Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 22/2007, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 26. júlí 2006 um synjun á beiðni um leyfi til ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. mars 2007, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Guðmundur Siemsen hdl., f.h. Olíudreifingar ehf., þá samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 26. júlí 2006 að synja beiðni um leyfi til að ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Í bréfi kæranda, dags. 20. júlí 2006, til byggingarfulltrúa sagði m.a. eftirfarandi: „Olíudreifing ehf. og áður Olíufélagið hf. hefur haft svartolíugeymi á lóð sinni við Garðaveg til fjölda ára. Geymir þessi hefur verið undir svartolíu fyrir verksmiðju Vinnslustöðvarinnar og aðra svartolíuafgreiðslu félaganna í Vestmannaeyjum. Til að uppfylla reglugerð um mengunarvarnir þarf að ganga frá lekavaraþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við ofangreindan geymi. Meðfylgjandi er teikning … þar sem fram kemur fyrirkomulag og búnaður sem fyrirhugað er koma upp við geyminn til að uppfylla mengunarvarnarreglur … Hér með er óskað eftir samþykki viðkomandi nefnda bæjarins fyrir framkvæmd þessari.“
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 26. júlí 2006 var erindi kæranda hafnað með eftirfarandi bókun:
„Framkvæmdaleyfi
Garðavegur 13
Árni Ingimundarson f.h. Olíudreifingar ehf. sækir um leyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum á lóð Olíudreifingar Garðavegi 13 skv. meðfylgjandi teikningum.
• Lekavarnarþró
• Áfyllingaraðstöðu
• Fráveitu við svartolíugeymi.
Afgr. ráðs
Ráðið hafnar umsókn og bendir á að samkvæmt ákvæðum í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 er framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-6 (Eiði). Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“
Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. júlí 2006, var tilkynnt um fyrrgreinda bókun. Þar sagði ennfremur: „Afgreiðsla þessi er háð samþykki bæjarstjórnar, og verður tilkynnt yður tafarlaust ef hún breytist.“
Með bréfi til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst 2006, mótmælti kærandi ofangreindri afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs. Sama dag var afgreiðsla ráðsins samþykkt á fundi bæjarstjórnar.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2006, krafðist kærandi þess að úrskurðað yrði um það hvort framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum væru háðar framkvæmdaleyfi en hann taldi svo ekki vera.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var bréf kæranda til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst s.á., lagt fram. Var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Ráðið vísar til bókunar dags. 06.07.2006 (sic) sem tekin var með vísan í Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.“
Með bréfi, dags. 28. febrúar 2007 gerði Vestmannaeyjabær grein fyrir sjónarmiðum sínum til kærunnar. Þar kom fram að afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. júlí 2006 hafi verið staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 24. ágúst 2006.
Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Af hálfu lögmanns kæranda er vísað til þess að hinn 27. júlí 2006 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi sent kæranda tilkynningu um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem greint hafi verið frá því að ráðið hafi hafnað umsókn kæranda. Í bréfinu hafi verið vísað til þess að samkvæmt ákvæðum Aðalskipulags Vestmannaeyja 2002-2014 væri framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-5 (Eiði). Þá hafi verið einnig vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Hafi kærandi talið að umhverfis- og skipulagsráð hafi meðhöndlað umsókn hans sem umsókn um framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Af greinargerð Vestmannaeyjabæjar í tilefni af erindi kæranda varðandi úrlausn um framkvæmdarleyfi í hinu fyrra kærumáli megi ráða að bæjarstjórn hafi synjað um útgáfu byggingarleyfis, skv. 43. gr. laganna, með vísan til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda samræmdust ekki gildandi aðalskipulagi.
Þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun er snerti umtalsverða hagsmuni kæranda hafi ákvörðun bæjarins ekki verið birt honum í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi kæranda ekki enn verið birt ákvörðun bæjarstjórnar og hafi honum fyrst orðið kunnug um hana við lestur greinargerðarinnar.
Hin ámælisverða vanræksla bæjaryfirvalda um að gæta að meginreglu stjórnsýsluréttarins um birtingu stjórnvaldsákvarðana leiði til þess að kæranda hafi hvorki verið veitt færi á að fá ákvörðunina rökstudda né hafi honum verið leiðbeint um kæruheimild og kærufresti.
Af vanrækslu bæjaryfirvalda á birtingu ákvörðunarinnar og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga leiði jafnframt, að upphaf kærufrests samkvæmt 2. mgr. 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, beri að miða við 6. mars 2007, þegar greinargerð bæjarins hafi borist frá úrskurðarnefndinni, enda hafi kæranda þá fyrst verið ákvörðunin kunnug.
Þá sé einnig vísað til þess að tilkynning byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 21. september 2006, þar sem greint hafi verið frá afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs vegna mótmæla kæranda á afgreiðslu hins kærða erindis hafi ekki falið í sér tilkynningu um ákvörðun bæjarstjórnar. Auk þess sem hún hafi verið efnislega samhljóða fyrri tilkynningu ráðsins og með sama fyrirvara um að afgreiðslan væri háð samþykki bæjarstjórnar. Af henni hafi því ekki verið ráðið að bæjarstjórn hefði þegar tekið ákvörðun í málinu.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um, eða mátti vera kunnugt um, ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar.
Eins og áður greinir óskaði kærandi máls þessa eftir heimild bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum til að ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg. Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði erindinu á fundi hinn 26. júlí 2006 og var synjunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 24. ágúst s.á. Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. júlí 2006, var tilkynnt um afgreiðslu ráðsins. Í bréfinu sagði ennfremur: „Afgreiðsla þessi er háð samþykki bæjarstjórnar, og verður yður tilkynnt tafarlaust ef hún breytist.“ Afgreiðslu þessari mótmælti kærandi við bæjarstjórn. Voru mótmælin tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þar sem fyrri afgreiðsla ráðsins var ítrekuð og hún tilkynnt kæranda með sama fyrirvara og hin fyrri, þ.e. að hún væri háð samþykki bæjarstjórnar og um það yrði tilkynnt tafarlaust ef hún yrði ekki samþykkt.
Í ljósi framanritaðs verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun löngu áður en kæra barst úrskurðarnefndinni. Er ekkert í gögnum málsins sem gaf kæranda tilefni til að ætla annað en að bæjarstjórn hefði staðfest afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs, enda sérstaklega tilgreint að honum yrði tilkynnt ef svo yrði ekki, samanber áðurnefnt bréf byggingarfulltrúa, dags. 27. júlí 2006.
Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 14. mars 2007 og var kærufrestur þá löngu liðinn. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, enda þykir atvikum ekki þannig háttað, eins og hér stendur á, að efni séu til að beita undantekningarheimild 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. laganna.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson