Árið 2012, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 20/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Víðidal, Reykjavík, úr dýrahóteli í veitinga- og verslunarhúsnæði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir A, f.h. Brekknaás 9 ehf., R og G, synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 á umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Brekknaási 9 í Víðidal úr dýrahóteli í veitinga- og verslunarhúsnæði. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 31. janúar 2012 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi til að breyta dýrahóteli í veitinga- og verslunarhúsnæði í húsinu nr. 9 við Brekknaás. Var málinu frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra. Tók hann það fyrir á fundi sínum hinn 3. febrúar s.á. og færði eftirfarandi til bókar: „Neikvætt. Notkunarbreyting samræmist hvorki aðalskipulagi né deiliskipulagi.“ Umsóknin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. s.m. og lá fyrir á fundinum útskrift úr gerðabók frá fyrrnefndum embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra. Var svohljóðandi bókað: „Synjað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“ Staðfesti borgarráð afgreiðsluna hinn 9. s.m.
Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að óskað hafi verið eftir breytingu á innra skipulagi hússins að Brekknaási 9 í samræmi við breytta notkun þess og lóðarleigusamning við Reykjavíkurborg. Sé lóðin leigð fyrir atvinnuhúsnæði og samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins sé um viðskipta- og þjónustulóð að ræða. Hugmyndin sé að í húsinu verði m.a. starfrækt verslun með hestavörur, hestaleiga, kaffihús og önnur þjónusta fyrir hestamenn. Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sé lóðin skráð „Dýraspítali Watsons“, en hann hafi verið lagður niður fyrir tæpum áratug og nýr dýraspítali reistur á öðrum stað í Víðidal. Síðastliðin ár hafi verið starfrækt hundahótel og leikskóli fyrir hunda í húsinu að Brekknaási 9. Sé ekki lengur grundvöllur fyrir rekstri dýraspítala á lóðinni enda standi húsið engan veginn undir þeim kröfum sem gerðar séu í dag til slíkrar starfsemi. Komin sé hefð á aðra starfsemi í húsinu sem hafi verið starfrækt með vitund og vilja borgarinnar, en hún hafi m.a. undirritað nýjan lóðarsamning vegna hennar. Þá standi húsið á stórri lóð og séu engar byggingar í allra næsta nágrenni þess.
Næsta bygging við umrætt hús sé Reiðhöllin í Víðidal, sem Reykjavíkurborg sé eigandi að en láti Fáki í té endurgjaldslaust. Þar sé m.a. veislusalur og kaffihús/bar og til standi að innrétta þar verslun og skrifstofuaðstöðu til útleigu. Megi velta því fyrir sér hvort forsvaranlegt sé að Reykjavíkurborg niðurgreiði húsnæði sem nýtt sé undir starfsemi sem sé í samkeppni við aðra starfsemi eða hvort sú staða hafi haft áhrif á ákvörðun borgarinnar.
Kærendur telji að synjun byggingarfulltrúa sé byggð á mjög þröngri túlkun á skilmálum deiliskipulags fyrir umrætt svæði og að ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna og annarrar starfsemi þar. Fyrirhugaður rekstur að Brekknaási 9 sé í samræmi við annan rekstur í dalnum, þ.e. þjónusta við hestamenn. Einnig sé bent á aðra starfsemi á svæðinu sem kærendur telji að sé ekki að öllu leyti í samræmi við skilmála deiliskipulagsins.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað. Synjun byggingarfulltrúa hafi verið lögmæt og byggi á því að fyrirhuguð nýting umræddrar lóðar sé ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Sé ekki heimilt að leyfa aðra starfsemi í húsinu en dýraspítala nema deiliskipulagi fyrir lóðina verði breytt. Breyti lóðarleigusamningur um greinda lóð engu í þessu tilliti þar sem notkun lóða þurfi ávallt að vera í samræmi við skipulag. Þá hafi heldur ekki neina þýðingu að í Reiðhöllinni í Víðidal sé önnur starfsemi en sú sem beint lúti að þjálfun og hýsingu hesta. Séu fjölmörg fordæmi fyrir því að önnur starfsemi sé einnig leyfð í tengslum við rekstur íþróttahalla af þessari stærðargráðu. Séu dæmi þau sem kærendur vitni til einnig í samræmi við skipulag svæðisins. Þá sé ennfremur á það bent að kærendur hafi þegar hafist handa við að framkvæma breytingar í þá veru sem sótt sé um og að þeim sé að mestu lokið.
————
Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. maí 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins frests til uppkvaðningar úrskurðar.
Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort heimila megi veitinga- og verslunarrekstur í húsi á lóð nr. 9 við Brekknaás í Víðidal, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum laut umsókn kærenda eingöngu að því. Er hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa á því byggð að umsókn kærenda samræmist ekki deiliskipulagi umrædds svæðis. Ekki er þar hins vegar tekið undir staðhæfingu í umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. febrúar 2012 um að fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki aðalskipulagi, enda verður ekki séð að sú staðhæfing eigi við rök að styðjast.
Núgildandi deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt í borgarráði 22. september 2005 og nefnist Athafnasvæði hestamanna í Elliðaárdal. Er tiltekið í skipulaginu að með því sé átt við svæði þar sem sérstaklega sé gert ráð fyrir tilvist hesta og hestamanna. Í greinargerð með deiliskipulaginu kemur fram að í samkomulagi milli Hestamannafélagsins Fáks og Reykjavíkurborgar, sem samþykkt hafi verið 22. október 1981, sé athafnasvæði hestamanna skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota og sé það í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024. Á uppdrætti skipulagsins eru sýnd lóðarmörk fyrir Brekknaás 9 og núverandi bygging á lóðinni, en lóðin er jafnframt auðkennd með árituninni „Dýraspítali Watsons“. Í greinargerð deiliskipulagsins segir um lóðina: „D. Sjálfseignarfélagið Dýraspítali Watsons. Lóð dýraspítala er sýnd óbreytt frá fyrra skipulagi.“ Hinn 25. febrúar 1997 var samþykkt í borgarráði afmörkun lóðar dýraspítala á horni Vatnsveituvegar og Breiðholtsbrautar og er sú lóð auðkennd á uppdrætti sem Dýraspítali Watsons. Í gildandi deiliskipulagi er gerð grein fyrir þessari lóð og segir í greinargerð skipulagins að þar hafi verið reistur dýraspítali. Er þar nú rekinn Dýraspítalinn í Víðidal ehf., en Dýraspítali Watsons mun ekki hafa starfað um árabil.
Samkvæmt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framsetningu skipulagsáætlana er heimilt að skilgreina landnotkun þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ákveða megi landnotkun einstakra lóða í deiliskipulagi. Sé um að ræða svæði þar sem mannvirki eru fyrir ber að gera grein fyrir þeim.
Auðkenning lóðar með nafni tiltekinnar lögpersónu getur ekki talist fela í sér bindandi ákvörðun um landnotkun heldur er þar fremur um að ræða lýsingu á því hvað fyrir er á lóðinni. Fyrirliggjandi gögn benda eindregið til þess að áformað hafi verið að stafsemi dýraspítala yrði flutt frá Brekknaási 9, enda hefur það gengið eftir. Einnig liggur fyrir að ekki hefur verið rekinn dýraspítali á lóðinni svo árum skiptir heldur hefur þar verið rekið dýrahótel. Loks liggur fyrir að Dýraspítali Watsons er ekki lengur lóðarhafi að Brekknaási 9, en með lóðarleigusamningi, dags. 27. janúar 2012, var lóðin leigð tveimur einstaklingum. Segir í tilgreindum samningi að lóðin sé leigð fyrir atvinnuhúsnæði og að hús hafi þegar verið byggt á hinni leigðu lóð.
Þegar allt framanritað er virt verður að hafna þeirri túlkun borgaryfirvalda að landnotkun fyrir lóðina að Brekknaási 9 sé skilgreind í deiliskipulagi sem dýraspítali. Þess í stað hefði átt að líta til hinnar almennu skilgreiningar sem fram er sett í skipulaginu, þar sem segir að athafnasvæði hestamanna sé skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota. Ekki var tekin afstaða til þess hvort umsókn kærenda samræmdist þeirri landnotkun við afgreiðslu hennar og var hin kærða ákvörðun því ekki reist á réttum forsendum. Verður hún því felld úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Víðidal í Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ _________________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson