Árið 2020, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 24/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 26. maí 2019.
Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi hefur aðsetur að Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Með úrskurði 9. nóvember 2016 í kærumáli nr. 89/2016 var kröfum kæranda, sem einnig er kærandi þessa máls, vísað frá en þær beindust að breyttri notkun á íbúðarhúsi í gistiheimili að Egilsgötu 6. Loks var með úrskurði 21. september 2018 í kærumáli nr. 93/2017 felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja endurnýjaða byggingarleyfisumsókn fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6. Þá hefur kærandi jafnframt kært afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni hans um afhendingu gagna. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 158/2017, uppkveðnum 20. desember 2018, var lagt fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar tiltekinn hluta erindis kæranda um aðgang að gögnum, en að öðru leyti var kærunni vísað frá.
Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar 28. september 2018 var tekin fyrir endurnýjuð umsókn leyfishafa. Samþykkti nefndin að grenndarkynna umsóknina og fól umhverfis- og skipulagssviði að kynna nágrönnum, sem hagsmuna hefðu að gæta, fyrirhugaða framkvæmd. Með bréfi, dags. 23. október s.á., var umsókn leyfishafa kynnt fyrir kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og var athugasemdafresturinn til 23. nóvember s.á. Kærandi óskaði eftir frekari gögnum, upplýsingum og svörum við tilteknum spurningum í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 29. október s.á., en því bréfi var ekki svarað af byggingarfulltrúa. Hinn 20. nóvember s.á. kom kærandi að athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar til sveitarstjórnar. Á fundi byggðaráðs 3. janúar 2019 voru lögð fram drög að bréfi vegna framkominna athugasemda kæranda og samþykkti ráðið að fela sveitarstjóra að senda bréfið með áorðnum breytingum. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu byggðaráðs á fundi sínum 10. s.m. Með bréfi sveitarstjóra til kæranda, dags. 7. s.m., var athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna svarað. Á fundi umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar 6. mars 2019 voru lagðar fram athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar og svör byggingarfulltrúa við þeim. Taldi nefndin svörin fullnægjandi og lagði til við sveitarstjórn að byggingarleyfi yrði gefið út fyrir Egilsgötu 6. Samþykkti sveitarstjórn á fundi sínum 14. s.m. að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda við Egilsgötu 6. Byggingarfulltrúi gaf síðan út hið kærða byggingarleyfi 2. apríl s.á.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að skv. gr. 2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé það m.a. verkefni skipulagsnefnda að annast grenndarkynningar vegna umsókna um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggi fyrir deiliskipulag. Í gr. 5.9.3. um hagsmunaaðila segi að skipulagsnefnd skuli leggja mat á hverjir geti talist hagsmunaaðilar. Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi ekki lagt neitt mat á það hverja hún hafi talið til hagsmunaaðila málsins. Í gögnum málsins komi hvergi fram hverjir hafi verið taldir aðilar máls eða hverjir hafi gert athugasemdir við umsóttar breytingar. Þá liggi fyrir að eigandi fjölbýlishússins að Egilsgötu 11, sem eigi bílastæðin sem sveitarstjóri hafi talið vera í eigu sveitarfélagsins í bréfi sínu til kæranda 7. janúar 2019 og sem notendur eigna Egilsgötu 6 hafi hagnýtt sér leyfislaust, hafi ekki verið á meðal þeirra sem fengið hefðu að taka þátt í grenndarkynningunni.
Á þeim tveimur fundum sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi haldið eftir að frestur til þess að gera athugasemdir við grenndarkynninguna hafi runnið út 23. nóvember 2018, og þar til byggðaráð Borgarbyggðar hafi tekið svör sveitarstjóra við athugasemdir kæranda til umfjöllunar á fundi sínum 3. janúar 2019, hafi nefndin ekki fjallað um eða afgreitt athugasemdir kæranda við grenndarkynninguna. Í bókun nefndarinnar á fundi hennar 6. mars s.á. komi ekkert fram um hvaða athugasemdum hafi verið svarað af byggingarfulltrúa. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Í bréfi lögfræðings sveitarfélagsins til Sýslumannsins á Vesturlandi sé staðfest að þrjár athugasemdir hafi borist byggingarfulltrúanum vegna grenndarkynningarinnar og að hann hafi svarað þeim, en athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið svarað af sveitarstjóra þar sem kærandi hafi stílað athugasemdir sínar á sveitarstjórn Borgarbyggðar. Því hafi málsmeðferð athugasemda kæranda verið önnur en hinna athugasemdanna. Slíkt staðfesti að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi hvorki tekið afstöðu til athugasemda kæranda né svara sveitarstjórans til hans. Einstakir þættir málsins hafi því aldrei verið teknir fyrir á fundum nefndarinnar líkt og henni hafi borið að gera skv. gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segi að berist athugasemd á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um athugasemdir til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.
Á fundi sveitarstjórnar 10. janúar 2019 hafi ákvörðun byggðaráðs frá 3. s.m., um að fela sveitarstjóra að senda svarbréf vegna athugasemda kæranda með áorðnum breytingum, verið staðfest, en sveitarstjóri hafi hins vegar sent nefnt svarbréf þremur dögum fyrr eða 7. s.m. Hvergi komi fram að umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd hafi fengið svarbréfið til umfjöllunar eða samþykktar. Með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð sé niðurstaða bréfsins því marklaus og ólögleg þar sem samþykki sveitarstjórnar fyrir því hafi ekki legið fyrir þegar það hafi verið sent.
Bréf skipulagsfulltrúa frá 23. október 2018 þar sem fyrirhuguð framkvæmd hafi verið grenndarkynnt uppfylli ekki skilyrði laga enda sé ekki getið um til hverra nota íbúðirnar eigi að vera. Í gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð segi að í bréfi til hagsmunaaðila skuli m.a. koma fram hvert sé meginefni grenndarkynningar og eigi hönnunargögn, sbr. gr. 5.9.7., að fylgja þegar um leyfisumsókn sé að ræða. Verulega vanti upp á í þeim efnum. Í gr. 5.9.7. sé m.a. kveðið á um að upplýsingar um bílastæði og aðrar kröfur sem gerðar séu til framkvæmdarinnar þurfi að fylgja gögnum eftir því sem við eigi, sbr. einnig gr. 4.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá komi fram í gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar að í grenndarkynningu leyfisumsóknar skuli liggja fyrir rökstuðningur fyrir fjölda bílastæða og fyrirkomulag þeirra. Gögn meðfylgjandi grenndarkynningu uppfylli ekki framangreindar lagaskyldur. Í bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 sé vísað til bílastæða í eigu sveitarfélagsins sem standi gegnt Egilsgötu 6, en samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi Egilsgötu 11 séu umrædd bílastæði innan lóðarmarka þeirrar lóðar. Fyrir liggi að sveitarfélagið hafi ákveðið að fjölga íbúðum um þrjár í húsinu og samhliða því ákveðið breytingar á bílastæðum inni á einkalóð annars án leyfis eiganda og án þess að gefa viðkomandi kost á að koma sjónarmiðum sínum að í grenndarkynningu vegna breytinganna.
Samkvæmt byggingarreglugerð verði lögmætt byggingarleyfi ekki gefið út á grundvelli umsóknar þar um nema að uppfylltum skilyrðum þeim sem ákveðin séu í reglugerðinni. Í athugasemdum kæranda við grenndarkynninguna hafi verið bent á fjölmörg atriði sem sýni að hönnunargögn, hönnun og skipulag íbúðanna fullnægi ekki skilyrðum nefndrar reglugerðar. Samkvæmt gr. 4.2.1. í reglugerðinni skuli mannvirki hönnuð á faglega fullnægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð. Í hönnunargögnum sé ekki gerð grein fyrir atriðum sem talin séu upp í gr. 4.3.1. og 4.3.2. og flestum þáttum sem krafa sé gerð um í gr. 4.3.3., 4.3.6., 4.3.9., 6.1.5. og 6.7.1. sömu reglugerðar. Umsókn um byggingarleyfi, og þar með grenndarkynningargögnum, skuli meðal annarra gagna fylgja skráningartafla fyrir mannvirki og málsett teikning af þversniði húss. Hvort tveggja hafi vantað og hafi byggingarfulltrúi ekki svarað beiðni um þau gögn á kynningartíma, auk þess sem sveitarstjóri taki ekki á því efni í bréfi sínu 7. janúar 2019. Þá sé bent á að þinglýst hafi verið eignaskiptayfirlýsingu á lóðina að Egilsgötu 6 og sé hún því orðin að fjöleignarhúsi. Ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í grenndarkynningu. Hvergi sé í gögnunum fjallað um aðgengi að sorpílátum, staðsetningu eða um aðgengi að íbúð á annarri hæð, en íbúar hennar hafi tímabundið leyfi til að fara yfir lóð Egilsgötu 8. Grenndarkynning geti ekki farið fram með fullnægjandi hætti nema hönnunargögn séu fullnægjandi og í samræmi við lög.
Byggingarfulltrúi hafi aldrei svarað fyrirspurnum kæranda um til hverra nota íbúðirnar fjórar ættu að vera og það hafi sveitarstjóri ekki heldur gert í bréfi sínu til hans. Bent sé á að hinn 29. september 2018 hafi byggingarfulltrúi gefið Sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur til ótilgreinds tíma fyrir gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð að Egilsgötu 6. Þá hafi sveitarstjóri hinn 30. s.m. gefið sama aðila jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í sömu íbúðum. Hafi það verið gert þrátt fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi byggingarleyfi fjögurra íbúða að Egilsgötu 6 hinn 21. s.m. Í ljósi þess að sveitarfélagið hafi frá sumri 2013 veitt heimild til rekstrar gistiþjónustu í umræddum íbúðum sé bent á að skv. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé íbúðargisting leiga á stakri íbúð til ferðamanna. Falli útleiga íbúðar ekki undir heimagistingu teljist íbúðin vera atvinnuhúsnæði og skuli vera samþykkt af byggingarfulltrúa sem slík. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eldvarnir skuli taka mið af ákvæðum byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði, en með auknum ráðstöfunum samkvæmt reglum Mannvirkjastofnunar þar að lútandi. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun.
Samkvæmt gr. 4.3.1. í byggingarreglugerð skuli gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra og samkvæmt gr. 6.2.4. skuli lágmarksfjöldi bílastæða fyrir fatlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, vera eitt stæði þegar fjöldi íbúða sé á bilinu 1-10. Þeim skilyrðum sé hvorki fullnægt í hönnunargögnum né í raun. Þá skuli skv. gr. 6.1.3. í byggingarreglugerð hanna gististaði á grundvelli algildrar hönnunar. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skuli ítarlega rökstutt í hönnunargögnum á hvaða grundvelli það sé gert. Hönnun íbúða að Egilsgötu 6 sé ekki unnin á grundvelli algildri hönnun og ekki sé gerð grein fyrir þeim þætti í greinargerð. Þá sé bent á að samkvæmt reglugerðinni skuli samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólffleti þess, þó aldrei minna en 1 m2. Samkvæmt mælingu af teikningu vanti verulega upp á að ljósop glugga þriggja íbúða á fyrstu hæð sé nægjanlegt. Hurðarop uppfylli heldur ekki kröfur um stærð samkvæmt reglugerð. Lofthæð rýma skuli vera að lágmarki 2,5 m samkvæmt reglugerðinni. Ekki sé hægt að sannreyna nákvæmlega af teikningu hvort lofthæð á fyrstu hæð sé fullnægjandi, því málsett þversnið mannvirkis hafi ekki fylgt gögnum málsins og ekki fengist þrátt fyrir beiðni þar um. Aftur á móti hafi mæling á staðnum leitt í ljós að lofthæð í íbúð 0103 uppfylli ekki kröfu reglugerðar um lofthæð og sé mun lægri að hluta samkvæmt því er fram komi í fasteignaauglýsingu fyrir íbúðirnar. Sá þáttur málsins þarfnist frekari rannsóknar, en til þess hafi ekki fengist gögn. Framangreindir ágallar hafi ekki gefið forsendur til lokaúttektar 26. mars 2018, jákvæðra umsagna byggingarfulltrúa og sveitarstjóra um rekstur gistiþjónustu eða útgáfu hins kærða byggingarleyfis. Slíkt leyfi eigi ekki að gefa út fyrr en hönnun standist kröfur byggingarreglugerðar.
Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekkert þeirra atriða sem hafi komið fram í bréfi kæranda 29. október 2018 til byggingarfulltrúa hafi varðað hina umræddu grenndarkynningu. Kærandi hafi spurt byggingarfulltrúa hver skilgreining hans væri á orðinu stúdíóíbúð. Orðið sé að finna í íslenskri nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar og sé vel þekkt orð með vel þekkta merkingu. Byggingarfulltrúa hafi því ekki verið skylt að útskýra það skriflega fyrir kæranda. Hvað varði athugasemdir kæranda þess efnis að umræddar stúdíóíbúðir uppfylli ekki margar ótilgreindar greinar byggingarreglugerðar þá telji sveitarfélagið ljóst að svo óljósum málatilbúnaði sé ekki hægt að svara. Kærandi hafi sent sveitarstjórn Borgarbyggðar bréf, dags. 20. nóvember 2018, þar sem athugasemdir hafi verið gerðar við grenndarkynningu byggingarleyfisins. Kærandi hafi fengið svarbréf frá sveitarstjóra, dags. 7. janúar 2019, þar sem farið hafi verið í gegnum athugasemdir kæranda lið fyrir lið. Bent sé á að í svarbréfi Skipulagsstofnunar til kæranda, dags. 19. mars s.á., komi fram að það sé álit stofnunarinnar að svör sveitarstjóra vegna athugasemda kæranda við bílastæðamál séu fullnægjandi, að sveitarfélagið hafi fært málefnaleg rök fyrir þeirri afstöðu sinni að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið brotin við meðferð málsins og að öllum atriðum í bréfi kæranda hafi verið svarað með fullnægjandi hætti. Sveitarfélagið telji því ljóst að ekki aðeins hafi kærandi fengið tilskilin svör við athugasemdum hans við grenndarkynninguna heldur hafi hann jafnframt fengið staðfestingu á því frá Skipulagsstofnun að svörin hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins sem skipulagsyfirvalds og sem stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Því sé mótmælt að athugasemdabréf kæranda verði lagt til grundvallar sem gagn í þessu máli.
Kærandi geti ekki talist hafa lögvarða hagsmuni um hvort lóðarhafi Egilsgötu 11 hafi fengið senda grenndarkynningu. Óumdeilt sé að grenndarkynnt hafi verið fyrir kæranda og hafi hann því fengið fullt tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Kæranda varði ekkert um það hvort lóðarhafa Egilsgötu 11 hafi verið grenndarkynnt umsókn um byggingarleyfi vegna breytinga á innra skipulagi Egilsgötu 6.
Þrátt fyrir að bæði gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, geri ráð fyrir því að skipulagsnefnd sveitarfélagsins kynni nágrönnum leyfisumsókn þá sé það sveitarstjórn sem eigi síðasta orðið, þ.e. sveitarstjórn sé sá hluti stjórnsýslunnar sem taki málið til endanlegrar afgreiðslu. Þegar afgreiðsla sveitarstjórnar liggi fyrir skuli tilkynna þeim sem gert hafi athugasemdir niðurstöðu hennar. Svarbréf sveitarstjóra hafi verið unnið í samvinnu við starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs auk þess sem byggðaráð hafi samþykkt á fundi 3. janúar 2019 að sveitarstjóri sendi umrætt bréf. Sveitarstjórn hafi síðan tekið endanlega afstöðu í málinu á fundi sínum 14. mars s.á. með því að staðfesta þá afgreiðslu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið kærða byggingarleyfi. Það liggi því fyrir að við endanlega afgreiðslu málsins hafi sveitarstjórn bæði fengið umsagnir umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar um athugasemdir annarra hagsmunaaðila en kæranda, sem og svör sveitarstjóra við athugasemdum hans, þegar ákveðið hafi verið að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfið. Þrátt fyrir að meðferð málsins hafi verið hagað með þessum hætti hafi hún ekki komið niður á möguleika kæranda til að verja hagsmuna sína og koma að sjónarmiðum í málinu. Markmið málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar sé að tryggja réttaröryggi borgaranna í skiptum þeirra við stjórnvöld, en ekki sé nokkur leið að sjá að málsmeðferð sveitarfélagsins í þessu máli hafi haft neikvæða áhrif á réttaröryggi kæranda.
Sveitarfélagið fallist á að það hafi verið annmarki á afgreiðslu málsins að svarbréf sveitarstjórans frá 7. janúar 2019 skyldi sent kæranda áður en sveitarstjórn hafi samþykkt afgreiðslu byggðaráðs um að senda kæranda umrætt bréf. Annmarkinn sé þó ekki þess eðlis að hann eigi að varða ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Vegna þessa atriðis sé á það bent að í byggðaráði sitji þrír fulltrúar og einn áheyrnarfulltrúi, allt sveitarstjórnarmenn. Þegar afgreiðsla byggðaráðs hafi verið lögð fyrir sveitarstjórn til staðfestingar hafi kjörnir fulltrúar engar athugasemdir gert við hana. Því hefði það ekki haft áhrif á efnislega afstöðu sveitarfélagsins til athugasemda kæranda hefði verið beðið með að senda bréfið fram yfir fund sveitarstjórnar.
Kærandi hafi gert athugasemdir við framkvæmd grenndarkynningarinnar. Við yfirferð þeirra hafi sveitarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þeirra stæðist skoðun, m.a. að grenndarkynning hafi verið efnislega fullnægjandi, að afstöðumynd hafi ekki þurft að fylgja með þar sem um ræddi breytingu á innra skipulagi húss, að ekki hafi þurft að gera grein fyrir bílastæðamálum þar sem ákvæði núgildandi skipulagsreglugerðar geri ekki sömu kröfur og eldri skipulagsreglugerð, að sveitarfélaginu væri ekki skylt að útbúa kort yfir bílastæði og að þar sem ekki væri verið að sækja um breytta notkun væri sveitarfélaginu hvorki skylt né heimilt að senda út grenndarkynningu vegna slíks.
Einnig hafi kærandi gert athugasemd við að hönnunargögn stæðust ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en kærandi geti ekki með nokkru móti talist hafa lögvarða hagsmuni af því að grenndarkynnt hönnunargögn vegna innanhússbreytinga sýni að húsið sé hannað á grundvelli algildrar hönnunar, sýni fyrirhugað fyrirkomulag póstkassa og dyrasíma, sýni hæðarkóta á lóðamörkum, sýni hvort baðaðstaða sé þrepa- og þröskuldalaus og sýni skráningu rýmisnúmera á uppdrætti, svo dæmi séu tekin. Tilgangur þeirra ákvæða reglugerðarinnar sem kærandi vísi til sé að veita byggingarfulltrúum tiltekin lágmarksviðmið við þá matskenndu ákvörðun að veita byggingarleyfi. Uppfylli gögn ekki umræddar kröfur geti byggingarfulltrúi vísað til þeirra við ákvörðun um að neita að gefa út byggingarleyfi. Tilgangur þeirra geti hins vegar ekki verið sá að gera öðrum aðilum, sem eigi enga hagsmuna tengda því að hönnunargögn séu fullnægjandi, kleift að vísa til þeirra við kæru til æðra stjórnvalds til rökstuðnings kæruatriðum sem virðist aðallega varða nábýlisrétt.
Þá séu athugasemdir varðandi bílastæðamál við Egilsgötu afar óraunhæfir hagsmunir fyrir kæranda í þessu máli með hliðsjón af því að efni grenndarkynningarinnar hafi varðað breytingu á innra skipulagi hússins að Egilsgötu 6. Í svarbréfi sveitarstjóra hafi með rökstuddum hætti verið vísað til þess að ákvæði eldri skipulagsreglugerðar eigi ekki við í málinu, að málsatvik vegna afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar Brákarbrautar 2 hafi ekki verið sambærileg og að umfjöllun á fundi byggðaráðs um drög að reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald hafi ekki neitt gildi við grenndarkynningu þá sem athugasemdir kæranda hafi varðað.
Að lokum hafi athugasemdir kæranda varðað atvinnurekstur í íbúðahverfum og þess verið krafist að rekstur gistiheimilis í húsinu yrði stöðvaður. Sveitarstjóri hafi svarað með þeim hætti að hin umþrætta grenndarkynning hafi ekki varðað starfsemi í húsinu. Áréttað sé að Skipulagsstofnun hafi vottað að svör sveitarstjóra við tilgreindum atriðum hafi ýmist verið fullnægjandi, að stofnunin hafi ekki lagalegar forsendur til að gera athugasemdir við svörin og að svörin hafi verið fullnægjandi með tilliti til þess rökstuðnings sem þar komi fram. Jafnframt vísist til þess að allir meintu hagsmunir kæranda hafi verið ólögvarðir, óverulegir og þess eðlis að þeir geti ekki talist grundvöllur fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis.
Í svarbréfi sveitarstjóra til kæranda hafi athugasemdum hans varðandi efni grenndarkynningar verið svarað. Um leið sé minnt á afstöðu Skipulagsstofnunar til svara sveitarstjóra varðandi bílastæðamál. Sveitarfélagið gangist við því að hafa ekki áttað sig á því að umrædd stæði væru innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Mistökin helgist af því að sveitarfélagið hafi ávallt séð um umrædd stæði og borið af þeim kostnað. Þróun bílastæðamála við Egilsgötu hafi verið sú að stæðum við götuna hafi fjölgað umtalsvert frá gerð lóðarleigusamnings. Þá sé ítrekað að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni varðandi umrædd bílastæðamál.
Að því er varði þá málsástæðu kæranda að hönnunargögn séu ekki fullnægjandi vísist til fyrri umfjöllunar. Aukinheldur sé vísað til þess sem komi fram í bréfi sveitarstjóra að í gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð segi að við breytingu á mannvirki sem byggt hafi verið í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum um algilda hönnun. Í ljósi þess að húsið við Egilsgötu 6 sé frá 1936 sé ekki hægt að gera kröfu um að það uppfylli allar kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um algilda hönnun. Þá sé vísað til bréfs Skipulagsstofnunar og þá helst þess sem fram komi í 4. tölul. bréfsins um að hönnunargögn þurfi ekki að vera fullunnin fyrir grenndarkynningu, sbr. lokamálslið gr. 5.9.7. í skipulagsreglugerð.
Í kæru sé því haldið fram að sveitarfélaginu hafi verið skylt að kynna til hvaða nota umræddar íbúðir í húsinu að Egilsgötu 6 ættu að vera. Í umsókn leyfishafa hafi verið sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss en ekki hafi komið fram að um breytta notkun væri að ræða. Þá vísi kærandi til umsagna sveitarfélagsins um umsóknir eigenda Egilsgötu 6 til Sýslumannsins á Vesturlandi um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sé því m.a. haldið fram að með því að kynna ekki breytta notkun hússins sé sveitarfélagið með einhverjum hætti að neita því að um sé að ræða íbúðir sem reknar séu fyrir gistiþjónustu. Bent sé á að þetta atriði sé ekki hluti málsins þar sem grenndarkynningin hafi varðað umsókn um leyfi fyrir innanhússbreytingar og ekkert annað. Jafnframt sé bent á að málefni tengd rekstrarleyfum séu ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. úrskurð nefndarinnar í kærumáli nr. 89/2016. Þá vísi kærandi til 12. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og haldi því fram að í ákvæðinu komi fram að íbúð sem ekki falli undir heimagistingu skuli vera atvinnuhúsnæði. Rétt sé að benda á að með breytingarreglugerð nr. 686/2018 hafi umrætt ákvæði verið fellt úr gildi frá og með 3. júlí 2018. Allar athugasemdir kæranda um að hönnunargögn hafi átt að meta með það í huga að um atvinnuhúsnæði væri að ræða falli þar með um sig sjálfar.
Hvað varði athugasemdir í kæru um að hönnun standist ekki kröfur um stærð ljósopa glugga, stærð hurðaopa og lofthæð rýma vísi sveitarfélagið til fyrrnefnds tilgangs viðmiða byggingarreglugerðar og skorts á lögvörðum hagsmunum kæranda. Jafnframt sé bent á að hið umrædda hús hafi verið byggt árið 1936, eða fyrir setningu fyrstu byggingarreglugerðar á Íslandi, og því sé endurskipulagningu þess sniðinn þröngur stakkur hvað varði algilda hönnun.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um að kæru verði vísað frá þar sem kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna „að gæta af úrlausn kæruefnis að hluta og um aðildarskort kæranda að ræða varðandi önnur atriði.“ Tínd séu til ýmis atriði sem séu útgáfu byggingarleyfis óviðkomandi en geti snúið m.a. að rekstrarleyfi leyfishafa, en það sé ekki til meðferðar í máli þessu. Þau atriði málsins sæti frávísun. Málsástæður kæranda um stærð ljósop sem hlutfall af gólffleti og lofthæð íbúða geti vart snert hagsmuni kæranda. Krafa hans um hnitsetta afstöðumynd og hæðarlínur geti vart talist nauðsynlegar til að hann geti gætt grenndarhagsmuna sinna þar sem ekki sé um að ræða breytingar á ytra byrði hússins eða umhverfi. Vísað sé til þess að tilgreind bílastæði séu innan lóðarmarka Egilsgötu 11. Ekki verði séð að kærandi hafi sérstaka lögvarða hagsmuni af þessari málsástæðu. Þá hafi hann ekki sýnt fram á að hann gæti hagsmuna eiganda Egilsgötu 11. Kærandi geti því ekki haldið fram kröfu sem sé einkaréttarlegs eðlis.
Hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út í kjölfar grenndarkynningar. Kærandi hafi haft alla möguleika til að koma athugasemdum sínum á framfæri sem hann og gerði. Stjórnvaldið hafi svarað athugasemdum hans ítarlega með bréfi sveitarstjóra frá 7. janúar 2019 og þar með uppfyllt skyldu sína í samskiptum við kæranda. Því sé ekki hægt að halda fram að réttur hafi verið á honum brotinn. Einnig vísist til þess að lokaúttekt hafi farið fram á fasteignum að Egilsgötu 6.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingarfulltrúans í Borgarbyggð fyrir byggingarleyfi til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð. Kærandi er eigandi húss á aðliggjandi lóð og tengja steyptar tröppur húsin saman. Er ekki útilokað að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna hins kærða byggingarleyfis og hefur honum áður verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli fyrir nefndinni vegna sömu breytinga, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Getur kærandi teflt fram hverjum þeim málsástæðum sem hann telur rétt að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á. Jafnframt hvílir á nefndinni sjálfstæð rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vegna hverra þeirra atvika sem tengst geta lögmæti hinnar kærðu leyfisveitingar. Þótt lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í þessu máli einskorðist við byggingarleyfið sem er til umfjöllunar getur kærandi jafnframt leitað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á grundvelli eftirlits- og yfirstjórnarhlutverks þess telji hann málsmeðferð sveitarfélagsins ábótavant að öðru leyti eða það ekki hafa sinnt skyldum sínum, s.s. vegna atvinnurekstrar í því húsi sem um ræðir.
Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Að loknum kynningarfresti og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um grenndarkynningu tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er mælt fyrir um frekari málsmeðferð grenndarkynningar og kemur þar m.a. fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins.
Fyrir liggur að á kynningartíma hinnar umþrættu leyfisumsóknar óskaði kærandi eftir svörum frá byggingarfulltrúa um tiltekin atriði grenndarkynningarinnar en því bréfi var ekki svarað. Þá sendi kærandi inn athugasemdir vegna grenndarkynningarinnar á og var þeim athugasemdum svarað með bréfi sveitarstjóra 7. janúar 2019. Gaf umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd því ekki umsögn um athugasemdir kæranda líkt og henni bar að gera á grundvelli gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð, en til þess er að líta að skipulagsnefndir búa að jafnaði yfir sérfræðiþekkingu á skipulagsmálum. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð og undirbúningur ákvörðunar um hið kærða byggingarleyfis annmörkum háð. Við mat á því hvort það varði ógildingu ber m.a. að horfa til þess að það er sveitarstjórn sem hefur vald til fullnaðarafgreiðslu grenndarkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kærandi kom á framfæri athugasemdum vegna grenndarkynningarinnar og var þeim athugasemdum svarað með fyrrnefndu bréfi sveitarstjóra, en það svarbréf var staðfest af bæði byggðaráði og sveitarstjórn. Í bréfi sveitarstjóra er athugasemdum kæranda svarað vandlega í ítarlegu máli með vísan til viðeigandi laga- og reglugerðarákvæða. Þá var í svari byggingarfulltrúa vegna athugasemda sem bárust vegna grenndarkynningar, sem umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd staðfesti á fundi sínum 6. mars 2019, fjallað um ýmis þau atriði sem kærandi vísaði til í athugasemdum sínum. Verður því ekki séð að skort hafi á aðkomu umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefndar vegna athugasemda kæranda með þeim hætti að leitt hefði til annarrar niðurstöðu en raun bar vitni. Þá verður ekki fallist á með kæranda að sá annmarki hafi verið á grenndarkynningunni að ekki hafi komið fram hvert meginefni kynningarinnar var, sbr. gr. 5.9.2. í skipulagsreglugerð, enda kom þar fram að um leyfi til breytinga innanhúss væri að ræða og fylgdu með teikningar vegna framkvæmdanna.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., og skal hann skv. 11. gr. sömu laga fara yfir byggingarleyfisumsókn og ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Í áðurgildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 kemur fram í gr. 12.8 að við umfjöllun um byggingarleyfisumsóknir sem varði breytingar á byggingum sem byggðar hafi verið fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar, eftir því sem hægt sé að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál. Í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er ekki að finna sambærilegt ákvæði en í einstökum ákvæðum hennar er tekin afstaða til þess hvort þargreindar kröfur þurfi að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í gr. 9.2.5. kemur fram að við breytingar á þegar byggðu mannvirki eða við breytta notkun skuli þess gætt að brunavarnir uppfylli kröfur skv. reglugerðinni og að breytingin skerði ekki brunavarnir annarra þátta mannvirkisins. Tekið er fram í gr. 12.1.2. að ákvæði 12. hluta reglugerðarinnar um öryggi við notkun eigi við um breytingu á þegar byggðu mannvirki og um breytta notkun þess. Þá er í gr. 6.1.5. fjallað um breytingu á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun þess. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við breytingu á mannvirki sem byggt sé í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli eftir því sem unnt sé byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Þá hljóðar 3. mgr. ákvæðisins svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“
Af framangreindum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar, en sá hluti fjallar um aðkomu, umferðarleiðir og innri rými mannvirkja.
Hið kærða byggingarleyfi heimilar að breyta íbúðarhúsi, sem reist var árið 1936, í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð, en fasteignin verður við þá breytingu fjöleignarhús og er hún nú skráð sem slíkt hús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Við nefnda breytingu gilda ákvæði byggingarreglugerðar. Af samþykktum uppdráttum verður ráðið að þónokkur skilyrði 6. hluta byggingarreglugerðar eru ekki uppfyllt. Má þar t.a.m. nefna að í gr. 6.7.1. er kveðið á um að íbúð í fjölbýlishúsi skuli fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign og skv. gr. 6.2.4. skal vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar íbúðir í fjölbýlishúsi eru á bilinu 1-10. Hvorki liggur fyrir að greinargerð í samræmi við gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð hafi fylgt umsókn um umrætt byggingarleyfi né að leyfisveitandi hafi fallist á slíkt frávik með formlegum hætti í samræmi við nefnt ákvæði. Þá voru samþykktir uppdrættir ekki málsettir og er því óvíst hvort önnur tiltekin ákvæði reglugerðarinnar hafi verið uppfyllt, t.d. gr. 6.7.2. um lofthæð og ljósop glugga. Verður það að teljast annmarki á hinu umdeilda byggingarleyfi. Að framangreindu virtu uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað 11. gr. mannvirkjalaga um að byggingarleyfi sé í samræmi við byggingarreglugerð. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.