Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2023 Sóltún

Árið 2023, föstudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 25/2023, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20 febrúar 2023, kæra Íbúasamtök Laugardals, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Samkvæmt breytingartillögunni var lóðinni skipt í tvennt, nr. 2 og nr. 4. Breytingar vegna lóðar nr. 2 fólust meðal annars í að tvær álmur voru lengdar til að bæta við hjúkrunarrýmum, fimmtu hæðinni var bætt við að hluta og kjallari stækkaður. Á lóð nr. 4 var meðal annars formi byggingarreits breytt, notkun breytt úr hjúkrunarheimili í íbúðir og hæðar heimild aukin úr 4 hæðum í 5, með 6. hæð að hluta.

Kærendur vísa til þess að samþykkt viðbygging við Sóltún 2 muni skerða aðgengi og dagsbirtu í almenningsgarði sem afmarkist af byggingum við Sóltún og Miðtún. Athugasemdir íbúa og ítrekuð erindi frá íbúasamtökunum hafi ekki verið tekin til greina við skipulagsvinnuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu.

 

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.