Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2019 Norðurbrún

Árið 2019, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2019 um breytingu á deiliskipulagi Norðurbrúnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Norðurbrún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kæra eigendur parhúsanna að Norðurbrún nr. 4-22, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Norður­brúnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Norðurbrún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. maí 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi skipulag fyrir Norðurbrún, sem tekur til svæðis sem afmarkast af Austurbrún og Norðurbrún í Laugardal í Reykjavík, og samþykkt var í nóvember árið 1963. Hinn 24. maí 2017 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingu á nefndu skipulagi fyrir lóðina nr. 2 við Norðurbrún. Að lokinni kynningu hafnaði ráðið tillögunni með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 13. október 2017 og framkominna athugasemda. Borgarráð samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 26. s.m.

Hinn 5. september 2018 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að auglýsa nýja tillögu að breytingu á umræddu skipulagi fyrir lóðina nr. 2 við Norðurbrún. Í henni fólst heimild til að rífa núverandi verslunarhús og byggja þar nýtt íbúðarhús á tveimur hæðum, auk kjallara, með verslun að hluta til á fyrstu hæð, en allt að átta 30-90 m² íbúðum á fyrstu og annarri hæð. Önnur hæðin yrði inndregin frá suðaustri og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,61 í 1,10. Lóðin yrði stækkuð úr 775 í 875 m² svo bílastæði kæmust fyrir innan lóðarmarka. Fram kom að við gerð nýrrar tillögu hafi m.a. verið horft til þess að gatan hefði nægjanlega breidd og að stefnu bílastæða yrði breytt þannig að ekki yrði bakkað mót akstursstefnu. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 13. september 2018 og var hún kynnt á tímabilinu frá 1. október til 12. desember s.á. Athugasemdir bárust á kynningar­tíma frá kærendum. Skipulags­fulltrúi tók afstöðu til athugasemdanna í umsögn, dags. 17. janúar 2019. Umhverfis- og skipulagssvið vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 23. janúar s.á., sem samþykkti hana á fundi sínum 7. febrúar 2019.

Með erindi, dags. 11. febrúar 2019, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulags­tillöguna til lögboðinnar umfjöllunar. Með bréfi, dags. 26. s.m., tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulags­breytingarinnar og tók hún gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 22. mars 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að stækka eigi lóðina að Norðurbrún 2 með því að þrengja aðkomuleiðina inn í hverfið. Fyrirhugað fjölbýlishús verði verulega hærra en nær­liggjandi parhús. Sérkennilegt sé að teiknuð bílastæði snúi öfugt við akstursstefnu og lítið pláss sé fyrir reiknuð bílastæði þótt búið sé að þrengja aðkomuleiðina. Íbúðarhúsin við Norðurbrún séu einbýlishús eða tveggja íbúða parhús, öll í svipaðri hæð og innan marka skilmála sem samþykktir hafi verið í borgarráði. Borgaryfirvöld hafi ekki fyrir því að svara sjónar­miðum kærenda og virðist ekki hafa haft áhuga á því að kynna sér eða gæta réttar og hagsmuna íbúanna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að á umræddu svæði séu blandaðar húsagerðir, m.a. allt frá tveggja hæða parhúsum yfir í 2-13 hæða fjölbýlishús, norðan og sunnar Austurbrúnar. Húsið handan götunnar, Norðurbrún 1, sé tveggja hæða með 7,4 m vegghæð að götu og hæð hússins nr. 12 sé 6,75 m. Um sé að ræða „endurþróun uppbyggingar“ á lóðinni Norðurbrún 2 og þótti fara vel á því að bæta nýtingu lands samfara því að laga bygginguna að byggðamynstri, m.a. með tilliti til hæðar og nýtingar hússins handan götunnar. Vel þyki því fara á því að á lóðinni verði tveggja hæða fjölbýlishús. Bent sé á að í þéttbýli megi ávallt búast við breytingum í umhverfinu sem geti leitt til einhverra umhverfisáhrifa. Slíkar breytingar séu gerðar m.t.t. fjölmargra þátta, svo sem byggðamynsturs og aðlögunar að nærliggjandi byggð. Vegna athugasemda sem hafi borist vegna fjölbýlishússins um að það samræmdist ekki byggðamynstri hverfisins hafi verið samþykkt að fara yfir sneiðingar með hliðsjón af hæðarheimildum, þannig að skýrt væri að útveggur sem snýr að Norðurbrún mætti mest vera 7,5 m á hæð og mest 8,0 m til suðausturs. Auk þess sem sett yrði í skilmála að gólfkóti fyrstu hæðar yrði ákvarðaður þannig að byggingin félli vel að landi.

Tillagan að skipulagsbreytingunni hafi verið endurskoðuð, m.a. þar sem fyrirkomulag götu, aðkomu, gangstéttar og bílastæða hafi ekki þótt eins og best væri á kosið. Við gerð nýrrar tillögu hafi verið horft til þess að bæta úr þessum þáttum og skilgreina göturýmið og flæði umferðar betur. Húsið hafi m.a. verið fært til suðausturs þannig að betra pláss væri til að móta götu­rýmið. Hvað varði aukið byggingarmagn skuli á það bent að upphaflegt heildar­deili­skipulag svæðisins sé frá árinu 1963 og sé því barn síns tíma. Á þeim tíma hafi verslunarhús innan hverfa gjarnan verið einnar hæða byggingar, þar sem blönduð notkun hafi ekki tíðkast í íbúðarhverfum. Umrædd lóð standi á svæði blandaðra húsagerða með mismunandi fjölda hæða.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Hin kærða skipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum var send Skipulags­stofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykki skipulags­breytingarinnar. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 2 við Norðurbrún hluti af fastmótaðri íbúðarbyggð, merkt ÍB24. Um fastmótaða byggð er tekið fram að þar megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum svo og ný­byggingum eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Um íbúðarbyggð, ÍB24, er m.a. tekið fram að svæðið sé fullbyggt og fastmótað. Yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjöl­breytt, bæði að húsagerð og byggingarstíl. Jafnframt er tekið fram í skilmálum aðalskipulags að á íbúðarsvæðum megi almennt gera ráð fyrir tilheyrandi nærþjónustu, s.s. dagvöruverslun, almennri þjónustu­­starfsemi, þrifalegum smáiðnaði o.fl. Með hinni kærðu deiliskipulags­breytingu er gert ráð fyrir að núverandi verslunarhús verði rifið og að byggt verði nýtt tveggja hæða íbúðarhús, ásamt kjallara, með verslun í hluta fyrstu hæðar og allt að átta 30-90 m² íbúðum á fyrstu og annarri hæð en sú síðarnefnda verður inndregin frá suðaustri. Fer hin kærða skipulagsbreyting með þessu ekki í bága við stefnu og ákvæði aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana því uppfyllt.

Á umræddu svæði eru margvíslegar húsagerðir. Hæð og umfang heimilaðrar byggingar samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu verður ekki talin fara á svig við byggðamynstur svæðisins þegar litið er til hæðar og legu bygginga við Norðurbrún og Austurbrún. Húsið að Norðurbrún 1 er tveggja hæða með 7,4 m vegghæð og vegghæð parhúsanna nr. 12-14 við Norður­brún er 6,75 m. Húsið að Norðurbrún 2 verður tveggja hæða í stað einnar hæðar fyrir breytinguna. Nýtingarhlutfall hækkar töluvert, en líta ber til þess að um hornlóð er að ræða með tvær götuhliðar, sem gefur kost á aukinni nýtingu, og að breytingin lýtur að tæplega 56 ára gömlu skipulagi. Við skipulagsbreytinguna var fyrri tillaga endurskoðuð og gætt að nægilegri götubreidd. Þá er stefnu bílastæða breytt svo að ekki verði bakkað út úr stæði á móti akstursstefnu aðkomugötu. Fyrir á lóðinni eru bílastæði við Norðurbrún, en með breytingunni er lóðin stækkuð svo stæðin komist fyrir innan lóðarmarka. Er því ekki um það að ræða að innkeyrsla inn í Norðurbrún sé þrengd frá því sem hefur verið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisgallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. febrúar 2019 um breytingu á deiliskipulagi Norðurbrúnar vegna lóðarinnar nr. 2 við Norðurbrún.