Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

24/2024 Hringbraut

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

 Fyrir var tekið mál nr. 21/2024, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­kaupstaðar frá 26. janúar 2024 varðandi mörk lóða nr. 9 og 11 við Hringbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hringbraut 11, Hafnarfirði, afgreiðslu byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 26. janúar s.á. varðandi mörk lóðarinnar gagnvart lóð nr. 9 við sömu götu. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 8. mars 2024.

Málsatvik og rök: Lóðir nr. 9 og 11 við Hringbraut í Hafnarfirði eru leigulóðir. Samkvæmt fasteignaskrá eru stærðir lóðanna 437,5 m2 og 432 m2. Á lóðunum eru hús sem reist voru á árunum 1949-1951 og eru tvær íbúðir í hvoru þeirra. Á lóð nr. 9 er einnig bílskúr sem reistur var árið 1966. Með bréfi, dags. 26. janúar 2024, var eigendum húsa á lóðum þessum tilkynnt að byggingarfulltrúi bæjarins hefði látið mæla mörk þeirra og að bílskúr á lóð nr. 9 væri 22 cm fyrir innan mörk lóðar nr. 11. Þá var tekið fram að byggingarfulltrúi myndi senda „útsetningar­mann“ sem myndi merkja lóðamörkin og að fyrri „útsetning“ teldist ekki rétt. Með bréfinu fylgdi skýringarmynd. Er í málinu deilt um gildi þessa bréfs og skýringarmyndar.

Kærandi telur byggingarfulltrúa ekki geta upp á sitt eindæmi breytt mörkum lóða. Um sé að ræða lóðamörk samkvæmt gildu deiliskipulagi frá árinu 2008. Óumdeilt sé að bílskúr á lóð nr. 9 gangi 47 cm inn á lóð nr. 11 við sömu götu, þ.e. lóð kæranda.

Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er bent á að engri stjórnvaldsákvörðun sé til að dreifa. Aldrei hafi verið gefið út formlegt mæliblað af þeim lóðum sem um ræði. Í umsögn bæjarins til úrskurðarnefndarinnar er rakið að ágreiningur hafi verið um mörk þessara lóða. Engu gildu mæliblaði sé til að dreifa, en mæliblaðið sem kærandi vísi til sé tillaga að lóðamörkum. Tekið sé fram að gild mæliblöð séu staðfest með undirskrift skipulagsfulltrúa. Bréf byggingar­fulltrúa, dags. 26. janúar 2024, hafi verið sent eigendum til upplýsingar.

Við meðferð þessa máls bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá eigendum efri hæðar húss á lóð nr. 9 við Hringbraut í Hafnarfirði um að ákvörðun byggingarfulltrúa væri ólögmæt en bílskúr, sem sé í þeirra eigu, sé alfarið innan lóðar þeirra.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deili­skipulags. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna er deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags og eru með því m.a. teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun og byggingarreiti. Mæli- og hæðarblöð eru skilgreind í 28. mgr. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem hönnunargögn sem unnin séu í kjölfar deiliskipulags og lýsa með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru er þurfa þyki. Þá er tekið fram að einnig séu þau nefnd lóðablöð.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns, Ölduslóðar og Hringbrautar frá árinu 2008 og eru mörk lóða á skipulagssvæðinu sýnd á skipulagsuppdrætti, þ. á m. mörk lóða nr. 9 og 11 við Hringbraut. Af hálfu bæjaryfirvalda hefur komið fram fyrir úrskurðarnefndinni að ekki hafi verið gerð mæliblöð vegna greindra lóða og að skýringarmynd sem fylgdi bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. janúar 2024, sé einungis tillaga að lóðamörkum.

Með þessu liggur ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds, sem borin verður undir nefndina til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta leitt. Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.