hún tekin í vörslu í 45 daga. Að þeim tíma loknum yrði henni fargað eða hún seld nauðungarsölu. Þá kom fram að kostnaður vegna þessara aðgerða greiðist af eiganda/forráðamanni. Andmæli komu fram af hálfu kæranda sem krafðist þess að hætt yrði við boðaðar aðgerðir eða að veittur yrði viðbótarfrestur til 30 daga. Honum var veittur viðbótarfrestur í tvo daga með tölvubréfi.

Kærandi telur lagaskilyrðum fyrir hinni kærðu ákvörðun ekki vera fullnægt og að verulegir annamarkar hafi verið á málsmeðferð við töku hennar. Sé kæranda nauðsynlegt að fá skorið úr ágreiningnum áður en hin kærða ákvörðun komi til framkvæmda.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er því mótmælt að hin kærða ákvörðun sé ólögmæt og því mótmælt að réttaráhrifum hennar sé frestað enda séu engin rök til þess. Bifreiðin sé á stæði í eigu borgarinnar sem ekki sé ætlast til að nýtt sé sem geymslusvæði eða lausn á geymsluvanda einstakra borgara á lausafé í þeirra eigu. Bílastæðin séu hugsuð öllum borgurum til afnota undir bifreiðar sem hafi skráningarnúmer.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi og sé um að ræða ákvörðun sem ekki feli í sér heimild til framkvæmda geti úrskurðarnefndin frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. 

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem heimilar förgun eða sviptingu á vörslum bifreiðar í eigu kæranda bregðist hann ekki við með tilteknum hætti. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á hagsmuna að gæta. Með tilliti til þess að heimild til stöðvunar réttaráhrifa er undantekning, að ekki yrði um óbætanlegt tjón að ræða enda þótt ákvörðun kynni síðar að verða felld úr gildi, og með því að kærandi hefur þann kost að varðveita bifreið sína með þeim hætti að hagsmunir hans verði ekki bornir fyrir borð, verður ekki litið svo á ákvörðunin raski áðurgreindum hagsmunum kæranda svo verulega að rétt sé að fallst á kröfu hans um frestun réttaráhrifa. Verður kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa því hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 27. mars 2014 að skylda eiganda bifreiðar með fastanúmer — að fjarlægja hana innan tiltekins frests ellegar verði henni fargað eða hún tekin í vörslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir