Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 24/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a við Túngötu í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir eigandi að Marargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a við Túngötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2024.
Málavextir: Á Túngötu 36 og 36a er parhús. Hinn 26. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í máli nr. 22/2022 þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars s.á. um að samþykkja leyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu að Túngötu 36a. Fólust þær breytingar í því að í stað glugga á norðurhlið hússins voru settar dyr sem stækkaði opið auk þess sem gerðar voru svalir eða pallur með tröppum niður á lóðina. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að ekki væri loku fyrir það skotið að umdeildar framkvæmdir gætu haft grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda, s.s. vegna aukinnar innsýnar og breyttrar umferðar um lóð leyfishafa. Ætti undantekningarregla 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki við og hefði borgaryfirvöldum borið að grenndarkynna hina umdeildu umsókn fyrir kæranda og öðrum er gætu átt hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 30. janúar 2024 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á húsinu að Túngötu 36a. Fólst hún í það sinn aðeins í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Var umsóknin talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Jafnframt var tekið fram að um væri að ræða samþykkt á framkvæmd sem gerð hefði verið án byggingarleyfis. Fékk framkvæmdaraðili sent bréf, dags. 5. febrúar 2024, þar sem fram kom að umsókn hans um byggingarleyfi hefði verið samþykkt.
Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun sé hunsaður úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022. Við undirbúning ákvörðunarinnar hafi ekki farið fram grenndarkynning en innsýn í íbúð sé óbreytt frá fyrra máli. Þá fáist ekki séð að Minjastofnun Íslands hafi fjallað um breytinguna, en hús á lóðum Túngötu 36 og 36a hafi verið reist fyrir árið 1940 og falli því undir áskilnað 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Jafnframt verði hvorki séð hvort sameigandi parhússins hafi samþykkt umrædda framkvæmd né hvers vegna vísað hafi verið til þess við afgreiðslu málsins að fyrir lægi samþykki lóðarhafa Túngötu 23. Sé um rökstuðning fyrir kæru vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 22/2022.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sérstaklega hafi verið horft til þess að fyrirliggjandi umsókn væri talsvert frábrugðin fyrri umsókn frá árinu 2022. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi umsækjandi lagt fram nýja umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. október 2023, þar sem einungis hafi verið sótt um leyfi fyrir áðurgerðum breytingum er fólust í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Litið hafi verið til þess að á húsinu hafi verið minni gluggi frá byggingu þess og staðfestu upphaflegar teikningar það. Eftir vettvangsskoðun byggingarfulltrúa og mat á umfangi og grenndaráhrifum breytingarinnar gagnvart fasteign kæranda hafi umsóknin verið samþykkt. Byggingarfulltrúi hafi talið breytinguna í engu skerða hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn og því hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna umsóknina, sbr. lokamálslið 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókninni hafi fylgt samþykki sameiganda að Túngötu 36 og þar með hafi skilyrði um samþykki meðeiganda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús verið uppfyllt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en tilvísun til samþykkis lóðarhafa Túngötu 23 í fundargerð byggingarfulltrúa frá 30. janúar 2024 hafi verið ritvilla sem búið sé að lagfæra.
Breytingin muni ekki hafa aukin grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda, hvorki hvað varði innsýn né önnur grenndaráhrif. Snúi umræddur gluggi að bakgarði og girðingu milli Túngötu 36a og fasteignar kæranda. Framkvæmdir á Túngötu 36a hafi verið gerðar á árinu 2021 en þá hafi verið við það miðað í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að leita skyldi umsagnar Minjastofnunar Íslands væru hús byggð árið 1925 eða fyrir þann tíma. Það hafi ekki verið fyrr en með breytingarlögum nr. 126/2022 sem tekið hafi gildi 1. janúar 2023 sem miðað hafi verið við að leita skyldi umsagnar vegna húsa sem byggð væru fyrir árið 1940. Þar sem samþykki byggingarfulltrúa hafi tekið til áðurgerðra breytinga hafi hann ekki talið sig skyldan til að fylgja því eftir hvort umsækjandi hefði leitað álits Minjastofnunar Íslands. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 80/2012 skyldu eigendur leita álits stofnunarinnar áður en ráðist væri í verulegar breytingar, flutning eða niðurrif. Um hafi verið að ræða minniháttar breytingu á einum glugga sem falli þar af leiðandi ekki undir 30. gr. laganna.
Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila, fyrri eiganda Túngötu 36a, er tekið fram að eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi eigendur hætt við þau áform sín að byggja stigapall og tröppur niður á plan norðan megin við húsið en eftir hafi staðið síkkun glugga í stofu. Slík framkvæmd sé ekki byggingarleyfisskyld en skuli tilkynnt byggingarfulltrúa. Þar sem síkkunin hafi verið framkvæmd áður en byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða síkkun hafi embættið ákveðið að sækja skyldi um byggingarleyfi. Ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi enda framkvæmdin eingöngu tilkynningaskyld.
Marargata 7 standi töluvert hærra en Túngata 36a og hafi því innsýn frá Marargötunni verið mikil áður en glugginn hafi verið síkkaður. Snúi sex stórir stofugluggar að Túngötu 36a þar sem á móti hafi verið fimm misstórir gluggar. Standist húsin ekki alveg á og að auki séu 30 m frá glugganum á Túngötu 36a að húsi kæranda og nokkur gróður á milli húsanna. Vegna fjarlægðar og afstöðu verði ekki séð hvernig innsýn kæranda inn um einn síkkaðan glugga í stofu Túngötu 36a geti haft nokkur slík grenndaráhrif að tilefni sé til kærunnar.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að meðal þeirra gagna sem fylgt hafi umsögn Reykjavíkurborgar sé teikning arkitekts sem dagsett sé 18. október 2023. Geri kærandi ráð fyrir að umrædd teikning sé flokkuð sem byggingarleyfisumsókn sem tekin hafi verið afstaða til á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. janúar 2024. Ný umsókn um byggingarleyfi hafi því borist frá tilgreindum arkitekt rúmi ári eftir að úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 22/2022. Þegar umsóknin hafi verið lögð inn hjá Reykjavíkurborg hafi lög nr. 126/2022 sem breytt hafi lögum nr. 80/2012 um menningarminjar tekið gildi. Sú lagaskylda að leita skuli umsagnar Minjastofnunar Íslands hafi ekki verið uppfyllt. Það sé útilokað að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að leggja mat á það hvaða breytingar á húsum sem falli undir 30. gr. laganna teljist minniháttar eða meiriháttar, verulegar eða óverulegar. Slíkt mat sé í höndum Minjastofnunar, ef það eigi yfirleitt að fara fram. Hafi starfsmaður Reykjavíkurborgar óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til umsóknarinnar og í svari 21. mars 2024 hafi m.a. komið fram að stofnunin teldi umræddar breytingar umsagnarskyldar skv. 30. gr. laga nr. 80/2012. Reykjavíkurborg hafi hunsað þessa niðurstöðu og upplýst nefndina um að byggingarfulltrúi teldi að ekki væri þörf á því að leita álits Minjastofnunar.
Fyrir óleyfisframkvæmd fyrri eigenda Túngötu 36a hafi gluggi á norðurvegg hússins við Túngötu 36a verið þannig staðsettur að eigendur íbúða gegn nefndri íbúð hafi ekki séð inn í hana. Hafi framkvæmdirnar falist í því að téður gluggi hafi í það minnsta verið tvöfaldaður að stærð. Eftir breytinguna hafi innsýn aukist verulega inn í íbúðina frá íbúðum við Marargötu 7.
Eigendaskipti hafa orðið að Túngötu 36a og hafa nýir eigendur tekið undir málatilbúnað borgaryfirvalda.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 6. júní 2024.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu sem fólst í því að gluggi á 1. hæð norðurhliðar íbúðarhúss á lóð nr. 36a við Túngötu var síkkaður.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.
Með hinu umdeilda leyfi var fallist á stækkun glugga á norðurhlið hússins að Túngötu 36a. Á þremur hæðum hússins á þeirri hlið hafa frá byggingu þess árið 1937 verið níu gluggar. Sá gluggi sem um er deilt í málinu nær nú niður á gólf. Glugginn er í stofu hússins og við hlið hans er stærri stofugluggi og er sambærilegur gluggi í hinum hluta parhússins, þ.e. í þeim hluta sem er á lóð nr. 36 við Túngötu. Hvorki verður séð að innsýn yfir á lóð kæranda aukist að neinu marki né að aukin innsýn hans vegna síkkunar gluggans snerti lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Þá teljast sjónarmið um verndun mannvirkja samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar til almannahagsmuna en slík sjónarmið teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.