Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2007 Heiðmörk

Ár 2007, fimmtudaginn 26. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2007, kæra Landverndar á útgáfu framkvæmdaleyfa Kópavogs, Reykjavíkurborgar og Garðabæjar vegna framkvæmda við vatnslögn frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk að Vatnsenda í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2007, sem barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd útgáfu framkvæmdaleyfa Kópavogs, Reykjavíkurborgar og Garðabæjar vegna framkvæmda við vatnslögn frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk að Vatnsenda í Kópavogi.  Nánar tilgreint eru hin kærðu leyfi sögð vera leyfi Reykjavíkurborgar frá 7. mars 2007 og leyfi Garðabæjar frá 21. ágúst 2006, en ekki er getið útgáfudags leyfis Kópavogsbæjar.  

Kröfur kæranda og helstu málsrök:  Kærandi krefst þess að umræddar ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Að auki er þess krafist að framkvæmdir samkvæmt hinum umdeildu leyfum verði stöðvaðar þar til úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í málinu.  Er til þess vísað af hálfu kæranda að fram hafi komið að framkvæmd sú sem leyfið taki til sé háð breytingu á aðalskipulagi sem ekki hafi enn verið gerð.  Fleiri rök eru færð fram í kærunni sem ekki verða rakin hér.

Kröfur og sjónarmið Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að máli þessu verið vísað frá.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna áskilja borgaryfirvöld sér rétt til að koma að rökstuðningi og gögnum um efni málsins.

Frávísunarkrafan er byggð á þeim forsendum að Landvernd eigi ekki kæruaðild að málinu þar sem samtökin hafi engra lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Framkvæmd sú sem hið kærða leyfi taki til falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum og eigi því umhverfis- og náttúruverndarsamtök enga aðild að málinu.

Miðað við niðurstöðu málsins þótti óþarft að leita afstöðu Garðabæjar og Kópavogsbæjar til kærunnar.

Niðurstaða:  Landvernd er frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að bæta lífsgæði almennings nú og í framtíðinni.  Er hlutverk Landverndar að standa vörð um íslenska náttúru og vera virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku í málum er varða landnotkun, auðlindir, náttúru og umhverfi. 

Hvergi er í lögum að finna heimild fyrir því að samtök sem þessi eigi aðild að kærumálum á sviði skipulags- og byggingarmála án þess að eiga jafnframt þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni sem að stjórnsýslurétti eru taldir skilyrði aðildar að kæru til æðra stjórnvalds.  Hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna þeirra hagsmuna að gæta er verið gætu grundvöllur aðildar hans að máli þessu samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins. 

Með lögum nr. 74/2005, er tóku gildi hinn 1. október 2005, voru m.a. gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um kæruheimildir.  Er nú skýrt kveðið á um það í 8. gr. laganna að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  

Sú undantekning er gerð frá framangreindri meginreglu 8. gr. laganna að sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum eigi umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eigi á Íslandi, jafnframt kærurétt, enda séu félagsmenn 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að.  Þessi undantekningarregla á hins vegar ekki við í málinu enda liggur fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar frá 23. júní 2003 um að umrædd framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum og hefur þeirri niðurstöðu ekki verið hnekkt.

Úrskurðarnefndin hefur, með úrskurði hinn 22. mars 2007, vísað frá sambærilegu máli Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem álitaefni um aðild þeirra samtaka var tekið til ítarlegar skoðunar og er einnig litið til þeirrar niðurstöðu við úrlausn máls þessa.

Samkvæmt því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli um lögmæti hinna umdeildu framkvæmdaleyfa og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 ___________________________         ____________________________
     Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson