Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2025 Þorlákshafnarhöfn

Árið 2025, mánudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 25/2025, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar 2025 um að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2025, er barst nefndinni sama dag, kærir Brimbrettafélag Íslands þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. febrúar s.á. að landfylling við Þorlákshöfn skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.

Leitað var umsagnar Skipulagsstofnunar um kæru í máli þessu. Gerði stofnunin ábendingu um gögn málsins og boðaði umsögn innan veitts frests, sem ekki er liðinn.

Málsatvik og rök: Hinn 10. desember 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Hafnarsjóði Þorlákshafnar um landfyllingu við Þorlákshafnarhöfn samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. liði 13.02 og 10.10 í 1. viðauka laganna. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að hin fyrirhugaða framkvæmd væri tæplega 1 ha landfylling á syðsta hluta hafnarsvæðisins. Núverandi hafnarsvæði H3 væri um 12 ha að stærð og fyrirhuguð breyting gerði ráð fyrir um 9.000 m2 landfyllingu sunnan Suðurvaragarðar. Efnið sem notað yrði í landfyllinguna kæmi til með að vera uppúrtekt vegna dýpkunar við nýja Suðurvarabryggju. Gert væri ráð fyrir að í landfyllinguna sjálfa yrði notað um 27.000 m3 af efni og í grjótkápuna um 10.000 m3 af grjóti. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Brimbrettafélags Íslands, Hafrannsóknarstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Umhverfis- og orkustofnunar, Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Ölfuss og Náttúruverndarstofnunar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 4. febrúar 2025. Var niðurstaða stofnunarinnar að hin fyrirhugaða framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021 og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærandi bendir á að hann telji að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé háð efnis- og formannmörkum sem eigi með réttu að valda ógildingu ákvörðunarinnar. Stofnunin hafi ekki búið yfir fullnægjandi eða réttum upplýsingum til að leggja forsvaranlegt mat á líkleg umhverfisáhrif og umfang þeirra og nauðsyn hefði staðið til þess að rannsaka ýmis atriði betur. Ljóst sé að framkvæmdirnar muni hafa í för með sér óafturkræf áhrif á Aðalbrotið. Verði hin fyrirhugaða landfylling að veruleika muni aldan styttast, gæði hennar verða óásættanleg og aðstæður til brimbrettaiðkunar mun hættulegri. Hluti brimbrettasvæðisins muni fara undir land­fyllinguna, þar á meðal það svæði sem notað sé af brimbrettafólki til að komast upp úr sjónum.

Niðurstaða: Á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og ber að skýra umrædda heimild þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Hinn 10. febrúar 2025 lagði kærandi þessa máls fram kæru á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 4. s.m., og gerði kröfu um stöðvun framkvæmda. Með bráðabirgðaúrskurði, dags. 12. s.m., stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir á grundvelli hins kærða framkvæmdaleyfis. Var kæran í kjölfarið látin sæta flýtimeðferð hjá úrskurðarnefndinni á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011. Með úrskurði, fyrr í dag var kæru vegna framkvæmdaleyfis vísað frá nefndinni sökum aðildarskorts. Brestur nefndina heimild til þess að fjalla um skilyrði frestunar réttaráhrifa þeirrar ákvörðunar, að því virtu.  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem lýtur eingöngu að því hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum en ákvörðunin felur ekki í sér sjálfstæða heimild til að hefja framkvæmdir. Verður því ekki fallið á að skilyrði geti verið til þess að fresta réttaráhrifum hennar. Það er því undir framkvæmdaraðila komið að meta hvort hann kjósi að bíða úrskurðar nefndarinnar um þá ákvörðun sem er til umfjöllunar í máli þessu.

 Vert er að geta þess að í stjórnsýslukæru kæranda er aðild rökstudd svo að hann teljist til umhverfisverndar-, útivistar eða hagsmunasamtaka. Kemur þar fram að kærandi uppfylli áskilnað b-liðs 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem hagsmunasamtök. Hefur kærandi komið nánari upplýsingum hér að lútandi til úrskurðarnefndarinnar, en ekki hefur verið tekin afstaða til kæruaðildar á þeim grundvelli að svo stöddu.

 Með tilliti til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa er undantekning og með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli hinnar kærðu matsskylduákvörðunar.