Árið 2018, miðvikudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 22/2017, kæra á ákvörðunum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 15. desember 2016 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 og deiliskipulag Kirkjubólseyra, hesthúsa- og búfjársvæðis í Norðfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra ábúenda að Kirkjubóli í Norðfjarðarsveit, Fjarðabyggð, þær ákvarðanir bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 15. desember 2016 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 og deiliskipulag Kirkjubólseyra, hesthúsa- og búfjársvæðis. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Með bréfi kærenda, dags. 4. janúar 2018, er móttekið var 8. s.m. hjá nefndinni, er jafnframt gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana en til vara er þess krafist að úrskurðarnefndin kveði á um frestun réttaráhrifa fyrirhugaðrar landtöku. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til síðar framkominna krafna kærenda.
Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 28. mars 2017 og í janúar og febrúar 2018.
Málavextir: Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er jörðin Kirkjuból í Fjarðabyggð í eigu Fjarðarbyggðar. Jörðin er skráð lögbýli og er ræktað land hennar 21,5 ha. Með bréfi sveitarfélagsins til kærenda, dags. 6. mars 2015, var tilkynnt að sveitarfélagið hefði í hyggju að taka hluta jarðarinnar úr ábúð til eigin þarfa. Væri horft til þess að nýta umrætt svæði til efnistöku, en jafnframt væri áhugi á því að skipuleggja hluta þess fyrir frístundastarfsemi. Mótmæltu kærendur fyrirætlan sveitarfélagsins með bréfi, dags. 18. s.m. Bentu þeir m.a. á að Kirkjuból væri landbúnaðarjörð skv. Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Stæðist það hvorki skilmála byggingarbréfs, dags. 9. júní 1998, né ákvæði ábúðarlaga nr. 80/2004 að taka allt land jarðarinnar milli Kirkjubólsvegar og Norðfjarðará undan ábúð. Funduðu kærendur og sveitarfélagið um málið 29. apríl s.á.
Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar 5. nóvember 2015 var samþykkt skipulagslýsing vegna breytingar á aðalskipulagi Fjarðabyggðar og fyrir deiliskipulag Kirkjubólseyrar, hesthúsa og búfjársvæði er unnið yrði samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Meginmarkmið með gerð nefndra skipulagsáætlana var samkvæmt lýsingunni að geta boðið upp á nýjar lóðir og athafnasvæði fyrir hesthús og annan frístundabúskap. Einnig var tekið fram að stefnt væri að því að taka nánar tilgreint svæði jarðarinnar úr ábúð þegar skipulagsvinnu væri lokið. Í kjölfar þessa var leitað umsagna um lýsinguna, en jafnframt var hún send kærendum og þeim veittur tveggja vika frestur til að gera athugasemdir. Mótmæltu kærendur fyrirhuguðum breytingum með bréfi, dags. 25. nóvember 2015.
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Fjarðabyggðar og tillaga að deiliskipulagi Kirkjubólseyra, hesthúsa- og búfjársvæði, voru lagðar fram til kynningar á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 15. júní 2016. Fól breyting á aðalskipulagi í sér að reitur O5 á Kirkjubólseyrum, opið svæði til sérstakra nota, var stækkaður um 11 ha á kostnað landbúnaðarsvæðis. Í greinargerð með deiliskipulagstillögunni kom fram að skipulagssvæðið væri 20 ha að stærð. Væri það staðsett í Fannardal í Norðfirði, á Kirkjubólseyrum og afmarkaðist af nýjum Norðfjarðarvegi, Merkjalæk, Norðfjarðará og Kirkjubólsá. Væri svæðið austan við Stekkjarlæk að stærstum hluta skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota skv. Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Hefði hestamannafélag afnotarétt til uppbyggingar félagsaðstöðu austan Stekkjarlækjar. Á vestari hluta svæðisins væri í gildi deiliskipulag fyrir vinnubúðir og steypustöð vegna framkvæmda við Norðfjarðargöng. Gert væri ráð fyrir því að nýtt deiliskipulag myndi fella það skipulag úr gildi. Svæði þar á milli og ofan við veg væri í aðalskipulagi skilgreint sem landbúnaðarland. Ráðgert væri að sá hluti svæðisins yrði skilgreindur upp á nýtt sem opið svæði til sérstakra nota. Yrði það nýtt sem hesthúsa- og búfjársvæði og í kjölfarið tekið úr ábúð. Þá hefði m.a. verið byggð reiðskemma og samkomusalur á svæðinu. Þar væri einnig 250 m langur hringvöllur og u.þ.b. 250 m löng skeiðbraut. Austan við reiðskemmuna hefði verið komið upp 800 m² gerði.
Deiliskipulagstillagan gerði m.a. ráð fyrir fimmtán hest- og búfjárhúsum við Kirkjubólseyri, og að unnt væri að stækka núverandi reiðskemmu og félagsheimili til vesturs. Samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd að kynna framlagðar tillögur fyrir almenningi og hagsmunaaðilum. Andmæltu kærendur ætluðum áformum með bréfum, dags. 20. og 28. júlí 2016. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar 21. júlí s.á og samþykkt að auglýsa tillögurnar til kynningar. Staðfesti bæjarráð greinda afgreiðslu 25. s.m. Enn komu kærendur að athugasemdum sínum með bréfi, dags. 23. nóvember 2016.
Málið var til umfjöllunar á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 12. desember 2016. Var eftirfarandi m.a. fært til bókar varðandi téða deiliskipulagstillögu: „Fyrir liggur að eigi síðar en 1998 var ákveðið að byggja upp aðstöðu fyrir hestamenn í Norðfirði á því svæði sem hér um ræðir og gengur tillaga [að] deiliskipulagi m.a. út á að stækka það svæði um 11,6 ha til að mæta þörfum þeirra sem nú nýta svæðið og skapa svigrúm fyrir frekari þróun og vöxt hestaíþróttarinnar. Eftir að hafa skoðað athugasemdir ábúenda og þeirra sjónarmið um áhrif deiliskipulagsins á búskap þeirra og þess sem fram kom á fundi með ábúendum 29. apríl 2015 um raunveruleg áhrif, þá telur nefndin að ekki sé gengið lengra í tillögu að deiliskipulagi en þörf er á til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með því. Af athugasemdum ábúenda verður ráðið að lagst er gegn gildistöku deiliskipulagsins í heild sinni, en ekki eru gerðar sérstakar kröfur um breytingar á því. Fram hefur komið að áður en tillagan var sett fram hafi verið fundað með ábúendum og í framhaldi af því leitast við að taka tillit til þeirra sjónarmiða, að því marki sem slíkt var talið unnt. Með vísan til þessa og áðurnefnds minnisblaðs er það afstaða nefndarinnar að ekki sé unnt að verða við mótmæltum ábúenda.“ Var mælt með að bæjarstjórn samþykkti framlagða tillögu án breytinga. Efnislega samhljóða bókun var gerð varðandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Samþykkti bæjarstjórn framlagðar tillögur 15. s.m. og færði til bókar að með teknu tilliti til athugasemda ábúenda og sjónarmiða þeirra væri ekki gengið lengra en þörf væri á til að ná þeim markmiðum sem stefnt væri að.
Í kjölfarið voru tillögunar sendar Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Hvað breytingu á aðalskipulagi snerti benti stofnunin m.a. á að leyfi landbúnaðarráðherra þyrfti til að breyta landnotkun á landbúnaðarsvæðum. Leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þess efnis lá fyrir 31. janúar 2017. Hinn 10. mars s.á. staðfesti Skipulagsstofnun fyrrnefnda breytingu á aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 24. mars 2017.
Skipulagsstofnun taldi að ekki væri unnt að taka afstöðu til deiliskipulagsins fyrr en umsögn Vegagerðarinnar lægi fyrir en að auki var bent á nokkur atriði sem þyrfti að lagfæra. Brugðist var við athugasemdum Skipulagsstofnunar og með bréfi stofnunarinnar til sveitarfélagsins, dags. 16. mars 2017, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins. Var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 24. október 2017. Jafnframt því var fellt úr gildi deiliskipulag vinnubúða og athafnasvæðis vegna Norðfjarðarganga í Norðfirði.
Með bréfi sveitarfélagsins til kærenda, dags. 6. desember 2017, var tilkynnt um fyrirhugaða töku hluta jarðarinnar Kirkjubóls undan ábúð. Andmæltu kærendur enn á ný fyrirætlan sveitarfélagsins. Ákveðið var á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 8. janúar 2018 að taka 11,6 ha spildu í landi Kirkjubóls úr ábúð. Á fundi nefndarinnar 29. s.m. var ákveðið að breyta ákvörðuninni til að tryggja að engin óvissa væri um það landsvæði sem tekið væri undan ábúð, en spildan sem tekin væri úr ábúð væri minni samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Var síðan fært til bókar að samþykkt væri að taka allt land neðan þjóðvegar sem í dag félli undir ábúðarsamning aðila undan ábúð. Næmi stærð umræddrar spildu a.m.k. 5,5 ha en ekki meira en 7,4 ha skv. framlögðum uppdráttum.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fram komi í 10. gr. byggingarbréfs, dags. 9. júní 1998, að þeim sem leiguliðum sé heimil ábúð jarðarinnar ævilangt frá 1. janúar 1998 að telja. Samkvæmt skilgreiningu í 10. mgr. 2. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 merki lífstíðarábúð í lögunum ævilanga ábúð. Sé ábúendum samkvæmt ákvæðum byggingarbréfsins tryggður allur réttur til skilgreindrar jarðar sem líkast því að hún væri þeirra eign. Verði mörkum leigujarða ekki hnikað án samþykkis ábúenda meðan lífstíðarábúð vari. Gildi ákvæði 22. og 23. gr. ábúðarlaga ekki um jarðir í lífstíðarábúð, en jafnvel þótt svo væri félli fyrirhuguð starfsemi á jörðinni ekki að þeim skilyrðum sem téð ákvæði setji fyrir töku lands úr ábúð.
Fyrirhuguð taka alls lands neðan Kirkjubólsvegar úr ábúð muni verða til mikilla óþæginda fyrir kærendur og stórspilla fyrir landbúnaði þeirra. Áhrif á búrekstur verði meiri en fram komi í mati Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Missi þeir beitarmöguleika fyrir búfé sitt og hross. Þeir verði sviptir rétti til efnistöku til eigin nota og munu ekki hafa rétt til nýtingar á malarefni til búsnota. Muni kærendur ekki hafa aðgang að Norðfjarðará þar sem jörðin eigi veiðirétt. Að auki séu þeir með áform um endurreisn æðarvarps á umræddu svæði. Umferð búfjáreigenda um svæðið og fjöldi hrossa og sauðfjár geti valdið miklu ónæði skammt frá íbúðar- og útihúsum að Kirkjubóli. Um verulega skerðingu á landi sé að telja miðað við flatarmál lands Kirkjubóls á láglendi.
Stjórnsýsla í máli þessu sé aðfinnsluverð. Sveitarfélagið hafi komið fram sem einn aðili. Það hafi komið fram sem eigandi jarðarinnar Kirkjubóls, sem sveitarfélag sem bregst við kröfum hluta íbúa sinna um land og síðan sem skipulagsvald. Kærendur hafi mótmælt fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á öllum stigum. Það hafi fyrst verið með bréfi sveitarfélagsins, dags. 24. janúar 2017, sem kærendur hafi fengið skrifleg andsvör við kröfum sínum.
Málsrök Fjarðabyggðar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Farið hafi verið í einu og öllu að lögum við meðferð málsins. Stjórnsýsla málsins hafi verið vönduð og leitast hafi verið við að taka tillit til sjónarmiða kærenda eins og frekast hafi verið unnt.
Ábúðarréttur feli í sér óbein eignarréttindi. Geti réttarstaða ábúenda aldrei orðið sterkari en réttarstaða eigenda lands eða jarða. Þegar af þeirri ástæðu geti ábúðarréttur kærenda ekki leitt til ógildingar á hinum kærðu skipulagsáætlunum. Ákvarðanir sem landeigandi taki á grundvelli ábúðarlaga nr. 80/2004 séu ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, þó sú ákvörðun sé tekin í ljósi gildandi deiliskipulags. Mæli ábúðarlögin fyrir um meðferð ágreiningsmála er varði töku spildu úr ábúð.
Árið 1998 hafi verið mörkuð sú stefna, með samkomulagi við ábúendur og hestamannafélagið á svæðinu, að uppbygging á aðstöðu hestamanna og tengdri starfsemi skyldi vera á Kirkjubólseyrum. Það sé viðbúin og eðlileg þróun að slík frístundastarfsemi þurfi aukið rými. Kallað hafi verið eftir afstöðu ábúenda til slíkra hugmynda áður en skipulagsferlið hafi hafist. Þegar ljóst hafi orðið að þeir væru mótfallnir breytingum á nýtingu svæðisins hafi verið óskað upplýsinga um það með hvaða hætti fyrirhuguð starfsemi myndi trufla búrekstur þeirra. Hafi sveitarfélagið tekið afstöðu til athugasemda kærenda og ákveðið að fallast ekki á þær. Leiði það af 1. mgr. 32. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að sveitarfélagið sé bær aðili til að taka ákvarðanir sem gangi gegn athugasemdum sem borist hafi við skipulagsáætlanir.
Eitt markmið skipulagslaga sé að tryggja samráð við almenning og réttaröryggi einstaklinga og lögaðila þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Það sé því ekkert óeðlilegt við það að sveitarfélagið leggi mat á það hvort almannahagsmunir, sem geti verið hagsmunir hluta íbúa sveitarfélagsins, mæli með ákveðinni stefnu í skipulagsmálum umfram aðra. Sé það beinlínis hlutverk sveitarfélaga að gera slíkt, sbr. 1. gr. skipulagslaga. Lagt hafi verið mat á það af m.a. sérfræðingum á því sviði, s.s. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, að umræddar skipulagsáætlanir hafi ekki mikil áhrif á tækifæri kærenda til að stunda búrekstur. Fallist hafi verið á að taka landið úr landbúnaðarnotkun.
Niðurstaða: Kæra í máli þessu lýtur annars vegar að gildi þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Fjarðabyggðar frá 15. desember 2016 um að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 vegna stækkunar á reit O5 á Kirkjubólseyrum og hins vegar að samþykkt sveitarstjórnar sama dag um deiliskipulag Kirkjubólseyra, hesthúsa- og búfjársvæðis.
Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Fer um breytingu á aðalskipulagi eins og um gerð aðalskipulags sé að ræða, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Eins og að framan er rakið staðfesti Skipulagsstofnun fyrrgreinda breytingu á aðalskipulagi Fjarðabyggðar 10. mars 2017. Sæta ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta, ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar skv. 1. mgr. 52. gr. sömu laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að endurskoða lögmæti breytinga á aðalskipulagi Fjarðabyggðar og verður þeim hluta málsins því vísað frá nefndinni.
Eins og áður er rakið var gerð breyting á Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 samhliða gerð hins umdeilda deiliskipulags. Fól breytingin í sér að skipulagsreitur O5 á Kirkjubólseyrum var stækkaður úr 9 ha í 20 ha, en um er að ræða opið svæði til sérstakra nota. Fyrir breytinguna var umrædd spilda skilgreind sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi og var hún leyst úr landbúnaðarnotum, sbr. 6. gr. jarðarlaga nr. 81/2004, í janúar 2017. Samkvæmt greinargerð með aðalskipulagsbreytingunni er landnotkun reits O5 svohljóðandi: „Á svæðinu er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir hestaíþróttir og þeirri mannvirkjagerð og umhverfisfrágangi sem nýting svæðisins sem hestaíþróttasvæðis og svæðis fyrir annað frístundahúsdýrahald kallar á, s.s. hesthúsum, skeiðvelli og reiðskemmu.“ Gerir hið kærða deiliskipulag ráð fyrir því að umrætt svæði verði nýtt sem hesthúsa- og búfjársvæði. Var því áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana gætt.
Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Kærendur mótmæla því eindregið að heimilt sé að taka hluta af jörðinni úr ábúð á grundvelli heimildar í byggingarbréfi eða með stoð í ábúðarlögum nr. 80/2004. Fram kemur í 14. tl. 2. gr. nefndra laga að rísi ágreiningur um skilgreiningu einstakra hugtaka samkvæmt ábúðarlögum skeri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr, sbr. og forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Fer sami ráðherra og með yfirstjórn þeirra mála sem ábúðarlög gilda um skv. 3. gr. þeirra. Er það því ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að taka til úrlausnar þau álitamál er lúta að ábúðarrétti kærenda, enda ekki á þann veg mælt í lögum.
Gerð var skipulagslýsing vegna breytinga á aðalskipulagi Fjarðabyggðar og hinnar umdeildu deiliskipulagstillögu og umsagna um hana leitað. Tillagan var auglýst til kynningar og svo tekin til umræðu hjá sveitarstjórn að lokinni umfjöllun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar og hún samþykkt. Framkomnum athugasemdum var svarað. Gildistaka deiliskipulagsins var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögmæltri athugun Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
Jörðin Kirkjuból liggur bæði ofan og neðan Norðfjarðarvegar. Með byggingarbréfi, dags. 9. júní 1998, er ábúendum leigð jörðin Kirkjuból og er því svo lýst að vestan Stekkjarlækjar nái hið leigða land suður fyrir Kirkjubólsveg að Norðfjarðará. Sama dag gerði sveitarfélagið samning um afnot hestamannafélags af Kirkjubólseyrum í Norðfirði og er því svo lýst að landið afmarkist af Norðfjarðará að sunnan, Merkjalæk að austan, Kirkjubólsveg að norðan og Stekkjarlæk að vestan. Hið umdeilda deiliskipulag tekur til svæðisins neðan vegar, beggja vegna Stekkjarlækjar, auk spilduenda ofan vegar vegna fyrirhugaðra undirganga undir Norðfjarðarveg. Svæðið er 20 ha að stærð. Með deiliskipulaginu er skilgreint búfjársvæði í landi Kirkjubóls og m.a. ákvörðuð staðsetning lóða fyrir hesthús og annan frístundabúskap. Samkvæmt breyttu aðalskipulagi er svæði sem áður var skilgreint landbúnaðarland nú opið svæði til sérstakra nota og í deiliskipulagi kemur fram að ábúendur á Kirkjubóli hafi nýtt landið, framræst tún og beitiland. Sveitarfélagið leitaði umsagnar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins vegna beiðni sveitarfélagsins um leyfi ráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarnotum. Kom fram í umsögninni að samkvæmt loftmynd væri ræktunarland á svæðinu um 2,1 ha og væru ræktunarskilyrði í meðallagi og góð. Einnig myndi skerðast spilda sem nýtt væri til fóðuröflunar. Væri hugsanlega um skerðingu fyrir ábúendur að ræða auk þess sem beitiland og hlunnindi þeirra myndi skerðast, s.s. æðarvarp. Áhrif á nálægar bújarðir væru metin lítil nema þá með skertu aðgengi að ánni.
Samkvæmt 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er sveitarfélögum skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum, en þeim er að lögum t.a.m. veitt víðtækt skipulagsvald í
samræmi við ákvæði skipulagslaga. Að sama skapi geta þau sem lögaðilar átt eignir. Það breytir hins vegar ekki þeirri skyldu þeirra að annast lögboðin verkefni sín, m.a. að gera skipulagsáætlanir, að gættum málsmeðferðarreglum skipulagslaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við meðferð málsins var aflað umsagna nokkurra aðila og verður ekki annað ráðið af greinargerð og uppdrætti en að tekið hafi verið tillit til þeirra ábendinga sem gerðar voru af hálfu þeirra. Er og ekkert annað sem bendir til þess að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Frá árinu 1998 hefur tvenns konar starfsemi þrifist innan jarðarinnar Kirkjubóls, neðan vegar, auk þess sem þar hefur verið aðstaða vegna gerðar Norðfjarðarganga. Með hinni kærðu skipulagsákvörðun hefur sveitarfélagið tekið þá afstöðu að byggja frekar upp aðstöðu hestamanna neðan vegar, að einhverju leyti á kostnað hefðbundins landbúnaðar sem þar hefur verið stundaður. Það markmið er í sjálfu sér málefnalegt. Er það enda hlutverk sveitarstjórnar að vega og meta þá hagsmuni sem undir eru og nota skipulagsvaldið til að þróa umhverfi í sveitarfélaginu þótt ljóst sé að við það verði e.t.v. gengið á hagsmuni eins til hagsbóta fyrir aðra á skipulagssvæðinu. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu er ræktað land jarðarinnar Kirkjubóls 21,5 ha og er því um tæplega 10% skerðingu á ræktunarlandi þess að ræða miðað við umsögn Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, auk annarrar skerðingar, öll neðan vegar. Að mati úrskurðarnefndarinnar voru til staðar skipulagsrök fyrir því að bæta við aðstöðu hestamanna neðan vegar, enda verður ekki séð að stækkun ofan vegar myndi leiða til minni skerðingar fyrir kærendur þar sem ræktunarland þeirra er að mestum hluta. Þykir þannig ekki einsýnt að unnt hefði verið að ná markmiðum skipulagsins með öðru og vægara móti. Þá kemur fram í greinargerð deiliskipulagsins að gert sé ráð fyrir nýjum akvegi að Norðfjarðará til að tryggja aðgengi ábúenda á Kirkjubóli og annarra að ánni.
Loks er rétt að benda á að skipulagslög gera ráð fyrir því að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum. Felur ákvörðun um deiliskipulag þó ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til bótagreiðslna í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra þó ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið var hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin neinum þeim form- eða efnisannmörkum að ógildingu valdi og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 15. desember 2016 um að samþykkja deiliskipulag Kirkjubólseyra, hesthúsa- og búfjársvæðis í Norðfirði.
Kærumáli þessu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefndinni.