Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

25/2006 Hagamelur

Ár 2007, þriðjudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2006, kæra eigenda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Hagamel 52, Reykjavík á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2006 um úttekt á burðarvirki er kom í stað burðarveggjar í íbúð á fyrstu hæð fjöleignarhússins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Dýrleif Kristjánsdóttir lögfræðingur, f. h. B og H, eigenda íbúðar í fjöleignarhúsinu að Hagamel 52, Reykjavík synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. mars 2006 um úttekt á burðarvirki er kom í stað burðarveggjar í íbúð á fyrstu hæð fjöleignarhússins.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að gera úttekt á greindu burðarvirki.

Málsatvik og rök:  Í maímánuði 2005 höfðu kærendur samband við embætti byggingarfulltrúa og bentu á að verið væri að rífa niður burðarvegg í íbúð á fyrstu hæð hússins að Hagamel 52 án samþykkis þeirra og án tilskilinna leyfa.  Í kjölfarið sendi embætti byggingarfulltrúa eigendum íbúðarinnar bréf, dags. 14. júní 2005, þar sem þeir voru krafðir skýringa. Svar barst frá verkfræðingi íbúðareigenda þar sem upplýst var að hann hefði umsjón með verkinu. Var honum bent á að sækja um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.  Sótt var um leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum og veitti byggingarfulltrúi leyfi til að fjarlægja burðarvegg milli eldhúss og borðstofu í umræddri íbúð á afgreiðslufundi hinn 1. nóvember 2005.  Með bréfi, dags. 14. nóvember 2005, fóru kærendur fram á að byggingarfulltrúi léti taka út greindar framkvæmdir svo hafið yrði yfir allan vafa að burðarþol umrædds húss væri fullnægjandi.  Kærendum var tilkynnt með bréfi, dags. 12. desember 2005, að embætti byggingarfulltrúa myndi ekki aðhafast frekar í málinu í ljósi þess að fyrir lægi að verkið hefði verið unnið samkvæmt uppdrætti burðarþolshönnuðar og starfsmaður embættisins staðfest að hönnunin væri í fullkomnu lagi.  Krafa um úttekt á verkinu af hálfu óháðs aðila var ítrekuð í bréfi lögfræðings kærenda, dags. 6. febrúar 2006 en í svari við því bréfi skírskotaði byggingarfulltrúi til bréfs síns til kærenda dags. 12. desember 2005.

Kærendur byggja á því að umdeildar framkvæmdir hafi verið ólögmætar og háðar samþykki meðeigenda fjöleignarhússins.  Hönnunarteikningar og yfirlýsingar um burðarþol hafi komið til löngu eftir að umdeildar framkvæmdir í íbúð á fyrstu hæð hússins hafi verið um garð gengnar.  Embætti byggingarfulltrúa hafi sjálft viðurkennt að umdeild breyting hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur.  Telji kærendur að byggingarfulltrúa beri, skv. 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 9. og 61. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, að framkvæma úttekt á burðarvirki því er komið hafi í stað burðarveggjar þess sem fjarlægður hafi verið.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar málsins.  Kærendum hafi verið tilkynnt skriflega um synjun á erindi þeirra með bréfi, dags. 12. desember 2005, en ákvörðunin hafi ekki verið kærð fyrr en með kæru dags. 30. mars 2006.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun er kæra skal.  Ekki sé reynt að færa rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna og hljóti því kæran að teljast alltof seint fram komin.

Niðurstaða:  Byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum var veitt af hálfu byggingarfulltrúa hinn 1. nóvember 2005 og svar hans við málaleitan kærenda um úttekt vegna þeirra framkvæmda er dagsett 12. desember sama ár.  Lögmaður kærenda  áréttaði erindi þeirra með bréfum, dags. 6. febrúar og 7. mars 2006, en í svari byggingarfulltrúa við þeim bréfum frá 9. mars 2006 skírskotaði hann til bréfs frá 12. desember 2005 um afstöðu embættisins til málsins.

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða afgreiðsla byggingarfulltrúa á frekari úttekt á heimiluðum framkvæmdum samkvæmt byggingarleyfinu frá 1. nóvember 2005 var tilkynnt kærendum með bréfi dags. 12. desember sama ár eins og fram er komið.  Liggur því fyrir að kærufrestur var liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 30. mars 2006 enda skapar svar byggingarfulltrúa frá 9. mars 2006 ekki nýjan kærufrest þar sem svarbréfið fól ekki í sér nýja ákvörðun heldur aðeins áréttingu á fyrri afstöðu embættisins til erindis kærenda.

Að þessu virtu og með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir þau atvik í málinu er gefa tilefni til að taka málið til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguákvæðum 1. eða 2. tl. greinds lagaákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

     ____________________________                   ______________________________
              Ásgeir Magnússon                                              Geirharður Þorsteinsson